Veipið líka! Gat nú verið!

Veipið átti að vera allra meina bót og algerlega hættulaust. Þar á undan áttu tóbaksreykingar fyrstu áratugi þess siðar að vera hreystimerki. 

Plastið átti að vera óbrigðult galdraefni á alla lund með engum aukaverkunum. 

En ætli það sé ekki oft þannig, að það sem ekki var í góðu gildi i gamla frumskógarsamfélaginu geti verið varasamt. 

En því miður tekur oft heldur langan tíma til þess að slæmar afleiðingar neyslu ýmissa uppfinninga komi í ljós. 


mbl.is Fyrsta veip-tengda dauðsfallið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað varð um bílana?

Eitt af atriðunum í borðanum efst á mbl.is var "bílar." Nú finn ég þá ekki. Eru þeir farnir?

Hvað um það, farkostur minn í dag verður í reynsluakstri á einum að nýjustu rafbílunum á íslenska markaðnum. 


mbl.is Nýtt útlit á mbl.is
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Sama hvort smáþorpið heitir Sauðárkrókur eða Reykjavík."

Ofangreinda setningu hafði Einar K. Guðfinnsson hér um árið eftir útlendingi, sem hafði flust frá einni af stórborgum Evrópu til Sauðárkróks, og var spurður, hvers vegna í ósköpunum hann hefði flust til Sauðárkróks en ekki Reykjavíkur, úr því að hann flutti til Íslands á annað borð. 

Í orðum útlendingsins lá svipuð meining og i viðtalinu á mbl.is við japanskan ítala frá New York, sem flutti til Seyðisfjarðar frá New York. 

Munurinn á stórborgunum á þéttbýlustu svæðum meginlandanna austan hafs og vestan og íslenskum bæjum og þorpum er einfaldlega svo gríðarlegur, að munurinn liggur í því lifað sé á eyju "fjærst í eilífðar útsæ" eða í þrengslum milljónaborga meginlandanna. 


mbl.is „Tek Seyðisfjörð fram yfir New York“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skosk Bónusleið, ein þjóð í einu landi.

Síðuhafa minnir að fyrir nokkrum árum hafi það viðmið verið sett í innanlandssamgöngum að hvergi á landinu þyrfi ferðatími til Reykjavíkur að vera meiri en þrjár klukkustundir. 

Þetta var nú gott og blessað, en hins vegar lítils virði ef ferðakostnaðurinn kæmi í veg fyrir að viðkomandi ferðamáti væri nýttur. 

Nú fyrir fáum dögum var minnst á það í fjölmiðli að flugfar frá Egilsstöðum til Reykjavíkur gæti verið ódýrara en ákveðið flug til fjarlægrar borgar í Evrópu.  

Hvað, sem því líður, er augljóst að mismunurinn á ferðakostnaði landsmanna innanlands ýtir undir það fyrirbæri, sem stundum hefur verið kallað að það búi fleiri en ein þjóð í landinu þegar ýmis kjör landsmanna eru skoðuð, svo mikill geti aðstöðumuruinn verið. 

Bónus hefur löngum auglýst að sama verð sé á vörum verslunarinnar alls staðar á landinu. 

Ef fyrirtæki getur staðið að slíku, hljóta stjórnvöld landsins að geta gert svipað og gert er í Skotlandi. 


mbl.is Skoska leiðin strax á næsta ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimaslóðir grænasta bíls Íslands?

Boðuð kynnisferð fyrir áhugamenn um hraðskreiða og fallega sportbíla í Mótordalinn svonefnda á Ítalíu í haust heillar síðuhafa óneitanlega, þótt hann muni varla fara þá ferð. Tazzari-Landcruiser

Ástæðan er ekki eingöngu að þetta séu slóðir ítölsku stálgæðinganna Ferrari, Maserati og kó, sem seint verða kenndir við að vera sérlega umhverfisvænir,  heldur ekki síður sú, að rafbíllinn Tazzari, sem er minnsti, léttasti, ódýrasti og líklega grænasti bíll landsins, er framleiddur í Mótordalnum í borginni Imola, rétt hjá hinni frægu kappakstursbraut. 

En þessi litli og sniðugi rafbíll hefur verið helsta farartæki síðuhafa síðustu tvö og hálft ár og staðið sig vel. 

Hann tekur tvo í sæti á þægilegan hátt, nær 90 km hraða og fer 90 km á hleðslunni. 

Í tímabili voru enn smærri rafbilar, Microlino, framleiddir hjá Tazzari, en hinir svissnesku hönnuðir og framleiðendur Micronlono hafa nú fært framleiðslu þeirra bíla norður fyrir Alpafjöll.  


mbl.is Halda á slóðir ítalskra ofursportbíla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gátan um Knebel og Rudloff.

Vitað er um tvo menn sem hafa farist í Öskju, þýsku vísindamennina Knebel og Rudloff 1907. 

Þeir voru við rannsóknir á lélegri fleytu á vatninu, en þegar þeirra var vitjað, voru þeir gersamlega horfnir og hafa aldrei fundist. 

Á þeim tíma var Askja lítt þekkt og því gæti verið að tiltölulega lítil skriða úr vatnsbakkanum hafi nægt til að sökkva þeim ef þeir hafi verið alveg upp við land. 

Minnisvarði um þá er við vatnið. 

Jón Jónsson heitinn jarðfræðingur taldi sig hafa fundið merki um skarð í bakkanum. 

Eftir hvarf belgísks kajakmanns í Þingvallavatni má álykta, að stundum þurfi ekki mikið til að svona atburðir gerist. 

Frá hvarfi Knebels og Rudloffs þykir reimt á þessum slóðum, samanber þessar hendingar í ljóðinu Kóróna landsins:  

 

...Beygðir í duftið dauðlegir menn

dómsorði skaparans hlíta. 

Framliðnar sálir við Öskjuvatn enn 

sig ekki frá gröf sinni slíta...

 

Höll íss og eims; 

upphaf vors heims. 

Djúp dularmögn, 

dauði og þögn...


mbl.is Flóðbylgjan allt að 80 metrar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skipulagning vindorkuframleiðslu 20 árum á eftir tímanum.

Um síðustu aldamót var hafist handa við fyrstu rammaáætlun um nýtingu jarðvarma og vatnsafls, sem síðan hefur verið unnið að. 

Eins og heitið bendir til er ekki orð um vindorku. 

1993 hafði þáverandi iðnaðarráðherra fram ítarlegt yfirlit yfir orkuvinnslukosti á Íslandi, og ekki var heldur orð þar um vindorku. 

Málin standa nokkkurn veginn svona enn í dag hér á landi, þannig að enn í dag eru landið allt, allt frá miðhálendinu og jafnvel út á grunnsævi við strendurnar nær algerlega undir án nokkurrar yfirsýnar varðandi þennan orkukost.   


mbl.is Mæta orkuþörf heimsins með vindorku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvílík breyting á sumrin á nokkrum árartugum!

Ef lesinn væri upp listi yfir allar þær menningar- og bæja- og byggðahátíðir, sem nú eru orðnar fastur liður í lífinu hér á landi á sumrin, myndi sá langi og stóri listi stinga heldur betur í stúf við sams konar lista frá því fyrir 30 til 40 árum. 

Sumarið virðist raunar vera heldur stutt til þess að mæta eftirspurninni, helgarnar of fáar. 

Ekki er munurinn minni varðandi þátttöku fólksins, þar sem á fjölda stærstu hátiðanna koma hátt í hundrað þúsund manns.  

Svona á þetta að vera! Nauðsyn þess að kunna að gera sér dagamun er mikil í önn og erli nútíma þjóðfélags, ekki síður en hvíldardagurinn var nauðsyn á dögum Krists. 

 


mbl.is Mikil gleði í miðborginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kaupum fossa og fjöll...?

Flosi Ólafsson söng eitt sinn þessar ljóðlínur sínar í orðastað íslenskra valdamanna: 

 

"Seljum fossa og fjöll; 

föl er náttúran öll, 

og landið mitt taki tröll!"

 

Viðskipti af þessu tagi virðast Bandaríkjaforseta afar hugleikin, þannig að af hans hálfu og hans manna gætu upphafslínur Flosa hljóðað svona: 

 

"Kaupum fossa og fjöll! 

Föl er náttúran öll, 

segir Trump, valdatröll.

 


mbl.is Repúblikanar selja Grænlandsboli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað og þegar reynt var að fella Sullenberger.

Þegar verið var að athuga nauðlendingu Sullenbergers flugstjóra á Hudson ánni og finna það út, að hann hefði gert gróf mistök með henni, því að auðvelt hefði verið fyrir hann að fljúga til lendingar á tveimur flugvöllum, var atvikið sett í flughermi þar sem flugstjórar sýndu fram á að lending á flugvöllunum hefði verið möguleg. 

Sullenberger hélt því fram að uppsetningin í flughermunum hefði verið óraunhæf, því að reiknað var með því að hinir þrautreyndu flugstjórar tækju þegar í stað rétta ákvörðun á jafnskömmum tíma og tölvustýrðir róbótar. 

Sullenberger fór því fram á raunhæfari prófun og færði að því rök, að við hinar raunverulegu aðstæður hefði þurft 38 sekúndur fyrir venjulegan flugmann til þess að rekja sig áfram til niðurstöðu. 

Í ljos kom, að miðað við raunhæfar aðstæður var ómögulegt að komast til flugvallanna og að meira að segja hefðu flugstjórarnir í flughermunum, þótt þeir tækju ákvörðun á augabragði, þurft allt að 19 tilraunir til þess að geta komist til vallanna, jafnvel þótt þeir hefðu stefnt þangað samstundis. 

Nú virðist svipað vera uppi varðandi viðbrögð flugmanna við aðstæðum sem ollu flugslysunum á Boeing 737 Max.  

Það verða ekki aðeins þrautreyndir og færustu flugstjórar, sem verða látnir bregðast við aðstæðum, heldur einnig lítt reyndir flugmenn með viðeigandi flugréttindi.  

Það er eina raunhæfa leiðin, því að það eru ekki eingöngu færustu og reyndustu flugmennirnir sem fljúga þessum þotum. 

Sullenberger benti á það í vörn sinni að það væru ekki róbótar sem flygju þotum, heldur venjulegir menn. 


mbl.is Óreyndari flugmenn prófi hugbúnaðinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband