Skárra að opna dyrnar og hreinsa loftið?

Nú eru liðin tæp tvö ár síðan það varð gassprenging inni í miðjum Framsóknarflokknum, sem hafði þá forsætisráðuneytið til umráða. 

Forsætisráðherrann, sem rauk þá á dyr fyrir framan heimsbyggðina, sá frá upphafi aldrei neitt athugavert við það sem hann gerði og hafði gert, heldur hefur hamast við það innan Framsóknarflokksins að stunda algera afneitun. 

Það stefndi í hamagang og uppgjör þegar skyndilega brustu á kosningar, sem nú sést að hlaut að gerast úr því að það þurfti ekki nema einn þingmann í einhverjum þriggja flokka til þess að finna ástæðu til að sprengja stjórnina. 

Og rétt eins og að það var á síðustu metrum fjárlaga, sem stjórnarslit urðu í þriggja flokka stjórn 1979, sést nú á ummælum minnast kosti tveggja þingmanna Sjálfstæðisflokksins, að eldar loguðu í lokuðum rýmum allra stjórnarflokkanna. 

Kannski var þá skárra að opna dyrnar og hreinsa loftið en að reyna að byrgja eldsmatinn inni.

Hvað Framsóknarflokkinn áhrærir hefur hann verið lamaður vegna innanhússástands í eitt og hálft ár og þetta hafa aðrir flokkar skynjað og því ekki árætt að eiga náið samstarf við hann.

Og það lá í augum uppi að flokkurinn yrði í stórfelldum vandræðum við að bjóða fram í kosningum og taka þátt í stjórnarmyndunarviðræðum með öll þessi innanhússvandræði og hjaðningavíg við val á framboðslista í farteskinu. 

 

Kannski er það það skásta sem getur komið fyrir flokkinn að dyrnar séu opnaðar og loftið hreinsað þannig að nú viti fólk hver stendur hvar.  


mbl.is Sigmundur Davíð hættir í Framsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjaldgæfur klofningur. Sameining og samvinna með því að sundra?

Framsóknarflokkurinn hefur aðeins einu sinni á aldar ferli sínum klofnað á þann hátt, að annar flokkur hafi orðið til við klofninginn. Það var þegar Tryggvi Þórhallsson stofnaði Bændaflokkinn 1933. 

Tryggvi var fyrrverandi forsætisráðherra, en á síðustu ellefu árum hafa fimm formenn leitt Framsóknarflokkinn, svo að úrvalið er öllu meira en 1933 hvað snertir fyrrverandi formenn. 

Lýðveldisflokkurinn 1953, Borgaraflokkurinn 1987 og Frjálslyndi flokkurinn 1999 máttu teljast klofningsframboð frá Sjálfstæðisflokknum.

Kommúnistaflokkurinn 1930, Sameiningarflokkur alþýðu - sósíalistaflokkurinn 1938, Alþýðubandalagið 1956, Samtök frjálslyndra og vinstri manna 1970, Bandalag jafnaðarmanna 1983, Þjóðvaki 1994 og Samfylkingin 1999 komu úr stærstum hluta úr sósíalista og jafnaðarmanna.

Hvað Samvinnuflokkinn áhrærir geta möguleikar hans varla talist miklir miðað við það að sá Framsóknarflokkur sem klofnaði 1933 var með meira en tvöfalt meira fylgi en Framsóknarflokkurinn hefur notið síðustu misseri.

Nýir flokkar telja sig oft vera stofnaða til að sameina vinstri menn en það hefur aldrei gengið eftir til lengdar.

Hin nýja stjórnmálahreyfing Samvinnuflokkurinn gefur sig út fyrir að auka samvinnu meðal miðjuflokka. En miðað við flokkadrættina sem nú eru í gangi og fjölda lítilla framboða, er erfitt að sjá að þetta nýja útspil muni ná meiri árangri en allt sameiningartalið allt frá árinu 1938.  


mbl.is Fólk úr öðrum flokkum meðal frambjóðenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óli Björn og Palli Magg: Stjórnin var var þegar komin í stórhættu.

Af ummælum Páls Magnússonar í dag og Óla Björns Kárasonar í grein í Morgunblaðinu fyrir nokkrum  dögum er augljóst, að enda þótt sífellt tal um að erfitt yrði að treysta þingmönnum litlu flokkanna tveggja í ríkisstjórninni til að halda stjórn með aðeins eins atkvæðis meirihluta á lífi, var enn meiri hætta á að einhver af miklu fleiri þingmönnum stærsta flokksins myndi ganga úr skaftinu. 

Samt átti enginn von á jafn snöggu andláti og varð fyrir viku.

Og þegar litið er á fylgissveiflur flokkanna þessa dagana sést, að þeir flokkar eiga í vök að verjast sem mistókst að hafa stjórn á atburðarásinni sem hófst þegar vegna þess að uppreist æru varð allt í einu í hámæli þegar Róbert Downey vildi endurheimta lögmannsréttindi sín.

Ráðamenn Sjálfstæðisflokksins lásu ekki í straumana sem kom upp á yfirborðið, og í stað þess að hafa frumkvæði hafa ráðamennirnir þurft að bregðast við atburðarás, sem þeir eiga erfitt með að skilja og ráða ekki við. 


mbl.is Stóð ekki til að styðja eigin fjárlög
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verður gervigreindin Frankenstein framtíðarinnar?

Eftir að hafa horft á umfjöllun um gervigreind í þættinum 60 mínútur um daginn, sést, að spurning Vladimirs Pútíns um það hvort gervigreindinu "muni éta okkur" er fyllilega raunhæf. 

Í þættinum var upplýst að verið er að "ala upp" vélmenni með gervigreind í þeim skilningi, að það er svo óheyrilega mikið magn af upplýsingum, sem þessi vélmenni eru mötuð á, að það taki mörg ár að koma þeim á það vitsmunastig sem menn komast á fyrstu áratugum ævi sinnar. 

Með þessu er stutt í það að þessum vélmennum sé "kennt" að hugsa sjálfstætt og þar með að ganga af göflunum. 

Fjallað var um tiltekið vélmenni sem gæti lesið og lært utanað allar þær 800 læknisfræðilegu greinar sem skrifaðar eru árlega um lyfjameðferð hjá krabbameinsssjúklðingum og nýta þessa þekkingu við að velja meðferð margfalt betur en færustu læknar heims. 

Möguleikarnir eru ekki aðeins yfirgengilegir heldur að sama skapi hrollvekjandi til þess að vita hve langt er hægt að þróa þessi vélmenni og ofurtölvur. 

Greindustu vélmennin geta rökrætt við fólk og sýnt tilfinningar. 

Þegar dagskrárgerðarmaðurinn bað eitt þeirra um sjálfslýsingu kom svarið um hæl: "Ég ætla að verða gáfaðast fyrirbæri jarðar og lifa að eilífu." 

Óneitanlega kemur tilraunin með Frankenstein upp í hugann. 


mbl.is Pútín óttast að gervigreind „éti okkur“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í boga framhjá næststærsta sveitarfélagi landsins.

Þegar dregin er lína frá Kjalarnesi eða Mosfellsbæ í gegnum höfuðborgarsvæðið í átt til Suðurnesja liggur leiðin að sjálfsögðu í gegnum Kópavog sem er í raun við þungamiðju byggðar höfuðborgarsvæðisins og er næstfjölmennasta sveitarfélagið á svæðinu með 34 þúsund íbúa. 

Þegar á það er litið að auk þessa liggur línan fá Seltjarnarnesi austur til Suðurlands um jaðar bæjarlands Kópavogs er ekki að undra að bæði fólk og fyrirtæki sæki til Kópavogs og að bæjarfélagið sé sístækkandi. 

Þegar hálfhringleiðin um Álftanes er skoðuð, sem nú er verið að leggja til í tengdri frétt á mbl.is sést að hún liggur í boga framhjá landi Kópavogs. 

Einnig sést hvað þessi leið verður dýr og löng og myndi bara seinka nauðsynlegum fjárframlögum til Sundabrautar og annarra samgangna á augljósum höfuðlínum höfuðborgarsvæðisins. 

Leiðin myndi liggja um náttúruverndarsvæði og útivistarsvæði Skerjafjarðar og Álftaness og ævinlega verða það sem blasir við á korti: Leið í hálfhring framhjá meginlínu samgagna á höfuðborgarsvæðinu. 

Þar að auki lækkar land stöðugt á þessu svæði auk þess sem spáð er hækkandi sjávarstöðu. 


mbl.is Vill brúa Skerjafjörð og reisa nýja byggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ábyrgð arkitekts er yfirleitt mikil. Rannsóknar er þörf.

Sú fullyrðing fyrrum ráðamanna hjá Orkuveitu Reykjavíkur að ónógu viðhaldi sé einu um að kenna varðandi eyðileggingu hins stórkarlalega húss hennar er afar hæpin, svo ekki sé meira sagt. 

Spánnýtt hús á ekki að þurfa stórfellt viðhald frá fyrsta degi. 

Ekki verður fram hjá því komist að lögum samkvæmt ber arkitekt hússins ábyrgð á gerð þess og efnisvali öllu. 

Jafnvel þótt ráðamenn OR hafi viljað þetta og viljað hitt á arkitektinn ævinlega lokaorðið. 

Komið hefur fram að ákveðnir boltar inni í veggjum hafi ekki verið af réttri stærð. 

Þar með er opnað á þann möguleika að verktaki, yfirverktaki eða undirverktaki, hafi svikist um að fara að fyrirmælum arkitekts og hugsanlega leynt hinu ranga efnisvali og þarf þá að rannsaka það sérstaklega. 

Þetta mál er svo stórt í sniðum, að það verður að rannsaka ofan í kjölinn. Ef það verður ekki gert verða meiri líkur á því að aftur verið gerð svona hrikaleg mistök. 


mbl.is Líkur á niðurrifi á húsi OR hafa aukist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöldi þingmanna og fulltrúa ekki í beinu hlutfalli við mannfjölda.

Í umræðum um fjölda þingmanna og sveitarstjórnarfulltrúa er því haldið fram af mörgum, að fjöldi þessara kjörnu fulltrúa eigi að fylgja íbúafjölda landa og byggða. 

Og því jafnframt bætt við að engin rök séu fyrir fjölgun borgarfulltrúa í Reykjavík. 

Kenningin um að fulltrúafjöldi eigi að vera í hlutfalli við íbúafjölda stenst augljóslega ekki. 

Ef það væri þannig, og til dæmis miðað við fjölda þingmannan í Noregi, þar sem íbúar eru 15 sinnum fleiri en hér á landi, þyrfti ekki nema 10 þingmenn á Alþingi.

Og ef þingmannafjöldi á Alþing ætti að vera með jafnmarga íbúa á þingmann og á þingmann í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, þyrfti bara einn þingmann á Íslandi. 

Í störfum stjórnlagaráðs var fjöldi sveitarstjórnarmanna og þingmanna í mismunandi löndum kannaður og leitað að því, hvað réði honum helst.

Niðurstaðan var sú til væri vísindaleg formúla um þetta, sem gæfi vísbendingar um eðlilegan fjölda. Þar var fjöldinn ekki línulegur við íbúafjöldann, heldur fleiri atriði reiknuð inn í.

Í samanburði við borgir á Norðurlöndum var fjöldi borgarfulltrúa í Reykjavík síst of mikill.

Verkefni fulltrúanna fara ekki beint eftir íbúafjölda.

Nútíma þjóðfélaga er einfaldlega orðið það flókið hvað snertir lög, reglugerðir og annað skrifræði, að verkefnin eru svipuð hjá misfjölmennum borgum.

Milljón manna borg hefur ekki þörf fyrir tíu sinnum fleiri borgarfulltrúa heldur en 100 þúsund manna borg.

Bæjar- og síðar borgarfulltrúar í Reykjavík hafa verið 15 í heila öld á sama tíma og borgarbúum hefur fjölgað fimmfalt þannig að ef menn festa sig í því að fara bara eftir íbúafjölda ættu borgarfulltrúar að vera minnst 75.

Síðustu áratugi hefur aukið álag á varaborgarfulltrúa sýnt, að með því að færa æ fleiri verkefni á þeirra hendur sparast lítið.  


"Að láta á það reyna" og "þetta reddast" heilkennið.

"Þetta reddast" og "að láta á það reyna" eru tvö af eftirlætisorðtökum Íslendinga. 

Dæmin eru mýmörg eins og til dæmis þegar flutningabílstjóri einn ætlaði hér um árið að láta á það reyna hvort hann gæti troðist á bíl sínum yfir gamla járnbitabrú á Suðurlandi sem var bæði of mjó fyrir bílinn og þar að auki alls ekki gerð fyrir svona þunga bíla. 

Vegna þungans svignaði brúin og burðarvirki brúarinnar leitaði örlítið inn á við þegar bíllinn var á leiðinni yfir, en hann slapp þó naumlega í gegn en bæði bíll og brú mikið skemmd. 

Í meira en tvær aldir hafa Íslendingar gert tilraunir til að flytja inn erlent sauðfé auk minksins undir kjörorðunum "látum á þetta reyna" og "þetta reddast." 

Nú á að margfalda sjókvíaeldi á sama tíma og verið er að leggja það af víða erlendis og við eigum bara drífa í því að sjá hvernig "látum á það reyna" og "þetta reddast" heilkennin koma út. 

Fyrir tæpum áratug var sagt í Vesturbyggð að það væri 99,% öruggt að 500 manna risaolíuhreinsistöð risi við Arnarfjörð.

Í ljós kom við athugun að skúffufyrirtæki í Skotlandi í eigu óþekktra fjárglæframanna í Rússlandi var skráð fyrir þessu, þótt síminn hjá skúffufyrirtækinu væri lokaður og reksturinn enginn. 

Til stóð að "láta á það reyna" að kísilver á Grundartanga yrði undanskilið því að fara í mat á umhverfisáhrifum og að treysta á "þetta reddast" varðandi það að þarna átti að verða um algera tilraunastarfsemi að ræða. 

Ferill kísilversins í Helguvík er varðaður röð af "látum á það reyna" og "þetta reddast." 

Undir kísilveri á Bakka er miðja annars af tveimur öflugustu jarðskjálftasvæðum landsins en aldrei var tekið í mál að færa verksmiðjuna á skaplegri stað heldur gilda "látum á það reyna" og "þetta reddast" skilyrðislaust. 


mbl.is Skúrinn of hár fyrir brúna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það ættu að vera litlar árekstralíkur í yfirlandsflugi hér á landi.

Í dreifbýlu landi með litla almenna flugumferð miðað við flatarmál ættu líkur á árekstri í lofti milli tveggja flugvéla sem fljúga í sjónflugi að vera minni en í þéttbýlli löndum. 

Í alþjóðlegum reglum um sjónflug er ætlast til að flugvélar á vesturleið fljúgi í 2500, 4500, 6500, 8500, 10500 feta hæð, þ.e. að þúsundafjöldinn séu jafnar tölur, en á austur leið í 1500, 3500, 5500, 7500, 9500 o.s.frv. 

Þetta er nauðsynlegri regla í löndum, sem eru fjölmenn og þéttbýl en þar sem fáar einkaflugvélar eru á ferð. 

Í blindflugi er flogið í heilum þúsund fetum. 

En vegna skýjafars og annarra ástæðna, svo sem í klifri eða lækkun geta flugvélar verið í öðrum hæðum en fyrr var getið, og flugvélar sem eru á sömu leið geta lent í því að vera báðar í sömu hæð. 

Þá getur verið aukin hætta að því leytinu til á því að þær rekist saman. 

Flugmenn gera ýmislegt til að minnka árekstrahættu, svo sem að tilkynna um staðsetningu sína á þeim bylgjum, sem við eiga, og til dæmis að tilkynna sig inn á ákveðin svæði, svo sem Suðurland, þar sem flugvélar neðan 3000 feta eru á sérstakri bylgju fyrir sjónflugsumferð utan stjórnaðra flugstjórnarsviða, 118,1.

Ég minnist þess hve ég var var um mig á þeim árum, sem ég flaug á Skaftinu svonefnda, sem flaug helmingi hægar en flestar einkflugavélar.

Af þessum sökum var erfitt að sjá miklu hraðari flugumferð, sem kom aftan að manni eða á ská.

Í blindflugi sjá flugumferðarstjórar í samvinnu við flugmenn um að halda öruggum aðskilnaði.

 

 


mbl.is Rákust saman í háloftunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íhugunarefni fyrir Bjarna Ben.

Það er íhugunarefni fyrir Bjarna Benediktsson formann Sjálfstæðisflokksins að langflestir aðspurðra í skoðanakönnun vilji sjá Vinstri græna í stjórn, næstum því tvöfalt fleiri en vilja sjá Sjálfstæðisflokkinn í stjórn. 

Þetta er of mikill munur til þess að hann geti verið eðlilegur. 

Að minnsta kosti rýrir þetta fullyrðinguna um að Sjálfstæðisflokkurinn sé kjölfestan og næstum því móðurskipið í íslenskum stjórnmálum. 

Ein skýring á þessu fyrirbæri kann að vera sú, að margir sem ella myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, vilji styrkja einhvern flokkanna hægra megin á miðjunni til þess að halda í hemilinn á Sjöllunum í ríkisstjórn. 

Á árum Viðreisnarstjórnar Sjalla og krata kusu sumir Sjálfstæðisflokkinn í því skyni að hann yndi sínum hlut frekar í stjórninni og væri jafnframt svolítill dempari á harða hægri stefnu. 

Ég minnist þess sjálfur, að þegar mér fannst einsýnt 1974 eftir fall vinstri stjórnarinnar að stjórn Sjalla og Framsóknar væri eini stjórnarmyndunarmöguleikinn, kaus ég Framsóknarflokkinn til þess að hafa hemil á stefnu Sjallanna varðandi varnarliðið á Keflavíkurflugvelli eftir hina afgerandi niðurstöðu í undirskriftarsöfnuninni Varið land. 

Þegar á hólminn kom virtist þetta hafa lítið að segja því að öfl í röðum Framsóknarmanna urðu síst ragari við að taka þátt í "hermanginu" en hinir hefðbundnu "hermangarar" hjá Sjöllunum. 


mbl.is Flestir vilja VG í næstu stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband