Áhrifasvæðum Covidkreppunnar fjölgar jafnt og þétt; og þau stækka.

Það varð auðvitað strax ljóst í upphafi, að fá lönd myndu verða þegar í stað fyrir eins miklu skelli vegna COVID-19 faraldursins og Ísland, sem er eyja langt úti í höfum og hefur á fáum árum komist í það að byggja stærsta og gjöfulasta atvinnuveg sinn á flugi. 

Þetta stóra áfall hefur þegar skollið yfir, og nú telst það bjartsýni að vonast til að ástandið jafni sig eftir eitt ár. 

Fram að þessu hefur það verið von manna að sjávarútvegurinn myndi sleppa margfalt betur, en nú er að byrja að koma í ljós, að erlendis neyta keppinautar okkar um markaði allra bragða til þess ryðja "óæskilegum erlendum" samkeppnisaðilum frá, og gildir þá einu, að fjórfrelsi ESB gildir bæði um opinn frjálsan markað ásamt frjálsu flæði vinnuafls og fjármagns. 

Rétt eins og í upphafi kreppunnar miklu 1930 er það freisting að hverfa aftur á fullum þunga til helstu atriða búauðgisstefnunnar hér á öldum áður með því að girða heimaframleiðsluna af með verndartollum, innflutningshömlum og beinni stýringu og áróðri fyrir þvi að kaupa ekkert erlent, heldur aðeins innlent. 

Hér heima hefur mátt sjá þær raddir, að það eigi slaka á veiðihömlum og kvótareglum og auka aflann, en þá gleymist, að eftirspurn á erlendum minnkar og það að það muni það leiða til offramleiðslu og birgðasöfnunar, sem getur valdið stórfelldu verðfalli. 

Er dæmalaust verðfall á olíu gott dæmi um slík. Kristallaðist í því ótrúlega ástandi, að framleiðendur borguðu kaupendum fyrir að "kaupa" olíuna á neikvæðu verði!

Það verður að nægu að hyggja fyrir hagfræðinga og stjórnmálamenn að kafa ofan í hinar stórbrotnu hræringar í efnahagsmálum heimsins. 

Of sum viðfangsefnin eru þess eðlis, að lausn þeirra með nýjum viðbrögðum, nýsköpun og frumkvæði við að finna og nýta alveg nýja möguleik getur verið heillandi og notadrjúgt fyrirbæri.  

Enn á ný má sjá glytta í gömlu deilurnar milli hægri og vinstri sinnaðra hagfræðinga og stjórnmálamanna, samanber skrif um það að Harding og Edgar Hoover Bandaríkjaforsetar, sem mestu réðu á árunum 1922-32 hafi ekki verið með lélegustu forsetum BNA, heldur þvert á móti meðal þeirra bestu. 

Einkum hæla þeir sem eru á hægri línunni Harding fyrir það að hafa lækkað skatta um helming, úr 6,5 prósentum niður í rúmlega 3 prósent, og þá einkum með skattalækkunum til hinna efnamestu.   

Roosevelt hafi hins vegar gert hinn mesta óskunda með útþenslu ríkisbáknsins og aðgerðum þess sem stóran hluta af sinni "New Deal" stefnu. 

Og enda þótt vinstri hagfræðingar andmæli þessu kröftuglega og þrátt fyrir að samsetning hagkerfa heims og heimsviðskipti séu allt önnur nú en fyrir 90 árum, eru uppi hinar eilífu deilur um viðbrögð við heimskreppunni sem er hafin og á eftir að berast út í flesta afkima þjóðfélagsins. 


mbl.is Frakkar sagðir sniðganga íslenskar sjávarafurðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svíar líklega best útbúnir í byrjun; 290 látnir á hverja milljón - 29 hér á landi.

Í COVID-19 faraldrinum hefur það verið aðaláhyggjuefnið að heilbrigðiskerfi einstakra ríkja; fjöldi sjúkrarúma, vinnufærs heilbrigðisstarfsfólks, öndunarvéla og annarra innviða myndi hrynja við það álag, sem síðar kom á daginn að varð langerfiðasta viðfangsefnið. 

Það var svo sem hægt og hefur verið gert allt til þessa dags, að deila út og suður um alvarleika og smithættu og fjölda sýktra, en myndir úr almennum snjallsímum og ljósmynda- og kvikmyndatökuvélum fjölmiðlafólks, auk þúsunda vitnisburða, sýndu svo átakanlegar og hræðilegar myndir af niðurbroti kerfisins allt frá Wuhan í upphafi í gegnum Ítalíu, Spán og Bandaríkin, að hið hrikalega ástand blasti við, og einkum þar sem innviðir og mannskapur heilbrigðiskerfisins brustu. 

Svíar hafa löngum verið þekktir fyrir afburða gott heilbrigðiskerfi, og hafa því sloppið við þetta, þótt tíðni alvarlegra veikdina og dauðsfalla væri há. 

Nú síðast í bandarísku sjónvarpi í kvöld, í þætti Bill Maher, voru Svíar mærðir mikið. 

En þær tölur, sem segja mest og gefa skásta mynd, er ekki þeim í hag: 290 dánir á hverja milljón íbúa, en tíu sinnum færri hjá okkur, 29. 

Þórólfur gæti því samkvæmt því alveg eins sagt, miðað við þessar tölur, að ef við hefðum farið að eins og Svíar, væru 100 látnir hér á landi en ekki 10. Hæpið er að okkar heilbrigðiskerfi hefði staðist svo heiftarlega árás vágestsins.  

Í kvöld heyrðust í útvarpi ömurlegar frásagnir af því hve illa flestir hefðu farið út úr því að bjargast í öndunarvélum á Reykjalundi. Hefði verið betra ef þeir hefðu verið tíu sinnum fleiri? 


mbl.is 70 hefðu látist með „sænsku leiðinni“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjólin bæta heilsuna, en furðulegt misrétti felst í reglum um rafreiðhjól.

Það bætir heilsuna að nota reiðhjól, en einnig er heilsubót fólgin í því almennt að nota rafreiðhjól og léttbifhjól. Náttfari við Engimýri

Það er nefnilega líka líkamleg áreynsla fólgin í því að vera á bifhjóli, mun meiri en sýnist við fyrstu sýn. Þessi skoðun er sett hér fram eftir notkun á reiðhjólum, rafreiðhjólum og léttbifhjóli í alls 16 ár. 

Fyrstu 10 árin, á aldrinum 10-19 ára var eingöngu notast við reiðhjól, og tíu árum síðar í tvö ár. Síðan leið langur tími, 45 ár, þangað til núverandi hjólatímabil hófst. 

Það hefur reynst afar árangursríkt og lærdómsríkt, ekki síst varðandi ýmsar reglur, sem orka tvímælis. Hjól Skóla-vörðustíg

Alveg fram til síðasta haust giltu gallaðar reglur varðandi gjöld af hjólum, sem lagður var á virðisaukaskattur á sama tíma og sá skattur var felldur niður af rafbílum. 

Er þó stærðar- og þyngdarmunurinn slíkur, að fótknúin og rafknúin hjól skila margfalt meiri árangri í umhverfismálum og líkamshreysti en rafbílar. 

Þessu var þó breytt í fyrra, en eftir stendur, að hér á landi hefur alveg skort á viðleitni til að sníða ákveðna galla af regluverkinu varðandi rafreiðhjól og léttbifhjól. 

Skoðum aðalatriðin og berum saman við önnur lönd. Honda PCX og Znen

Rafreiðhjól og léttbifhjól sem nota á sem mest á hjólastígum, eru með 25 km/klst hámarkshraða. 

Nær væri að hafa hraðann 30 km/klst eins og er til dæmis í Danmörku, Kanada og Bandaríkjunum, því að þá samlagast hjólin betur hraðanum á þeim götumm þar sem er 30 km hámarkshraði. 

Hámarksafl rafhjólanna er 250 vött. Í nokkrum löndum Evrópu er leyft meira afl, allt upp í 500 vött, enda eru 250 vött of lítið afl þegar farið er upp brattar brekkur. 

250 vöttin stinga líka í stúf við það, að í bensínknúnum hjólum, sem mega vera á hjólastígum og gangstígum, er leyfilegt afl allt að fimm sinnum meira, enda eru hjólin fjórum sinnum þyngri. Náttfari, Léttir og RAF

Ef eitthvað væri, ættu léttari hjólin, sem valda minni hættu, ekki að vera þessari afltakmörkun háð. 

En, - nú kemur að mesta brandaranum: 

Það er bannað að hafa handgjöf til að stjórna aflinu til hjólanna á rafreiðhjólunum, en hins vegar leyfilegt á fjórum sinnum þyngri og allt að fimm sinnum aflmeiri bensínknúnum vespuhjólum! 

Í nokkrum löndum er handgjöf að sjálfsögðu leyfileg, til dæmis í Kanada og Bandaríkjunum. 

Og hvaða rök eru fyrir því að handgjöf er leyfð í bensínknúnu hjólunum?Náttfari og Znen f8 (2)

Jú, það er vegna þess að þau eru svo þung og þurfa svo mikið afl, að það er ekki hægt að nota fæturna! 

Spyrja má á móti: Af hverju ætti þá ekki við að leyfa handgjöf á rafreiðhjólum eins og á bensínknúnum hjólum?

Ástæðan er sú, að það er afar persónubundið af ýmsum ástæðum hvað viðkomandi hjólreiðamaður þolir varðandi það að nota fæturna. Svipað á við aum og slitin hné. 

Hjá síðuhafa háttar málum þannig, að vegna samfalls hryggjarliða í baki, sem valda því að afltaugar út í fæturna eru klemmdar, eru takmörk fyrir því hve lengi hægt er að vera með fæturna í miklu átaki í hvert sinn.Náttfari í Elliðaárdal

Þá getur verið gott að vera á rafreiðhjóli, sem býður upp á alla þessa möguleika: Að hjóla með fótafli eingöngu - að nota rafafl eingöngu - að nota fótafl og rafafl samtímis - að endurheimta raforku í hægingu ferðar eða niður brekku. 

Og ástand baksins getur verið misjafnt og þess vegna gott að hlífa því þegar þannig háttar til. 

Þá getur verið gott að stilla notkun handgjafarinnar þannig til, að sem best jafnvægi náist.

Þetta virðast Ameríkumenn vita. 

Með tilkomu rafreiðhjólsins Náttfara hefur síðuhafa tekist að bæta ástand uppslitinna hnjáa og stilla og styrkja hrygginn betur af en áður.  

Að fornu var sagt: Með lögum skal land byggja en ólögum eyða.Honda PCX, ´Léttir  við Jökulsárlón

Hið síðarnefnda hlýtur að eiga við reglugerðarákvæði, sem eru augljóslega byggð á alröngum forsendum. 

Hvað snertir hjól í svonefndum A1 flokki, bæði rafknúin og bensínkrúin með allt að 15 hestafla 125 cc vél, skortir enn á að við Íslendingar fylgjum skynsamlegum reglum um þau í flestum löndum Evrópu varðandi réttindi og tryggingar. 

Mikil bylting varðandi útskiptanlegar rafhlöður eru nú í gangi varðandi rafhjól í þessum flokki. gogoro 1

Og bensínknúnu hjólin eyða svo litlu eldsneyti, að heildar kolefnisspor þeirra er líkast til á pari við rafbil af algengustu stærð.  

 


mbl.is Hreyfing og útivera bæta heilsu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það munaði bara tíu mínútum hér á dögunum að...

Að sögn "merkasta og mikilhæfasta forseta, sem Bandaríkin hafa átt síðan á dögum Lincolns" svo að vitnað sé í núverandi Bandaríkjaforseta, munaði aðeins tíu mínútum að hann léti sem æðsti yfirmaður Bandaríkjahers hefja stórárás á Íran hér á dögunum; loftárásir á alls um hundrað skotmörk, sem hefði komið af stað stórstyrjöld í Miðausturlöndum, sem enginn hefði fyrirfram getað séð, hvaða framvindu hefði fengið. 

Frásögn forsetans af eðli þess máls á sínum tíma er í fullu samræmi við það sem hann segir núna þess efnis að hann hafi vald til að taka svona ákvarðanir án þess að spyrja þingið um neitt eða að ráðfæra sig við það. 

Þetta hafa þó fyrrverandi og ómerkilegri forsetar en Trump talið sig þurfa að gera, svo sem Lyndon B. Johnson 1964, þegar hann hann stóð fyrir árás Bandaríkjahers á Norður-Víetnam 1964 í kjölfar svonefndrar Tonkinflóaárásar norður-víetnamiskra skipa á skip Bandaríkjamanna. 

Robert McNamara þáverandi varnarmálaráðherra játaði síðar, að réttlæting þessarar aðgerðar og fleiri af hálfu Bandaríkjamanna hefði verið byggð á fölskum forsendum og reynst afdrifarík mistök sem kostaði milljónir manna lífið. 

"Sterkir leiðtogar" okkar tíma á borð við þann bandaríska og þann ungverska gæta þess vandlega að halda fram ítrustu völdum sínum, og slíkt virðist færast í vöxt. 

Nýjasta dæmið núna markar viss tímamót. 

Ungverski forsætisráðherrann fékk þó þingið til að samþykkja einveldi sitt til að stjórna með tilskipunum eins lengi og hann sjálfur vilji án þess að ráðfæra sig við þingið. 

Trump telur sig ekki þurfa neitt slíkt gagnvart bandaríska þinginu. Hann einn geti með tíu mínnútna fyrirvara hafið hverja þá styrjöld sem hann telur nauðsynlega. 

Árás Japana á Pearl Harbour 7. desember 1941 og árásin á New York og Washington 11. september hafa til þessa verið taldar þær mestu á Bandaríkin í sögu þeirra. 

En nú skilgreinir Trump heimsfaraldur COVID-19 sem stærstu árásina, og að þessa árás hafi Kínverjar gert til þess að koma í veg fyrir endurkjör hans. 

Sem auðvitað undirstrikar mikilleik hans. Það er ekki á hverjum degi sem annað af tveimur stærsu efnhagsstórveldi heims hrindir af stað árás á einn mann.

Og úr því að þessi nýjasta árás felur í sér stærsta stríðið, sem háð hefur verið gagnvart Bandaríkjunum, er þess meiri þörf á því að afburða forseti sýni hvers hann er megnugu gagnvart svo hrikalegri ógn. 

Og því stærri sem óvinurinn er, því frekar muni fólkið fylkja sér á bak við mikilhæfan leiðtoga. 

George W. Bush eyddi miklum tíma og fyrirhöfn í það fyrir innrásin í Írak 2003 að láta búa til "sönnunargögn" um það að Saddam Hussein væri í þann veginn að hafa tilbúin gereyðingarvopn, sem "ógnuðu allri heimsbyggðinni." 

Bush taldi mikilvægt að fá samþykki þingsins til að ráðast á Írak og fékk það samþykki á grundvelli tilbúinna gagna, sem notuð voru í mikilli áróðursherferð. 

Vilson forseti taldi samstöðu þings og forseta mikilvæga 1917 þegar Bandaríkin hófu þátttöku í Fyrri heimsstyrjöldinni.  

Yfirlýsing Trumps markar því tímamót að því leyti, að sem mikilhæfasti forseti Bandaríkjanna í 160 ár eigi hann ekki að þurfa neitt slíkt, hvorki að leita álits þingsins né að sýna eða nefna nein gögn, sem styðja mál hans. 

Í hans huga og fylgismanna hans er alvald hans í þessu efni sem og öllum öðrum sem varðar beitingu langöflugasta herafla heims hið sjálfsagðasta mál. 

Og fagnaðarefni fyrir allar þjóðir heims. 

Við lifum á merkilegum tímum. 

 

 


mbl.is Neitar að láta takmarka völd sín
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

George W. Bush taldi sig sýna óræk gögn um gereyðingarvopn Íraka 2003.

Fyrir hreina tilviljun hefur stanslaus söngur Bandaríkjaforseta og utanríkisráðherra hans verið kyrjaður í fjðlmiðlum undanfarna daga og vikur með fullyrðingum um sannanir fyrir því að Kínverjar hafi búið COVID-19 veiruna til og dreift henni um heiminn; en á einmitt í gærkvöldi var hliðstæða frá fyrri tíð rifjuð upp í frönsku sjónvarpsþætti. 

Rifjað var upp að strax 1998 hóf hópur áhugamanna um að heyja annað Persaflóastríð að vinna að því að koma á koppinn innrás inn í Írak til að steypa Saddam Hussein af stóli. 

George Bush eldri hafði sem forseti farið að ráðum ráðgjafa sinna þess efnis, að nota ekki tækifærið 1991 til að halda áfram til Bagdad og hernema Írak, bæði vegna þess að það myndi rjúfa samstöðu allra ríkjanna, sem hann hafði afrekað að fá með sér í Flóastríðið til að reka innrásarher Saddams út úr Kúveit, en ekki síður vegna þess, að slíkt stríð myndi leysa úr læðingi múslimsk öfl, sem myndu hefja trúarstríð með mannfalli upp á milljónir manna. 

Eftir árásina á New York og Washington 11. september 2001 fengu þeir Bush yngri í lið með sér til þess að hefna fyrir árásina og einnig höfðaði það til Bush yngri að ljúka því sem faðir hans hefði átt að klára 1991. 

Frá 2001 til 2002 var í gangi mikil herferð, árás og innrás í Afganistan og síðan stanslaus áróðursherferð til þess að sanna að Saddam Hussein væri að því kominn að hafa komið sér upp stórfelldum gereyðingarvopnu, bæði efnavopnum og ekki síst kjarnorkuvopnum, sem ógnaði friði í heiminum. 

CIA leyniþjónustan var beitt þrýstingi til að skálda upp "órækar sannanir" fyrir þessum ásökunum. 

Frökkum tókst að fá því framgengt að óháð rannsóknarnefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna færi til Írak til að leita að öllum þessum mikla vopnabúnaði, en fann ekkert. 

Samt héldu ásakanirnar áfram og eftir að ekki fékkst samstaða hjá Sameinuðu þjóðunum líkt og hafði heppnast svo vel 1991, réðust Bandaríkjamenn samt sjálfir með beinni aðstoð Breta inn í Írak, hernámu landið og náðu Saddam Hussein og drápu hann. 

Nokkrar aðrar þjóðir, þeirra á meðal Íslendingar, settu sig á lista þjóða, sem birtur var yfir væru hlynntar þessu stríði. 

Hvað aftöku Saddams snerti var raunar var auðvelt að finna órækar sannanir fyrir óhæfuverkum þessa grimma harðstjóra gegn eigin þjóð og Kúrdum, en alveg vantaði allar sannanirnar sem búið varð að skálda upp varðandi gereyðingarvopnin; ekki fannst snefill af gögnum; ja - nema það sem flestir Íslendingar eru búnir að gleyma; - eitt síðdegi barst sú frétt til Íslands, að hópur hermanna, þar sem Íslendingar voru með í för, hefði fundið sannanir um eiturvopn. 

Utanríkisráðherra Íslands lýsti að sjálfsögðu yfir ánægju sinni fyrir hönd Íslendinga, en hún stóð stutt, því að í ljós kom að þetta voru leifar af rústir litillar verksmiðju, sem hafði framleitt efni, sem útilokað var að nota sem efnavopn; þvottaduft, ef síðuhafi man rétt! 

Framhald Íraksævintýrisins þekkja allir. Hernámið og áframhaldandi afskipti Bandaríkjamanna af átökum í Líbíu og Sýrlandi átta árum síðar kveikti af sér ISIS-hryllinginn, sem ráðgjafar Bush eldri höfðu varað við. 

En hvaða Bandaríkjamaður skyldi síðan rúmum áratug eftir Íraksruglið hafa gagnrýnt slíkt harðlega í kosningabaráttu sinni 2016?

Jú, Donald Trump, sem sagði að Hillary Clinton og Barack Obama hefðu gerst stofnendur ISIS! 

Þetta rifjast allt upp núna þegar Trump og Pompeo hamra á því dögum og bráðum vikum saman að þeir hafi sannanir fyrir því að Saddam; afsakið Kínverjar hafi framleitt það gereyðingarvopn sem drepsóttarveira getur orðið. 

Sagan frá 2003 endurtekur sig, nema að þeir sýna þó hvorki né nefna neinar sannanir í blöðum, sjónvarpi, í þinginu, hjá SÞ og hvar sem því verður við komið, og CIA hjálpar ekki til í þetta sinn, né heldur veiruteymið, sem Trump hefur verið með til að fást við faraldurinn.

Og það nýjasta í fréttum er reyndar, að forsetinn ætlar að reka þetta fólk, sem hefur talið sig tilneytt til að andmæla því að "sannanirnar" og "vísbendingarnar" séu til, og ráða annað fólk í staðinn. 

Það ætti ekki að koma neinum á óvart, því að ein af stóru yfirlýsingum hans þegar hann var kosinn var, að hann vildi að allt vísindasamfélagið varðandi loftslagsmál eins og það legði sig, yrði rekið og "alvöru" vísindamenn yrðu ráðnir í staðinn "sem kæmust að réttum niðurstöðum."   

 


mbl.is „Hann hefur engar sannanir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Max málið endar því miður líklegast, eins og fyrirsjáanlegt mátti teljast.

Hér á síðunni var fyrir nokkrum dögum dregin upp dökk mynd af þeirri stöðu, sem Boeing flugvélaverksmiðjurnar eru komnar í vegna Beoing 737 Max vandræðanna, og hverjar afleiðingarnar gætu orðið.  Í þessari dökku mynd fólust tveir slæmir möguleikar, sem myndu hafa slæmar afleiðingar fyrir Icelandair og önnur flugfélög, sem glæptust á að kaupa Boeing 737 Max:  

1. Aðeins tvennt getur bjargað þessu burðarfyrirtæki í bandarískum iðnaði:

Að sætta sig við það að það verði að breyta 737 svo mikið til að hægt sé að nota nýjustu og sparneytnustu hreyflana án flókins sjálfstýringarkerfis (MCAS).

Þetta þýddi, að þar með þyrfti nýja tegundarviðurkenningu FAA og nýja flugherma og þjálfun með miklum kostnaði, sem kaupendur Airbus 320 Neo hafa losnað við, og halda áfram að losna við. 

2. Að taka upp langtímamiðaða stefnu með ríkisaðstoð til þess að hanna og framleiða alveg nýja mjóþotu í stað inna illseljanlegu eða jafnvel óseljanlegu 737 Max. Inni í þessu gæti falist 

Eina huggunin, ef huggun skyldi kalla, er sú, að sumir keppinautar Icelandair, lenda í því sama. 

Einu sinni var sagt að það sem kæmi sér vel fyrir General Motors væri gott fyrir Bandaríkin. 

Boeing verksmiðjurnar eru í jafnvel enn meiri lykilaðstöðu í Bandaríkjunum en GM var nokkru sinni, ekki bara efnahagslega heldur líka sem tákn lands og þjóðar. 

GM var bjargað frá gjaldþroti eftir efnahagskreppuna 2008, og í stað þess að taka upp svo háa verndartolla gagnvart erlendum flugvélaframleiðendum, að Boeing fái einokunaraðstöðu út á það, er aðstoð vegna gjaldþrots skömminni skárri. Bombardier_CRJ700_vs_CRJ900

Raunar er Trump þegar byrjaður á hafta- tolla- og refsipólitík sinni gagnvart kanadískum framleiðendum nýrrar gerðar af smærri mjóþotum, af gerðunum Bombardier CJR 500 - 1000, sem taka á bilinu 50 til 104 farþega og hafa slegið í gegn.

Grunnhugmyndin að þessu góða gengi er hlægilega einföld. Að hafa tvö sæti vinstra megin við ganginn í stað þriggja. Við það má mjókka skrokkinn, en samt bjóða upp á meira sætis- og farangursrými fyrir hvern farþega og þar með meiri þægindi en í algengustu þotunum. 

 

Ofsafengin viðbrögð Trumps, meira en 200 prósenta verndartollur, sýna einstaklega þrönga sýn hans á því að "mikilleiki" þjóðar hans geti fengist á ný með því að standa í vegi fyrir framförum, ef þær koma ekki fram í Bandaríkjunum. 

Raunar eru Kanadamenn íbúar Norður-Ameríku rétt eins og Bandaríkjamenn, en í munni og huga Trumps eru þeir greinilega ekki verðir þess að teljast Ameríkanar úr því að þeim er refsað fyrir það að standa í vegi fyrir loforðinu "to make America great again."

Hann hefur í raun bannað bandarískum flugfélögum að færa sér í nyt framfarir í smíði ákveðinnar stærðar amerískrar farþegaþotna með stefnu, sem mætti orða þannig, að það, sem er slæmt fyrir flugið, getur verið gott fyrir Bandaríkin. 

Í ljósi þess myndi það varla koma á óvart þótt Trump kæmi með ofurtollum í veg fyrir það að bandarísk flugfélög keyptu Airbus 320 Neo. 

Það yrði alveg rökrétt hjá honum, miðað við það að hafa í raun bannað ákveðna tegund amerískra þotna, bara vegna þess að þær eru framleiddar í röngu ríki í Norður-Ameríku.  


mbl.is Boeing ekki í aðstöðu til að greiða bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Risavaxinn "drápsgeitungur" á ferðinni í dag? Vonandi ekki.

Mjög óvenjulegt fyrirbæri á þessum tíma árs flaug afar nálægt mér í dag, þar sem ég var á ferð á léttbifhjóli mínu (oftast kölluð vespur hér á landi) í Borgartúninu á um 20 km hraða: Risastór geitungur! Geitungur, dráps-geitungur

Hann flaug vinstra megin fram úr mér á ská frá vinstri og yfir til hægri rétt við nefið á mér, en með lokaðan hjálm á höfði var engin hætta á að hann lenti framan í andlitinu á mér. 

En það munaði ekki miklu. Aðeins í seilingarfjarlægð. 

Í tengdri frétt á mbl.is er sagt frá risageitungum, sem geti komist á milli landa í skipum eða öðrum farartækjum, og eigi það til að drepa fólk. 

Séu þess vegna kallaðir "drápsgeitungar." Léttir við bekk og útidyr.

Í fréttinni er sagt að þessir geitungar komist frá heimkynnum sínum í Asíu til Ameríku og Evrópu í gámaflutningaskipum og eigi það til að valda miklum usla í býflugnabúum og gera þau að heimkynnum sínum. 

Og þeir éti einnig smærri geitunga með góðri lyst. 

Að öðru leyti hafa hinir fyrstu góðu maídagar á Hondunni verið yndislegir með hressandi útiveru í frískandi vorblænum og sólinni.  

Og njóta fjölhæfni svona farartækis og góðrar plássnýtingu. Stutt að fara til að setjast á bekk sleikja sólskinið. 

Geitungarnir heita vespur á erlendu máli, og kannski hefur þessi vespa verið svona hrifin af minni vespu?

Vonandi er þessi óvænta stóra furðufluga, sem birtist á svona eftirminnilegan hátt í dag, íslenskur geitungur, sem hefur lifnað svona rækilega við í sólskini þessara fyrstu maídaga. 

Og skondin sú tilviljun að sjá frétt um drápsgeitunga á mbl.is þegar heim var komið.  


mbl.is Mönnum og býflugum stafar ógn af „drápsgeitungum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

COVID-19: Ein átakanlegasa útgáfan af sögunni "úlfur! Úlfur!"

Umfjöllun vandaðra fjölmiðla um COVID-19 veiruna sýnir átakananlega en einfalda mynd: Strax í desemberlok var þessi veira komin á kreik og byrjuð að dreifast um heiminn í takti við ferðir flugfarþega, sem eru alls 4000 milljónir á hverju ári. 

Í bandaríska sjónvarpsþættinum "60 mínútur" sem sýndur var á Stöð 2 í gærkvöldi, voru ítarleg, upplýsiandi og átakanleg viðtöl við það vísindafólk og kunnáttufólk, sem best gat vitað um þetta mál frá upphafi vega í krafti nýjustu tækni, sem hefur gert smitrakningar mögulegar allt niður í skipan flugfarþega í sæti hjá flugfélögunum. 

Aðrir fjölmiðlar hafa víða kafað ofan í málið og smám saman verður smitrakningarferlið og eðli málsins ljósara:  Það gátu liðið allt að tvær vikur frá smiti þar til sjúklingarnir fundu einhver einkenni, og til dæmis reyndist meirihluti 800 hermanna á bandarísku flugmóðurskipinu Roosevelt vera með smit þegar það var loks mælt! 

Allar aðvörunarbjöllur hersins hringdu. Aflýst var stærstu heræfingu NATO frá því í Kalda stríðinu.

Nýtt stríð var hafið við ósýnilegan óvin. Stórbrotin útgáfa af gömlu sögunni "Úlfur! Úlfur!, þar sem úlfurinn kemur, einmitt þegar andvaraleysið gagnvart honum er mest og verst.  

Talsmaður hersins í þættinum sagði: "Stríðinu við veiruna verður ekki lokið fyrr en enginn mælist með smit!"  

Mælingin á flugmóðurskipinu sýndi glögglega, hvaða firru var frá upphafi víða haldið fram, að fjöldi þekktra smita gæti rétta mynd af faraldrinum. Þvert á móti gátu alltof fáar sýnatökur, eins og fyrstu vikurnar í Bandaríkjunum og víðar, gefið alranga mynd, sem varð auðvitað til þess að alrangar aðgerðir eða öllu heldur aðgerðaleysi urðu niðurstaðan. 

Í upphafi var hægt að áætla það út frá tölvugögnum fyrirfram að New York myndi fara illa út úr faraldrinum með því að rekja það, hvert flugfarþegar frá Wuhan fóru. 

Viðbrögð Kínverja voru í fyrstu þau, að nýta alræðisvaldið í Peking til að fjarlægja myndir, myndatökumenn og aðra, sem reyndu árangurslitið að kalla "úlfur! Úlfur!"

Síðan, en alltof seint, sáu valdhafarnir, að þetta gekk ekki upp, og þá dugði ekkert minna en að reisa, til dæmis, heilan spítala frá grunni á tveimur dögum! Til að sýna mátt hins mikla stórveldis, sem einmitt var að sýna vanmátt og galla alræðiskerfis. 

Tölvutæknifyrirtækið bandaríska, sem rakti ferilinn frá upphafi með því að fá upplýsingar um ferðafélaga þeirra, sem voru á smitleið með veiruna um heiminn, sendu aðvaranir strax í janúar til einstakra ríkja, meðal annars einstakra ríkja í Bandaríkjunum. 

Þar í landi þráaðist forsetinn við vikum saman, við að gefa yfirlýsingar, þvert ofan í þessar aðvaranir og aðvaranir sinna nánustu ráðgjafa og sérfræðinga, með því að endurtaka í sífellu í beinum útsendingum og upptökum: "Við höfum algera stjórn á þessu! Það er engin veira í gangi. Hún er horfin!  Hafið engar áhyggjur!". 

Hann setti að vísu ferðabann á flugferðir frá Kína til Bandaríkjanna, en í þættinum 60 mínútum í gær afhjúpaðist þröngsýni hans varðandi það að lúskra á Kínverjum, sem væru að sögn Trumps síðar, að reyna að koma í veg fyrir endurkjör hans með því að hrinda af stað heimsfaraldri. 

Í 60 mínútum í nótt sást, að meginstraumur smita frá Wuhan hlaut samt að liggja til Bandaríkjanna, þótt það færi ekki alltaf beina leið. 

Eina ríkið, sem tók mark á aðvörununum þegar þeirra var mest þörf, var Kalifornía, sem setti strax á ferðabann og fleiri aðgerðir, sem gerðu því ríki kleyft að skera sig úr í hópi fjölmennustu ríkjanna í BNA með margfalt færri dauðsföll en ríki eins og New York. 

Margt fróðlegt kom fram í 60 mínútum í nótt. 

Tækni sem gerir það kleyft að sjálfvirk aðvörun fari í gang ef tveggja metra reglan er brotin. Hægt að fylgjast samstundis með ferðum hvers einasta farsíma heims. Stóri bróðir í framkvæmd, en því þó lofað, að alger persónuvernd sé í gildi, líkt og hjá Íslenskri erfðagreiningu hjá okkur. 

Til dæmis það sem flugfélagið Emirates hefur í hyggju, að taka sýni af flugfarþegum með aðferð, sem tekur aðeins tíu mínútur. 

Einnig það, sem Kanarnir hafa kunnað betur en nokkrir aðrir og var full ástæða fyrir Trump að hreykja sér af, að breyta á undraskömmum tíma einstæðri getu sinni til að framleiða bíla í milljónatali í það að framleiða hergögn, í þessu tilfelli öndunarvélar og annan búnað, sem er lífsnauðsynlegur fyrir heilbrigðisþjónustuna, eigi hún ekki að hrynja. 

Forsagan er glæsileg.  Á aðeins tveimur mánuðum, í desember og janúar 1941-42 var bílaverksmiðjum í BNA breytt í framleiðendur hergagna, svo sem flugvélar og skriðdreka. Í Willow Run streymdu B-24 sprengjuflugvélar þúsundum saman eftir færiböndunum. 

50 þúsund herflugvélar á ári!  Hitler dró dár að þessu í fyrstu sem fjarstæðu, en síðan viðurkenndi hann að að hann eða aðra hefði aldrei getað órað fyrir þessu, og þaðan af síður, að Sovétmenn gætu flutt hergagnaverksmiðjur sínar þúsund kílómetra leið austur fyrir Úrafjöll og framleitt 30 þúsund herflugvélar á ári og alls 84 þúsund stykki af besta skriðdreka stríðsins. 

Packard Merlin hreyflar skiptu til dæmis sköpum fyrir flugvélar eins og Mustang og Lancaster. 

Núna stendur til að framleiða 30 þúsund öndunarvélar í verksmiðjum GM og Ford þar sem áður runnu pallbílar af færiböndum.  

Ekki veitir af.  30 þúsund öndunarvélar vestra jafngilda um 30 hér á landi.

Mikið væri gott ef hægt væri að endursýna á góðum áhorfstíma hina stórgóðu þætti frá kunnáttufólkinu í 60 mínútum, og þá helst í beinni og ótruflaðri útsendingu.  

 

 

 

 


mbl.is Var veiran í Evrópu í desember?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Geimferðir og aðrar ferðir eru tæknileg úrlausnarefni.

Allt fram að fyrstu geimferðunum voru það taldir réttnefndir geimórar að hægt væri að gera ferðir manna út í geiminn mögulegar. Þar stæðu óleysanleg verkefni í veginum. 

Síðuhafi man þá tíð upp úr 1950 að þýdd frásögn af möguleikum til slíkra ferða, sem lesin var í útvarpinu, var harðlega gagnrýnd sem "sóun á tíma vegna tómrar vitleysu. 

Utan við lofthjúp jarðar væri engin leið að halda lífi í nokkurri lifandi veru, hvað þá að koma henni þangað. 

Síðan kom Sputnik til sögunnar 1957 og Gagarín fór út í geiminn 1960. 

Að vísu skiptir fjöldi þeirra lifandi vera, sem verja þarf smiti í flugferðum jarðarbúa hundruðum milljarða, og það gerir verkefnið augljóslega ansi miklu erfiðara. 

Engu að síður er hér um að ræða tæknilegt úrlausnarefni, sem hugvit mannsins ætti að geta leyst ef allt það er virkjað út í hörgul. 

En rétt eins og það leið meira en áratugur frá fyrstu eldflaugaskotum Þjóðverja yfir til Englands þar til Sputnik fór út í geiminn, gæti það tekið einhvern tíma að leysa vandamálið með smitlaust almannaflug.  


mbl.is Verða andlitsgrímur hluti af ferðalögum framtíðarinnar?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eyþór Ingi! Vaááá! Úff! Íslenskt eldgos upp frá flyglinum!

Þegar því má slá upp, að Eyþór Ingi hafi um nokkurt skeið verið eitthvert best varðveitta leyndarmálið í íslensku tónlistarlífi, kann einhver að segja, að það engin ástæða sé til að segja slíkt, því að allir hafi vitað hvað í honum býr. 

Og víst hefur hann sýnt það áþreifanlega á ýmsum samkomum, að margslungnir hæfileikar hans hafi oft gert hann að hálfgerðum senuþjófi á stundum. 

Í fyrrahaust sýndi hann á sér nýja hlið alhliða tónlistarmanns, með því að taka jólalagið "Er líða fer að jólum" til meðferðar frá a til ö, útbúa það til flutnings með nýrri útsetningu og gera það að dúett með frábærum árangri. 

Þau Sigríður Thorlacius og Sigurður Guðmundsdóttir höfðu að vísu flutt þetta lag með dúett- útsetningu og gefið því nýtt og ferskt yfirbragð á eftirminnilegan hátt ári fyrr, svo að tiltæki Eyþórs Inga virtist fyrirfram ekkert sérlega frumlegt. 

En meðferð hans á laginu í einu og öllu, sannfærði síðuhafa um það, að hér væri kominn listamaður með fágæta hæfileika, sem lofuðu góðu um framhaldið, jafnvel á heimsmælikvarða.  

Með flutningi sínum á laginu "Purple Rain" síðasta fimmtudag var ekkert verið að hika við neitt; það var allur pakkinn með eigin píanóleik a la Elton John en í ofanálag með Freddy Mercury-Villa Vill ívafi, hvorki meira né minna. 

Jafn óvænt og áhrifamikið og íslenskt eldgos á alveg nýjum stað. 

Vaaáá!  Úff! Íslenskt eldgos upp frá flyglinum! 

Til hamingju, Eþór Ingi. Og þökk fyrir það að hafa í huga undanfarin ár að góðir hlutir gerast hægt þegar verið er að temja aldeilis einstæða hæfileika til þess að geta látið þá springa út á svona glæsilegan hátt.  


mbl.is Sjáðu stórfenglegan flutning Eyþórs Inga á Purple Rain
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband