"Þú átt að ganga, - ekki of hratt, og alls ekki í ....."

Já, nú segir Gunnar Bragi að málið sé skýrt og orðar það í einni setningu: Að Ísland sé ekki lengur skilgreint sem umsóknarríki og muni smám saman hverfa af listum um umsóknarríki.

Þessi skýri skilningur utanríkisráðherrans vekur samt margar spurningar.

Hvernig er hægt að segja að Ísland sé ekki umsóknarríki þegar í sömu setningu er sagt, að það eigi eftir að taka Ísland "smám saman" af listum yfir umsóknarríki?

Ef ESB getur ráðið hraðanum varðandi það að taka okkur "smám saman" af listunum, hve hratt er þetta "smám saman"? Nokkrir dagar?  Nokkur ár?

Og ef ESB getur bara sisvona tekið okkur "smám saman" af listunum, gæti ESB þá á sama hátt sett okkur "smám saman" inn á listana? Og hvers hratt gæti það gerst?

Þetta minnir mig á það þegar ég fór í ristilspeglun og fékk í hendur skriflega lýsingu á því að taka inn laxerolíu og ganga síðan á eftir.

Mér fannst þetta ekki nógu nákvæm lýsing. Hve lengi átti ég að ganga og hve hratt? Og hvað svo?

Ég lagði því til við lækninn að þetta væri orðað nákvæmara, og gerði þessa vísu að tillögu minni ap lýsingu læknisins á því hvernig ætti að laxera svo að allt væri sagt skýrt og skilmerkilega sem segja þyrfti:

Laxeringin gengur glatt

ef gætir þú að orðum mínum:

Þú átt að ganga, ekki of hratt,

og alls ekki í hægðum þínum.

En rétt eins og hjá utanríkisráðherranum vakna fleiri spurningar en svör. Hvaða hægðir er verið að tala um?  Hversu hratt er "ekki of hratt"? Svona rétt eins og spurt er: Hversu hratt er "smám saman"?

 

 


mbl.is „Málinu lokið af hálfu ESB“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórlega vanmetið ferðamannasvæði.

Reykjanesskaginn er vanmetið ferðamanna- og útivistarsvæði í hlaðvarpa stærsta þéttbýlis landsins og aðal alþjóðaflugvallarins. 

Sum svæðin eru einhver best varðveittu leyndarmál landsins og það kemur sér vel fyrir þá sem ætla sér að kæfa þau í gufuaflsvirkjunum, svo sem Eldvörp, Trölladyngja, Krýsuvík, Ölkelduháls og Grændalur.

Ætlunin er að gera alla leiðina frá Reykjanestá til Þingvallavatns að niðurnjörvuðu svæði stöðvarhúsa, skiljuhúsa, gufuleiðslna, háspennulína og mannvirkjavega, - alls 12 virkjanir, en fjórar eru á því nú. 

Auðvelt er aka á venjulegum bílum að öllum fyrrnefndum stöðum, en engir nema hundkunnugir rata að Eldvörpum og Sogunum, gili við Trölladyngju, en fara verður austur á Landmannalaugasvæðið til að sjá hliðstæðu þess.

Við Eldvörp og Sogin hentar það vel fyrir virkjanafíklana að sem fæstir sjái þessar náttúruperlur, enda hart sótt að þeim til að virkja við Eldvörp, þótt aðeins sé ætlunin að tappa þar af sameiginlegu orkuhólfi þeirra og Svartsengis.

Og til lítils, vegna þess að gufuaflsvirkjanirnar gefa hvorki af sér hreina né endurnýjanlega orku, eins og glögglega er þegar að koma í ljós á Hellisheiði. 

 

Eldvörp er gígaröð, en slík fyrirbæri finnast aðeins á Íslandi og þarf að fara alla leið austur og upp á Suðurhálendið til að sjá hliðstæðu.

En mótbáran við því að kynna náttúruperlur Reykjanesskagans er sú, að þangað sé margfalt styttra að fara fyrir erlenda ferðamenn heldur en að fara til dæmis Gullna hringinn og þess vegna græðum við minna á slíkum ferðamönnum en þeim sem styttra fara.

Þetta rímar ekki við mína reynslu af ferðum um "Silfraða hringinn" á Reykjanesskaga sem ég hef farið með ferðamenn, sem hafa verið í tvo daga í Reykjavík á ráðstefnum og ekki haft tíma til að fara Gullna hringinn.

Þessi stutta ferð, sem hægt er að hafa misjafnlega langa, hefur nefnilega oftast kveikt í þeim löngun til að koma aftur til landsins og dvelja hér lengur og fara víðar. 

Gott er framtak Sigurðar Boga Sævarssonar sem þessi bloggpistill er tengdur við, og ber að þakka það.

Eins gott að fara svona ferð sem fyrst, því að til stendur  að endastöðin í Flóanum, Urriðafoss, verði þurrkaður upp með virkjun, sem kennd verður við hann.   


mbl.is Jörðin kraumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ljótur blettur á sögu okkar.

Spánarvígin svonefndu fyrir 400 árum eru einn ljótasti blettur á sögu okkar Íslendinga. Grimmdin sem sýnd var þegar Baskarnir voru hundeltir víða um Vestfirði og drepnir gaf lítið eftir grimmd vígamanna Íslamska ríkisins sem fordæmd er á okkar dögum. 

Hugsunarhátturinn að baki svona verknuðum, að leyfa ótakmörkuð dráp "ef brýn nauðsyn ber til" á sér hliðstæður nú á dögum, jafnvel ótrúlega nálægt okkur sjálfum. 

Vísa ég þar til bloggpistils í fyrradags um heræfingu NATO í júlí 1999 með samþykki eða jafnvel að frumkvæði íslenskra ráðamanna sem fólst í því að æfa það að F-15 þotur réðust á náttúruverndarfólk á hálendi Íslands og sölluðu það niður.

Vegna flugbanns á æfingasvæðinu lét ég hrekjast út fyrir það á meðan bannið var í gildi og upplifði því það að óttast þá lífsreynslu að horfa yfir dýrð viðerna Íslands framan í nakið ofurvald.  


mbl.is Baskar ekki réttdræpir á Vestfjörðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framherjar íslenskrar menningar.

Magnús Ólafsson var einn af hinum ómetanlegu framherjum íslenskrar menningar og þjóðrækni í Vesturheimi. Hér uppi á Fróni, í 4000 kílómetra fjarlægð, eigum við þessum eldhugum mikið að þakka. 

Afl þessarar ræktarsemi við uppruna sinn og fjarlægt land má merkilegt heita 130 árum og fjórum kynslóðum eftir landnám Íslendinga vestra, þar sem ötulir framherjar á borð við Magnús héldu uppi merkinu af fádæma dugnaði og ræktarsemi og viðhéldu íslenskri tungu miklu lengur en búast mátti við svo löngu eftir brottför frumherjanna frá Íslandi og kynslóðaskiptin eftir það.

Á ferðum um Ameríku 1999 og síðar voru það einkum fjögur svæði, sem vöktu athygli fyrir þetta sterka menningarstarf, Manitoba, Norður-Dakota, Washington island í Michicanvatni og bærinn Spanish fork sunnan við Salt lake city í Utah.

Tveir síðastnefndu staðirnir hafa fallið svolítið í skuggann af Íslendingabyggðunum í hinum samliggjandi fylkjum Manitoba í Kanada og Norður-Dakota í Bandaríkjunum, en afl ræktarseminnar við Ísland og íslenska menningu er firnasterkt á Washington island og þó einkum í Spanish fork, þar sem sem Mormónatrúin beinlínis hvetur til þess að hyggja að forfeðrum og formæðrum og rækta uppruna sinn. 

Þar voru menn til dæmis fljótari að koma upp fullkominni skrá yfir Íslendinga eftir 1703 í tölvutæku og skipulegu formi samkvæmt nýjustu kröfum um slíkt heldur en hér á landi og minnismerkin þar um Íslendinga, sem gengu þúsundir kílómetra á leið til fyrirheitna landsins, eru kannski það ógleymanlegasta sem hægt er að upplifa á Íslendingaslóðum vestra.   


mbl.is Andlát: Magnus Olafson
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áminning um aldir alda.

Það sem við blasti þegar bandamenn komu í fangabúðir nasista fyrir 70 árum á að vera eilíf áminning til mannkynsins um það sem á ekki að vera til á jarðríki, - en er það samt. 

Það er fyrst hin allra síðustu ár sem það seytlar inn í huga mér hve nálægt ég var á æskuárum hér lengst norður í höfum og raunar síðar á ævinni mestu og kaldrifjuðustu villimennsku, sem mannkynssagan kann frá að greina. 

Það kann að vera að hægt sé að skrifa fleiri mannslíf á reikning Gengis Khans, Stalíns, Maós eða japönsku hershöfðingjanna á árunum 1937-45 heldur en Hitlers og meðreiðarsveina hans. 

Það sem skilur útrýmingarherferðina á hendur Gyðingum frá er tvennt:

Annars vegar að markmið hennar var aðeins eitt: Að drepa fólk af ákveðnum kynþætti, helst alla þá 10,5 milljónir manna, sem skilgreindir voru á þann veg. 

Dráp hinna, sem nefndir voru, voru að vísu óréttlætanleg, en samt réttlætt hjá Stalín með því að iðnvæða Rússland og stofna til ríkisrekins landbúnaðar, sama hvað það kostaði og hjá Maó að koma á kínverskum kommúnisma, sama hve miklar mannfórnir það kostaði.

En Helförin hafði aðeins eitt markmið: Manndráp.

Og hitt atriðið sem gerði þessa villimennsku sérstaka var  og hin djöfullega tæknilega, úthugsaða og skipulega framkvæmd hennar.

Milljónir trúgjarnra ánetjuðust þessum samviskulausu mönnum, sem að ofan voru nefndir, um lengri eða skemmri tíma.

Besti og ljúfandi heimilisvinur foreldra minna á æskuheimili mínu, Baldur Ásgeirsson, var kostaður af sjálfum Heinrich Himmler til þess að nema mótasmíði og allt sem viðkæmi höggmyndalist í eitt ár við sjálfar Dachau fangabúðirn nasista, þar sem Gyðingarnir hjuggu hlekkjaðir efnið handa honum hinum megin við múrvegginn. 

Allir vissu að vísu um Gyðingaandúð Hitlers en ennþá var Kristalnóttinn ekki komin og enginn vildi trúa því hve skefjalaus hinn eindregni brotavilji og drápsþorsti nasistanna voru. 

Það var skiljanlegt að ungur maður á Íslandi með áhuga á því að nema þessi fræði hafnaði því ekki ekki að þiggja boð jafn valdamikils manns og Himmlers á tímum atvinnuleysis og kreppu á Íslandi.  

Himmler hafði jú ástríðufullan áhuga á þessari list og dáðist að framherjum germanskrar menningar í vestasta landi Evrópu. 

Agnar Koefoed-Hansen lærði kornungur flug og flaug fyrir Lufthansa í Þýskalandi á mestu uppgangstímum Þjóðverja og hlaut þar einstæða menntun af Íslendingi að vera, svo mikla, að hann var gerður að flugmálaráðunaut íslensku ríkisstjórnarinnar. 

Í gegnum feril sinn í Þýskalandi komst hann að sjálfsögðu í kynni við ráðamenn flugmála þar í landi og þar með æðstu menn þýska ríkisins, þótt ekki hitti hann Hitler sjálfan. 

Agnar æfði ýmsar íþróttir kappsamalega, svo sem skotfimi, og til stóð í samkvæmi með innstu koppum í búri nasista, að hann atti kappi við sjálfan Reinhardt Heydrich, sem Hitler fól upphaflega að stjórna Helförinni.

Fyrir tilviljun fórst þetta einvígi fyrir.

Agnar lærði síðan til þess að verða lögreglustjóri með því að fara á námskeið í þeim efnum hjá SS-sveitum Himmlers í Þýskalandi sumarið 1939!

Hann stóð sig hins vegar þannig sem lögreglustjóri í Reykjavík og sem flugmálaráðunauturinn, sem lagði til að ósk Hitlers um aðstöðu fyrir Lufthansa á Íslandi 1939 yrði hafnað, - sem vakti undrun víða á þeim tíma sem enginn þorði annað en að semja við Hitler, - að þegar Bretar eftir hernámið vildu taka hann höndum og setja í Tower of London, tókst íslenskum ráðamönnum að telja Breta ofan af því. En litlu munaði. 

Ég kynntist Agnari vel og hafði og hef miklar mætur á minningu þess manns sem og minningu Baldurs Ásgeirssonar. En nálægð þeirra og mín við hið illa vald er áminning um að halda vöku sinni.

Á okkar tímum blasir við skefjalaus villimennska morðóðra öfgamanna sem ofsækja alla aðra en þá sem játast hinum trylltu trúaröfgum þeirra.

En jafnframt blasir við, að frá lokum Seinni heimsstyrjaldarinnar hafa öflugustu herveldi heims varið milljónum milljarða króna í hátæknivæddustu uppbyggingu allra tíma, kjarnorkuvopnabúr sem geta eytt öllu lífi á jörðinni í krafti þeirrar nauðsynlegu forsendu, að kjarnorkuveldin séu reiðubúin að beita þeim.

En það er einmitt inntak MAD-kenningarinnar (Mutual Assured Destruction) eða GAGA (Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra)

Hvernig getur okkur verið sama um að ítrustu vitsmunum og tækni mannsins sé beitt til að fullkomna getuna til svo stórkostlegra drápa, að villimennska nasistanna er eins og smámunir í samanburðinum?   


mbl.is Þýskalandsforseti þakklátur Bretum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Turninn sýnist hallast.

Eitt af því sem gerir Hallgrímskirkju skrýtna og óvenjulega er það, að frá tveimur sjónarhornum sýnist turninn hallast. 

Ástæðan er sú að á hornum turnsins liggja hinar sérkennilegu eftirlíkingar af berggöngum úr stuðlabergi lóðréttar utan á honum.

Fyrirferð þessa óvenjulega fyrirbrigðis í arkitektúr og stærð og umfang turnsins sjálfs eru einnig í ósamræmi við stærð kirkjuskipsins sjálfs sem sýnist fyrir bragðið mun minna en það raunverulega er.

Kirkjan var afar umdeild á sínum tíma og efni í hatrammar deilur, samanber ljóð Steins Steinarrs með sinni miklu háðsádeilu.

Þetta hefur átt við fleiri fræg fyrirbæri, sem Eiffelturninn, sem þótti bera borgina ofurliði og til stóð að rífa í fyrstu.

Nú held ég að enginn vilji í burtu tvö helstu kennileiti Reykjavíkur, Perluna og Hallgrímskirkju, enda báðar byggingarnar afar sérstæðar. Einkum er Perlan tákn um sömu sérstöðuna og fels í nafni Reykjavíkur, það er hverahitans.

Harpan á eftir sanna sig og er í harðri samkeppni við svipuð hús erlendis, þar sem óperuhúsið í Sidney er sennilega enn á toppnum. 

 

 


mbl.is Hallgrímskirkja meðal skrýtnustu húsa heims
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útlendingur með íslenska afsökun: "Hvort eða er.."

Hingað til höfum við Íslendingar að mestu verið einfærir um  að sækja að íslenskri náttúru með mestum mögulegum óafturkræfum neikvæðum áhrifum, svo sem með Kárahnjúkavirkjun. 

Helsta og klassískasta afsökun okkar hefur verið og er "hvort eð er..." afsökunin, sú að íslensk náttúra sé sífellt að breyta landinu og að við, sem hluti af náttúrunni, eigum að vera stórtæk á því sviði, enda muni náttúran sjálf "hvort eð er" breyta öllu mest á endanum. 

Nú heyrum við rök útlendings sem eru í takt við "hvort eð er.." kenninguna. Orð hans um að hvort eð er muni aska frá eldgosum setjast í hverina á Geysissvæðinu er samt einhver sú allra langsóttasta. 

Sem dæmi um "hvort eð er.." kenninguna má nefna, að í góðu lagi sé að reisa hvaða mannvirki sem vera skal á Torfajökulsvæðinu og öllum öðrum hliðstæðum náttúruperlum landsins og umturna þeim, því að "hvort eð er" muni verða þar stórgos einhvern tíma á næstu öldum. 

Í lagi væri að gera stíflu við suðurenda Þingvallavatns og stækka Steingrímsstöð, þótt Þingvellir myndu sökkva við þetta, því að "hvort eð er..." muni land síga við norðanvert vatnið í framtíðinni og vellirnir sökkva. 

Afsökunin er algild: Okkur er heimilt að fara með land okkar og náttúru þess eins og okkur sýnist. Gildir þá einu þótt draumsýnin feli í sér stórfellt brot gegn frelsi komandi kynslóða, milljónum Íslendinga framtíðarinnar, sem við tökum ráðin af með þessu framferði. 

Við höfum heimild til þess að hrifsa allt það til okkar sem okkur er mögulegt. 

"Hvort eð er..." kenningin er náskyld "túrbínutrixinu" sem varð til árið 1970 þess efnis að hvort eð væri væri búið að kaupa svo stórar túrbínur í nýja stórvirkjun að ekki yrði aftur snúið. 

Nú er "hvort eð er" búið að byrja á að reisa kerskála álvers í Helguvík og þess vegna verður samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar ekki aftur snúið með það að umturna náttúru landsins með virkjunum allt frá Reykjanestá austur í Skaftafellssýslur og yfir hálendið.

Daginn sem andófsfólk var handtekið í Gálgahrauni var stærstu jarðýtu landsins beitt til þess að fara hamförum eftir öllu vegarstæðinu til þess að kvöldi væri hægt að segja að hvort eð væri væri búið að leggja hraunið í veglínunni í rúst.

Þessi stærsti skriðdreki landsins sem beitt var þennan eina dag var til að sýna mátt og megin "hvort eð er.." kenningarinnar.

Svipuð hugsun lá að baki því í júlí 1999 þegar ég var flæmdur í burtu fljúgandi yfir miðhálendinu af F-15 orrustu- og sprengjuþotum, stórvirkustu drápstækjum öflugasta herveldis heims sem íslenskir ráðamenn báðu NATO um að æfa sig á gegn hryðjuverkaógn Íslands, náttúruverndarfólki, sem heræfingin byggðist á að væru þarna á ferð og þyrfti vera búið að æfa hvernig ætti að murka niður.

Það þurfti hvort eð er að æfa sig á að nota drápstólin og þá var náttúruverndarfólk nærtækast.  


mbl.is Ætlar ekki að greiða sektina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hvað hefur þjóðin gert...?"

"Hvað hefur þjóðin gert til þess að verðskulda svo voðalega bankamenn?" spyr Páll Vilhjálmsson. 

Hann svarar ekki spurningunni en bendir á að neyðarlög og neyðaráætlun vegna hugsanlegs hruns bankakerfisins hafi verið til reiðu þegar Hrunið kom og að það sé samsvarandi og viðbúnaður Íslendinga þegar Þjóðverjar tóku Danmörku 9. apríl 1939.

Þar með er svo að sjá við Íslendingar og ráðamenn okkar hefðum ekkert rangt gert, heldur einingis hinir "voðalegu bankamenn."

Málið er ekki alveg svona einfalt. Nefnum nokkur dæmi.

Þegar rödd Danske bank heyrðist 2006 trúði þjóðin eða að minnsta kosti yfirgnæfandi meirihluti hennar þeim sem sögðu að hér væru á ferð "danskir öfundarmenn" og látið að því liggja að þeir þyldu ekki að gamla nýlendan væri að kaupa upp eignir í Kaupmannahöfn.

Gaman að geta blásið í glæður þjóðrembunnar við svona tækifæri. 

Þjóðin trúði Hannesi Hólmsteini sem sagði að Ísland gæti orðið jafnoki stærstu fjármálamiðstöðva heims og að nauðsynlegt væri varðandi "íslenska efnahagsundrið" að "bæta í" og auka hraðann í uppsveiflunni.

Þjóðin trúði kosningaloforðunum 2007 "traust efnahagsstjórn!" og "árangur áfram - ekkert stopp!" 

Þjóðin trúði því að hlutabréfin í bankabólunni myndu hækka áfram endalaust og að gengi krónunnar gæti verið áfram 30-40% hærra en nokkru sinni fyrr. 

Þjóðin trúði því að það væri skynsamlegast í góðæri að fjórfalda skuldir heimilanna og fjórfalda skuldir fyrirtækjanna á örfáum árum. 

Þjóðin trúði fjármálaráðherranum sem sagði á þingi vorið 2008: "Sjáið þið ekki veisluna?"

Þjóðin trúði seðlabankastjóranum sem sagði um svipað leyti að íslensku bankarnir stæðust ströngustu álagspróf. 

Þjóðin trúði þeirri stjórnvisku Seðlabankastjórans sem birtist í því að það sama vor hafnaði hann boði breska Seðlabankans um að hjálpa til við að vinda ofan af bankabólunni.

Þjóðin trúði þeim ráðherra sem sagði tveimur mánuðum fyrir Hrun, að erlendur efnahagssérfræðingur, sem gagnrýndi íslenska efnahagsundrið, þyrfti að fara í endurhæfingu.

Þjóðin trúði því að þeir, sem voru gagnrýnir á íslenska efnahagsundrið bæði hér og erlendis væru úrtölumenn og kverúlantar.

Þjóðin trúði Viðskiptaráði 2007 þegar það sagði, að til Norðurlandanna þyrftum við ekkert að sækja varðandi efnahagsmál. 

Þjóðin trúði því að íslenskir bankamenn væru afburða snillingar sem hefðu gerbylt lögmálum í fjármálalífinu. 

Þjóðin trúði forseta sínum sem trúði því sjálfur að íslensku útrásarvíkingarnir í bankakerfinu væru jafnokar landkönnuðanna íslensku sem fundu Ameríku fyrir rúmum þúsund árum. 

 

Þjóðin trúði því þá að það væri svo stórkostlegt að Icesave væri í sömu stöðu og útibú Lansbankans hér á landi af því að þá "kæmu peningarnir strax inn."

Þjóðin trúði því og trúir því enn hvað það hefði verið dásamlegt að 40% af kostnaðinum við að reisa Hörpuna fengust frá Hollendingum og Bretum, oft á tíðum góðgerðarsjóðum og lífeyrisþegum, sem trúðu á íslenska bankakerfið og töpuðu inneignum sínum.

Þetta erlenda fólk var talið eiga það skilið að tapa fé sínu fyrir það hvað það hefði verið trúgjarnt og fúst til að trúa fagurgalanum og spila áhættuspil með fé sitt.

Það gilti um útlendinga en ekki um okkur sjálf.  


mbl.is Tengingin við Hreiðar og Sigurð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Í Yellowstone eru heilög vé."

Þessi orð sagði bandarískur fyrirlesari á tíu ára afmælisfundi Ísor í hitteðfyrra þegar hann var að sýna fundarmönnum kort af helstu jarðvarmasvæðum Bandaríkjanna og greina frá því að reynsla og þekking Íslendinga myndi geta nýst Bandaríkjamönnum vel.

Hin fjölmörgu svæði voru sýnd með mislitum og misstórum hringjum, og voru lághitasvæðin ljósgul en háhitasvæðin með roða.

Eftir að hafa farið snögga hringferð um landið á kortinu benti bandaríski sérfræðingurinn á stóran eldrauðan hnött vestarlega í landinu og sagði: "Þetta er Yellowstone. Þar verður aldrei hróflað við neinu, því þar eru heilög vé." 

Samt er þetta lang, lang öflugasta háhitasvæði Norður-Ameríku, með tíu þúsundu hverum, þar á meðal hundrað goshverum. 

Þar væri hægt að reisa tugi ígilda Hellisheiðarvirkjunar og gera blá, gul, græn og rauð lón að vild og njörva allt svæðið þvers og kruss í neti í háspennulínum, gufuleiðslum, stöðvarhúsum, skiljuhúsum og virkjanavegum, auk mikilfenglegrar stíflu í Yellowston-ánni þar sem samnefndur foss yrði tekinn í nefið fyrir öfluga vatnsaflsvirkjun í nafni hins íslenska slagorðs: Við verðum að lifa á landinu og nýta það. 

Þar væri líka hægt að lita gosin úr Gamla trygg (Old Faithful) í öllum regnbogans litum. 

Og hægt að leggja margfaldan "landstreng" fyrir sölu rafmagns til Salt Lake City og annarra stórborga í vesturátt frá hinu stórkostlega nýtingarsvæði í Klettafjöllunum. 

Allt í nafni hinnar íslensku trúarsetningar um nýtinguna, sem á okkar landi er opinberlega stillt upp í rammaáætlun sem andstæða verndunar, sem ekki er metin til krónu virði. 

Þessi eina setning bandaríska sérfræðingsins fannst mér vera frétt ráðstefnunnar, "news" á ensku. 

En enginn fjölmiðill hafði áhuga á því heldur var að sjálfsögðu tekið einn einu sinni gamla góða viðtalið um það hvernig við Íslendingar værum í fararbroddi á heimsvísu í "nýtingu hreinnar og endurnýjanlegrar orku" eins og hún birtist okkur á Hellisheiði og dvínandi afli og eiturgufum. 


mbl.is Ekki list heldur sóðaskapur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hið takmarkalausa skipulagsvald sveitarfélaga er vaxandi vandi.

Hið nær takmarkalausa skipulagsvald sveitarfélaga hefur lengi verið verið vandi, sem taka hefði þurft á fyrr, því að það veldur vaxandi vanda og tjóni. 

Með takmarkalítilli beitingu þessa skipulagsvalds auk túlkun friðhelgis einkaréttar út í ystu æsar hvar sem er, hefur verið vaðið oft á tðum yfir stórfellda almannahagsmuni, sem eru í vaxandi mæli fyrir borð bornir. Húnavallaleið

Tvö hliðstæð dæmi eru úr samgöngukerfinu, annars vegar höfnun gerðar hagkvæmasta vegarkafla á Íslandi sem styttir leiðina í gegnum Blönduósbæ um 14 kílómetra, - og takið efitr orðalaginu, - "í gegnum Blönduósbæ" því að hin stytta leið myndi áfram liggja á margra kílómetra kafla áfram um sveitarfélagið. 

Á rissinu á kortinu er núverandi hringvegur rauðlitaður, en hugmyndin að nýjum vegi litaður með svörtum lit. 

Enn stærra dæmi er það þegar skipulagsvald Reykjavíkurborgar er notað til þess að vaða yfir eignarrétt og hagsmuni ríkisins á flugvallarsvæðinu í Reykjavík og gegn eindregnum þjóðarvilja, sem birst hefur í skoðanakönnunum, þar sem meira að segja Reykvíkingar sjálfir vilja ekki að flugvöllurinn verði lagður niður.

Það er full ástæða til þess að gefa sveitarfélögum landsins meiri hlut í meðferð opinbers fjár og starfsemi á vegum opinberrar þjónustu og framkvæmda, og í langflestum skipulagsverkefnum landsmanna geta og eiga sveitarfélögin að ráða för.

En núverandi offors og yfirgangur gengur ekki lengur.

 

P.S. Ég var að bæta kortinu hér að ofan inn á eftirá, því að í athugasemdum við pistilinn er ég sakaður um að fara með tóma steypu varðandi legu og lengd hringvegarins um land Blönduósbæjar og um legu nýja vegarins, sem ég flutti þó fréttir um þegar fyrir 20 árum og einnig eftir það án þess að þá eða síðar kæmu fram ásakanir um fara rangt með í þessu máli hvað varðar meginatriði hugsanlegar styttingar þjóðleiðarinnar. Vísa að öðru leyti til svars míns í athugasemdum.   


mbl.is Ekki tímabært að hefja framkvæmdir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband