Hvað um úrtöluraddirnar varðandi landeldið?

Leikmenn um fiskeldi hafa hingað til orðið að hlíta þeim dómi aðdáendum sjókvíaeldis, að einungis sé hægt að stunda fiskeldi í sjókvíum vegna þess að landeldið sé alltof dýrt. 

En spyrja hinir sömu leikmenn: Hvers vegna gengur það dæmi um að fiskeldisfyrirtækið Arctic Fish á Tálknafirði er með sína seiðaeldisstöð uppi á landi? 

Spurningin verður enn áleitnari vegna þess að eigendurnir segjast meira að segja geta stækkað þessa stöð verulega.  

Mikið væri nú gott fyrir almenning að fá nánari útskýringar á þessu. 


mbl.is „Eina stöð sinnar tegundar á Íslandi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryllingssögur um rafbíla.

Rafbílar eru ungt fyrirbæri á Íslandi og því geta orðið til ýmsar hryllingssögur af eiginleikum þeirra, sem breiðast út. RAF í hleðslustæði (1)

Ein þeirra, sem sást bregða fyrir í vetrarveðri í hitteðfyrra, var sú, að í frostum lentu rafbílaeigengur í vandræðum með þá bíla, sem stæðu úti í kuldanum, þyldu kuldann ekki og gætu því eyðilagst auk þess sem kostnaðurinn vegna þessara vandræða væri himinhár. 

Sagan sagði, að vegna þess að rafhlöðurnar þyldu ekki frostið, neyddust rafbílaeigendur til þess "að hafa bílana í gangi" á frostnóttum til að halda frosti frá rafhlöðum og rafmótoruum og það gæti endað með ósköpum. 

Orðalagið er sérstakt vegna þess þeir, sem trúðu þessu, trúðu því sem margir halda, að eiginleikar rafhreyfla séu hinir sömu og bensínhreyfla, að það þurfi til dæmis að starta þeim í gang. 

Hefur síðuhafi orðið oftar en ekki að reyna að útskýra fyrir fyrirspyrjendum um þetta, að enginn startari væri á rafhreyflum og að þeir væru ekki í gangi eins og sprengihreyflar, heldur eyddu engri orku nema hreyfillinn hreyfði bílinn úr stað eða setti álag á hjólin, eða að raforkan væri notuð sér fyrir hitamiðstöð í bílnum.

Og rafbíll síðuhafa hefur staðið úti í öllum veðrum í tvo vetur án þess að kuldinn hafi verið neitt áhyggjuefni eða að erfiðleikar við gangsetningu séu vandamál. 

Enda þarf enga upphitun á hreyflinum eins og flestir kannast við að þurfi á sprengihreyflum. 

Þvert á móti hefur aðeins þurft að ýta á tvo hnappa til að tengja rafmagn við hreyfilinn og aka tafarlaust af stað með því að stíga á aflgjöfina. 

Hryllingssagan um skelfileg áhrif frostkulda á rafbíla er aðeins ein af mörgum, sem auðvelt er að koma af stað, vegna þess hve nýtt fyrirbrigði rafbílar eru. 


mbl.is Rafhleðslur fleiri en bensíndælur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Liggjum vel við höggi, fáir og smáir.

Í hádegisfrétt í dag mátti heyra það nefnt útskýringu á því að Ísland verði sett á gráan lista, að landið þætti heppilegt til að verða fyrir barðinu á svona aðgerðum, fyrst landa, vegna þess að þjóðin væri svo fámenn, að samanlögð heildaráhrif yrðu með minnsta móti miðað við þann fælingarmátt sem aðgerðin hefðu fyrir aðrar þjóðir. 

Það er athyglisvert að svona játning á mismunun þjóða eftir stærð sé sett blákalt fram, að vegna þess að við, fáir og smáir liggjum vel við höggi, séum við valdir. 

Það minnir óþægilega á það þegar Bretar settu okkkur á lista yfir hryðjuverkaþjóðir 2008 og komust upp með það að um það var sannmælst við Bandaríkjamenn og fleiri þjóðir að Lehmans banki og íslenskur bankarnir yrðu útvaldir í því skyni að láta þá fara í gjaldþrot.  


mbl.is „Eigum ekkert heima á þessum gráa lista“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðaratkvæðagreiðsla virt í Bretlandi, - en ekki hér.

Ef samningur Breta við ESB um útgöngu úr ESB verður samþykktur í breska þinginu er að sjálfsögðu farið eftir úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem rúmlega 50 prósent kjósenda greiddu atkvæði. 

Og að sjálfsögðu bar enginn brigður á að þetta væri meirihlutavilji, þótt næstum 20 prósent þeirra sem voru á kjörskrá, nýttu ekki kosningarétt sinn og að aðeins 37 prósent þeirra sem höfðu atkvæðisrétt hefðu greitt útgöngu atkvæði sitt. 

Með því að nýta ekki rétt sinn, sögðu þeir pass og létu þann vilja í ljós að þeir létu þá sem greiddu atkvæði taka ákvörðun af eða á um útgðngu fyrir sig. 

Á Íslandi var þjóðaratkvæðagreiðsla 2012 þar sem 67 prósent þeirra sem kusu vildu nýja stjórnarskrá á grunni frumvarps stjórnlagaráðs. 

En svo er að sjá, sem margir þeirra Íslendinga sem telja að breska þingið eigi að sjálfsögðu að fara að vilja kjósenda þar í landi, mega ekki heyra það nefnt að farið verði að vilja kjósenda hér á landi 2012.  


mbl.is Nýr samningur um Brexit í höfn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæði málvilla og rökvilla í fréttum um að "dekk hafi verið losuð."

Á venjúlegu reiðhjóli eru tvö hjól, framhjól og afturhjól. Meginhluti hvors hjóls er gjörðin (felga á bíl) og utan á gjörðinni (felgunni)  er síðan áfast dekk. Á dekkinu er síðan ventill. 

Ef einhver færi að taka upp á því að segja þannig frá því að framhjól hafi verið losað, að ventillinn hafi verið losaður, myndi rökvilla blasa við. 

En það er jafnmikil rökvilla að lýsa losun á framhjóli þannig að dekkið hafi verið losað. 

Í öllum tilfellunum sem hinar mörgu fréttir greina frá, hefur framhjólið verið losað þar sem það er fest við gaffalinn. 


mbl.is Erfiðara að losa framdekk ef það er fest með dragbandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útskýring óskast: Hin endalausa geta einstakra verslana til stanslausra afslátta.

Dögum, vikum og mánuðum saman má heyra auglýsingar í gangi, þar sem einstaka verslanir auglýsa í sibylju daginn inn og daginn út, oft svo dögum, vikum og mánuðum skiptir, endalausa og stórfellda afslætti á verði, allt upp í marga tugi prósenta. 

Getur einhver útskýrt hvernig þetta er hægt án þess að viðkomandi verslanir fari á hausinn. 

Og hvernig má það vera, ef þessar stanslausu stórafsláttarauglýsingar virka sannfærandi á kaupendur?


mbl.is Sektaði Húsasmiðjuna um 400.000
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jeppar "landbúnaðartæki". Lítill rafbíll "þungt fjórhjól."

Skilgreining á samgöngutækjum hefur lengi verið álitamál á Íslandi. Í stríðslok 1946 olli tilvist aflúttaks á Willys jeppanum því, að allir jeppar voru skilgreindir sem landbúnaðartæki og fengu því miklar ívilnanir í álagningu tolla og skatta.sem áttu að duga vel fyrir bændur. Willys´46

En þetta olli því að þessi "landbúnaðartæki" urðu á tímabili fleiri en allir aðrir fólksbílar samanlagt, og eins og kemur vel fram í ævisögu Steingríms Hermannssonar, varð til ákveðinn markaður á miklu haftatímabili þessara ára fyrir einstaka bændur, sem fengu leyfi, til að selja þau til fólks á mölinni.  

Sett voru takmörk sem miðuðust við Willys og síðar Rússajeppa, minna en 2,40 metrar á milli öxla. 

En menn fóru í kringum þetta með því að lengja bílana eftir að þeir voru komnir hingað, og var stundaður talsverður iðnaður í kringum jeppabreytingar langt fram eftir öldinni. 

Var með ólíkindum hve langt var hægt að ganga í því að setja ofan á þessa smábíla stórar yfirbyggingar. 

En þeir komu bara landsins sem blæjubílar, svo að það var nauðsynlegt að smíða á þá almennileg hús sem hentuðu íslensku aðstæðum. GAZ 66 árgerð 1966

International Scout, afar hentugur jeppi, kom á sjónarsviðið 1960, en var því miður 2,54 á milli öxla og fékk því aldrei verðskuldaðan framgang!

Vegna þessarar lengdar milli öxla var hann með ágætist þjóðvegaeiginleika og rými, og þurfti hvorki að smíða yfir hann hús eða breyta honum neitt, því að hann var hægt að fá frá verksmiðju með nothæfu heilu málmhúsi. 

Hann var því í raun afar hagkvæmur, en hið arfa vitlausa skattakerfi leit bara á það, að breytingarnar á jeppunum, sem fyrir voru, voru afar atvinnkuskapandi!

Sex árum síðar kom svipaður amerískur bíll, Ford Bronco á sjónarsviðið, sem var með svipaðri yfirbyggingu úr málmi, sem var boltuð niður, og Skátinn, en af því að hann var 2,34 á milli öxla skilgreindist hann sem landbúnaðartæki og fór því í tollaflokk með mikilli ívilnun. 

Hafi kaupæðið á Willys 1946 til 47 verið mikið, varð Bronco-æði 1966 enn meira, því að það var meira að segja hægt að kaupa Bronco með átta gata vél og hann var þar að auki á gormum að framan. 

Síðuhafi átti Bronco 1966-68 og aftur 1973-77, og þetta voru þrumu farartæki sem fengust nýir á gjafverði. 

Smíði innréttinga og fleiri smærri breytinga á Bronco blómstraði, auk sérlega stórra og glæsilegra yfirbyggnga á marga Rússajeppana. 

Svo fór, að menn urðu að hætta þessum skrípaleik með landbúnaðartækin nokkrum árum síðar, og þótt löngu fyrr hefði verið. International Scout II 1977

Síðuhafi átti og notaði Willys 66 um skeið, og þessi smábíll, styttri en stystu fólksbílar í dag, sem kom úr verksmiðjunni um 1100 kíló að þyngd, var tæp 1400 kíló með stóra og þunga islenska húsinu!

Á Siglufirði voru smíðuð aldeilis kostuleg hús í Síldarverksmiðjunni Rauðku yfir lengda Willys jeppagrindur.  

Var rýmið inni nógu langt til þess að hægt var að hafa aftursætið í óravegalengd aftur við gafl.Ford_Bronco

En fyrir bragðið var hægt að hafa farþegasætið hægra megin frammi svo aftarlega, að hægt var að fara hægra megin að framan inn í bílinn eins og í rútu og fara framhjá farþegasætinu framan við það til að komast aftur í og setjast þar! 

Þetta voru kölluð Rauðku-hús og er það synd að ekki skyldi vera varðveittur neinn jeppi með þessu stórkostlega húsi. 

Síðuhafi hefur ekið í tvö ár á minnsta bíl, sem er í umferð á Íslandi, en býður þó upp á fullt rými og þægindi, 90 km hraða og 90 km drægni. RAF í hleðslustæði (1)

En þótt hann sé skoðaður og flokkaður sem bíll, er hann þó skilgreindur sem "heavy Quadracycle" eða þungt fjórhjól, nánar tiltekið í flokki L7e. 

Takmarkanir eru settar við smíði svona bíla:  Hámarksafl 15 kílóvött. Hámarksþyngd 450 kíló, án rafhlaðna. Hámarkshraði 90 km/klst. Vægari kröfur um hraða í árekstraprófum, 50 km/klst.  


mbl.is Fjórhjól flokkist ekki sem dráttarvél
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vandamál, sem verður að taka alvarlega.

Þótt sjávarútvegurinn hafi yfir heildina litið gengið vel um árabil, eru blikur á lofti varðandi fiskvinnslu innanlands, sem verður að taka alvarlega og vera á tánum. 

Líta verður bæði heildstætt og í einstökum atriðum á það, sem er að gerast og hafa úrræði og úrbætur á takteinum, sem hægt sé að grípa til. 


mbl.is Enn óvíst með framtíð Ísfisks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skjálfti og hugsanlega smágos við Hamarinn undanfari hamfara 1996.

Gjálpargosið á milli Grímsvatna og Bárðarbungu 1996 var að ýmsu leyti tímamótagos að því leyti, að því höfðu þau eldgos, sem vart hafði orðið við næstu aldir á undan yfirleitt orðið í Grímsvötnum eða hugsanlega í Kverkfjöllum í eitt eða tvö skipti. Jarðskjálfti Hamarinn okt 19

Á undan Gjálpargosinu hafði komið hafði komið hörð jarðskjálftahrina við Hamarinn, sem menn veltu síðar fyrir sér hvort hefði orðið vegna lítils eldgoss, þar sem kvikuhreyfingin komst ekki upp á yfirborðið. 

Þetta leiddi hugann að því hvort þetta hefði verið undanfari Gjálpargossins. 

Nú má sjá á jarðskjálftakortum, að stundum virðist vera eins konar jarðskjálftalína frá Grímsvötnum um Dyngjujökul og Öskju norður til Herðubreiðar. 

Skjálftinn austan Hamarsins núna (græna stjarnan)  er því athyglisverður. 


mbl.is Jörð skalf við Hamarinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Teigsskógur áfram á dagskrá.

Meirihluti skipulagsnefndar Reykhólasveitar hefur lagst gegn lagningu Vesturlandsvegar 60 í gegnum Teigsskóg, en á næstu dögum tekur sveitarstjórnin öll málið fyrir.  

Í ljós hefur komið í langri meðferð málsins síðastu fimmtán ár að mikið hefur skort á að fullkomin gögn lægju fyrir um þessa umdeildu vegagerð. Teigsskógur Vegagerðar

Seint og um síðir kom fram norsk hugmynd um að leggja leiðina um Reykhólaþorpið og beint yfir mynni fjarðanna þriggja, sem aðrar leiðir liggja um, en þessi norska lausn myndi bæði styrkja stöðu þorpsins og skapa það öryggi, sem felst í því fyrir vegarandur að fara þar um í stað þess að þurfa að vera jafn fjarri öflugri byggð alla leiðina vestur og þeir hafa verið undanfarin ár. 

Vegagerðin brást skjótt við og hafði allt á hornum sér varðandi þessa hugmynd, og minna þessi viðbrögð hennar á það þegar hún lagðist á móti og tafði um mörg ár þá nýju aðferð fyrir um 30 árum að blanda bundið slitlag á staðnum. 

Þar á bæ hefur jarðgangaleiðin undir Hjallaháls líka verið reiknuð upp i kostnaði með því að láta göngin verða mörg hundruð metrum lengri en þörf var á og enda með gangamunna að vestanverðu niðri við fjöru!

Teigskógur 1. Fjarðamynni

Fjölmiðlarnir hafa aðeins sýnt ljósmynd Vegagerðarinnar eða svipaðar myndir af austurenda hins nýja vegar, líkar þeirri sem sést hér efst, en þar sést Teigsskógur ekki, því að hann er í fimm kílómetra fjarlægð frá þeim stað sem myndin er tekin, og meira að segja á bak við hlíð Hjallaháls framundan hægra megin.

Myndir af ráðamönnum, sem sagt er að hafi kynnt sér Teigsskóg, eru sama marki brenndar.

Í allri skoðun á málinu er litið mjög fram hjá því, að þetta svæði liggur við Breiðafjörð ekkert síður en á Vestfjörðum, og að Breiðafjörður og lifríki og náttúruminjar hans er ekki ósvipað fyrirbæri hér á landi hvað snertir náttúrugildi og sænski skerjagarðurinn er í Svíþjóð. Teigsskógur. ´Reynilundur.

Við mat á náttúrugildi eru þrjú atriði almennt talin mikilvægust: Landslagsheildir, vistkerfi og afturkræfni. 

Tvö fyrstnefndu atriðin vega afar þungt hvað varðar Teigsskóg, þennan sjö kílómetra langa græna og bogadregna trefil yst við vestanverðan Þorskafjörð, eins og sést á meðfylgjandi myndum, til dæmis á miðri myndinni hér fyrir ofan þar sem Djúpifjörður er til vinstri og Þorskafjörður til hægri, en Teigsskógur meðfram fjörunni fyrir miðri mynd. Teigsskógur,vítt frá vestri til nordausturs

Samspil fjölbreytilegrar fjörunnar og skógarins mynda sérstæða landslagsheild, sem á enga hliðstæðu hér á landi, og þvert á það viðkvæði, að skógurinn felist aðeins í nokkrum kjarrhríslum á stangli, er skógurinn víða afar þéttur og sums staðar ágætlega hávaxinn, svo sem eins og þar sem finna má reynitré í honum. 

Nú þegar hafa þrír firðir vestar á norðurströnd Breiðafjarðar verið þveraðir með talsverðri umhverfisröskun, en Skipulagsstofnun setti Teigsskóg skör ofar vegna hins mikla náttúruverndargildis hans. Teigsskógur. Þorskafjörður Vaðalfjöll.

Vestar á norðurströnd Breiðafjarðar hafa þrír firðir verið þveraðir fyrir veg 60 með talsverðum umhverfisáhrifum, en Skipulagsstofnun setti Teigsskóg skör ofar vegna hins mikla náttúrugildis þessarar landslagsheildar, sem skógurinn og fjaran skapa. 

Þegar landslagsheild og vistkerfi eru á við það sem er þarna, má jafna röskun eftir því endilöngu við það að hrófla við málverkinu af Monu Lisu eftir endilöngu andliti hennar.  

Ætlunin var að setja myndskeið með loftmynd hér inn, en vegna tæknilegra örðugleika varð að bregða á það ráð að setja það á facebooksíðu mína. 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband