Eins og símabyltingin?

Framþróunin í smíði rafbíla minnir um margt á byltinguna í framleiðslu snjallsíma og skyldra rafeindatækja. Hún hefur verið svo hröð að skömmu eftir að snjallasta tækið hefur verið komið í sölu hefur annað og mun betra komið á markað, svo að hið fyrra hefur þokast nær því að verða úrelt.Colibri. Framan vinstri 

Þetta á þó ekki að koma í veg fyrir að fólk kaupi það besta hverju sinni, því að ef alltaf er verið að bíða eftir því sem verður endanlega best, er hætt við að það geti dregist ansi lengi að það gerist.

Ef ég get til dæmis látið 17 ára draum rætast um að eignast minnsta, umhverfisvænsta og ódýrasta bílinn, sem fáanlegur er, "rafbíl litla mannsins," mun ótti um að annar miklu betri komi fljótlega ekki aftra mér í því.   

Í smíði slíkra bíla eru hraðar framfarir um þessar mundir og spennandi tímar framundan. 

 


mbl.is Drægi nýrrar kynslóðar margfalt meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Færsla frá Ártúnsbrekku til Leifsstöðvar.

Það eru allmörg ár síðan sú breyting blasti við að "varnarlínan" varðandi fólksflutninga á Íslandi, ef svo má að orði komast, sem áður hafði verið við borgarhlið Reykjavíkur, var komin suður í Leifsstöð. 

Ung íslensk kona í Helsingjaborg í Svíþjóð orðaði það þannig við mig árið 2003 að hún sætti sig ekki við það að eiga heima á afskekktri eyju norður í hafi með þeim takmörkuðu möguleikum, sem þar væri að finna fyrir vel menntað fólk. Henni hugnaðist ekki sú ofuráhersla sem þar væri lögð á gamla atvinnustefnu sem miðaðist við skaffa atvinnu í verksmiðjum og blindni á að nokkuð annað en stóriðja gæti viðhaldið byggð.

Mér hnykkti við en áttaði mig á því að þetta svar var svipað því sem Vestmannaeyingar höfðu áður gefið sem skýringu á því af hverju þeir sættu sig illa við að eiga heima á "afskekktri eyju úti í hafi."

Því miður er eins og það ætli að taka áratugi að átta sig á þessum veruleika.  

 


mbl.is Skortir tækifæri á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gullæði nútímans: Olían.

Aldirnar í sögu mannkynsins svo sem steinöld, bronsöld og járnöld, eru mældar í þúsundum ára. Allar draga þær nöfn af þeim efnum, sem notuð voru í áhöld af ýmsu tagi.

Öldunum var gefið nafn eftir á, en 1945 töldu margir að hafin væri atómöld, sem tæki við af steinöld.

Beislun kjarnorkunnar var að sönnu risaskref, en þó höfðu tímamótin orðið hálfri öld fyrr, þegar olíuöldin gekk í garð, svo gríðarlega byltingu færði nýting hennar og tæknibyltingin sem var samfara henni, mannkyninu.

En olíuöldin verður varla nema andartak í samburði við steinaldirnar, bronsöld og járnöld, innan við 200 ár, svo óhemju hratt jókst orkunotkunin, og svo undra hratt mun hún dala á ný.

Sagan sýnir að "svarta gullið", olían, hefur verið sterkasta aflið sem stjórnað hefur stjórnmálum heimsins síðan um aldamótin 1900, og gildir það jafnt um heimsstjórnmál og stjórnmál í einstökum löndum.

Allt frá stórfelldum fyrirætlunum um heimshöfn í Finnafirði eða annars staðar á norðausturhorni Íslands til hugmynda olíuflutninga suður endilöng Bandaríkin í risaolíuleiðslu í stað flutninga frá Kanada til Kína, taka þröng peningasjónarmið, græðgi og skammsýni ætíð völdin þegar olían er annars vegar.

Fyrir þeim sjónarmiður verður allt að víkja, svo sem siðfræði, stjórnmálastefnur, trúarbrögð, hugmyndafræði og hugsjónir.

     


mbl.is „Þetta lagafrumvarp er hneyksli“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta sagði Shakespeare líka: "...hann rignir alltaf dag eftir dag."

Gylfi Þór Sigurðsson og Alexandra Helga Ívarsdóttir eru ekki þau fyrstu sem leggja sig fram um að lýsa "skítaveðri" í landi sínu.

Sjálft höfuðskáld Englendinga, William Shakesperare, fann svo mikla þörf hjá sér til þess að lýsa því höfuðatriði enskrar tilveru sem "skítaveðrið" er, að hann endar eitt verka sinna, Þrettándakvöld, á söng um það hvernig enska rigningin litar lífshlaup flytjandans, hirðfíflsins Fjasta. 

Ef Gylfi hefur ekki heyrt þetta, er ég tilbúinn til að gefa honum eintak af þessum söng, sem ég raulaði inn á disk í hitteðfyrra undir heitinu "Hann rignir alltaf." 

Það er ekki á hverjum degi sem tækifæri gefst til að semja lag við texta sjálfs Shakespeares um eitt af höfuðatriðum tilveru Breta. Til þess að hnykkja á því, gerir Shakespeare laglínurnar "Hann rignir alltaf dag eftir dag" og "hæ, hopp, út í veður og vind!" að síbyljustefjum í textanum eins og sést vel í þýðingu Helga Hálfdanarsonar. 

 

HANN RIGNIR ALLTAF. 

 

Ég var lítill angi með ærslu og fjör - 

hæ, hopp, út í veður og vind!

Ég stundaði glens og strákapor

og hann rignir alltaf dag eftir dag.

 

 

Ég óx úr grasi ef einhver spyr, - 

hæ, hopp, út í veður og vind! 

En klækjarefum er kastað á dyr

og hann rignir alltaf dag eftir dag. 

 

Mér varð til gamans að gifta mig, - 

hæ, hopp, út í veður og vind! 

Nú dugar lítið að derra sig

og hann rignir alltaf dag eftir dag! 

 

Ég hoppa prúður í brúðarsæng, - 

hæ, hopp, út í veður og vind! 

Og brennivínsnefi bregð í væng, - 

og hann rignir alltaf dag eftir dag. 

 

Sem veröldin forðum fór á kreik, -

hæ, hopp, út í veður og vind! 

Enn vöðum við reyk, senn er lokið leik

en við látum hann ganga dag eftir dag.

Og hann rignir alltaf, rignir alltaf,

rignir alltaf dag eftir dag!  

 

 

 


mbl.is Alltaf sama skítaveðrið á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipaðir grjótgarðar safna sandi um allt land.

Úrræði Landgræðslunnar gegn því að sjórinn hefur brotið niður fjöruna fyrir neðan Vík var það að gera nokkra garða, sem ganga þar út í sjó og drepa strauminn meðfram fjörunni þannig að sandurinn sökkvi til botns og færi þannig landið út.

Svipað má sjá við árfarvegi um allt land. Ég þekki eitt dæmi nákvæmlega eftir að hafa fylgst með árbakka margsinnis árlega með árbakka Blöndu fyrir neðan Hvamm í Langadal.

Með því að rjúfa sveig á ánni sunnar, breyttist straumurinn og fór að belja á fyrrnefndum árbakka.

Vegagerðin lofaði að búa til "tennur" eða litla varnargarða á bakkann úr hluta af þeirr miklu möl sem tekin var úr skriðu Hvammsár til að byggja upp nýjan veg í dalnum.

Það loforð var svikið og því eru aðeins nokkur ár síðan loks var farið í það verk, en þá hafði Blanda brotið nokkra hektara af túninu á bakkanum.

Síðan þessir stuttu garðar voru gerðir, hefur myndast sandur við bakkana og landbrotið hefur stöðvast.

Að sjálfsögðu hefur svipað gerst við Landeyjahöfn og um þetta efni var til dæmis fjallað hér á síðunni þegar farið var í gerð hennar. Grynningarnar þar eiga ekki að koma neinum á óvart og ekki heldur 1,1 milljarður, sem dælingin ein mun kosta, en þá er sleppt öllu því tjóni sem höfn, sem er ónothæf stóran hlut úr ári, kostar.

Ef sagt er að þessi kostnaður nemi 1,5 milljörðum á ári nemur hann um 30 milljörðum á 20 árum.

Það leiðir hugann að því hvort göng út í Eyjar, að gefnu því að þau hefðu verið tæknilega framkvæmanleg, hefðu getað borgað sig upp á svipaðan hátt og Hvalfjarðargöng.

Er eitthvað á móti því að varpa þeirri spurningu upp,-  burtséð frá því hvort sá möguleiki var sleginn af á sínum tíma, sé sleginn af nú eða sleginn af um alla framtíð?

Verkefnið er verðugt, hvernig sem það verður leyst, því að svo mikið leggja Eyjamenn til samfélagsins, bæði í sjávarútvegi og ferðaþjónustu, að samgöngur við Eyjar verða að vera eins góðar og mögulegt er.    


mbl.is Miklar grynningar í Landeyjahöfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alvarlegasti "forsendubresturinn"?

Hækkun á húsaleigu um 40% á þremur árum lítillar verðbólgu er stærri frétt en svo að það sé auðskilið, af hverju hún hefur hlotið jafn litla athygli og raun ber vitni. 

Ástæðan gæti verið sú, að enn sem komið er, eru húsnæðisleigjendur mikill minnihluti landsmanna og virðist eiga sér mun áhrifaminni talsmenn en hinn stóri meirihluti eigenda húsnæðis. 

Það er til dæmis athyglisvert að hinn svonefndi "forsendubrestur" sem talinn var réttlæta tilfærslu á 80 milljörðum króna að mestu frá skattgreiðendum sjálfum, til þeirra sem hefðu orðið fyrir umræddum forsendubresti, fékk ekki hljómgrunn varðandi þá leigjendur, sem augljóslega guldu fyrir það að forsendubresti húseigendanna, sem þeir leigðu hjá, var velt yfir í leiguverðið. 

Nú heyrast fréttir um hremmingar hjá félögum eins og Búmönnum, og þær líða bara hjá án frekari útskýringa, svo sem á því hvort ekki hafi þar verið um sams konar "forsendubrest" að ræða og hjá þeim sem fengu í gegn skuldaniðurfærslu á dögunum. 

Stórhækkun húsaleigu er stórmál, sem fer furðulega hljótt miðað við það að heil kynslóð ungs fóks stendur nú frammi fyrir öðrum og grimmari veruleika en ungt fólk hefur staðið frammi fyrir í meira en hálfa öld.

Þetta væri minna mál ef þetta unga fólk gæti leitað til góðs framboðs á hentugu leiguhúsnæði á viðráðanlegu verði eins og í nágrannalöndunum. En stöðug hækkun húsaleigu sýnir að svo er ekki, því miður.  


mbl.is Leiguverðið rýkur upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í samræmi við spár en ekki við "kuldatrúna".

Fyrir meira en áratug greindu íslenskir jarðvísindamenn frá því í sjónvarpsfréttum að vegna minnkunar jöklanna af völdum hlýnandi loftslags myndi eldvirkni aukast mikið á Íslandi á þessari öld og eldgosum stórfjölga, einkum undir Vatnajökli og í grennd við hann. Holuhraun gos 3

Nú þegar hafa orðið sjö eldgos á síðasta aldarfjörðungi, þar af þrjú gos á síðustu tíu árum, en spáð er enn tíðari gosum. 

35 millimetra hækkun lands á ári að mati bandarískra vísindamanna kann að sýnast smá tala, en hún samsvarar 35 sentimetrum á áratug og þremur og hálfum metra á öld. 

Þetta er athyglisvert, en athyglisverðara hlýtur þó að teljast, að stór hópur vel menntraðra manna skuli ekki aðeins andmæla því kröftuglega að mesta magn CO2 í andrúmslofti jarðar í 800 þúsund ár skuli valda hlýnun andrúmslofts, og ekki aðeins andmæla því að loftslag fari hlýnandi, heldur jafnvel fullyrða að "loftslag fari hratt kólnandi". 

Íhugun á því hvernig þetta geti gerst í nútíma samfélagi á upplýsingaöld er nefnilega nauðsynleg til þess að skilja af hverju mannkynið er á þeirri leið sem það er á í meðferð þess á jörðinni og auðlindum hennar.  


mbl.is Ísland rís um 35 millimetra á ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær eru "varahlutirnir" orðnir of gamlir?

Í frétt um líffæragjafir er þess getið að 18 ára aldur sé skilyrði fyrir því fólk geti gefið líffæri eftir sinn dag. 

Fróðlegt væri að vita hvort eitthvert aldurtakmark er í hinum enda ævinnar, eða hvort það sé matsatriði hvort viðkomandi líffæri sé nothæft. 

Ef eitthvað af mínum líffærum er nothæft, þótt ekki væri nema í neyð, myndi ég láta skrá samþykki mitt fyrir slíkri gjöf. 

Í Danmörku eru lögin víst þannig að fólk verður að lýsa yfir því að það vilji ekki gefa líffæri eftir andlát sitt, en annars teljist aðgerðarleysi sama og samþykki. 

Þetta byggist á því að með sívaxandi tækni vex skorturinn á líffærum og að það megi ekki gerast að óþörfu að manneskja láti lífið vegna þess að það vantaði "varahlut".  


mbl.is Allir geta tekið afstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alveg nýtt fyrirbæri, en standa þarf vaktina.

Það er alveg nýtt að virkjanakostir séu dregnir til baka vegna þess að þeir hafi áhrif á friðuð svæði eins og Orkustofnun hefur gert varðandi þrjá virkjunarkosti á norðausturhálendinu. 

Í nýlegum bloggpistli hér á síðunni var fjallað um það að þarna væri enn verið að pressa fram þá virkjanakosti íslenska, sem hefðu mestu mögulegu óafturkræfu neikvæðu umhverfisáhrif hér á landi.

Það vafðist ekki fyrir þeim Siv Friðleifsdóttur og Valgerði Sverrisdóttur á sínum tíma að aflétta friðun Kringilsárrana til þess að koma Kárahnjúkavirkjun á koppinn. 

Því fylgdu yfirlýsingar þeirra um að hvaða friðun sem væri mætti aflétta að vild, sama var og er uppi á teningnum varðandi Þjórárver og meðal um það bil 100 virkjanakosta sem kynntir voru fyrir nokkrum árum, voru að sjálfsögðu Geysir, Gullfoss, Landmannalaugasvæðið, Kerlingarfjöll og Askja.

Ekkert er heilagt, þótt Bandaríkjamenn líti á mesta orkubúnt sinnar álfu sem "heilög vé."

Ég hygg að það, að Orkustofnun dragi til baka þrjá virkjanakosti, sé nánast einsdæmi hér á landi.

Og ástæðan sem gefin er upp er sú, að vegna rangra upplýsinga hafi stofnunin haldið að virkjanirnar myndu ekki ná inn í Vatnajökulsþjóðgarð en úr því að svo væri, yrðu kostirnir dregnir til baka. 

Guð láti á gott vita sagði gamla fólkið stundum, en enda þótt að ekki megi gera lítið úr þessu hiki Orkustofnunar, verður að standa vaktina fyrir íslenska náttúru eftir sem áður. 


mbl.is Dregur þrjá virkjunarkosti til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Loksins, loksins !

Vandi Ríkisútvarpsins á rætur að rekja meira en 30 ár aftur í tímann þegar ákveðið var að byggja þrjú risavaxin hús við Efstaleiti, eitt fyrir útvarpið, yfirstjórnina og skrifstofur, annað fyrir Sjónvarpið og hið þriðja sem tækjahús. 

Nefnd um opinberar framkvæmdir stöðvaði sem betur fer þessi áform, en í stað þess að láta hanna húsið frá grunni upp á nýtt, var ákveðið að halda sig við byggingu hússins fyrir útvarp og skrifstofur, en troða þar inn sjónvarpinu og tækjadeild. 

Ofan á allt of stórt hús varð til óhagkvæmt hús, að stórum hluta alls ekki hannað fyrir sjónvarp og háir það bæði starfseminni og skapar illa nýtt rými. 

Erfitt var að koma á framfæri gagnrýni á húsið, en sem fulltrúi í samráðsnefnd um það, varð mér ljóst í hvílíkt óefni var stefnt. 

Í sjónvarpi fékkst aðeins rökræn umræða um húsi í þriggja mínútna frétt, þar sem ég fékk 40 sekúndur til umráða til að koma sjónarmiðum starfsfólks, hollvina og listamanna á framfæri. 

Ástæðan var sögð sú að það svo erfitt að láta Ríkisútvarpið fjalla um sjálft sig! 

Nú loksins hillir undir að smá leiðrétting fáist á þessum afdrifaríku mistökum í boði íslenskra stjórnmálamanna, en eftir sem áður er húsið mislukkað hvað snertir tilhögun og ekki síst fáránlegt og dýrt loftræsti- og hitunarkerfi, sem tekur heilan aukakjallara undir kjallara hússins vegna þess að við hönnun hússins var brotið meira en þúsund ára gamalt lögmál um loftræstingu húsa allt frá dögum Rómverja, sem má meðal annars sjá í mörgum af þekktustu byggingum heims svo sem Louvre-safninu, byggingunum í London og Pentagon í Bandaríjunum.

Loksins! Loksins!  

 


mbl.is RÚV leigir Reykjavíkurborg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband