Nýtt mynstur, jafn mikilvægt fyrir vísindamenn og Kröflueldar?

Kröflueldar voru á sínum tíma drýgsta eldgosahrina sögunnar til að auka þekkingu jarðvísindamanna á eðli eldvirkni og eldgosa. 

Á þeirri þekkingu og rannsóknum með notkun nútíma mælitækni á eldgosum fyrir og eftir eldana hafa jarðeðlisfræðingar byggt þær framfarir sem meðal annars leiddu til þess, að hálftíma fyrir upphaf Heklugossins árið 2000 var hægt að tilkynna um það fyrirfram í útvarpi. 

Vitað hefur verið að annar af tveimur stærstu möttulstrókum jarðar liggi undir öxlinum Bárðarbunga-Grímsvötn og að Grímsvötn eru virkasta eldfjall Íslands og eina íslenska eldstöðin sem kemst á alþjóðlegan lista jarðvísindamanna yfir tíu merkustu eldstöðvar jarðarinnar. 

Fyrst Bárðarbunga er svona stór og mikil og miðja vegu í kerfi eldstöðvanna, sem liggja um Ísland endilangt horn í horn milli Reykjaness og Melrakkasléttu hefur það virst undarlegt hve fá eldgos verða í henni sjálfri.

 

Vísindamenn hafa útskýrt það með því að eldgos allt suður í Friðland að Fjallabaki hafi í raun verið í kerfi Bárðarbungu. Talið var líklegt fyrirfram að Holuhraun tilheyrði áhrifasvæði Öskju, en nú virðist líklegra að Bárðarbunga sé potturinn og pannan í gosinu þar, sem ég birti nýja mynd af á facebook síðu minni í tengslum við þennan bloggpistil. 

Nú er nefnilega að koma í ljós að umbrotin í og við Bárðarbungu eru eitthvað alveg nýtt, sem bendi til þess að kvikukerfið undir þessari megineldstöð landsins sé flóknara en menn hafa haldið og að það sendi jarðfræðinga landsins að teikniborðinu eins og það er stundum orðað á erlendu máli.

 

Stóra spurningin er líka sú hvort í uppsiglingu sé nýtt hegðunarmynstur þessa risa sem færi okkur stórgos sem enga hliðstæðu eigi sér á þessum slóðum á sögulegum tíma.  


mbl.is Kvikukerfi Bárðarbungu er flóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óvenjulega lítill snjór á hálendinu.

Það eru sannarlega óvenjuleg snjóalög á hálendinu eða öllu heldur skortur á snjóalögum. 

Þær fara nú að verða að minnsta kosti þrjár, vikurnar sem það hefur verið að mestu 2-4 stiga hiti á Sauðárflugvelli og hann hugsanlega orðinn opinn, í 660 metra hæð yfir sjó, þótt ég hafi ekki þurft að lenda þar og viti það ekki nákvæmlega.

Eini ókosturinn við það, ef svæði eins og völlurinn verða alauðir þegar komið er þetta langt inn í veturinn, er sá að ef það frystir á auða jörð og þiðnar ekki eftir það í vetur, er hætt á að klakinn geti verið lengur en ella að fara í vor. 

En í fyrravetur snjóaði strax það mikið, að ekkert frost komst í jörðu og því var nær enginn klaki í jörðu síðastliðið vor.  

Snjór er hátt uppi í fjöllum á Tröllaskaga og það er flekkótt land við Holuhraun. Ætla að skutla inn einni á facebook af hraunstraumnum í drjúgri fjarlægð frá gígnum, sem tekin var fyrir helgina.  


mbl.is Spáð hlýju veðri alla vikuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tveir möguleikar og hvorugur góður?

Sú nýja staða, sem mælingar sýna að er í Bárðarbungu vekur upp margar spurningar sem vísindamenn hljóta að þurfa að svara. 

Sagt hefur verið að hið mikla magn af gasi, sem kemur upp í gosinu í Holuhrauni, sé vegna þess að uppruni kvikunnar sé svo djúpt í jörðu. 

Einnig hefur verið sagt að kvikan komi suðvestan úr kvikuhólfi undir Bárðarbungu. 

Nú sýna alveg nýjar mælingar að aðeins séu einn til þrír kílómetrar niður á kvikuna og því meiri líkur en áður hefur verið talið á því að gos hefjist þar.

Fróðlegt verður að fá nýtt mat á ástandið eins og Ármann Höskuldson hefur raunar kallað eftir.

Þar sem enn skelfur undir bungunni og því hefur verið varpað upp að gos geti varað lengi, vaknar spurningin um það hvor möguleikinn sé skárri, áframhaldandi gos í Holuhrauni eða nýtt gos í Bárðarbungu.

Langvinnt gos í Holuhrauni hefur valdið vísindamönnum áhyggjum vegna afleiðinga langvarandi dreifingar á gasi. Birt er ný mynd af gosinu þar á facebook síðu minni.

Gos í Bárðarbungu er líklegt til að verða öskugos ef kvikan kemst upp í gegnum 800 metra þykkan ísinn, og spurning, hvort þaðan komi verri gosefni en í Holuhrauni.

Ef kvikuhólfið undir Bárðarbungu er á eins til þriggja kílómetra dýpi en gasútstreymið í Holuhrauni er samt talið merki um kviku af miklu meira dýpi, er það þá vegna þess að kvikuhólfið sé mun stærra en áður hefur verið talað um, og nái allt frá sjö kílómetra dýpi langleiðina upp undir yfirborðið? 

Og þar með geti stórgos þarna orðið enn stærra og skæðara en hið rólega gos í Holuhrauni, sem spýr út meira en tíu sinnum minna af hrauni á hverri viku heldur en Lakagígar gerðu 1783? 


mbl.is Skjálfti að stærð 5,1 í Bárðarbungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira en áratugs öfugþróun.

 Fyrir um 15 árum hófst hæg en stöðug þróun varðandi upplýsingagjöf á Íslandi, sem ég vil kalla öfugþróun. Hún fólst í því að stór fyrirtæki, stofnanir og samtök fóru að leggja aukna áherslu á almannatengsl sín og sóttust eftir sem öflugustum og reyndustu fjölmiðlamönnum til að taka það hlutverk að sér. 

Þessi þróun hefur staðið alla tíð síðan og valdið skaðlegum atgerfisflótta frá fjölmiðlunum, af því að í boði hafa verið miklu hærri laun utan þeirra. 

Hættan hefur líka falist í öðru atriði sem mörgum yfirsést.

Fjölmiðlamenn, sem hafa sóst eftir góðum og vel launuðum stöðum, hafa á stundum séð hagræði í því, þó ekki sé nema ómeðvitað, að setja sig vel inn í einstaka málaflokka, þar sem miklir hagsmunir utan fjölmiðlanna eru fólgnir, og þar með aukið líkurnar á því að fá góð tilboð á þessum sérsviðum sínum.

Í ofangreindu ástandi er falin mikin hætta fyrir frjálsa fjölmiðlun og þar með lýðræðið í landinu.

Af þeim sökum er bág staða fjölmiðla og aðför gegn þeim eina þeirra, sem er ekki í eigu einkaaðila, mun stærra mál en sýnist vera í fljótu bragði.  


mbl.is Að segja en ekki þegja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir sáu og sjá enn ekkert nema stóriðju?

Ríkisstjórn Íslands hefur enn ekki afturkallað einróma yfirlýsingu sína um að risaálver skuli rísa í Helguvík. "Orkufrekur iðnaður" er sama trúaratriðið hjá þeim og það var og hefur verið í hálfa öld. 

Þeir, sem nú væna þá um svartsýni, sem hafa meiri metnað fyrir hönd þjóðarinnar en að fórna einstæðri náttúru hennar fyrir bruðl með orku landsins og sölu hennar á útsöluverði, sáu aldrei neitt annað en stóriðju á vegferð sinni með þjóðina fram af hengiflugi Hrunsins og virðast raunar enn vera með stóriðjuna í forgangi. 

Þeir töluðu árum saman niður möguleika í ferðaþjónustu og skapandi greinum með hæðnisorðum eins og "eitthvað annaða", "fjallagrasatínsla", "lattelepjandi kaffihúsalýður í 101 Reykjavík", "fólk sem er á móti framförum og atvinnuuppbyggingu og vill að við förum aftur inn í torfkofana."

Enda þótt allt þetta svartsýnistal um "eitthvað annað" virki nú hjákátlegt blasir við að núverandi ráðamenn halda enn fast í stóriðjutrú sína og draga stórlega saman framlög til skapandi greina eins og kvikmyndagerðar. 

Þeir eru við svipað heygarðshorn varðandi framhaldsskólana og menntamál og svelta Ríkisútvarpið í viðjum afleiðinga af fyrri gerðum sínum varðandi hinn risastóra myllustein sem Útvarpshúsið er og því að ræna stórum hluta af útvarpsgjaldinu frá RUV. 

Þeir eru alveg blindir á raunveruleikann í heilbrigðismálunum varðandi sístækkandi hóp aldraðra í þjóðfélaginu á sama tíma sem hlutfall hinna yngri fer sífellt minnkandi. 

Þegar bent er á hvernig það þurfi að takast af raunsæi og djörfung á við viðfangsefnin er bara slegið upp orðum eins og "illmælgi, sleggjudómar og niðurrifstal". 

Þegar ástand og hegðun málsaðila í lekamálinu blasir við er talað um að þjóðin þurfi að læra af því, - ekki stjórnmálamennirnir. 

Nei, þeir þurfa ekkert að læra, því að "fámennur hópur" hefur komist upp með illmælgi og sleggjudóma." Væntanlega er dómurinn yfir aðstoðarmanni innanríkisráðherra sleggjudómur?


mbl.is Brengluð sýn náð athyglinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Akureyringar skjóta Reykvíkingum ref fyrir rass.

Í Vatnsmýri fór fram fyrsta flug á Íslandi 1919. Þar ákvað bæjarstjórn rétt fyrir stríðið að gera skyldi aðalflugvöll landsins, gerð var teikning og hafin gerð flugbrauta.

Þar gerðu Bretar stóran flugvöll sem þeir gáfu Íslendingum eftir stríðið með öllum mannvirkjum hans.

Eðlilegt hefði verið að þarna hefði risið Flugsafn Íslands, gert hefði verið veglegt minnismerki á þeim stað, þar sem fyrst var flogið, varðveitt mannvirki svo sem valdir braggar, gamli flugturninn og vígin í Öskjuhlíðinni og flugsafnið verið hluti af stóru stríðsminjasafni í stíl við söfn erlendis svo sem í Noregi og Englandi.

Myndarlegt safn og vel varðveittar minjar hefðu dregið að sér þúsundir erlendra ferðamanna eins og títt er um svipuð söfn og minjar erlendis. 

 

Af einhverjum ástæðum bar starf áhugamanna um þetta ekki ávöxt, því miður, hér í Reykjavík. Miklu réði vafalaust undarlegt tómlæti samborgara minna um flugið og jafnvel andúð margra á fluginu og flugvellinum, skilningsleysi á hinni merku flugsögu, stríðssögu, flugminjum og stríðsminjum.

Mikil verðmæti og minjar hafa farið forgörðum að óþörfu. 

Á Akureyri hefur hins vegar ávallt verið gott andrúmsloft, velvild og flugáhugi meðal bæjarbúa gagnvart fluginu og flugvellinum þar. Þar á ég marga af mínum bestu flugvinum, svo sem Arngrím Jóhannsson, sem þar hefur gert flugsafnið að lífshugsjón sinni og notið samtakamáttar flugáhugamanna á staðnum og verið fremstur meðal jafningja um hið merka björgunarstarf.

Akureyringar hafa gert okkur Reykvíkingum skömm til með því að bjarga því sem bjargað varð. 

Fyrir sína miklu elju og ræktarsemi eiga Arngrímur og allir hans samherjar á Akureyri miklar þakkir skildar og héðan að sunnan eru þeim sendar árnaðaróskir í tilefni 60 ára afmælis Akureyrarflugvallar, sem þeir halda auðvitað upp á á veglegan hátt. 

 


mbl.is Flugsagan kristallast á Akureyri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Viðfangsefnin vaxa hraðar en fjárveitingarnar.

Þjóðin eldist hratt. Barnsfæðingum hefur fækkað síðustu áratugi en risastóriri árgangar frá stríðsárunum og öðrum uppgangsárum á síðari hluta 20. aldar eru nú að koma inn í raðir aldraðra og eftirlaunaþega í stórum skömmtum. 

Æ færri eru á besta vinnualdri og við bestu heilsu en æ fleiri eru sama marki brenndir og gamlir bílar, það er, að bilanatíðnin vex. Ekki bæta úr skák afleiðingar offitu og reykinga sem koma fram á efri árum.

Viðfangsefni heilbrigðiskerfisins vaxa mun hraðar en fjárveitingarnar til þess og þeim, sem eiga að borga brúsann fækkar hlutfallslega.

Allt tal um "mestu fjárframlög til LSH frá 2008" er byggt á algeru skilingsleysi á eðli málsins.

Auk þess eldast húsnæði og tækjakostur líkt og sjúklingarnir og kalla á alveg sérstök útgjöld, því að við Íslendingar virðumst eiga afar erfitt með að skilja það að það er ekki nóg að reisa hús og kaupa búnað og tæki, það verður líka að huga að viðhaldinu.

Bjarni Benediktsson var varla búinn að sleppa orðinu um "hæstu fjárframlög" þegar Sigmundur Davið segir það sama.

Það er ekki gott þegar oddvitar þjóðarinnar virðast ekki hafa kynnt sér þær staðreyndir, sem um allan heim er verið að skoða og draga ályktanir af.    


mbl.is Mestu fjárframlög til LSH frá 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Andleg atorka og frumkvæði skapa verðmæti.

"Hraust sál í heilbrigðum líkama!" er gamalkunnugt kjörorð. Algengt er hins vegar hjá þeim, sem lítið þekkja til, að tala niður til íþrótta á þeim forsendum sem þeir gefa sér, að árangur í þeim sé aðeins að þakka hráum meðfæddum líkamlegum hæfileikum og að andlegt atgerfi sé þar víðs fjarri. 

"Hann er með vitið í vöðvunum" var einhvern tíma sagt. 

Þegar keppni í rallakstri var að slíta barnsskónum hér á landi heyrði maður glósur eins og: "Það er nú ekki mikill vandi að sitja kyrr á rassinum og dútla við að stýra bíl. Það getur hver sem er stundað slíka kyrrsetuíþrótt. 

Það kom mér hins vegar á óvart þegar keppt var í þessari grein hve mikið líkamlegt álag fylgdi henni.

Maður var kófsveittur eftir hverja sérleið og varð að vara sig á vökvatapi þegar leið á keppnisdagana.

Á þeim tíma voru ekki vökvastýri í keppnisbílum og í lengri röllunum varð að hafa hanska á höndum, því að annars slitu átökin við stýrið upp skinnið í lófunum, svo að blæddi úr.

Gagnrýnendur litu hins vegar á hanskana sem tepruskap og dæmi um "vettlingatök".  

Þegar ég sá í fyrsta sinn mynd tekna beint framan á bílinn undraðist ég hve sviptingarnar við að stýra voru samfelldar og miklar. Í hita leiksins tók maður ekkert eftir því.

Það þarf að sönnu líkamlega burði til að vera góður handboltamaður, en ekkert lið og enginn keppnismaður kemst áfram á því einu.

Íslensku handboltaþjálfararnir, sem hafa vakið athygli fyrir gott gengi erlendis, voru sjálfir landsliðsmenn á sínum tíma og líkamlega öflugir.

En það skipti engu ef leikskipulag, útsjónarsemi, aðlögunarhæfni og tæknileg atriði voru ekki öll í hæsta gæðaflokki.

Og starf þjálfaranna byggist eingöngu á mikilli andlegri vinnu og skýrri og klárri hugsun.

Velgengi þeirra er því gott dæmi um það hvað frumkvæði, andleg atorka og vísindaleg hugsun geta skilað mönnum og heilum þjóðum langt þegar lögð er áhersla á þessi atriði.

Einn besti listflugmaður heims, Sean Tucker, lítur út eins og vaxtarræktarmaður. Hann eyðir drjúgum tíma í líkamsræktarstöð á hverjum degi til þess að halda sér í hámarks líkamlegu formi til að framkvæma ótrúlega vandasöm, nákvæm og snilldarleg listflugsatriði.

Hann er eitt af fjölmörgum dæmum um gildi þess að það fari saman að heilbrigð sál sé í hraustum líkama.  


mbl.is Af hverju eru þeir eftirsóttir?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Upplýsingagjöf líkt við hatur.

Forsætisráðherra okkar talar um að læra af lekamálinu. Erlend samtök fréttamanna hafa metið það svo að íslensk fjölmiðlun sé að veiklast í því að sinna höfuðskyldu sinni að upplýsa um mikilvæg mál. 

En forsætisráðherra kemst að þveröfugri niðurstöðu, sem sé þeirri að slík viðleitni séu verk hins illa, haturs og ofsókna, gengið hafi verið fram af mikilli grimmd og að slíku eigi að linna.

Það er kallað "grimmd" að blaðamennirnir, sem ekki létu bugast fyrir þrýstingi um að hætta að fjalla um málið, skyldu halda áfram að kanna það og upplýsa.  

Af slíku hátterni telur forsætisráðherra að þjóðin og einkum fjölmiðlarnir eigi að læra, því að þeir komi illa, grimmilega og jafnvel ódrengilega fram við ráðamenn og beiti meira að segja lygum.  

Sérkennilegt að tala aðeins um lygar í fjölmiðlum um mál, þar sem málsaðilar sjálfir hafa orðið margsaga og einn þeirra heldur meira segja áfram að verða tvísaga eftir að hafa hlotið dóm.  

Hins vegar minnist forsætisráðherra ekki á það að ráðamenn og embættismenn þurfi að læra neitt af málinu, það virðist vera alger óþarfi í hans augum, ja, - nema þá auðvitað stjórnarandstöðuþingmennirnir. 

Þjóðin og fjölmiðlarnir eigi ekki að fjalla um svona neikvæð mál heldur allt hið jákvæða og uppbyggilega, sem verið sé að gera. 

Hann Birna talaði í vor um "ljótan pólitískan leik". En þegar hún segir af sér segist hún gera það af persónulegum ástæðum, ekki af pólitískum ástæðum.

Og samkvæmt ummælum forsætisráðherra er það vegna þess að það voru svo margir vondir við hana. 

Hanna Birna er að vísu ekki öfundsverð að hafa lent í svona langvinnu og erfiðu máli, sem hún sjálf og aðrir málsaðilar áttu þó mestan þátt í að framlengja með undanbrögðum og vandræðagangi.

Vonandi mun hún jafna sig og nýta hæfileika sína og dugnað til góðra verka í framtíðinni.

En fyrst verða hún og þeir ráðamenn sem lifa í þeim hugarheimi sem ummæli forsætisráðherra lýsir, að ná áttum í þessu máli og líta í eigin barm eins og erlendir ráðamenn gera oft.

Óskandi væri að slíkt gerist þegar rykið hefur sest.

Að þessu sögðu er sjálfsagt að huga að því að við fjölmiðlamenn dettum ekki í þann pott að telja okkur óskeikula, heldur nálgast hið mikilvæga hlutverk upplýsendanna af virðingu og auðmýkt ekkert síður en af hugrekki og réttlætiskennd. 

Bendi að lokum á ágætan pistil Jóns Þórs Ólafssonar um það hvernig svipað mál í Nýja-Sjálandi var höndlað af þarlendum forsætisráðherra.    


mbl.is Þjóðin læri af lekamálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ekki útskiptanlegir rafgeymar?

Þegar rafbílsútgáfa af Peugeot 106 var kynntur hér á landi fyrir 17 árum var tæknin skammt á veg komin miðað við það sem núna er að gerast. Bíllinn var mjög þungur og drægnin eða drægið lítið, en það atriði var augljóslega alger dragbítur á gengi svona bíla.  

Þá strax kom mér það í hug að framtíðarrafbilarnir yrðu þannig hannaðir, að þegar maður kæmi inn á hleðslustöð, sem væri hliðstæð við bensínstöð fyrir bíla, sem knúnir væru jarðefnaeldsneyti, tæki afgreiðslumaður rafgeymana úr bílnum og setti aðra hlaðna geyma í staðinn. 

Jafnvel væri hönnunin þannig að ökumaðurinn gæti sjálfur skipt um geyma með þar til hannaðri tækni, líkt og á sjálfsafgreiðsludælum núverandi bensínstöðva.

 

Kosturinn við þetta væri auðsjáanlegur: Það væri margfalt fljótlegra að skipta geymunum út heldur en að bíða eftir því að hlaða tóma rafgeyma bílsin, jafnvel þótt um svonefnda hraðhleðslu yrði að ræða.

Einhverra hluta vegna hefur þessi hugmynd um útskiptanlega geyma ekki birst fyrr en nú, og þá í Dakarrallinu.

Afl rafvéla miðað við brunavélar er feykinóg nú orðið. Þannig er kraftmesti Tesla bíllinn tæplega 600 hestöfl og vegna þess að togið byrjar frá strax á fyrstu snúningum, nýtist það mun betur en í brunavélum.   

Rafbílarnir koma, á því er varla nokkur vafi. Ný tækni við efnið í rafgeymum sem kemur í stað lithiums og ný tækni við hraðhleðslu og hagkvæmni vegna vaxandi fjöldframleiðslu mun gera rafbíla sérlega áhugaverða fyrir okkur Íslendinga. 

Ef 17 ára gamall draumur minn um útskiptanlega geyma gæti ræst yrði stærstu tæknilegu hindruninni fyrir rafbílum rutt úr vegi. 


mbl.is Rafbíll í Dakarrallið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband