Svali sjávarins hefur oft mikil áhrif á veðrið.

Á hlýjum sólríkum dögum hitnar landið upp og heitt loft, sem er léttara en kalt, stígur upp. 

Við það myndast rými sem dregur loft af sjónum inn á landið, og sé nægur raki í loftinu, þéttist hann og verður að þoku. 

Fyrirbærið er alþekkt á stöðum eins og Patreksfirði, þar sem svokölluð "innlögn" kemur oft um miðjan daginn, svo að það verðir hrollkalt í svölum stinningskaldanum á sama tíma og hið upphitaða svæði á norðurströnd, sem skóp hitauppstreymi þar, heldur áfram að ylja meðan sólar nýtur. 

Á Akureyri er hafgolan byrjuð að sækja til suðurs, eða frameftir eins og það er kallað þar, um hádegisbil en er smá tíma að komast alla leið til inn í það rými, sem hitnaði upp og kom golunni eða kaldanum af stað.Faxaflói, sólarlag 22.8.2020

Þetta á við um marga firði hér á landi, jafnvel smærri firði eins og Skerjafjörð og Kollafjörð. 

Þekur þokan þá stundum sjóinn, en nesin á milli Hafnarfjarðar, Skerjafjarðar og Kollafjarðar haldast hrein á meðan sólar nýtur. 

Eftir því sem sólin lækkar á lofti, sækir þokan á og getur fyllt allt Reykjavíkursvæðið upp og sömuleiðis myndast eftir sólarlag á Suðurlandsundirlendinu.     

Stærðar landsvæði eins og Borgarfjarðarláglendið og Suðurlandsundirlendið skapa oft mikið kalt vindstreymi úr norðri og norðvestri sem berst hratt allar götur norðan úr Húnaflóa og af Faxaflóa.  P.S. En þokan er þrátt fyrir svona algengustu meginstrauma óútreiknanleg, því að eftir að hún var búin að leggjast inn eftir Seltjarnarnesi í dag brá svo við í kvöld, að flóinn var allur heiðríkur í lognværri kyrrð, eins og sést á þesari mynd, sem að vísu hallar aðeins, en það er vegna bilaðs skjás á myndavélinni. 


mbl.is Þokubakki læðist inn í höfuðborgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Allt orkar tvímælis þá gert er."

Bjarni heitinn Benediktsson mælti stundum þessi orð þegar rökrætt var um eða deilt um störf stjórnmálamanna. 

Máltækið lýsir ýmsum hliðum og sviðum stjórnmála og þjóðlífs, meðal annars þeirri, að eitt meginatriði lýðræðisins sé að upplýsandi og gagnleg umræða fari fram um störf og aðgerðir stjórnmálamanna.  

Rökræðan snýst oft um útfærslur aðgerða frekar en meginatriði, eins og sóttvarnir og takmarkanir á frelsi. 

Þá getur notkun talna oft tekið á sig villandi eða umdeilanlega mynd. 

Sem dæmi má nefna hrifningu sumra yfir þeirri leið sem Svíar fóru, og er það nefnt sem dæmi að í Svíþjóð séu dauðsföll af völdumm COVID-19 nokkuð færri en í Bretlandi, og það nefnt sem röksemd fyrir því að við hefðum átt að fara leið Svía. 

Nær hefði verið að nota samanburðartölur við Ísland, þar sem mikilvægasta talan er sláandi: 

Hingað til hafa 27 dáið hér á landi úr COVID-19 á hverja milljón íbúa, en 570 í Svíþjóð.  

"Árangur" Svía hefur fram að þessu skilað meira en 20 sinnum hærri dánartíðni en hér á landi, og fórnarkostnaðurinn að þessu leyti sláandi. 

Hefðum við viljað sætta okkur við 200 látna úr veikinni hér á landi?

Má segja að fórnarkostnaður Svía felist í meira en 5000 sænskum mannslífum og heildardánartíðni í Svíþjóð er sögð vera meiri það sem af er þessu ári en hún hefur verið á sama hluta árs í 170 ár. 

 


mbl.is Gagnrýnin á fullan rétt á sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Átti að verða fyrsta einkavélin, sem ekki væri hægt að magalenda.

Eftir að Piper PA-28 kom fram á sjónarsviðið um 1960 var hún það vel hönnuð hjá hönnuðinu Fred Weick, að enn í dag er verið að smíða ný afbrigði af henni, svo sem dísilknúna vél. 

Weick afrekaði það 1937 að hanna lágþekju, sem ekki þurfti fótapedala, því að hún var ekki með hliðarstýri. Í Fyrri heimsstyrjöldinni misstu margir flugmmenn fæturna í brotlendingum, en þeir gátu flogið þessari tveggja manna vél, sem hét Ercoupe. 

Hæðarstýri hennar voru þannig hönnuð, að þá átti ekki að vera hægt að láta hana ofrísa eða fara í spuna. Fyrir bragðið varð að vera á varðbergi að fletja flugið við lendingu nógu vel út til að lenda ekki of harkalega. 

Þess má geta að eitt afsprengi Cherokee er tveggja hreyfla og hefur talsvert verið notuð í flugkennslu, auk þess sem hún var löngum einhver hagkvæmasta tveggja hreyfla einkavélin. 

Þegar gerð var Cherokee vél með uppdraganlegum hjólin, var hún með búnaði, sem var þannig hannaður, að ekki væri hægt að magalenda henni. 

Skynjari var neðan á vélinni, sem nam lofthraðann, og færi hann niður fyrir ákveðinn hraða, setti vélin sjálf niður hjólin þótt flugmaðurinn gleymdi því. 

En það var hér á Íslandi, sem slíkri vél var samt í fyrsta skipti lent á maganum og gerðist það á Reykjavíkurflugvelli. 

Flugmaðurinn gleymdi að setja hjólin niður en kom of lágt inn til lendingar vegna þess hvað hún var hlaðin og gaf fullt afl til þess að forðast harkalega lendingu. 

Hreyfillinn dældi svo miklu lofti á fullu afli í gegnum skynjaran að hann sýndi mun meiri hraða en hinn raunverulega alveg niður undir jörð, og þegar flugmaðurinn dró af aflinu, var vélin komin svo nálægt, að hjólin komust ekki alla leið niður svo að vélin magalenti. 

Þetta var fyrir um hálfri öld og búnaðurinn var lagður niður. 

Nú geta flugmenn þvi magalent svona vélum eins og atburðurinn á Ísafirði sýnir.  


mbl.is Sneru við vegna magalendingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löngu tímabær rannsókn á smithættu og smitleiðum.

Þrennir tónleikar í Þýskalandi til þess að rannsaka smithættu og smitleiðir hefði mátt fara fram nokkrum mánuðum fyrr.  

Hingað til hafa ágiskanir verið látnar ráða að mestu, og þar koma mörg vafaatriði til greina. 

Sumt virðist ekki vera ljóst, eins og það, hvaða áhrif hreyfing lofts, svo sem vindur, hefur á það hvernig öndunarloft einstaklinga berst á milli þeirra. 

Á meðan reykingar voru algengari var oft hægt að sjá á reyknum frá reykingamönnum, hvernig hann gat annars vegar borist mun lengri vegalengd en tvo metra undan vindi, en haldið sig við reykingamanninn þeim megin sem vindurinn stóð upp á hann. Hafa má reynslu fyrri ára til hliðsjónar að þessu leyti. 

Síðuhafi lenti fyrr í sumar í því, að berast með hópi fólks upp þröngan stiga í húsi og augljóst var að 2ja metra reglan var þverbrotin. 

Of seint var að snúa við þegar komið var upp á fyrsta stigaþrep, því að þá þurfti að ganga á móti másandi fólki. 

Skásta ráðið var því að neyta fyrsta færis til að koma sér fyrir í skoti til hliðar á annarri hæð og bíða þess að hersingin færi öll framhjá. 

 


mbl.is Halda þrenna tónleika í rannsóknarskyni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótsögnin að ógn og vandi ýta oft undir framfarir. Vörn snúið í sókn.

Það er þekkt fyrirbæri hver mjög tækni eflist á stríðstímum, þótt stríð sé í sjálfu sér neikvætt fyrirbæri. Það stafar af því neyðarástsnd stríðs og hernaðar eflir vilja til að leysa vandann og vinna bug á ógninni og það skilar sér oft í framförum, sem ná langt út fyrir hernaðinn sjálfa

Í báðum heimsstyrjöldunum urðu stórstígar framfarir í flugi, sem skiluðu sér eftir stríð í friðsamlegu farþegaflugi og flutningaflugi. 

Svipað gerist á mörgum öðrum sviðum. Sjúkdómar hafa verið bölvaldar mannkynsins frá örófi alda, og því afar neikvæðir í sjálfu sér. 

En baráttan við þá hefur skilað framförum út fyrir innra svið einstakra sjúkdóma og fötlunar. 

Í heimi íþróttanna hefur oft sannast, að mesti meistarinn er ekki sá, sem á lengsta sigurgöngu á hverjum tíma, heldur ræður úrslitum, hvernig unnið er úr ösigrum þegar vörn er snúið í sókn. 


mbl.is „Við erum á bólakafi í þessu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það þarf skýrari rökstuðning fyrir miklum tilslökunum.

Sjá má ansi marga halda því fram á netmiðlum, að sóttvarnarreglur með miklum takmörkunum á frelsi einstakleinga séu hrein árás á einstaklingsfrelsið og jafnvel stjórnarskrárbrot. 

Frelsi einstaklingsins vegi þyngra en hömlur og bönn. 

Aðrir stagast á því að þessar sóttvarnaraðgerðir séu sprottnar frá hinu illa ESB og beint gegn fullveldi landsins. 

Nú er það svo, að enda þótt margir þessara harðorðu einstaklingshyggjumanna virðast ekki hafa lesið öll fræði helstu boðbera þeirrar stefnu, sem hefur verið orðuð á ýmsa lund, svo sem að "frelsi eins endar þar sem frelsi annars byrjar."  

Eða þá að fræg stefnumarkandi ræða Roosevelts í upphafi þátttöku þjóðar hans í Seinni heimsstyrjöldinni þar sem fjórar tegundir frelsis skiptust í tvennt: Annars vegar frelsi til skoðana og tjáningar þeirra og trúfrelsi, en hins vegar frelsi f skorti og frelsi frá ótta.  

Þá hugsun má orða í viðara samhengi, svo sem frelsi frá því að vera smitaður af þeim, sem telja frelsi sitt ekki aðeins fólgið í því að mega ráða því sjálfir, hvaða áhættu þeir taki í þessum efni varðandi eigin heilsu, heldur krejfast líka frelsis til að afnema þær leiðir, sem aðrir hafa til að verjast ógninni og þar með frelsis til þess að smita aðra.  

Gott væri að sjá töluleg rök þessara miklu baráttumanna fyrir frelsi fyrir því að bakka til baka í sóttvörnum.  

Hvernig gekk það, þegar það var gert 15. júní? Og þegar bent er á að við ráðum engu um það hvað aðrar þjóðir geri gagnvart ferðum til Íslands, er ekki nóg að afgreiða það sem sífellda aðför og yfirgang ESB gagnvart okkur. 

Þegar íslensk yfirvöld telja sér skylt að vara við eða mæla með ferðum okkar til annarra landa sem eru með vaxandi smit og dauðsföll; er það þá yfirgangur okkar og aðför gegn fullveldi þeirra ríkja, sem ráða för hjá okkur?

Það þarf meira en upphrópanir í þessum umræðum.  Eða hvernig útskýra þessir miklu frelsispostular það að þegar sóttvarnarráðstefanirnar voru hvað mestar, fækkaði smitum og dauðsföllu svo mjög að athygli vakti og aðdáun víða um lönd og Ísland var sett á grænan lista varðandi ferðir útlendinga hingað, en síðan þegar slakað var verulega á hömlum í tveimur skrefum, fór ný bylgja veirunnar af stað, sem hrakti okkur út af þessum græna lista, sem síðar var gerður gulur til að sýna, að algert frelsi og aðgerðarleysi í þessum efnum mun á endanum skaða alla á heildina litið.  

Gott væri að sjá tölur, sem styðja ákafann í að sleppa öllu sem mest lausu. 

 


mbl.is Ginnungagap á milli sjónarmiða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enskt nýyrði: "Cabinetcorona."

Orðið stjórnarkreppa á íslensku útleggst sem cabinetcrisis á ensku. 

Þótt ríkisstjórnin hafi orðið fyrir búsifjum í nokkra daga, er þó vonandi ekki nein stjórnarkreppa í gangi. 

En kannski má finna heiti yfir það fyrirbrigði, sem nú er í gangi, svo sem "cabinetcorona" á ensku, og stjórnarsóttkví á íslensku. 

Fátt toppar enska forsætisráðherrann, sem lét sem ekkert væri fyrstu veirudagana þar í landi, og tók í hendurna á þúsundum með þeim afleiðingum að fá svo mikið magn af veirunni í sig, að hann þurfti að fara á gjörgæslu á tímabili. 

 


mbl.is Brugðist við með skýrum og fumlausum hætti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt smit - einni ríkisstjórn of margt.

Fyrir þremur dögum var fyrisögn pistils hér á síðunni: "Eitt smit, einu smiti of margt" og var meiningin sú, að eitt smit gæti haft komið af stað jafn miklu hópsmiti og mörg smit. 

Nú hefur þetta sannast illilega eftir heimsfrægan ríkisstjórnarfund, því að auðvitað mun það fljúga um heimsbyggðina að næstum heil ríkisstjórn hafi verið kyrrsett í skimun og sóttkví, jafnvel þótt það sé ríkisstjórn einhverrar fámennustu þjóðar heims. 

Þegar upp kemur þremur dögum eftir hinn fræga ríkisstjórnarfund, að tíu smit sé fundin á því svæði, þar sem fundurinn var haldinn, sýnist hér vera um alveg einstaka óheppni að ræða og hugsanlegt að þessu hefði verið öðruvísi farið, ef fundurinn hefði til dæmis verið haldinn uppi í Borgarfirði. 

 


mbl.is „Ég er bara farin heim til mín“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Til skræk og advarsel."

Í gamla daga, þegar danskan sótti að íslenskunni á svipaðan hátt og enskan gerir núna, voru ofangreind þrjú orð handhæg til þess að lýsa því, sem býr að baki, sem hefur verið í gangi á valdatíma Vladimirs Pútins í Rússlandi.  

Um Pútín gildir það sem eitt sinn var sagt um íslenskan höfðinga, að "enginn frýr honum vits, en mjög er hann grunaður um græsku."  

Á Stalínstímanum týndu eitthvað á bílinu tíu til þrjátíu milljónir manna lífi, eftir því hvernig mannfallið var metið, beint eða óbeint. 

Enginn gat verið óhultur um líf sitt og þessi terror var aðferð Stalíns til að halda einræðisvöldum sínum.  

Sem dæmi um áhrifamáttinn má nefna, að þegar her Hitlers sótti hratt í áttina til Moskvu, flúði Stalín út fyrir borgina og lét sig hverfa í nokkra daga. 

En næstráðendur voru orðnir svo gersneyddir sjálfstrausti eða helteknir af tortryggni, að þeir þorðu ekki að taka við af stálmanninum heldur leituðu til hans um að taka aftur við einræðisforystunni. 

Eftir Stalín er haft: "Að drepa einn er morð; að drepa milljón er tala."   

Pútín er útsmognari og notar aðferð, sem virðist virka jafnvel, en þó með margfalt minna mannfalli. 

Í stað þess að stráfella ákveðna hópa, eins og Stalín gerði við foringjahópinn í Rauða hernum rétt fyrir Heimsstyrjöldina, virðist Pútín eða handbendi hans velja úr ákveðna einstaklinga, sem eru í þeirri stöðu, að dráp þeirra hefur hámarks fælingarmátt. 

Alexei Navalni og Anna heitin Politkovskaja áttu það sameiginlegt að vera svo skæðir andstæðingar, að dráp þeirra náði hámarksáhrifum varðandi "skræk og advarsel". 

Hún var blaðakona, sem var skotin fyrir að skrifa bókina Rússland Pútíns, sem lýsti hinu spillta einveldi þannig, að jafnvel þótt hún væri myrt, er þessi bók skyldulesning fyrir þá sem vilja kynna sér stjórnarfarið eystra. 

Það er dregin lína: Hingað og ekki lengra; ef viðkomandi beygir sig ekki fyrir ógnarhótuninni, veit hann hver áhættan er.

Og heildarárhrifin á stjórnarandstæðinga verða ekki minni en milljóna fjöldamorð Stalíns höfðu.   

 


mbl.is Ætla að fljúga til Síberíu í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað felst í kortinu yfir "rauða spjaldið"?

Kortið, sem birt er yfir svokallað "rauða spjald" varðandi óörugg lönd til að ferðast til, er birt í frétt, sem er skilgreind sem erlend frétt. 

Enda er þetta kort hins norska sóttvarnarlæknis yfir lönd, sem mælt er gegn að fara til. Rauða spjaldið

Skilgreiningin er sú hjá honum, að ef smit eru fleiri en 20 á hverja milljón íbúa síðustu tvær vikur, sé viðkomandi land sett á rauðan lista. 

Fyrri part sumars var Ísland ekki á þessum lista, en lönd eins og Ítalía voru eldrauð. 

Nú hefur dæmið snúist við og Ítalía er á meðal rúmlega tíu svæða í Evrópu, sem eru lituð gul á þessu korti, sem stýrir utanlandsferðum Norðmanna. 

Smittalan á Íslandi, sem Norðmenn ganga út frá varðandi Ísland, hefur síðustu vikur verið langt yfir settum mörkum Norðmanna, sem eru sjálfir á gulum lista. Og nú hafa fimm ný lönd eða svæði verið tekin inn á rauða listann. 

Það er vegna of margra smita hér á landi, sem við erum á svona lista í öðrum löndum, burtséð frá því hvort skimað er mikið eða lítið. Þetta verður að hafa í huga þegar sóttvarnalæknir okkar er gagnrýndur fyrir að sinna því hlutverki sínu að reyna að fækka smitunum, sem öllu ráða. 

Önnur lönd eru með svipaðan lista og Noregur og við sjálf vafalaust líka með svona lista yfir aðrar þjóðir. 

Þegar við fögnuðum því í vor að vera í fararbroddi þeirra þjóða, sem með samstilltu átaki komust á gulan lista fyrr í sumar og héldum upp á það og nýttum okkur það, reyndist það síðar koma í bakið á okkur í formi stórfjölgunar smita. 


mbl.is Fleiri fá rauða spjaldið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband