"Að standa þétt að baki..." getur verið afdrifaríkt.

Ljóst virðist að rússneska þotan, sem skotin var niður nálægt landamærum Sýrlands og Tyrklands, skall til jarðar 4,5 kílómetra frá landamærunum á sýrlensku landi.

Á þeim myndskeiðum sem birst hafa fellur þotan nær lóðrétt til jarðar.

Myndskeiðið sýnir að vísu ekki aðdragandann og þar með ekki hvort hún fór áður yfir á tyrkneskt yfirráðasvæði, en úrlslitum hlýtur að ráða, hvar hún var þegar skotið hæfði hana.

Flugmennirnir hafa augljóslega farið háskalega nærri landamærunum, en á hinn bóginn er það ekki staða, sem hægt er að "standa þétt að baki" ef hún var skotin niður utan landamæra Tyrklands.

Það er ekki góður bjölluhljómur í yfirlýsingunni um að bandalagsríki NATO "standi þétt að baki Tyrkjum" ef málstaðurinn er vafasamur.

Hljómurinn er ekki þægilegur vegna þess að í aðdraganda Fyrri heimsstyrjaldarinnar stóðu andsstæðar fylkingar ríkja "þétt að baki" hver annarri.

Þjóðverjar "stóðu þétt að baki" Austurríkismanna í þeirra aðgerðum og þrýstu á um harðari viðbrögð þeirra, eggjuðu þá til harðra aðgerða.

Rússar "stóðu þétt að baki Serbum" gagnvart Miðveldunum, og Frakkar "stóðu þétt að baki Rússum" þegar þeir gripu til hervæðingar.

Þriggja aldarfjórðunga loforð Breta gagnvart Belgíumönnum varð til þess að þeir "stóðu þétt að baki" Belgum.

Það er höfuðnauðsyn að atburðarásin nú verði ekki í sama dúr og í júlí og byrjun ágúst 1914.


mbl.is Mikil samstaða innan NATO
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipað og fyrir austan.

Það sem gerðist á Austurlandi á tímum byggingar Kárahnjúkavirkjunar er um margt að endurtaka sig vegna framkvæmda í Þingeyjarsýslum, þótt ekki séu framkvæmdirnar eins tröllslegar og eystra.

Fyrirfram var talað um það að 80% vinnuaflsins vegna Kárahnjúkavirkjunar myndi verða innlent en 20% erlent. Þetta varð öfugt.

Tölur um þetta liggja ekki fyrir enn vegna framkvæmda í Þingeyjarsýslum, en umfang undirverktakastarfsemi með erlendu vinnuafli blasir við.

Til lítils er að kvarta yfir þessu og kveina. Fordæmið lá fyrir og menn fengu það sem þeir máttu vita að þeir fengju.


mbl.is Löglegt en pirrandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Latakia er 70 kílómetra frá landamærunum að Tyrklandi.

Vladimir Putin segir að herþotur Rússa hafi verið í aðgerðum "á svæðinu umhverfis Latakia."

Latakia er í 70 kílómetra fjarlægð frá tyrknesku landamærunum  og því er eitthvað í þessum máli sem gengur ekki alveg upp.

Putin segir aðgerðirnar norður af Latakia lið í því að hindra uppreisnarmenn til að komast til Rússlands.

Siglingaleiðin frá Latakia til Rússlands er hins vegar 1500 kílómetra löng.

Það þarf að skýra þetta mál og upplýsa betur.


mbl.is „Rýtingur í bakið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikur að eldi á ystu nöf.

Að minnsta kosti fjórar þjóðir senda nú herþotur sínar til að gera árásir í Sýrlandi, Rússar, Frakkar, Bandaríkjamenn og Tyrkir.

Írakar og stjórnvöld í Sýrlandi eru einnig með heri á svæðinu og ekki langt undan fylgjast Ísraelsmenn með og hafa viðbúnað.

Hvort sem rússneska herþotan, sem Tyrkir skutu niður, var inni í lofthelgi Tyrklands eða ekki, var hún sannanlega alveg á mörkum þess.

Það eru alltof margir að skara eld að eigin köku á alltof litlu svæði, og líkurnar á óviðráðanlegu flækjustigi ef eitthvað ber út af, eru alltof miklar til þess að þetta geti gengið.

Í Kóreustyrjöldinni 1950-53 var staðan líka eldfim eftir að Bandaríkjamenn fóru það langt í norður, að Kínverjar fóru að senda menn í stríðið og Rússar sendu herþotur frá Mansjúríu til að berjast við bandarískar herþotur.

Litlu munaði að kjarnorkustríð og þriðja heimsstyrjöldin brystu á. Truman forseti rak Douglas McArthur hershöfðingja eftir að þeir urðu ósammála um það hve langt ætti að ganga.

Flækjustigið var þó mun minna en það er núna í Sýrlandi. Þar eru alltof margir að leika sér að eldi fram á ystu nöf.

 


mbl.is Rússnesk herflugvél skotin niður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hér gætu verið þúsundir kei-bíla.

Ef svonefndir kei-bílar væru ekki til í Japan, væru umferðarvandamálin í Tokyo, sem erfið sem þau eru, þess eðlis að umferðin væri að mestu stopp í borginni. Súkka á Bárðarbungu

Þessir bílar fá stórfellda eftirgjöf í skattlagningu og forgang í bílastæðum.

Á meðfylgjandi mynd er japanskur kei-bíll, rauður Suzuki Fox, uppi á Bárðarbungu í ferð Jöklarannsóknarfélagsins 2009.

Kei-bílarnir eru með eftirtöldum takmörkunum:

Ekki stærri vél að rúmtaki og ekki kraftmeiri en 64 hestöfl.

Ekki breiðari en 1,48 m.

Ekki lengri en 3,40 m.Cuore ´88

Hver bíll er að meðaltali 25 sentimetrum mjórri og meira en metra styttri en  meðalbíllinn er hér landi, en þessir bílar hafa þróast þannig í bráðum hálfa öld, að nýjustu gerðirnar eru jafnokar mun stærri bíla hvað snertir rými, akstursgetu og öryggi.

Dæmi um kei-bíla hér á landi voru Suzuki Alto, Suzuki Fox og Daihatsu Cuore á árunum milli 1980 og 1990, þegar mikið af þeim var flutt inn. Einnig Suzuki og Daihatsu "bitaboxin."

Foxinn var að vísu 6 sm breiðari og 23 sm lengri á erlendum mörkuðum en heima í Japan.

Þá voru mörkin 3,20 x 1,40.Jimny 06

Myndin hér til vinstri er af Cuore árgerð 88 sem ég á.

Allir þessir bílar voru með stærri vélar þegar þeir voru fluttir út.

Síðan 1998 hafa mörkin verið 3,40 x 1,48 og dæmi um kei-bíla af þeirri stærð hér á landi eru Daihatsu Terios og Suzuki Jimny, sem reyndar voru breikkaðir og lengdir að neðan fyrir utanlandsmarkað, Terios upp í 3,85 x 1,55 og Jimny upp í 3,60 x 1,60 og settar í þá stærri vélar en í Japan.  

Af því að 40 prósent bíla í Japan eru kei-bílar spara þeir hundruð ferkílómetra af malbiki á hverjum degi.Suzuki kei kínverskur

Ég hef átt kei-bíla síðan 1986, Cuore og Alto. Eru núna fornbílar og annar Cuorinn er 4x4, sá eini á landinu.

Merkilegt má teljast að fyrirkomulag, sem reynst hefur svo vel í Japan til að minnka mengun og eyðslu og spara stórfé

Rými fyrir fætur er ótrúlega gott í Cuore, miðað við það, að á tímabilinu til 1991 voru stærðartakmörkin 1,40 á breidd og 3,20 á lengd.

Merkilegt má telja að fyrirkomulag, sem hefur reynst svo vel í Japan til að minnka eyðslu og spara stórfé í umferð og umferðarmannvirkjum, skuli ekki hafa verið reynt í Evrópu.

Bara það eitt að setja upp afsláttarkerfi varðandi lengd bifreiða, myndi spara stórfé.

Skattlagningin yrði jákvæð, ákveðinn afsláttur af gjöldum fyrir hvern sentimetra sem bíllinn er styttri en sex metrar.

Við að stytta meðalllengd bíla úr ca 4,50 m niður í 4 metra eins og hún er líklega í Japan, myndu 50 kíómetrar af malbiki á Miklubrautinni verða auðir daglega sem nú eru þaktir bílum.

Neðsta myndin er af kínverskum Suzuki, sem í grunninn er kei-bíll en hefur verið stækkaður til útflutnings og tekur sex menn í sæti og er með farangursrými aftast og í ofanálag með drif á öllum hjólum!

 

  


mbl.is 2,5 lítrar á hundraðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær eru menn í stríði og hvenær ekki?

Um stríð hafa ævinlega gilt reglur. Í ljósi þess raunsæja mats að ómögulegt yrði að komast hjá styrjöldum, sáu menn sér sameiginlegan hag í því að seta ákveðnar reglur um það hvað mætti gera og hvað ekki, svo sem um meðferð stríðsfanga.

Þegar Frakklandsforseti lýsti yfir því að stríðsástand væri í landinu, héldu margir að hann meinti að svonefnd herlög væru í gildi, þar sem her og yfirvöldum er veitt stóraukið vald og borgaralegt vald að sama skapi dregið stórlega saman.

En svo var ekki. Hollende var bara að lýsa því yfir að Frakkland ætti í stríði við hryðjuverkasamtökin Ríki íslams, en þau samtök eiga engan lagalegan tilverurétt sem ríki.

Misjafnt er hvort formlegar stríðsyfirlýsingar eru gefnar. Báðar heimsstyrjaldnirnar hófust með stríðsyfirlýsingum sem virkjuðu sáttmála eins og Genfarsáttmálann.

Stríðið á vesturvígstöðvunum 1939-1940 var einstaklega "prúðmannalega" háð ef nota má svo fallegt orð um jafn viðbjóðslegt athæfi og stríð með sínum manndrápum og limlestingum er.

Nokkurn veginn tíðindalaust var á vestuvígstöðvunum frá 3.september 1939 til 10. maí 1940, og var það kallað "Gervistríðið" (Phoney war).

Aldrei voru gerðir friðarsamningar í Kóreustríðinu og stendur það því formlega enn.

Japanir réðust á Perluhöfn 7. desember 1941 án stríðsyfirlýsingar og létu Bandaríkjamenn um það að lýsa yfir stríði.

Arabalönd réðust á Ísrael í Yom Kippur stríðinu án stríðsyfirlýsingar.

Þegar Öxulveldin réðust á Sovétríkin 22. júní 1941 gaf Hitler út tilskipun þess efnis, að vegna þess að Sovétríkin væru ekki aðilar að Genfarsáttmálanu og því væri hvaða hermaður andstæðinganna sem væri, réttdræpur, hvenær sem væri og hvar sem væri.

Enda varð þetta stríð margfalt grimmilegra en dæmi voru um á síðari tímum.

 

 

  


mbl.is Hvenær eiga menn í stríði?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðskuldar vernd gegn ásókn mannvirkjafíkla.

Ljóð Jónasar Hallgrímssonar sem hefst á orðunum "Efst á Arnarvatnshæðum..." er aðeins þrjú erindi, en öll eru þau gull.

Í fyrsta erindinu segir hann frá litlu vatni, Réttarvatni, sem er í nágrenni Arnarvatns hins mikla.

Í miðerendinu er lýsing á hinu smáa, sem gleður skáldið, ofurlítil tó undir ásnum, þar sem lækur liðast niður um lágan hvannamó.

Niðurstaða listaskáldsins góða og hins mikla náttúrfræðings er einföld og skýr:

 

Á engum stað ég uni

eins og vel og þessum mér.

Ískaldur Eiríksjökull

veit allt sem talað er hér.

 

Skáldið þarf ekki að lýsa myndinni, sem blasir við, frekar. Lesandi ljóðsins sér fyrir sér hinn ægifagra Eiríksjökul spegla sig í sléttu vatninu og stimpla inn þá miklu kyrrð, frið og unað sem gerir Jónasi fært að lýsa því yfir að hvergi uni hann sér betur.

Á yfirborðinu virðist ekki mikil hætta á að þessum friði verði raskað, en reynslan sýnir að hugmyndir um mannvirkjagerð á hálendi Íslands í stórum stíl eiga sér fá eða engin takmörk.

Með óþarflega stóru miðlunarlóni Blönduvirkjunar var sökkt þeim stað, þar sem Jónas greiddi elskunni sinni lokka við Galtará og gerði að gimsteini í fegursta ástarljóði Íslendinga.

Og fyrir rúmum áratug var sótt hart á um að leggja uppbyggðan heilsárs trukkaveg um Arnarvatnsheiði og Stórasand þráðbeint í norðaustur um Skagafjörð inn í Norðurárdal og rjúfa þar með frið Jónasar á þeim slóðum.  

Reglustikumenn sáu á korti að beinust fluglína milli Reykjavíkur og Akureyrar lá um Flosaskarð milli Eiríksjökuls og Langjökuls og að þessi nýja leið yrði næst þessari flugleið.

Þeir litu fram hjá því að á Stórasandi liggur þessi leið upp í 800 metra hæð þar sem er eitthvert mesta veðravíti hálendisins, einkum í hinni algengu suðaustanátt þegar lægðir koma að landinu.

Skammt frá Stórasandi fórst Björn Pálsson við þriðja mann í slíku veðri 1973.

Á tímabili leit út fyrir það að Stórasandsleiðin fengi brautargengi með atbeina helstu ráðamanna, en með andstöðu við þessa fyrirætlan sló Sturla Böðvarsson aðeins á það, og hafi hann þökk fyrir.

Þjórárver,sem þegar eru Ramsar-svæði, og Eyjabakkar taka að vísu víðerni Arnarvatnsheiðar og Tvídægru fram í mikilsverðum atriðum, en á móti kemur að víðerni og draumaland Jónasar hefur mikið gildi fyrir það að vera um margt ólíkt þessum tveimur votlendissvæðum austar á hálendinu.

Þótt hugmyndin um þráðbeina hraðbraut um þetta víðerni hafi verið kveðin í kútinn í bili á sínum tíma, myndi friðun þess og það að fella það inn í stóran þjóðgarð á miðhálendinu hjálpa til við að andæfa mannvirkjafíklum sem sækja að þeim stórvaxandi verðmætum, sem felast í sem ósnortnustu hálendi Íslands.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Hugað verður að friðun votlendis Arnarvatnsheiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Big Willy broke jail to-night!" Áhrifamáttur eins manns.

Fyrir tæpri hálfri öld urðu nokkur lög ástralska lagasmiðsins Rolf Harris vinsæl.

Eitt þeirra fjallaði um glæpahundinn Big Willy, sem braust út úr fangelsi og lék lausum hala, fólki til mikillar skelfingar.

Í minningunni lýsir textinn því hvað einn tryllingslega skæður glæpamaður getur valdið mikilli skelfingu og ringulreið ef hann gengur laus, jafnvel langt umfram það hverju hann gæti áorkað.

Slíkt ástand elska höfuðpaurar víga- og hryðjuverkamanna Ríkis íslams, ekki hvað síst þegar það lamar heila milljónaborg.

Þá getur verið áhugavert að bera hættuna af "Big Willy" nútímans saman við fjölda alvarlegra slysa og dauðaslysa í umferð milljónaborgar, róa sig aðeins niður og gera morðóðum glæpahundunum  ekki það til geðs að fara á límingunum.


mbl.is Snérist Abdeslam hugur?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættan á allsherjar ringulreið réð viðbrögðum.

Alþekkt er, hve miklum ósköpum allsherjar panik, skelfing og ringulreið geta valdið, þar sem margt fólk er saman komið.

Ef mikill flótti brestur á geta hundruð manna troðist undir, slasast og beðið bana.

Hryðjuverkamaðurinn sem ætlaði að sprengja sig í loft upp innan um áhorfendur á leik Frakka og Þjóðverja komst ekki inn á völlinn.

Af því leiddi að múgurinn, sem vár á vellinum, var lang best kominn þar sem hann var staddur, - ekki á flótta frá leiknum og alls ekki í næsta nágrenni vallarins þar sem hryðjuverkamenn gátu leikið lausum hala.

Niðurstaðan hjá þeim, sem að leiknum stóðu, varð því sú, að klára leikinn og leyfa áhorfendum að fara í sæmilegri ró burt af honum.

Sjá má gagnrýnin skrif þess efnis að þessi viðbrögð hefðu verið dæmigerð fyrir firringu og óskhyggju, en þvert á móti hefur komið fram, að þeim, sem tóku hina skynsamlegu ákvörðun, var að sjálfsögðu mjög brugðið, en tókst að halda bráðnauðsynlegri ró sinni og yfirvegun.  


mbl.is Hollande var verulega brugðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömul hótun og ný.

Þegar eigendur álversins í Straumsvík kröfðust þess 2006 að fá að stækka álverið gríðarlega, sögðu þeir, að þessi stórkostlega stækkun væri forsenda þess að hægt væri að starfsrækja álverið.

Ef þeir fengju ekki sitt fram, myndu þeir leggja álverið niður.

Í afar tvísýnni íbúakosningu í Hafnarfirði á útmánuðum 2007 var naumur meirihluti fyrir því að hafa þessa hótun að engu.

Baráttuaðferðir eigendanna voru ekki til fyrirmyndar og eftir kosninguna kom í ljós, að þeir höfðu ekki efni á að standa við hótun sína í landi, þar sem stóriðjufyrirtæki fá að kaupa orku á smánarlega lági verði.

Nú er aftur gripið til svipaðra hótana vegna þess að almennir starfsmenn sætta sig ekki við það að vera í raun annað hvort reknir eða hýrudregnir á sama tíma og hærra settir launamenn og stjórnendur hafa fengið kauphækkun.

Eigendur fyrirtækisins gera ráð fyrir því að hótunin muni hrífa af því að álverð á heimsmarkaði er afar lágt og sagt er að fyrirtækið sé rekið með tapi, enda þótt þeir fái enn orkuna á smánarlega lágu.  

Svona hótun myndi hafa úrslitaáhrif á Reyðarfirði af því að þar er búið að koma því þannig fyrir að allt á staðnum stendur og fellur með því að álverið sé starfrækt.

Einnig þar er sagt að álver Alcoa rekið með tapi, þótt ljóslega liggi fyrir að búið sé að hafa af Íslendingum tugi milljarða króna með grófum bókhaldsbrellum.

Stóriðjufyrirtækin erlendu, sem hafa átt íslensk álver, haga sér oft svipað hér á landi og í fyrrum nýlendum nýlenduveldanna þar sem innfæddir voru arðrændir og prettaðir og eru það víða enn, svo sem í Nígeríu.

Íslendingar fóru fyrst að sjá í gegnum þetta þegar upp komst um fyrirbærið "verðhækkun í hafi" fyrir rúmum 30 árum og svipaðir prettir eru enn viðhafðir.

 

 


mbl.is Segir starfsfólk gert að blóraböggli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband