Nú þarf heldur betur útskýringar.

Sérstaða máls Sindra Þórs Sigfússonar, svo einstaklega "krúttlega" íslenskt sem það hefur verið, hefur vakið athygli erlendis. 

Mál Jóns Hreggviðssonar kemur upp í hugann, en hann hljóp á sínum flótta yfir hið blauta Holland, það sama land og Sindri Þór er nú staddur í. 

Íslenskir almannahagsmunir krefjast þess að lög og reglur og framkvæmd þeirra ´varðandi handtökur, frelsissviptingu og fangelsisvist séu skýrar í hvívetna. 

Það, sem hingað til hefur sést opinberlega um þau efni og gang þessa sérkennilega máls, virðist ekki verið útskýrt á viðunandi hátt í fjölmiðlum, hverju sem um er að kenna. 


mbl.is Sindri Þór handtekinn í Amsterdam
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð ræða Sigmundar Davíðs á marga lund.

Sú var tíð að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hélt stefnuræðu forsætisráðherra þegar Alþingi tók til starfa. Í dag hélt hann heilmikla stefnuræðu á Landsfundi Miðflokksins sem var mjög með svipað yfirbragð og hinna fyrri á árum áður. 

Margt athyglisvert kom fram í ræðunni, svo sem það, sem hefur komið fram að undanförnu varðandi það, að talsvert vanti á að búið sé að fullreyna hvaða árangri endurheimt votlendis skilar, en að betur liggi fyrir árangur af landgræðslu og skógrækt.

Þegar Sigmundur Davíð talar um nýjar aðferðir og nýjar nálganir, eru það vísu orð að sönnnu, en á móti kemur ýmislegt sem hann og flokkur hans berjast fyrir, svo sem að stefna af alefli að því að verða olíuframleiðsluþjóð og að vera enn á sama stóriðju- og virkjanaæðis stiginu og endranær. 

Og þótt áhersla á umhverfisvænan íslenskan sé góðra gjalda verð, er íslenskum búsmala enn beitt á allt of marga afrétti sem eru ekki beitarhæfir, enda stingur í augu að á meðan Fiskistofa hefur haft úrræði til þess að beita sér gegn rányrkju og brotum á fiskveiðilöggjöf, getur  Landgræðsla Íslands ekki beitt neinum sambærilegum úrræðum. 

Í málefnum Landsspítalans er staða Miðflokksins sterk að mínu áliti, - mig grunar að menn muni eiga eftir að sjá það þótt síðar verði, að rétt hefði verið að nota reynslu Norðmanna af tveimur spítölum, þeim nýja í Osló, hinum besta í Evrópu á sínum tíma, og hins vegar bútasaums-spítalanum í Þrándheimi, "víti til varnaðar" eins og hann var nefndur í mín eyru þegar ég kynntist þessum spítölum báðum 2005. 

 


mbl.is Kynnti nýja aðferð í stjórnmálunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hreint land - fagurt land!

Á Degi jarðar með fyrirbærið Plokk á Íslandi í hávegum haft er það skemmtileg tilviljun að einmitt þessa daga þegar ég er að vinna í textabók fyrir safndiskana "Hjarta landsins" er ég að skrifa upp texta við lag, sem var í tónlistarmyndbandi í einum þáttanna "Út il ek" laust fyrir síðustu aldamót. 

Lagið heitir "Hreint land - fagurt land! 

Lagið og viðlag textans var upphaflega gert í tengslum við 52 þætti um umhverfismál, sem við Sigurveig Jónsdóttir gerðum með vösku samstarfsfólki á Stöð 2, og voru þessir þættir sýndir vikulega árið 1993. 

Landvernd var samstarfsaðili og aðal kjörorð samtakanna þá voru "Hreint land - fagurt land!" 

En það dróst í rúm fimm ár að ljúka þessu verki og fyrst í fyrra kom lagið út á hljómdiski, á diski númer 2 í fjögurra diska albúminu Hjarta landsins. 

 

HREINT LAND - FAGURT LAND!

 

Líttu á blómin, sem brosa á grund

og bjóða þér yl sinn á unaðarstund. 

Líttu til fjallanna, ljúft er að sjá

hvernig logandi´er kvöldsólin tindunum á. 

 

Fylltu´í þér lungun,  því loftið er tært

og litaspil hlíðanna sindrandi skært. 

Hlustaðu´á fuglanna fjölradda söng,

sem að fyllir loftið um vordægrin löng: 

 

Hreint land, fagurt land, 

þar sem hafaldan blá kyssir ljósan sand!

Bjart land, blessað land, 

þar sem blágresið umvefur bjarg og stand! 

 

Ísland, óskaland! 

Þú ert unaður tær, - ekkert veiti þér grand! 

Hreint land, fagurt land

þar sem hafaldan blá kyssir ljósan sand! 

Hreint og ómengað land, ekkert veiti þér grand! 

 

Leggðu í ferð upp á töfrandi tind. 

Teygaðu vatnið úr blátærri lind. 

Aktu upp á bjarg þar sem fuglanna fjöld 

fyllir loftið af vængjaþyt, öld fram af öld. 

 

Finndu þig sjálfan í fjallanna sal - 

á fannbreiðum jökla, - í skjólsælum dal. 

Ljúkist þér upp hve margt annað er hjóm, - 

að þú átt þér í landinu helgidóm. 

 

Hreint land - fagurt land, 

þar sem hafaldan blá kyssir ljósan sand!  

Bjart land, - blessað land, 

þar sem blágresið umvefur bjarg og stand! 

 

Ísland, óskaland, - 

þú ert unaður tær, - ekkert veiti þér grand!

Hreint land, - fagurt land, 

þar sem hafaldan blá kyssir ljósan sand, - 

hreint og ómengað land, - ekkert veiti þér grand! 

 

 


mbl.is Plokka 4.000 kílómetra á degi jarðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein ástæða nægir: Að tryggja áframhaldandi völd Kim Jong-un.

Ef Norður-Kóreumenn fá að halda nægilegu magni kjarnorkuvopna til þess að fæla önnur ríki frá því að reyna að steypa kommúnistum af stóli, þurfa þeir ekki að fara fram á meira. 

Kim Jong-un hefur greinilega leikið þann leik að ganga eins langt í uppbyggingu slíks fælingarmáttar kjarnorkuvopna og mögulegt væri til þess að geta spilað úr nægilega sterkri stöðu þegar kæmi til samningaviðræðna um að búa til friðvænlegt ástand á Kóreuskaganum. 

Hann er að gera svipað því sem gerðist í Kúbudeilunni 1962 þegar Sovétmenn og Kastró fengu því framgengt að tryggt væri, að Bandaríkin réðust ekki á Kúbu til að steypa kommúnistum af stóli. 

Enda hefur það ekki gerst. 

Líklega eru kúgunin og kröpp kjör þorra Norður-Kóreumanna mun verri en þau hafa verið á Kúbu, en með gríðarlega harðri ritskoðun og heilaþvætti í langan tíma, er með ólíkindum hvernig tekist hefur að innræta þjóðinni slíkan ótta við erlenda innrás og afskipti, að hún virðist sætta sig frekar við ástandið eins og það er. 

Það væri ekkert ósamræmi í því hjá Trump að láta kyrrt liggja eftir að störukeppninni, sem ríkt hefur frá valdatöku hans, virðist vera að ljúka. 

Hann sagði í kosningabaráttu sinni að Bandaríkjamenn hefðu ekkert átt að skipta sér af Assad 2011 og heldur ekki af Saddam Hussein 2003, þótt þetta væru harðstjórar. 

Reynslan hefði sýnt að mannfall og hörmungar hefðu orðið meiri vegna vanhugsaðra og óraunsærra aðgerða, heldur en ef vestrænar þjóðir hefðu ekkert skipt sér af innanlandsátökum í þessum löndum. 

Þetta blasir enn betur við varðandi Norður-Kóreu. Þar er um tvo slæma kosti að ræða: Að leyfa öllu að þróast upp í stríðsátök, sem myndu valda óheyrilegum hörmungum, mannskaða og eignatjóni, - eða - að leita að friðsamlegri lausn, sem að vísu myndu viðhalda kúgun og harðstjórn í Norður-Kóreu. 

Síðari kosturinn, þótt slæmur sé, virðist skárri. 


mbl.is Trump: Góðar fréttir fyrir heimsbyggðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérkennileg sýn á lýðræðið.

Það er sérkennileg sýn á lýðræðið að telja það aðeins aukið lýðræði hvernig samið er um stefnu ríkisstjórna í stjórnarmyndunarviðræðum og því síðan fylgt eftir í framkvæmd. 

Þeir, sem núna setja þetta á oddinn eru sömu aðilarnir sem ekki hafa mátt heyra það nefnt að innleiða beint lýðræði í kosningum og í þjóðaratkvæðagreiðslum, og enn síður viljaða taka það í mál að fylgja eftir vilja yfirgnæfandi meirihluta atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslunni 20. október 2012. 


mbl.is Lýðræðið látið undan síga hér á landi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Með vali á forsendum má oft ráða niðurstöðum.

Það er oft auðvelt að ákveða fyrirfram einhverja niðurstöðu í máli og finna síðan forsendur sem leiða til þeirrar niðurstöðu. Djúpifjörður, Krossgilin, þröngt

Þetta var gert á sínum tíma þegar skoðuð var svonefnd Fljótaleið varðandi jarðgöng yst á Tröllaskaga og hún borin saman við Héðinsfjarðarleið.  

Gefin var sú forsenda að gangamunninn á Fljótagöngum Fljótamegin yrði að vera sérstaklega neðarlega, en við það lengdust þau göng svo mikið að þau urði mun dýrari en ef munninn hefði verið í svipaðri hæð og víðast tíðkast. 

Þegar skoðaðar eru forsendur, sem gefnar hafa verið fyrir jarðgöngum undir Hjallaháls, stingur strax í augu, að það er gefin sem forsenda að gangamunninn að vestanverðu verði alveg ofan í fjöru í Djúpafirði. Djúpifjörður, Krossgilin, vítt

Þetta lengir göngin um hátt í kílómetra og gerir þau dýrari en ella. 

Sem dæmi um hvað svona atriði hefur mikið að segja má nefna, að ef svipað hefði verið gert í gerð Vestfjarðaganga undir Breiðadalsheiði hefðu þau göng orðið óbærilega dýr.

Er þessi gangamunni niður í fjöru í Djúpafirði sagður vera nauðsynlegur til þess að koma í veg fyrir of mikinn bratta á veginum neðan við svonefnd Krossgil, þar sem brattinn er nú 12 prósent í vegi með kröppum beygjum. Sjá tvær myndir, teknar yfir Djúpafjörð í átt að Hjallahálsi, önnur tekin þröngt en hin tekin vítt

Bratti á nýjum, beinum vegi, sem lægi á ská þar niður í Djúpafjörð yrði 8 prósent, sem sé allt of mikið. 

Tvennt er við þetta að athuga. Annars vegar, að á ótal stöðum í vegakerfi landsins, meðal annars vestar á þessari leið, er að finna 8 prósenta bratta án þess að menn hafi talið að hann væri óbærilegur, og hins vegar að með því að hafa veginn nokkur hundruð metrum lengri er hægt að minnka brattann niður í allt að 6 prósent. 

Önnur forsenda, sem þarf að spyrja um, er hvort kostnaðurinn við að flytja útgröft úr göngum undir Hjallaháls, sé bókfærður eingöngu á gangagröftinn sjálfan, eða hvort dregin sé frá þeim kostnaði hagkvæmni þess að nota þennan útgröft til uppfyllingar á þverun Þorskafjarðar, sem verður gerð, hvort sem farin er gangaleið eða farið um Teigskóg. 

Sérfræðingur vegagerðarinnar vestra sagði í viðtali við mig, að snjóalög á Hjallahálsi og Ódrjúgshálsi (Ódrjúgsháls er aðeins 160 m yfir sjávarmáli) væru ekki vandamálið heldur aðeins brattinn í bröttustu brekkunum. 

En vel er hægt að minnka þann bratta úr 12 prósentum í Krossgiljunum á Hjallahálsi og úr 16 prósentum á Ódrjúgshálsi niður í 6-7 prósent á hvorum stað. 

Benda má á það, að í þau tvö skipti í vetur, sem ófærð hamlaði mest umferð á norðanverðu landinu, voru það Klettsháls og Kleifaheiði, sem lokuðu helst leiðinni um norðurströnd Breiðafjarðar en ekki hálsarnir í Gufudalssveit.  


mbl.is Kosta „óháð mat“ á kostum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær þær verstu, "Hverju þakkarðu langlífið?" og "how do you like Iceland?"?

Sagan segir að þegar hinn heimsfrægi fiðluleikari og hljómsveitarstjóri, Yehudi Menuhin, hafi við komu til Íslands staulast út um dyrnar á flugvél við gömlu flugstöðina á Keflavíkurflugvelli á móti austan hríðinni, sem stóð beint upp í nefið á honum, hafi einn af þekktustu fréttamönnum landsins, staðið þar, rekið hljóðnema upp í andlitið á honum eftir að hafa spurt: "how do you like Iceland?"

"What?" svaraði Menuhin, "I´am just arriving." 

Þessi margtuggða spurning er hugsanlega önnur tveggja verstu spurninga, sem íslenskt fjölmiðlafólk spyr. 

Hin er oft borin upp við fólk, sem er orðið hundrað ára eða eldra:

"Hverju þakkar þú langlífið?" 

Ein 105 ára, sem var spurð að þessu, svaraði: "Ætli það sé ekki vegna þess að ég hef sloppið við að drepast?"


mbl.is Þakkar pípu og ákavíti langlífið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Gætum garðsins; yndisarðsins og unaðar mannsins í hjarta landsins."

Í tilefni af stofnun þverpólitískrar nefndar um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu verður sett inn á facebook síðu mína tónlistarmyndband með laginu "Hjarta landsins".

En svona er textinn: 

 

HJARTA LANDSINS. (sjá myndband á facebook) 

 

La, la, la....

 

Gætum garðsins;  

yndisarðsins 

og unaðar mannsins 

í hjarta landsins. 

 

Stöldrum nú við, gætum garðsins, 

grasanna´og móabarðsins 

blómanna´og yndisarðsins

af útsýni fjallaskarðsins. 

 

Gætum fossa og flúða 

með fegursta regnbogaúða, 

sem bylgjast um bergrisa prúða 

og breiður af rósanna skrúða. 

 

La, la, la ....

 

Andæfum ógnvaldi mannsins; 

ógöngum skammgræðgisdanins; 

ágengni í hjarta landsins 

í ásókn mannvirkjafansins. 

 

Munum að vinna og vaka

og hvergi á klónni að slaka

meðan jöklarnir byltast og braka

og blíðan söng fuglarnir kvaka. 

 

Gætum garðsins;

yndisarðsins

og unaðar mannsins

í hjarta landsins. 

 

Djörf grípum glaðbeitt til varna, 

þótt grimm muni baráttan harðna. 

Vort líf, það sé leiðarstjarna

landsins framtíðarbarna. 

 

Heyr Íslands herlúðra gjalla, 

sem heita á landvætti alla  

og lýð milli fjöru og fjalla 

að friða, í stað helgispjalla. 

 

Kom, í dýrð íssins og eimsins

í algleymi bláfjallageimsins, 

uppljómun andlega seimsins 

á Íslandi, gersemi heimsins. 

 

Gætum garðsins, 

yndisarðsins

og unaðar mannsins

i hjarta landsins.

 

La, la, la....

gætum að hjarta landsins. 


mbl.is Hálendisgarður sterk skilaboð til heimsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sömu aðilar á bakvið Eldvarpavirkjun og Hvalárvirkjun.

Svo mikil er ásókn "fjárfesta" í því sem Nóbelskáldið kallaði "hernaðinn gegn landinu" í frægri grein, að sami maðurinn standi á bak við þennan hernað á tveimur stöðum á landinu í einu. 

Vesturverk er í eign HS orku sem er líka skrifuð fyrir komandi Eldvarpavirkjun norðan við Grindavík. En HS orka hefur lengst af verið í eign skúffufyrirtækis skráðu í Svíþjóð, sem aftur hefur verið í eign kanadíska auðmannsins Ross Beaty. Eldvörp. Grindavík í fjarska.

Nú mun Beaty hafa selt öðrum aðstöðu sína og aðkomu að bæði Eldvarpavirkjun og Hvalárvirkjun. 

Eldvarpavirkjun er nú keyrð áfram vegna þess að í skefjalausri rányrkju á orkuforða orkuhólfs, sem er sameiginlegt fyrir Svartsengi og Eldvörp, fellur landið niður og orkan minnkar, hafði fallið um fimmtung í fyrra. 

Í örvæntingu ætla menn í anda skómigustefnunnar, að pumpa sem hraðast uppúr þessu orkuhólfi og valda með því hastarlegra hruni á endanum og stytta með því líftíma virkjananna. Eldvörp syðrihl.horf til na

En þar að auki að valda í skefjalausri skammtímagræðgi óafturkræfum umhverfisspjöllum á fyrirbæri, sem hvergi er að finna á þurrlendi jarðar nema á Íslandi. 

Á hálendinu suður af Drangajökli á nú með stórstækkaðri virkjun Hvalár að ráðast á náttúruverðmæti, ósnortið hálendi, sem er sama eðlis og það hálendi, sem er innan Vatnajökulþjóðgarðs og gefur þegar til frambúðar 150 störf beint, þar af meirihlutinn af þeirri gerð sem best tryggir afkomu byggða, konum á barneignaaldri. 

Hvalárvirkjun mun ekki gefa eitt einasta starf til frambúðar. Hvalárvirkjunkort

Hinum megin við flóann var sagt fyrir 30 árum að stórvirkjun í Blöndu myndi "bjarga Norðvesturlandi."  

Jú, að voru uppgrip við virkjanaframkvæmdir í nokkur ár en síðan urðu jafnmargir menn atvinnulausir og höfðu fengið atvinnu þegar virkjunum lauk. 

En í framhaldi af virkjuninni fór stórkostlegasta fólksfækkun í sögu Norðvesturlands. 

Þrátt fyrir sterk rök fyrir atvinnulegu gildi þjóðgarðs eða friðlands á austurhálendi Vestfjarða er er sagt um þann, sem þetta skrifar, að hann hafi "um langan aldur barist með öllum tiltækum ráðum gegn mannlífi og framförum á Vestfjörðum." 

Einnig segir oddviti Árneshrepps blákalt í Kastljósi að fossarnir verði áfram þótt árnar verði virkjaðar, rétt eins og að vatnið í ánum fyrst látið renna í gegnum pípur niður í stöðvarhús en síðan notað aftur til að renna um fossana.  

Landeigandinn í Ófeigsfirði segir að fyrirbæri eins og Drynjandi og Rjúkandi sem hafa hlotið nöfn sín af tignarlegu útliti, verði þeim mun fallegri sem minna vatn verði í þeim!   

 

 


mbl.is Vill fá svör um aðkomu Vesturverks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svar bakarameistarans gæti gilt um CFM-hreyfla.

Þegar ég var strákur frétti ég margt úr heimi föður míns og afa míns, en báðir voru bakarameistarar og ráku á tímabili hvor sitt bakaríið. 

Meðal bakarameistara bæjarins á þeim tíma leyndust einstaka eftirminnilegir menn, sem voru sérstakir á ýmsa lund. 

Eitt sinn kom reið frú í eitt bakaríið í bænum og heimtaði að fá að tala við bakarann. 

Þegar hann kom upp í búðina, sýndi hún honum brauð, sem í hefði verið stór, rygðaður nagli, þegar bitið var í brauðið. 

Bakarinn var yfirleitt afar geðgóður og lipur, og reyndi eftir bestu getu að róa konuna niður en datt í þetta sinn ekkert annað til að segja en þetta: "Elsku frú, ég biðst innilega afsökunar á þessu en við erum nú bara mannlegir og svona lagað getur alltaf komið fyrir." 

Þetta hafði að sjálfsögðu þveröfug áhrif við það sem ætlunin var. 

Hvað snertir flugvélarhreyfla er það þekkt, að þeir hafa aldrei verið öruggari en á okkar tímum. 

En sá hluti svars bakarameistarans þegar sprenging verður í einum af þeim öruggustu gæti þó gilt, að "svona geti alltaf komið fyrir." 

Það er vegna þess að af því að vegna þess að enginn getur ráðið því sjálfur, hvenær hið sjaldgæfa gerist, getur óvissuorðið "alltaf" átt við að vissu leyti. 

En notkun þessa orðs var og er þó óheppilegt. 

Það var til dæmis aðeins einföld leiðsla, sem fór í sundur í einum af fjórum hreyflum Airbus A380 hér um árið, en þá mátti þakka fyrir að þessi stærsta flugvél heims færist í einhverju mannskæðasta flugi sögunnar. 

Og þegar flugið er orðinn að hættuminnsta fararmáta nútímans verður samt að hafa í huga lögmál Murphys: "Ef möguleiki er á að eitthvað fari úrskeiðis, mun það gerast fyrr eða síðar." 

Ef hægt er að nota orðið "alltaf" á óheppilegan hátt, mun það gerast fyrr eða síðar. 

Hvað CFM hreyfla varðar hafa hreyflar hjá þeim framleiðanda reynst afar vel í þau 44 ár, sem þeir hafa verið framleiddir, alls 3000 stykki. 

Versta óhappið varð 1989 þegar viftublað brotnaði og flugstjórarnir gerður þau mistök að drepa á röngum hreyfli en dæla fullu eldsneyti á þann bilaða með þeim afleiðingum að hann varð alelda og vélin fórst. 

Þarna virkaði Murphys lögmálið tvöfalt, úr því að það var hægt að drepa á röngum hreyfli hlaut einhvern tíma að koma að því, og úr því að viftublöð gátu brotnað, hlaut líka að koma að því að það brotnaði og ylli misskilningi og mistökum við að bregðast við því. 

47 fórust og 74 slösuðust. 

Eftir þetta slys tókst að endurbæta hreyflana þannig að slysa- og óhappatíðni stórminnkaði á þeim 29 árum, sem hafa liðið síðan nefnt slys varð í Bretlandi. 


mbl.is Hreyfillinn ekki notaður á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband