Gumað af gömlum hitaveituframkvæmdum.

Á árunum 1975 til 1990 fór að mestu fram sú uppbygging á nýtingu jarðhita til húsahitunar sem talsmenn Íslendinga guma af hvar sem þeir geta og láta líta svo út sem að þetta höfum við verið að gera þetta nýlega af hugsjónaástæðum.

Hið rétta er að eingöngu peningasjónarmið lágu að baki hitaveituframkvæmdunum. Orkan var einfaldlega ódýrari heldur en ef brennt var kolum eða olíu.

Bílaflotinn á Íslandi mengar líklega meira á hvern íbúa en í nokkru öðru landi í Vestur- og Norður-Evrópu og til að tala niður það, sem hægt er að gera í samgöngum, eru reiknaðar inn í mengunartölur losunar, sem varð á seinni hluta síðustu aldar vegna þess að grafnir voru 32 þúsund kílómetrar af skurðum til að ræsa fram votlendi, en aðeins 14% af hinu uppþurrkaða landi var gert að túnum.

Talsmenn Íslendinga sýna myndir af Hellisheiðarvirkjun sem dæmi um hreina og endurnýjanlega orku, þegar við blasir, að nýting jarðhitans, sem leystur er úr læðingi, er innan við 15%, en 85% fara til einskis út í loftið, aðeins er gerð krafa um að orkan undir Nesjavalla-Hellisheiðarsvæðinu endirst í 50 ár og hún er þegar farin að dvína.

Og orkan er ekki hreinni en svo að mengun vegna brennisteinsvetnis hefur verið meiri en mengun frá álverum og verið við heilsuverndarmörk í austustu byggðum höfuðborgarsvæðisins.

 


mbl.is Erum ekki í „stórskuld við umheiminn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíu hjóla trukkurinn á Steinum flaug hér um árið.

Þegar ég var tæplega fjögurra ára brá svo við að byrjað var að lesa veðurfregnir í útvarpinu eftir fimm ára hlé, vegna banns Breta við því að Þjóðverjar fengju með þessu mikilvægar hernaðarlegar upplýsingar.

Ég man þetta óljóst en þó einkum það þegar þulurinn sagði: "Rok undir Eyjafjöllum."

Ég spurði afa Ebba hvað þetta þýddi og hann útskýrði fyrir mér að vindurinn þar gæti orðið svo óskaplega mikill að hann yrði miklu meiri en hjá okkur í Reykjavík.

Undir Eyjafjöllum gætu bæði fólk og bílar fokið. Ég fylltist óttablandinni virðingu fyrir Eyfellingum við að hlusta á lýsingu afa.  

Hálfri öld síðar kom svo að því að ég fengi að sjá áþreifanleg ummerki um það hve afspyrnuhvasst getur orðið undir Eyjafjöllum þegar ég fór að bænum Steinum og tók myndir fyrir sjónvarpsfréttir af tíu hjóla trukk, sem hafði tekist á loft í óveðri, þar sem hann stóð skammt frá bænum, flogið í einum áfanga nokkur hundruð metra og hlammað sér niður á túnið án þess að koma nokkurs staðar við á leiðinni.

Útilokað var að neitt annað en Kári hefði flutt bílinn, því að hann kom niður á deigu túni, þar sem engin för sáust.

Máttur skýstrokka og hvirfilbylja getur verið óhugnanlegur.

Árið 1961 vorum við Tómas Grétar Ólason á leið frá Reykjavík upp á Hvalfjarðarströnd til að skemmta þar.

Mjög hvasst var á suðaustan og þegar við vorum komnir nokkur hundruð metra norður fyrir Tíðaskarð, skall á slíkur skýstrokkur, að Grétar stöðvaði bílinn, sem var átta manna bíll af gerðinni International, varla minna en tvö tonn.

Grétar réði ekki við bílinn, sem fór að hoppa á veginum eins og hann væri að losna frá jörðu, og snúast þegar skýstrokkurinn fór yfir hann.

Allt í einu kom hár hvellur þegar húddið á bílum losnaði, hófst beint upp og hringsnerist þegar það skrúfaðist hátt, hátt upp.

Við horfðum sem dáleiddir á þetta út og upp um framrúðuna og varð ekki sum sel þegar húddið kom jafn hratt niður rétt fyrir framan bílinn.

Það var furðulegt að horfa beint niður í vélarhúsið og sjá hvernig festingarnar fyrir húddið höfðu klippst í sundur.

Hinn lóðrétti lyfti- eða sogkraftur var ótrúlegur.     

 

 

 

 


mbl.is Skýringar fundnar á flugi bílanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný og hugsanlega betri staða ef álverinu yrði lokað?

Þegar deilt var um´Kárahnjúkavirkjun fyrir 14 árum bentu andstæðingar hennar á það, að Kínverjar hyggðust reisa svo mörg álver, að Vesturlönd yrðu ekki samkeppnisfær og álver í Evrópu því á útleið.

Þessu andmæltu áltrúarmenn harðlega og fyrstu árin eftir opnun álversins í Reyðarfirði virtist tvísýnt um kínversku álverin. 

En nú er veruleikinn að koma í ljós, sá hinn sami og andmælendur Kárahnjúkavirkjunar bentu á.

Komin eru á sviðið fyrirtæki sem vilja borga hærra verð fyrir orkuna en álverin og stunda minna orkubruðl en álverin.

Í viðræðum um sæstreng er verið að ræða um enn hærra orkuverð og markaðurinn fyrir orkuna er á hreyfingu eins og talsmaður starfsmanna í álverinu í Straumsvík bendir á.

Eigendur álversins hótuðu lokun 2007 ef þeir fengju ekki sínu framgengt og svipuð hótun er í loftinu nú.

2007 gripu þeir til þess að endurbæta álverið en nú segja þeir að þær ráðstafanir hafi ekki borið tilætlaðan árangur.

Það kann að sýnast mikil röskun, ef álverinu verðu lokað til frambúðar, en jafnvel þótt menn ýki starfsmannatöluna eins hressilega og Jón Gunnarsson gerir, er hún aðeins lítið brot af þeirri fjölgun starfa sem ferðaþjónustan færir okkur á hverju ári.

Og það vinna líka starfsmenn í gagna- og kísilverum, sem vilja borga skárra orkuverð og jafnvel betra fyrir raforkuna, sem nú fer til Straumsvíkur, þannig að henni verði ráðstafað betur.

Álversdeilan hefur þegar leitt það í ljós, að álver eru ekkert tryggari atvinnukostur en flestir aðrir í nútíma þjóðfélagi þar sem breytingar eru hraðar.

Ég var eindregið fylgjandi álverinu í Straumsvík fyrir hálfri öld þegar það kom inn í staðnað, einhæft og frumstætt íslenskt efnahagskerfi. Þá vantaði okkur sjálf rafmagn fyrir íslensk heimili og fyrirtæki og rafmagnið frá Búrfellsvirkjun var ódýrara og meira en nokkur annar kostur.

Vegakerfi landsins var fólgið í mjóum og krókóttum malarvegum og 97% gjaldeyristekna kom frá sjávarútvegi.  

Nú er staðan gerbreytt en áltrúarmenn standa eins og steintröll sem hefur dagað uppi.

1965 voru öll eggin í gjaldeyrisöflunarkörfunni hjá sjávarútveginum. Núna eru um 80% eggjanna hvað varðar orkusölu í álverunum, en ferðaþjónustan er farin fram úr álverunum hvað snertir gjaldeyrisöflun.

 

 

 


mbl.is Stál í stál í deilu álversmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það eru til þúsundir miðbæja en bara ein íslensk náttúra.

Merkilegt má telja, að mönnum detti það í hug að farþegar skemmtiferðaskipa, sem staldra við í erlendri höfn, séu komnir í leit að verslunargötum.

Og detti það líka í hug, að með einhverju sérstöku átaki sé hægt að nánast þvinga þetta ferðafólk til að koma niður á Laugaveg til að versla.  

Það er nóg af verslunargötum í þúsundum erlendra borga.

Kannanir sýna að einstæð íslensk náttúra er aðalatriðið sem útlendingar nefna oftast sem ástæðu þess að þeir ákváðu að fara til Íslands.

Ég vann eitt sinn á skemmtiferðaskipi fyrir tæpri hálfri öld, sem sigldi um Miðjarðarhafið.

Boðið var upp á 2-3 mismunandi ferðir í landi í hverri höfn og langoftast valdi fólkið einhverja ferðina en var ekki að slæpast í búðarápi nálægt höfnunum.

Í Sevilla var farið á nautaat, í Cataníu á Sikiley var Eyra Díónesíusar, frá Napoli var dagsferð til Pompei o. s. frv.  

 


mbl.is Skila sér í litlum mæli í miðborgina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ragnar Reykás í beinni útsendingu í kvöld.

Í þættinum um karaktera Spaugstofunnar í Sjónvarpinu í gærkvöldi sagði Guðni Ágústsson að í karakternum Ragnari Reykási sæi hann einn af flokksbræðrum sínum.

Hann nefndi ekki hver það vær, en ekki var liðinn sólarhringur, þegar fréttamaður ræddi í beinni útsendingu við Gunnar Braga Sveinsson utanríkisráðherra fyrir utan stjórnarráðshúsið þar sem mótmælendur höfðu lagt litla pappírsdreka í snjóinn til að mótmæla olíuvinnslu í boði Íslands á Drekasvæðinu.

En Gunnar Bragi er á leið til Parísar til að leggja sitt lóð á vogarskálar minnkandi losunar gróðurhúsalofttegunda.

Gunnar Bragi var spurður að því hvort það samræmdist þeirri stefnu, sem Ísland hefði fram að færa varðandi það að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, að ætla að gera Ísland að olíuframleiðsluríki.

Jú, jú, hann var ekki í vandræðum með að réttlæta það eins og róbóti með gamla orðalaginu "við verðum að nýta..". 

Ég sá áðan á einni bloggsíðunni, að fundarmenn eru sakaðir um hræsni, því að þeir hefðu farið á mmótmælafundinn á farartækjum, knúnum jarðefnaeldsneyti.

Mér var ljúft að svara honum á þá leið að ekki gæti ég tekið þetta til mín. Ég hefði farið á fundinn austan af Borgarholti í Grafarvogshverfi á farartæki, knúnu íslensku rafmagni, og orkan í ferðina fram og til baka hefði kostað alls 5 krónur.


mbl.is 570 þúsund tóku þátt í mótmælum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spurningin um að stunda ekki óábyrgt áhættuspil.

Senn líður að því að vegna aðgerða jarðarbúa hafi koltvísýringur í andrúmsloftinu tvöfaldast.

Sumir draga það í efa að hlýnun lofthjúps jarðar stafi af þessu og aðrir spyrja hvort það sé eitthvað verra þótt veðurfar á okkar slóðum verði svipað og það var á tímabilinu frá 800-1400.

Í slíku felst frekar þröng sýn, því að hröð og óstöðvandi hlýnun veldur fyrst og fremst varasömustu breytingunum sunnar á hnettinum, þar sem fjölmennustu þjóðir heims búa og veðurfarsbreytingarnar valda þurrkum, miklum sveiflum og eyðingu gróins lands.

Síðan er súrnun sjávar sérstakt áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga ef menn vilja endilega einblína á okkar aðstæður.

En megin atriðið er það að stunda ekki óábyrgt og kæruleysislegt áhættuspil með því að dæla koltvísýringi hindrunarlaust út í lofthjúpinn og sóa jafnframt takmörkuðum orkugjöfum.

Þess vegna verða haldnir mótmælafundir um allan heim í dag, líka hér á landi.


mbl.is „Það er ekkert plan B“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Að taka Júgga..."

Júgóslavía var með yfirburða landslið í handbolta árum saman fyrir rúmum aldafjórðungi. Þar fór allt saman: Stórkostlegt mannval, afburða þjálfunaraðferðir, agað og markvisst leikskipulag og mikið stolt þjóðar, sem þó hafði verið soðin saman af erlendum herveldum í lok Fyrri heimsstyrjaldarinnar og samanstóð af sundurlyndum og ólíkum þjóðum, eins og glöggt kom í ljós á tíunda áratugnum.

Frelsishetjan Tító átti ekki síst þátt í því að ná upp samstöðu út á við og inn á við á valdatíma sínum.

Hjá "Júggunum" var það allt eða ekkert, og ódrengileg lymskubrögð urðu hluti af því, jafnvel þegar þeirra var ekki þörf. Þetta snerist einfaldlega um það oft á tíðum að ganga eins langt og dómarinn leyfði eða dómarinn sá.

Arfleifð Júgganna lifir enn. Þannig er ein leikfléttan sem þeir beittu enn hluti af vopnabúri íslenska landsliðsins, eins og heyra má þegar þjálfarinn leggur upp fyrir íslensku leikmennina að "taka Júgga.." og síðar má sjá það gert oft á tíðum.


mbl.is Júgóslavneska bragðið í körfubolta?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikill munur á birtunni.

"Mig dreymir um hvít jól" söng Bing Crosby fyrir 70 árum og platan var lengi vel söluhæsta platan í Bandríkjunum.

Þó er veðurfar þannig í syðri hluta Bandaríkjanna að snjór sést sárasjaldan því það þarf kulda til að úrkoma sé í formi snjókomu.

En öll dýrkunin á jólasnjónum sýnir hve mjög menning og auður norðurríkja Bandaríkjanna mótaði þjóðlífið síðustu aldir.

En hvers vegna er fólk þá svona elskt að snjó? 

Líklega er það vegna þess, að í skammdeginu verður svo miklu bjartara umhorfs en í lágskýjuðu veðri og rigningu.

Og fátt er fallegra en tré þar sem greinarnar svigna undan snjónum eins og blasti svo víða við í dag.

Frostið fór að víðu niður í 10 stig en jólasvipurinn á umhverfinu margbætti það upp.

 


mbl.is Jólin minntu á sig í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dæmi um mátt samtakaviljans. ´

Á áttunda áratug síðustu aldar blasti illleysanlegt vandamál við jarðarbúum þegar sýnt var fram á, að notkun ósoneyðandi efna á úðabrúsum, í kælikerfum og víðar væri á góðri leið með að eyða ósonlaginu í lofthjúpnum, sem verndar lífið á jörðinni fyrir útfjólubláum geislum.

Þegar leitað var leiða til að ráðast gegn þessu vantaði ekki úrtöluraddirnar, sem minntu að mörgu leyti á úrtöluraddirnar núna gegn því að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda.

Brigður voru bornar á mælingarnar og má meira að segja sjá svipuð ummæli enn hjá þeim sem telja að loftslag á jörðinni fari hratt kólnandi en ekki hlýnandi.

Og einn sagði í athugasemd hjá mér "gríðarlegt fannfergi" í Reykjavík í nótt sýndi, að ekkert væri að marka meðaltal mælinga um alla jörðina á hita lofthjúpsins!

Og þetta "gríðarlega fannfergi" er bara svona mikið í Reykjavík, eina staðnum á landinu!

Fyrir 40 árum var miklað mjög fyrir mönnum hve miklar byrðar væru lagðar að óþörfu á þá starfsemi sem leiddi af sér losun ósoneyðandi efna og að þessi kostnaður væri alltof mikill.

Sem betur fer urðu þessar úrtöluraddir ekki ofan á og með samstilltu átaki var hættunni bægt frá.

Að sönnu er þörf á miklu meira og samstilltara átaki nú en gegn eyðingu ósonlagsins, en fordæmið frá 1987 sýnir hve miklu einbeittur samtakavilji getur áorkað.

"Let it be done!" "Mission and fun!"

 


mbl.is Gatið á ósonlaginu stærra í ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Megin varnarlínan er í Leifsstöð.

Allt of lengi hafa umræður um "fólksflótta" og "atgervisflótta" á Íslandi sniðgengið það atriði, að enda þótt menn sjái fyrir sér að til sé nokkurs konar varnarlína gegn slíkum flótta af landsbyggðinni til suðvesturhornsins í Borgarfirði og við Þjórsá, er til önnur varnarlína, sem alls ekki má bresta og liggur um Leifsstöð.

Ef atgervisflutningar og flutningar ungs fólks búa til flæði ungs fólks út úr landinu í gegnum þá línu, er baráttan fyrir blómlegri byggð á öllu Íslandi töpuð við aðrar varnarlínur innanlands.

Sjá má á netinu að margir vilja ekki ræða um þetta heldur draga umræðuna niður í flokkspólitískar skotgrafir og stimpla þá sem minnast á þau viðfangsefni, sem þarf að fást við til að íslenskt þjóðfélag sé samkeppnisfært við nágrannaþjóðirnar sem slæma "vinstri menn, úrtölumenn og talsmenn ónýta Íslands."

En byggðamál, hvort sem svonefndar jaðarbyggðir eru úti á landsbyggðinni hér á landi, eða að landið sjálft sé jaðarbyggð á borð við Norður-Noreg, Norður-Svíþjóð og Norður-Finnland, snúast ekki um vinstri eða hægri heldur um meginatriðin, sem þurfa að vera í lagi til þess að fjölbreytni efnahagslífs og menningar viðhaldi samkeppnishæfni landsins, miðað við önnur lönd.

Öfugsnúið er að kalla þá úrtölumenn sem vilja greina vandamál og viðfangsefni og takasta á við þau.  


mbl.is Unga fólkið að flytja frá Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband