"Kók og Prins" og "Kók og pylsa."

Fyrir mér eru Cola-gosdrykkir svipað fyrirbæri og mismunandi víntegundir eru vínáhugamönnum. 

Í gamla daga drakk ég jöfnum höndum Kók, Pepsi, Spur og Jolly cola. Það var líklega svona álíka fyrirbæri og þegar vínsmakkararnir skipta á milli víntegunda við drykkju sína, án þess að ég geti þó dæmt um það af eigin reynslu, hvað áfengið snertir. 

Núna eru Spur Cola og Jolly cola fyrir löngu úr sögunni, en í staðinn er komið RC cola, sem fæst sums staðar fyrir afar hagstætt verð, og nýtist RC light nokkuð vel sem mótvægi við hið sykraða Cola úr lágvöruverslunum. Ég hef aldrei verið fyllilega sáttur við Pepsi Max vegna eftirkeimsins, og heldur ekki Coke light. Skást hefur Coke Zero komið út, en nú gæti RC light sótt að því. 

Sem dæmi um þessa sundurgerð í drykkjunautn naut ég þess afar vel, eftir að hafa verið án hefðbundinnar morgunhressingar minnar, þegar ég krækti mér í Pepsi í apótekinu, sem ég þurfti að fara í upp úr hádeginu. Ég naut þessarar flösku í botn í dag. 

En frá hinu er varla að komast, að gamla góða Kókið heldur enn efsta sætinu hjá mér, en þó við vaxandi samkeppni RC cola og Pepsi cola.

En ekki er fyrirsjáanlegt að hugtökin "Kók og Prins" og "Kók og pylsa" falli af stalli í málfari landsmanna hvað varðar séríslensk fyrirbæri í mataræði, einkum Kók og Prins sem á sér enga hliðstæðu um víða veröld en lýsir vel hinni einstæðu stöðu í verslunarviðskiptum okkar við aðrar þjóðir beggja vegna Járntjaldsins á tímum fyrstu Landhelgisdeilunnar.

Og þess vegna hefði það verið á skjön við þetta ef Bæjarins bestu hefðu hætt að bjóða Kók með pylsum sínum.  


mbl.is Áfram kók með „þjóðarréttinum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eitt öruggt ljós í myrkrinu ? Nei, tvö!

Það blæs ekki byrlega í leik okkar við Dani sem sigla fram úr okkur strax í upphafi. Íslendingar eiga að vísu skot á danska markið, en flest þeirra örvæntingarskot og skjóta einfaldlega danska markvörðinn í stuð. 

Nú er kominn kafli þar sem Björgvin Páll Gústafsson heldur okkur á floti og leikurinn að skána, en alltaf sami markamunurinn, 5-7 mörk. 

Eins og er, er aðeins eitt ljós í myrkrinu, sem sé það, að það er alveg sama hvernig leikurinn fer, - íslenskur þjálfari fer áfram.

Og sömuleiðis er ljóst að tveir íslenskir þjálfarar halda áfram, því að menn Dags brilleruðu í dag á móti Egyptum.  


mbl.is Ísland á heimleið eftir tap gegn Dönum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Átti aldrei að koma til greina.

Aron Pálmarsson varð fyrir alvarlegri líkamsárás í miðborg Reykjavíkur aðeins rúmum hálfum mánuði fyrir HM, hlaut svo þungt höfuðhögg að kinnbein brákaðist.

Hugsanlega fékk hann líka heilahristing eða snert að honum, en beinbrotið og blóðgunin tóku alla athygli.

Í áhugamannahnefaleikum fer keppanandi sjálfkrafa í þriggja mánaða keppnisbann eftir slíkt atvik.

Þrátt fyrir þetta reyndi Aron að gera allt sem hugsanlegt var til að nýtast landsliðinu sem maðurinn sem dregur vagninn, líkt og besti maður Tékka gerði í sigurleik þeirra.

Og eftir fyrstu leikina var Aron með hæstu samanlagða tölu marka og stoðsendinga á mótinu og lék snilldarvel eins og þetta sýnir.

En það kostaði fórnir, endalausa pústra og högg og í fyrri hálfleik í leiknum við Tékka var ljóst að eitthvað hafði orðið undan að láta, Aron ekki nema skugginn af sjálfum sér.

Eftir þungt höfuðhögg af svipuðum toga og rúmum þremur vikum fyrr var ljóst að hann hafði fengið heilahristing, líklegast öðru sinni á þremur vikum, auk allara annarra högga og pústra.

En kröfurnar til hans frá okkur öllum eru slíkar að ætlast hefur verið til þess síðustu daga að hann spili samt strax í dag, eftir öll þessi áföll, úrslitaleik um það hvort við teljumst í hópi átta bestu handknattleiksþjóða heims.

Og hér á blogginu má sjá ásakanir um að hann sýni landsliðinu og þjóð sinni ekki "lojalitet", eins og það er kallað, heldur bregðist á örlagastundu og sé svikari við málstaðinn.

Það er sárt þegar slíkur afreksmaður, sem Aron er, lendir í þeim hremmingum sem hann hefur lent undanfarnar vikur, - en enn sárara er þegar ráðist er á hann fyrir það að gera ekki hið ómögulega núna, að fara í slagsmálaleik, - nokkuð sem aldrei átti að koma til greina. 

Já, hart að slíkur afreksmaður sé grátt leikinn með tilefnislausri líkamsárás, en enn sárara að sjá ásakanir á hendur honum um aumingjaskap og sérhlífni. 


mbl.is Aron ekki með gegn Dönum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norðmenn í her nasista voru fleiri en andspyrnumenn heima.

Hvernig má það vera að ungt fólk skuli þúsundum saman fara frá nágrannalöndum okkar til Íraks til þess að berjast með glæpahyski ISIS samtakanna? Ætla mætti að menntun og umhverfi þessa fólks í heimalöndum þeirra kæmi í veg fyrir slíkt. En svo virðist ekki vera. 

Og margt af þessu fólki virðist hafa verið utangarðsfólk heima í ýmsum skilningi, svo sem vegna atvinnuleysis, fátæktar og skorti á menntun.

En lítum á fordæmi úr fortíðinni.   

Barátta Norðmanna gegn innrás og hernámi nasista í Heimsstyrjöldinni síðari hefur löngum verið sveipuð dýrðarljóma. Ýmsum óþægilegum staðreyndum hefur þó lítt verið haldið á lofti. 

Ein þeirra er sú að fleiri ungir Normenn en nam fjölda þeirra, sem voru í andspyrnunni heima, fóru til Rússlands til að berjast með nasistum, jafnt her þeirra sem hinum illræmdu SS-sveitum.

Hitler gaf út þá dagskipun til hermanna á austurvígstöðvunum, að vegna þess að Sovétríkin væru ekki aðilar að Genfarsáttmálanum, hefðu hermenn nasista leyfi til þess að skjóta hvern sem væri á færi og allir kommissarar og yfirmenn væri réttdræpir. 

Í samræmi við þetta háðu nasistar margfalt grimmilegri hernað á austurvígstöðvunum en nokkurs staðar annars staðar. 

Eftir á er það feimnismál hve margir Norðurlandabúar, þeirra á meðal einstaka Íslendingar, gengu í lið með nasistum og morðsveitum þeirra. 

Norðmenn eiga annað feimnismál, sem sé það að norskur sjávarútvegur græddi vel á stríðinu á svipaðan hátt íslenskur sjávarútvegur. 

Ég hef áður sagt frá frásögn konu frá Demyansk í Rússlandi af því að finnskir hermenn í innrásarhernum hefðu verið miklu grimmari en þeir þýsku.

Ástæðan hlýtur að vera sú að Finnarnir voru að hefna fyrir árásarstríð Rússa ári fyrr, en hinir ungu þýsku hermenn vissu naumast hvers vegna þeir voru komnir langt norður í rússneska veturinn, umkringdir af Rauða hernum.  

 

P.S. Páll Vilhjálmsson bendir á í bloggpistli að í "Milorg", norsku andspyrnuhreyfingunni, hafi verið margfalt fleiri en fóru á austurvígstöðvarnar. Sjálfsagt er að hafa sem réttastar tölur í þessu efni, og þegar tími gefst, vonandi síðar í dag, 27. jan, skal ég skoða þetta betur, en þetta kom fram á fundi í fyrra i Churchill-félaginu.

En nefna má þrjár aðrar tölur, sem segja sitt:  Í Milorg voru um 20 þúsund 1942. En í NS, flokki Quislings, voru 43 þúsund. 

Ein tala er þó mest sláandi. Miðað við fólksfjölda Noregs og Íslands 1941 og fólksfjölda landanna nú samsvara 5000 Norðmenn á austurvígstöðvunum eftir innrásina í Sovétríkin 1941 því, að um 3-500 Íslendingar væru nú í Sýrlandi að berjast fyrir ISIS samtökin. Þetta er athyglisvert. 


mbl.is Þúsundir til liðs við öfgahreyfingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rafbíl fyrir forsetann ?

Nú hefur bæjarstjórinn í Newcastle gert það sem íslenskur embættismaður í svipaðri stöðu, hefði getað gert, gert Nissan Leaf að borgarstjórabíl borgarinnar, en íbúar þar eru álíkta margir og íbúar Íslands.Nissan Leaf Newcasle

Fyrir Ísland er það miklu mikilvægara að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir innlenda orku, vegna þess að raforkan, sem flestir rafbílar ganga fyrir erlendis, fela aðeins í sér tilfærslu á nýtingu óendurnýjanlegra orkugjafa og spara því aðeins hvað varðar það að orkunotkunin á hvert farartæki hefur miklu minni endanlega mengun í för með sér en þegar henni er brennt beint í bílnum sjálfum. 

Á Íslandi er hins vegar um að ræða orku, sem að að miklu meira leyti bæði hreinni og endurnýjanlegri en sú, sem er á boðstólum erlendis.

Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið, eru það sérstakir menn sem velja bíl fyrir forsetaembættið og vinnureglan hefur verið sú að forsetabíllinn sé ekki endurnýjaður nema á meira en áratugs fresti.Tesla_Model_S_Japan_trimmed

Núverandi bíll er hvergi nærri orðinn það gamall og því lítur ekki út fyrir að forseti Íslands geti orðið fyrsti þjóðhöfðingi heims, sem er með rafbíl sem þjóðhöfðingjabíl.

Í þeim efnum er að sögn forsetans ekki á hans valdi að hafa áhrif á bílakaupin og ekki til nein lagaregla sem er hliðstæð við 26. grein stjórnarskrárinnar varðandi málskotsrétt forseta.

Þess má geta að meðal rafbíla á boðstólum er Tesla S sem er lúxusbíll með aksturseiginleika sem eru hvað snertir hröðun og afl samkeppnisfærir við hefðbundna lúxusbíla, sem hingað til hafa verið forsetabílar, auk þess sem akstursdrægið er allt að 400 kilómetrar á einni hleðslu og tekur aðeins um hálftíma að hlaða inn um 80% af orkunni í hraðhleðslustöð. 


mbl.is Leaf leysir af hólmi limúsínu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumir velja sér slæma ráðgjafa.

Það er vafalaust rétt að góðir ráðgjafar geti oft reynst gulli betri. Um það geymir sagan mörg dæmi.

Eitt þessara dæma er sú hugmynd sem nokkrir ráðgjafar Harry S. Trumans lögðu til eftir að hann tók óvænt og óundirbúinn við embætti Bandaríkjaforseta 12. apríl 1945, að best væri að knésetja Japani með því að varpa fyrstu kjarnorkusprengjunni á Kyoto vegna þess að sú borg væri svo sérstaklega mikilvæg í hugum Japana, að japönsku þjóðinni myndi falla allur ketill í eld og gefast samstundis upp. 

Einnig ætti ekki að taka annað í mál en að fangelsa Japanskeisara og draga hann fyrir dóm fyrir stríðsglæpi. Það væri í samræmi við það aðalatriði fyrir uppjöf Japana að hún yrði skilyrðislaus. 

Sem betur fór hlustaði Truman betur á ráðgjafa með betri yfirsýn, þekkingu og framsýni og eyddi ekki Kyoto, en það hefði verið fáheyrt gerræði gegn borg ómetanlegra menningarminja og helgs gildis í augum Japana, auk þess sem borgin hafði enga beina hernaðarlega þýðingu. 

Eyðing Kyoto hefði haft þveröfug áhrif á Japani og raunar umheiminn, sem aldrei hefðu geta fyrirgefið slíkt ódæðisverk. 

Svipað var að segja um keisarann sem hafði einstakt trúarlegt gildi og helgi í augum þjóðarinnar sem Vesturlandabúar eiga erfitt með að skilja. Hugsanlega hefði verið hægt að komast hjá beitingu kjarnorkuvopnanna ef strax hefði fallið frá kröfunni um fangelsun keisarans og dóms yfir honum.

Raunar var það keisarinn sjálfur sem tók af skarið og bauð uppgjöf, þegar borgir landsins stóðu í ljósum logum með mannfalli meðal almennra borgara sem skipti hundruðum þúsunda á hverjum degi.

Það er gott að eiga góða ráðgjafa en verra er þegar menn beinlínis laða að sér vonda ráðgjafa eða vilja hafa þá sem harðdrægasta. Þegar horft er á gjörðir sumra ráðamenna bæði hér á landi og erlendis er engu líkara en að svo sé.

Einkum er þar um að ræða ráðríka valdamenn sem búa til það ástand meðal fylgismanna sinna og aðstoðarmanna, að sá þeirra nær mestum frama sem smjaðrar mest fyrir foringjanum sem forðast að gagnrýna hann og mælir upp í honum offors og ofurkapp.

Í hugann kemur einn af helstu stjórnmálaforingjum þjóðarinnar á fyrri hluta síðustu aldar sem oft var afar harðskeyttur og jafnvel ófyrirleitinn og hefði þurft á eiginkonu að halda sem hefði mildandi áhrif á hann þegar hann fór fram úr sér. En því var víst þveröfugt farið. 

Að lokum var þessum stjórnmálamanni ýtt til hliðar af eigin flokksmönnum.

Tveir ráðherrar veittu mér harðar ákúrur og voru með alvarlegar ásakanir í minn garð fyrir 15 árum. Ég sagði þeim báðum frá því að ítarleg rannsókn á þessum sakarefnum á vegum þáverandi útvarpsráðs hefði sýnt fram á að ásakanirnar hefðu ekki við rök að styðjast. 

Annar ráðherrann hlustaði á mig og viðurkenndi að þetta væri víst rétt hjá mér. En bætti síðan við brosandi: "Jæja, fyrst svo er, látum svo vera, - en vertu nú þægur." 

Hinn ráðherrann færðist allur í aukana í löngum reiðilestri sínum yfir bæði mér og kvikmyndatökumanninnum, sem var með mér, hnykkti á ásökununum, sagði að ég og mitt samstarfsfólk værum óalandi og óferjandi, og endaði með því að segja að annað segðu hans heimildarmenn honum og að hann tæki mark á þeim en ekki mér. 

Þegar ég gekk af fundi hans hugsaði ég með mér: "Mikið óskaplega hefur þessi maður valið sér slæma ráðgjafa. Og enn verra er ef hann vill hafa þá svona."  


mbl.is Myndi alltaf ráða sér ráðgjafa í krísu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Metrugl ?

Stutt frétt á mbl.is í kvöld inniheldur sennilega metrugl, þ. e. fleiri villur miðað við lengd texta en lengi hefur sést. Setjum númer á þær. 

1. Strax í fyrirsögninni er villa, sem fór um fjölmiðla í kvöld. "Árekstur í Hveradalsbrekku." Bull. Það er engin Hveradalsbrekka til á Reykjanesskaga og heldur enginn Hveradalur. Hins vegar eru Hveradalir til og skíðaskáli er þar sem og brekka, sem kennd eru við Hveradali.

2. Sagt er að Hveradalsbrekka sé ofan við Hveragerði. Það er steypa. Í fyrsta lagi er engin Hveradalsbrekka til eins og áður sagði og í öðru lagi eru Hveradalir og brekkan við þá hinum megin, á vesturjaðri Hellisheiðar, þrettán kílómetra frá Hveragerði. 

3. Birt er mynd af brekku með textanum "af Hellisheiði". Það er bull. Brekkan er Draugahlíðarbrekka við Litlu kaffistofuna og sést yfir flatneskjuna vestan við Svínahraun en á henni eru Fóelluvötn og Sandskeið, fjarri Hellisheiði. 

4. Ég sá fyrr í kvöld einhvers staðar á prenti að áreksturinn hefði orðið í Hveradalsbrekkku í Kömbunum, sem er auðvitað enn eitt bullið, því að Kambar eru fyrir ofan Hveragerði, Hveradalsbrekka ekki til, og Hveradalabrekka er hinum megin við Hellisheiði, 10 kílómetrum frá Kömbum. 

Áður hafa birst fréttir þar sem Sandskeið var fært upp að Litlu kaffistofunni, Reykjadalur í Þingeyjarsýslu færður austur fyrir Mývatn, Fimmvörðuhálsi skutlað norður á Fjallabaksleið syðri og Eldhraun fært vestur yfir Kúðafljót að Hrífunesi.  


mbl.is Harkalegur árekstur í Hveradalsbrekku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nú reynir á.

Gott var að sjá íslenskt lið með "nýja kennitölu" inni á vellinum í dag á móti Egyptum svo notað sé orðalag fyrirliðans eftir sneypuleikinn í gær. Síðari hluti kennitölu Guðjóns Vals var 1314 í dag, það er 13 mörk úr 14 skottilraunum. 

Sagt var að lykilmenn vantaði í egypska liðið en það vantaði líka lykilmanninn Aron Pálmarsson í íslenska liðið. Á tímabili var hann með hæstu samanlagða tölu skoraðra marka og stoðsendinga allra leikmannanna á HM. Sannkallaður afburðamaður.

En aðrir leikmenn risu bókstaflega upp í hinum mikilvæga leik í dag á sama og fyrrum handboltastórveldið Rússland var rassskellt og lenti langt á eftir efstu fjórum liðunum í sínum riðli.

En nú reynir á íslenska liðið fyrir alvöru. Nú má ekki tapa einum einasta leik hér eftir og heldur ekki treysta á það að lykilmenn vanti í lið andstæðinganna.

Íslenska liðið hefur nú, sem oftar, farið nokkurn veginn erfiðustu leiðina sem fannst til að koma sér áfram og því er afar mikilvægt að ekki sé búið að sóa öllu púðrinu og úthaldinu á hinni erfiðu leið.  


mbl.is Ísland í 16-liða úrslit á HM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fordæminu um Austurbæjarbíó verði fylgt.

Nasa, áður Sigtún og Sjálfstæðishúsið, er ekki eina samkomuhúsið í Reykjavík, sem til hefur staðið að umturna eða rífa. Svipað átti sér stað varðandi Austurbæjarbíó fyrir tæpum áratug. 

Þegar það mál kom upp datt út úr mér í útvarpsviðtali, að undarleg væri sú sjálfseyðingarhvöt í menningar- og minjamálum, sem réði í þessum efnum og strax í kjölfarið fylgdi umræða, þar sem meðal annarra Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi, beitti sér afefli.

Svo fór að hætt var við áform verktaka um miklar framkvæmdir á lóðinni í stíl fyrirhrunsáranna, sem augsjáanlega kostuðu stórfellda ofnýtingu svæðisins, og húsið hefur fengið að vera í friði síðan og komið að notum sem leikhús og samkomuhús.

Vonandi tekst að finna svipað hlutverk fyrir gamla Sjálfstæðishúsið svo að notað sé hið upprunalega heiti hússins. 

Listinn yfir menningarhús í Reykjavík, sem hafa verið rifin, er þegar orðinn langur. Má þar nefna hús eins og Báruna, Fjalaköttinn, Gúttó, Tripolibíó, Hafnarbíó, Hálogaland, Skátaheimilið við Snorrabraut, og Stjörnubíó. Alls átta hús. 

Nú er ekki með þessu sagt að öll þessi hús hefðu átt að standa, en betra hefði verið að fyrirfram hefði verið ákveðið að varðveita til dæmis Fjalaköttinn, fyrsta bíóhús Norðurlanda, og eitt braggabíó.

Íþróttahús MR var í hættu á tímabili sem og Gamla bíó, sem er að ganga í endurnýjun lífdaga sem betur fer.  

  


mbl.is Margir hafa sýnt Nasa áhuga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Urðu ekki Heródes og Pílatus vinir ?

Sagan sýnir að í utanríkispólitík þjóða gilda oft grimmari lögmál en í viðskiptum einstaklinga. Gamla orðtakið að á aftökudegi Krists hafi þeir Pílatus og Heródes orðið vinir hefur margsannast. 

Það hefur árum saman verið á kreiki orðrómur um furðulega samvinnu og næstum því vináttu á milli Gaddafis og breskra ráðamanna, og má það furðu gegna í margra augum, sem muna hryðjverkið sem sprengdi farþegaþotu upp yfir bænum Lockerby í Bretlandi. 

Nú virðast vera að koma fram gögn um að þessi samvinna hafi verið jafnvel meiri en menn grunaði.

Ástæðan er hugsanlega tengd olíuhagsmunum eins og sagan sýnir að ráðið hefur meira en flest annað í viðskiptum og samskiptum þjóða á olíuöld.

Ein af ástæðunum að Ronald Reagan felldi Jimmy Carter af forsetastóli var misheppnuð tilraun til að frelsa gísla sem rænt var í bandaríska sendiráðinu í Teheran 1979.

Ýmis gögn voru dregin fram síðar sem bentu til þess að klerkarnir í Íran hefðu viljað stuðla að valdatöku Reagans með því að draga afhendingu gíslanna þar til að eftir að hann var kosinn.

Heimurinn stóð á öndinni þegar Stalín og Hitler gerðu með sér griðasamning 23. ágúst 1939, en þó voru, ef grannt var skoðað, ákveðin "Machiavellisk"rök fyrir því, vegna þess að báðir högnuðust á því, þótt yfirlýst markmið beggja hefðu fram að því verið þau að knésetja hvorir aðra.

Á sama hátt þótti sumum, sem gátu vitnað í hinar hatrömmustu fjandskaparorð Winstons Churchills í garð Stalíns og kommúnistanna í Kreml, með ólíkindum hvernig hann gæti sama daginn og Hitler réðist á Sovétríkin, svarist í órofa fóstbræðralag með Stalín og hans hyski.

En Churchill svaraði með því að segja að svo mikið væri í húfi að kveða niður villimennsku nasista, að ef á þyrfti að halda myndi allt eins gera bandalag við kölska sjálfan á móti Hitler og ekki eiga í vandræðum með að segja nokkur vinsamleg orð um kölska í Neðri málstofunni ef á þyrfti að halda. 

Í fyrri heimsstyrjöldinni áttu vopnaframleiðendur í viðskiptum yfir víglínuna til þess að græða á stríðinu og í Seinni heimsstyrjöldinni komst GM upp með það að láta Þjóðverjum hergögn í té allt fram til ársins 1943, enda hafði Henry Ford ekki verið feiminn við svipuð viðskipti við bæði Rússa og Þjóðverja allt fram til 1941. 

Nú síðast hefur myndast bandalag á milli fyrrum fjandmanna í Miðausturlöndum gegn ISIS-samtökunum og skondið er að heyra við upptöku stjórnmálasambands við Kúbu kröfur Kana á hendur Kúbumönnum vegna mannréttindabrota þar í landi á sama tíma sem vestrænar þjóðir blaka ekki við mannréttindabrotamönnum í olíuríkjunum við Persaflóa. 


mbl.is Blair lagði lag sitt við Gaddafi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband