Þetta með Danina kemur ekki á óvart. Og Albert þekkti sína menn.

Alveg óvart gerðu þrír Íslendingar könnun á áhrifum áfengisneyslu Dana í Kaupmannahöfn 1972, sem styður þá niðurstöðu rannsókna, að yfir 90 prósent dönsku þjóðarinnar, hæsta tala í heimi, drekkur áfengi að staðaldri.

Danir höfðu ákveðið að hjálpa Íslendingum í því að senda heim á hverjum morgni sem nýjast og ferskast sjónvarpsefni frá Ólympíuleikunum, en þá vorum við Íslendingar ekki komnir í gervihnattasamband. 

Fljótlega kom í ljós að í óefni stefndi. Dönsku tæknimennirnir, sem við þurftum að leita til með sérþarfir okkar, voru langflestir þeirrar gerðar, að þegar leið á daginn, urðu þeir æ sljórri, þreyttari og afundnari. 

Við tókum hins vegar eftir ákveðnu hegðunarmynstri hjá þeim, sem snerist í kringum það að drekka bjór til að halda sér gangandi. 

Draumur um þægilegt líf virtist snúast hjá þeim langflestum að fá sér öllara strax í upphafi vinnu og síðan með reglulegu millibili þannig að hægt væri að fara strax heim eftir dagvinnuna og vera ligeglad í afslöppun heima. 

Bjórinn var það sama fyrir þá og kaffi er fyrir marga á Íslandi. 

Þótt þeim stæði yfirvinna til boða, höfnuðu þeir henni, okkur til mikilla hrellingar, því að okkar erindi varð oftast að afgreiða eftir að þeirra höfðu verið kláruð og lentu því á yfirvinnutíma. 

Strax á öðrum degi varð að fara að gera einu ráðstafanirnar, sem virtust duga: Að bjóða þeim frían bjór á okkar kostnað, hæfilega mikinn til að halda þeim á floti.  

Læra smám saman á hvern einstakan hvað snerti þörf hans. 

En þetta hrökk skammt. Fæðispeningar okkar voru af skornum skammti og á þriðja degi kom í ljós að við réðum ekki við þetta á álagstímum fyrir vinnslu á okkar efni. 

Við tókum líka eftir því, að i heildina tekið, var í gangi áfengisböl á þessum vinnustað, sem fólst í því að starfsmennirnir voru í raun aldrei í fullu formi við vinnu sina, heldur stjórnaði öldrykkjan því hvenær þeir nálguðust fullt vinnuþrek. 

Haft var samband heim og ástandið útskýrt. Svo vel vildi til að á upphafsárum íslenska sjónvarpsins lærðu fyrstu starfsmenn þess fræði sín hjá danska sjónvarpinu og þekktu ástandið þar á bæ. 

Skrifstofustjórinn fann ráð til þess að skilgreina þannig og bókfæra sérstakan útgjaldalið til að bjarga Ólympíuleikunum fyrir íslenska áhorfendur, að það sæist ekki í bókhaldinu, að í raun var verið að eyða fé í að halda hópi af Dönum hálffullum. 

Nokkrum árum síðar var ég bílablaðamaður hjá Vísi og kynntist kollegum mínum erlendis, þeirra á meðal besta bílablaðamanni Norðurlanda á þeirri tíð, Roger Sögaard, sem stjórnaði bílaskrifum hjá blaðinu "Bilen og baaden". 

Hann var lunkinn við að nota viðmið sem almenningur skildi frekar en að birta þurrar tölur.

Sögaard var 1,83 á hæð og gerði sjálfan sig að mælistiku fyrir rými inni í bílnum. 

Nokkuð sem ég hef notað siðan fyrir mig. 

Og annað afrekaði hann, sem segir sína sögu. Í stað þess að nota svonefndann VDA-staðal fyrir rými fyrir farangur í hverjum bíl, með mælieiningunni lítrar, varð Bilen og Baaden eina bílablað heims sem notaði danskan staðal sem allur almenningur þar í landi skildi: Hvað hægt var að koma mörgum ölkössum í skottið! 

Of fáir ölkassar: Nei, kaupa bíl sem tók lágmarks fjölda.

Á þeim árum sem við Jón bróðir rölluðum á Renault þurfti að hafa samband við sérstakan tengilið hjá verksmiðjunum ytra vegna ýmissa sérmála. 

Með ólíkidum var hve var ómögulegt að ná sambandi við hann. 

Það var ekki fyrr en ég sagði Alberti Guðmundssyni frá þessu, og hann spurði mig, hvenær ég hringdi í þann franska. 

"Oftast eftir hádegi" var svarið hjá mér.

"Já, mig grunar hvaða fyrirbrigði er í gangi" sagði Albert. "Prófaðu að hringja eingöngu fyrir hádegi, helst við upphaf vinnu." 

Ég fór að ráðum hans og vandamálið leystist. 

Árið eftir fórum við bræður í ferð til Parísar í boði verksmiðjanna, sem undruðust gott gengi Renaultsins árið áður á Íslandi. 

Við hittum franska tengiliðinn rétt fyrir hádegi og hann bauð okkur að koma fyrst með sér í hádegismat og taka málið síðan fyrir á skrifstofu hans. 

Yfir hádegisverðarborðinu var skálað fyrir rallakstri á Renault á Íslandi og síðan ók sá franski okkur til baka á skrifstofuna, orðinn rauðeygður af léttvínsdrykkjunni. 

Var nú sest við borð til að fara yfir málin og pappíra þeim tengdum. 

Brá þá svo við að sá franski fór að missa athyglina, sofnað fljótlega sitjandi og seig í lokin fram á borðið svo að "fundurinn" lognaðist útaf í bókstaflegri merkingu. Við skildum hann hrjótandi eftir og litum hvor á annan.

Þarna blasti við okkur það sem Albert hafði sagt okkur.  

 

 


mbl.is Öruggast að drekka ekkert
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Innsæi" ofurmennisins á oddinn, ekki þekkingin.

Grátt var gamanið hjá sjónvarpsmanninum John Oliver í þætti sínum, "Last week tonight", þegar hann dró forseta Bandaríkjanna sundur og saman í háði. 

Skoðun á samtali Trumps við Angelu Merkel leiddi í ljós, að Trump vissi ekki að ESB gerir viðskiptasamninga þá sem Þjóðverjar eiga aðild að, en ekki Þjóðverjar sjálfir. 

Hún leiðrétti forsetann og hefði þá mátt halda að forsetinn skildi það, að um þetta giltu svipaðar reglur og um að að til dæmis gerir Bandaríkjastjórn viðskiptasamninga við erlend ríki, en ekki New York ríki sjálft þótt um sé að ræða vörur þaðan. 

En þessi einfalda staðreynd um viðskiptasamninga var of stór biti fyrir Trump að meðtaka, þannig að hann hélt áfram að endurtaka vitleysu sína í sífellu, og heyra Merkel reyna að leiðrétta hana í hvert skipti, ekki tvisvar eða þrisvar í viðbót, heldur alls ellefu sinnum! 

Skemmtilegt var líka að sjá hvernig forsetinn hafði ráðið núverandi helsta stjórnanda efnahagsmála. Enginn bitastæður kunnáttumaður fannst, en að sögn forsetans sjálfs fór hann bara inn á Amazon við valið. 

Valið hentaði Trump vel, því hinn útvaldi segir helstu kosti og yfirburði forsetans fólgna í því að hann þurfi ekki á neinni hagfræðiþekkingu að halda, heldur noti eingöngu ofurmannlegt innsæi sitt. 

Þetta vantar okkur hér, innsæi og innlit á Barnaland.

Í þessu sjónvarpsspjalli var líka fyndið að sjá og heyra það úr munni forseta "litla mannsins" að nær allir Bandaríkjamenn ættu BMW og þar með þyrfti að breyta því með álögum á þetta vonda fyrirtæki sem stæði í vegi fyrir dýrð og veldi Bandaríkjanna. 

Þessi ummæli lét hann falla í því ríki Bandaríkjanna, þar sem eru stærstu bílaverksmiðjur BMW í heiminum, enda flytja verksmiðjur Benz og BMW út 1,8 milljónir bíla til annarra landa, meðal annars til Kína! 

Helstu efnahagssérfræðingar landsins reyta hár sitt og skegg yfir afleiðingunum af viðskiptastríðsáætlunum forsetans, sem þarf auðvitað ekki á staðreyndum eða ráðum bestu manna að halda, - innsæið ofurmannlega nægir.  

Enda um slíkt ofurmenni að ræða, að það nýjasta hjá honum er að Bandaríkin myndu hrynja ef hann færi úr forsetastóli. 

Meira að segja Hitler, sá mikli einvaldur og "Fuhrer", hafði ekki þetta álit á sér þegar hann fór í stríðið 1939 og greindi frá því að ef hann félli frá, væri hann búinn að velja mann í sinn stað, sem myndi halda stríðinu áfram. 


mbl.is Láta ekki undan pólitískum þrýstingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskur fararstjóri afsakaður með "kunnáttuleysi og vanþekkingu"?

Það hefur löngum verið viðkvæðið í fréttum af umhverfisspjöllum vegna utanvegaaksturs að um útlendinga væri að ræða, sem afsökuðu sig með því að hafa ekki vitað hvaða reglur giltu um slíkt. 

Afar þægilegt fyrir okkur Íslendinga að geta afgreitt svona mál á jafn einfaldan hátt og jafnframt viðhaldið alhæfingum á þessu sviði sem öðrum. 

Þess vegna sperrast eyrun þegar allt í einu vitnast, að "íslenskur fararstjóri" hafi ráðið för í nýjasta málinu og hann jafnframt látinn falla undir afsökunina um "vanþekkingu og kunnáttuleysi." 


mbl.is Íslenskur fararstjóri sektaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað um "Seasons in the sun" og "Green, green grass of home?"

Um miðjan áttunda áratuginn varð lagið "Seasons in the sun" mjög vinsælt víða um heim, líka hér á landi. Sá texti er sorglegur, því verður ekki neitað, en ekki sést hann nefndur í leit að sorglegasta topplaginu, enda var hann kannski ekki á toppi Billbord Hot 100. 

Lagið "Green green grass of home, sem endar með greftrun var líka afar sorglegt". 

Í íslensku útgáfunni var sjúkrahúsdvöl dauðvona sjúklings bætt við harmleikinn. 

"Jesabel" með Frankie Laine um samnefnda ókind og illyrmi var ansi dapurlegt. 

Hér á landi myndi lagið Angelia komast hátt sem dapurlegt lag, að ekki sé minnst á Söng villiandarinnar. 

Raggi Bjarna mundi yfirleitt ekki heiti lagsins og nefndi það Akranesruglið, enda voru línurnar "Angelia, ég á sorg sem engin veit" og aðrar társtokknar ljóðlínur ekki líklegar til að skapa stuð hjá Sumargleðinni.

Margir táruðust þegar Elsa Sigfúss söng lagið við ljóð Davíðs Stefánssonar um verkamannsins kofa þar sem hin sjúka móðir brosti í gegnum tárin og lagið endaði á: "Börnin frá mat en foreldrarnir svelta.  

Dapurlegasta erlenda lagið og líka það viðbjðóðslegasta er líklega lag Tom Lehrer "I hold your hand in mine" sem er hryllilegt gamanlag um limlestingu morðingja. 


mbl.is Hafa fundið sorglegasta topplagið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hér eru upphrópanir um flóttafólk, múslima, "súrefnishóp" og vinstri menn.

Stórar upphrópanir í stíl við þær upphrópanir erlendis, sem nefndar eru í tengdri frétt á mbl.is eiga sér hliðstæður hér á landi. 

Þegar stórbruni varð í Garðabæ í vor voru fyrirsagnir á nokkrum pistlum á íslenskum samfélagsmiðlum um að þar hlytu hryðjuverkamenm á vegum múslima að hafa verið að verki. 

Um annað gæti ekki verið að ræða. 

Fyrir nokkrum dögum var fullyrt í íslenskum pistli að í öllum löndum þar sem múslimar væru, væru múslimskt hryðjuverkafólk. Sá pistlahöfundur eyddi deginum sem hryðjuverkin í Osló og Útey voru framin yfir að fordæma þá múslimsku öfgamenn, sem þar hlytu að hafa verið verki. 

Einn sagði í fyrradag varðandi bílabrunann við Öskju að þar væri um skipulegt verk "hagsmunahóps, sem þyrfti súrefni" og væru "óvinir bílsins" að ræða, en hefði þó ekki farið með strætisvagni til verksins.  

Annar lagði til að gengið yrði hart í málið og lögreglan tæki þá vinstri menn fasta, sem væru foreldrar þessa hyskis. 


mbl.is Kyndir Facebook undir andúð?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af sumum talin í fremstu röð orrustuþotna heims.

Svíar hafa löngum haft þá sérstöðu meðal Norðurlandaþjóðanna að leggja mikið upp úr öflugum hervörnum. Þeir voru eina Norðurlandaþjóðin, sem komst hjá því að vera hernumið í Seinni heimsstyrjöldinni, en nutu sennilega þeirrar sérstöðu að vera eina Norðurlandaþjóðin, sem ekki átti landamæri að stórveldi, - voru svo miðsvæðis, að þeir gátu sig hvergi hrært hvort eð var. 

Á þeim forsendum leyfðu þeir Þjóðverjum að flytja hundruð þúsunda hermanna um afmarkaða leið milli Narvikur í Noregi og Finnlands. 

Hergagnaframleiðsla Svía hefur lengi verið furðu öflug, miðað við stærð þjóðarinnar. 

Á tíma Kalda stríðsins var á bak við það viðleitni til þess að vera óháð stórveldunum um kaup á hergögnum. 

Þannig hafa þeir framleitt orrustuþotur allt frá upphafi framleiðslu slíkra þotna, og voru Tunnan og Viggen meðal þeirra. 

Á þessari öld hafa þeir framleitt orrustuþotu, sem nýtur ansi mikils álits í mörgum fræðiritum og tímaritum um herflugvélar, og heitir kostagripurinn Gripen. 

Ekki þarf annað en að líta yfir afkastatölur og búnað til að sjá í handbókum um herflugvélar að hún sé hugsanlega í allra fremstu röð. 

Ástæðan gæti meðal annars verið sú að síðasta aldarfjórðung hefur sáralítil breyting orðið á samsetningu flugvéla helstu flugherja heims. 

Þótt ætlunin væri að leggja Boeing B-52 sprengjuþotuna til hliðar fyrir hálfri öld, er hún enn við lýði. 

Ástæðan er svipuð og var í upphafi Seinni heimsstyrjaldarinnar. Þá héldu Þjóðverjar að Dornier Do 17 og Heinkel He-111 væru nægilega hraðfleygar til þess að geta hrist af sér árásir orrustuflugvéla. 

Annað kom á daginn vegna hraðra framfara í gerð orrustuflugvéla, og allt stríðið urðu báðir stríðsaðilar að senda sæg af orrustuflugvélum eins og Mustang til þess að fylgja stóru flugvélunum til loftárása. 

Boeing B-52 er við lýði á svipuðum forsendum varðandi varnarskjöld orrustuflugvéla, þrátt fyrir að öll hennar tæpu 70 ár hafi komið fram ýmsir "arftakar."  Hún er langt frá því ein og sér að geta hrist af sér árás tvöfalt hraðskreiðari orrustuþotna. 

Og F-16 og F-15 orrustuþoturnar eru enn á ferðinni, 30 til 40 árum eftir að þær voru hannaðar, sem og Sukhoi þotur Rússa. 

Nú má Saab muna sinn fífil fegri í bílaframleiðslu og Volvo er kominn í eigu Kínverja. 

Það er því merkilegt að Gripen skuli enn virðast vera gjaldgeng til að forða Svíum frá því að einhver stjórnmálamaður þar í landi vitni í Glistrup hinn danska á sinni tíð, sem sagði, að þrátt fyrir veru Dana í NATO væri best að hafa sjálfvirkan símsvara til svara við hugsanlegri áreitni Rússa, þar sem væri endurtekið í sífellu: "Við gefumst upp - Við gefumst upp." 

 


mbl.is Orrustuþota brotlenti í Svíþjóð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefði verið alvarlegri samdráttur á árum áður.

Á þeim tímum, þegar sjávarafurðir voru yfir 90 prósent af útflutningsverðmætumm landsins hefði samdráttur um 15 prósent þótt slæm tíðindi og þörf á að "skjóta fleiri stoðum undir" þjóðarbúskapinn. 

Nú er svona samdráttur staðreynd en vekur nánast enga athygli. 

Frá 1970 var farið inn á braut stóriðju til að gera þetta, en enda þótt fyrstu sporin þættu svo stór, að hægt væri að tala um "stóriðju" var verksmiðjan í Straumsvík aðeins með 33ja þúsund tonna ársframleiðslu eða tíu sinnum minni en álverið á Reyðarfirði framleiðir nú. 

Með alþjóðlegu tilboði 1995 um að selja til stóriðju raforku á "lægsta verði í heimi" og með "sveigjanlegu mati á umhverfisáhrifum" var mörkuð stefna, sem hefur síðan verið ítrekuð í ýmsum yfirlýsingum sem miða að því að framleiða tíu sinnum meiri raforku í landinu árið 2025 en þarf til íslenskra heimila og fyrirtækja. 

Þessi stefna byggðist á fullyrðingunni um það að ekkert annað en stóriðja gæti "bjargað Íslandi." 

"Eitthvað annað" var algerlega fordæmt og hlegið út af borðinu með því að líkja slíku við "fjallagrasatínslu" hjá "lopaliðinu." 

Þrátt fyrir þetta líkt og hófst líkt og af sjálfu sér mesta og lengsta uppgangstímabil í sögu landsins 2011 með margföldun ferðaþjónustunnar. 

Með tilkomu hennar sem bitastæðasta atvinnuvegar þjóðarinnar mildast höggið af 15% minni útflutningsverðmætum sjávarafurða. 

 


mbl.is Verðmæti dróst saman um 15%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bílstjóri flutningabíls með tengivagn í símanum í hringtorgum.

Það hlýtur að verða að gera kröfur til bílstjóra á stórum bílum og rútum, sem gera kröfur um góðan akstur og eru með mörg mannslíf í höndunum varðandi það að sinna akstrinum af vandvirkni.

Fyrir nokkrum árum átti ég leið frá Reykjavík upp á Akranes. Á leið gegnum hringtorgin við Baugshlóð og Langatanga fannst mér aksturlag bílstjóra á stórum flutningabíl með tengivagni sérkennilegt og skapa hættu fyrir aðra vegfarendur, einkum við fyrra hringtorgið þar sem ökumenn máttu hafa sig alla við til að sleppa við árekstur af því að ferlíkinu var ekið afar ónákvæmt einmitt þar sem það tekur hvað mest rými í beygjunum.  

Ég og ákvað því að gera tilraun til að sjá, hvort eitthvað væri að hjá honum og sá í baksýnisspeglinum eftir hringtorgið við Langatanga, að eitthvað svipað hafði gerst hjá honum þar. 

Hann ók eins og bavíani. 

Á leiðini framundan var hægt að komast dálítið fram fyrir hann, nógu langt til þess að með því að snúa við á hringtorginu við Þingvallavegamót gat ég ekið til baka á móti honum. 

Og þá blasti það við, að maðurinn var niður sokkinn í að tala snjallsímann sinn. 

Þótti mér magnað að fyrst hann var á leið út á beina vegakafla skyldi hann ekki klára hringtorgin fyrst áður en símahasarinn byrjaði. 

Af augljósum ástæðum er ekki auðvelt að sjá í návígi úr venjulegum einkabílum hvort bílstjórar hárra og stórra vagna eru uppteknir við snjallsímann.

Það sést frekar þegar ekið er beint á móti þeim. 

Kannski skapar þessi staða þessara bílstjóra fleiri tækifæri en hjá öðrum bílstjórum til að falla fyrir freistingum til að stelast í sima. 

En afleiðingarnar geta líka orðið mjög mun alvarlegri ef illa fer. 


mbl.is Strætisvagnstjóri í síma undir stýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Herdansari með Bin-Laden mynd fyrir framan íslenska utanríkisráðherrann.

Haustið 2003 höfðu Íslendingar skipað sér í hóp "viljugra þjóða" vegna innrásarinnar í Írak, sem margir telja að hafi skapað jarðveginn fyrir hörmungum í Írak og Sýrlandi, meðal annars vegna hernaðar ISIS. 

Halldór Ásgrímsson var utanríkisráðherra og fór í ferð til Mósambík til að kynna sér þróunarhjálparstarf Íslendinga þar. 

Mottökur heimamanna voru einstaklega hlýjar og innilegar og Íslendingum sýnt mikið þakklæti, bæði í fiskvinnslu í Mósabík, hjálparstarfi í fátækrahverfi í Maputo og við byggingu og rekstur heilsugæslustöðvar í Hindane, handan við flóann. 

Í fátækrahverfinu var heldin heilmikil þakkarhátíð, þar sem hinn sérstæði afríski röddunarsöngur og dansar frumbyggja voru eftirminnileg atriði. 

Þetta var aðeins tveimur árum eftir árás Osama Bin-Laden á New York og Washington og því vakti það athygli mína og undrun að sjá, að meðal dansara sem sýndu herdansa af mikilli list beint fyrir framan íslenska utanríkisráðherrann, var einn dansarinn með stóra mynd af Osama Bin-Laden á brjóstinu!  

Undrun mín stafaði fyrst of fremst af greinilegri fávisku dansarans, sem virtist ekki gera sér neina grein fyrir þeirri móðgun við gestina, sem í þessu gæti talist vera falin. 

Að vísu kom það mér ekki á óvart að daður við múslimst hryðjuverkafólk ætti sér ákveðinn hljómgrunn í löndum þriðja heimsins, sem höfðu þurft að búa við kúgun nýlenduherra. 

Á ferð um Eþíópíu fyrr á árinu 2003 höfðu íslenskir trúboðar sagt mér frá því, að áhangendur múslimskra öfgamanna væru furðu lagnir við að dreifa áróðri sínum, meðal annars með treyjum og merkjum, sem væru ekkert ósvipuð því sem sjá mátti á myndum af Che Guevera á hippatímanum. 

Sumum þætti töff að hafa slíkt um hönd, eins og sást á unga manninum, sem dansaði afrískan frumbyggjastríðsdans fyrir hinn langt að komna velgjörðamann, Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra Íslands. 

Það eimir enn víða eftir af andúð frá nýlendutímanum á vestrænu fólki í þróunarlöndunum. 

Þannig fékk George Foreman heimsmeistari í þungavigt í hnefaleikum alla Kongóbúa upp á móti sér fyrir bardagann við Ali, af því að hann hafði með sér gæludýr, sem hatað var þar í landi; hund af því kyni sem belgískir nýlendukúgarar siguðu á innfædda. 

Ali, sem var mun ljósari á hörund en Foreman, fékk alla áhorfendurna að einvígi þeirra til þess að hrópa einum rómi: "Ali! Boma-je!" sem útleggst: "Ali, dreptu hann!" 

Það var ekki furða að svona væri málum háttað þarna, því að nú hefur verið upplýst, að hvergi í nokkurri nýlendu sýndu nýlenduherrarnir meiri grimmd en Belgar gerðu í Kongó. 

Voru hinir drepnu taldir í milljónum þar í landi.

Hefndarhugur er einhver versti eiginleiki mannsins. Í stríðunum á Balkanskaga á síðasta áratug síðustu aldar kom í ljós, að enn var verið að hefna fyrir orrustur og illvirki frá því 5-600 árum fyrr.   


mbl.is Börn í skrúðgöngu klædd sem vígamenn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það verða að vera reglur.

"Ordnung muss sein", "það verða að vera reglur," segja Þjóðverjar og hafa stundum þótt ganga full langt í því. "Við látum engan yfir okkur ráða" hefur hins vegar lengi verið sungið í vinsælu íslensku lagi um Þorskastríðið fyrsta. 

Stundum hefur verið sagt um Svía og Norðmenn, að í Svíþjóð sé allt bannað, nema það sé leyft, en í Noregi sé allt leyft, nema það sé bannað. 

Sennilega ætti þetta frekar við Norðmenn annars vegar og Íslendinga hins vegar. 

Þegar utanvegaakstur hefur verið til umræðu á samfélagsmiðlum, hefur það sjónarmið furðu oft verið viðrað að vegna þess hve mikið sé af ósnortnum söndum og öðru víðerni á Íslandi, sé bara allt í lagi að allir fái að aka hvar sem þeim sýnist. 

"Þetta eru bara sandar" er oft sagt. 

Þetta er ákaflega íslensk sjónarmið þegar það er borið saman við þær reglur sem gilda á hliðstæðum svæðum erlendis. 

Í frægasta jeppaþjóðgarði Bandaríkjanna, Giljalöndum (Canyonlands) sem liggur skammt frá bænum Moab, Mekka jeppakarla þar í landi, er net jeppaslóða sem eru alls 1600 kílómetra langir. 

Það þætti ekki mikið á okkar landi, þar sem talið er að slóðarnir séu meira en 20 þúsund kílómetra langir alls. 

En í "landi frelsisins" ("..land of the free.." í þjóðsöng Banda´rikjamanna) er strangt bann við akstri utan slóðanna í Giljalöndum. 

Og þetta gildir í öllum bandarísku þjóðgörðunum. 

Og engum manni dettur í hug að óhlýðnast. Ég gerði það að gamni mínu, þegar við Helga vorum þarna um síðustu aldamót að spyrja, af hverju ekki mætti aka á landi, sem sýndist bara vera sandauðn og gróðurlítið land. 

Undrunarsvipur kom á starfsmanninn þegar hann svaraði: "Ef allir þjóðgarðsgestir, 730 þúsund á hverju ári, fá alltaf að aka hvar sem þeim sýnist, verður allt útsparkað alls staðar, upplífunin af sérstæðri náttúru svæðisins og hinu ósnortna víðerni þar með eyðilögð og víða verða unnin óbætanleg spjöll."

Hann sagði þetta í þannig tóni, að ég varð skömmustulegur, en lét mig hafa það að spyrja svona eins og kjáni, af því að

"þar sem enginn þekkir mann /

þar er gott að vera /

því að allan andskotann /

er þar hægt að gera."


mbl.is „Þetta er bara ömurlegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband