Spilað úr sterkri stöðu?

Benedikt Jóhannesson lýsti því strax yfir eftir kosningar að hann hefði sagt við forseta Íslands, að hann teldi rétt að hann fengi umboð til stjórnarmyndunar. 

Það var hraustlega mælt hjá formanni nýs flokks með aðeins um tíunda hluta greiddra atkvæða í kosningunum, helmingi minna en fylgi Sjálfstæðisflokksins. 

Enginn nema Benedikt sjálfur veit, af hverju hann gaf þessa yfirlýsingu.

Er það vegna stöðumats hans, sem bendi til að út frá ákveðinni oddaaðstöðu geti hinn nýi flokkur, rétt hægra megin við miðju, ráðið mestu um það stjórnarmynstur sem verði ofan á að lokum og að þess vegna sé hættandi á að spila stjórnarmyndunarpókerinn strax út frá sterkri stöðu? 

Strax í kjölfar þessa spilaði Benedikt þannig úr stöðunni að líma Bjarta framtíð við sig og gera þessa tvo samanlímdu þingflokka að næst stærsta þingmannahópnum. 

Allt í einu var kominn með þingmannahóp sem var fjölmennari en þingflokkar Vg og Pírata og slagaði hátt í Sjálfstæðisflokkinn.

En það sem mikilvægast var: Þessi 17 manna þinmannahópur lagði undir sig næstum tvöfalt stærra svæði á hinni öllu ráðandi miðju en Viðreisn ein eða Björt framtíð höfðu haft fram að því, hvor flokkurinn um sig. 

Ef límið á milli þessara þingflokka heldur, er staða Benedikts stórum sterkari en virtist í upphafi. 

Og viðræðurnar fram að þessu hafa gert það ólíklegra en áður að mynduð verði stjórn yfir miðjuna framhjá Viðreisn. 

Ennfremur fært Benedikt þá óskastöðu að hafa getað haft áhrif á báðar þær formlegu stjórnarmyndunarviðræður, sem hafa farið fram með því einfaldlega að vera eini flokkurinn, ásamt Bjartri framtíð, sem hefur tekið þátt í báðum tilraununum og geta mótað að vild þau skilyrði, sem sett hafa verið sitt á hvað fyrir þátttöku í þessum tveimur módelum. 

Hingað til hefur Benedikt spilað djarflega en vel úr stöðunni, að því er virðist með jafn mikið sjálfstraust og birtist í yfirlýsingunni að hann ætti að koma til greina við að leiða formlegar stjórnarmyndunarviðræður.

Nú er spurningin hvort þetta stöðumat hans heldur, hvort niðurstaðan verði stjórn, sem hann tekur þátt í, hugsanlega sem forsætisráðherra, sem nær málefnum sínum betur fram en sem nemur þingmannafjöldanum. 

Eða hvort annað hvort verði ómögulegt að mynda meirihlutastjórn eða að Viðreisn lendi eftir allt utan stjórnar. 

 

 

 


mbl.is Auknar líkur á þriggja flokka stjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Bahrain norðursins" síbyljan. Hið ódrepandi Hrunæði.

Í áfergju sinni í að virkja öll helstu ósnortnu náttúruverðmæt Íslands sundur og saman hafa menn farið óravegu fram úr sjálfum sér í áratugi. 

Þegar margumtalaður sæstrengur milli Íslands og Skotlands kom fyrst til umræðu fyrir um tveimur áratugum var skrifað fjálglegt Reykjavíkurbréf um málið á þá lund að "Ísland gæti orðið Bahrain norðursins," og í framhaldinu var farið að ræða um það að orkan væri svo gífurleg, að við Íslendingar gætum stjórnað orkuverði í Evrópu! 

Setið við strenginn sem nokkurs konar ígildi olíufursta í skikkjum með vefjarhetti og deilt og drottnað á meginulandinu! 

Þegar nánar var aðgætt kom í ljós að öll þessi gífurlega orka Íslands var langt innan við eitt prósent af orkuframleiðslu álfunnar! 

En síbyljan holar steininn og enn er fimbulfambað með þetta mál á sömu nótum og ævinlega, og framlag fransks fyrirtækis til strengsins miklað mjög. 

Þegar það er skoðað út af fyrir sig nemur það um einum þúsundasta af kostnaðinum, sem áætlaður er! 

Rætt er um í tengdri frétt að sæstrengurinn gæti gert fyrirhugað kjarnorkuver í Hinkley óþarft. 

Ekki er haft fyrir því að fletta upp hvað það á að verða stórt, en áætlað afl þess verður 3200 megavött eða hátt í fimm Kárahnjúkavirkjanir! 

Sem sagt: Öll núverandi orkuframleiðsla Íslands næstum þrefölduð! 

Það þurfti bankahrun til þess að slæva aðeins tryllingslegar hugmyndir manna um að Ísland gæti orðið Singapúr norðursins. 

En ekkert virðist geta slævt hugsunina um "Bahrain norðursins".


mbl.is Íslensk eldfjöll hiti upp bresk hús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Beit af sér tíu Bandaríkjaforseta.

Frægt er hve mörg banatilræði voru gerð við Adolf Hitler. Þau voru þó áreiðanlega hvergi nærri eins mörg og þau sem gerð voru við Fidel Castro, enda fékk maðurinn miklu lengri líftíma til að sleppa en Hitler. 

Á valdatíma Castros l959-2008 voru eftirtaldir menn forsetar Bandaríkjanna og allan tíman reyndi leyniþjónusta Kananna að kála Castro: 

Dwight D. Eisenhover - John F. Kennedy (drepinn) - Lyndon B. Johnson - Richard M. Nixon - Gerald Ford - Jimmy Carter - Ronald Reagan (næstum drepinn) - Georg Bush - Bill Clinton - Georg W. Bush.  

Ef menn segja að með stjórn bróður Castros hafi hann í raun ráðið miklu, bætist Obama við sem ellefti forsetinn.  En nú verða þeir ekki fleiri, Castro er allur. 

Þótt ókostir einveldis og harðstjórnar Castros blasi við og menn dundi sér við að finna út hve margir hafi látið lífið vegna þess, þarf þó að draga frá á móti og giska á hve marga áframhaldandi einveldi manna eins og Battista og ýmissa einvalda, þóknanlegum Bandaríkjamönnum, hefði drepið með omurlegu heilbrigðiskerfi og velferðarkerfi, að öllum líkindum mun lakara en það sem Castro kom þó á.

Giska má á hvort hægt hefði verið að ná fram jafn öflugu heilbrigðiskerfi eða jafnvel betra ef vægar hefði verið farið í sakir og komið á lýðræðislegu félagshyggjustjórnarfari í ætt við "norræna módelið" sem ekki hefði kallað yfir sig harkaleg viðbrögð Bandaríkjamanna. 

Einnig má giska á hve miklu tjóni á þjóðlífi og efnahagslífi Kúbu refsiaðgerðir Bandaríkjamanna ollu.

Sennilega þarf nokkur tími að líða þar til hægt verður að meta þetta til fulls.

Eða, eins og Barack Obama hefur orðað það: Framtíðin mun kveða upp sinn dóm.    


mbl.is Fidel Castro látinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verið að reyna að komast hjá þáttöku okkar.

Nú þegar liggja fyrir öll gögn um það hverju breytt samsetning bílaflotans skilar í því að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda. 

Framundan eru framfarir í gerð vistskárri bíla en nú þegar liggja fyrir aðferðir til að hefja þessa minnkun strax. DSCN7958

Sem dæmi má nefna að sjálfur hef ég þegar gert ráðstafanir til að minnka minn persónulega útblástur um 70% og var til dæmis síðast í gærkvöldi að koma úr ferð austur í Grímsborgir í Grímsnesi og til baka á léttu vespuvélhjóli, sem er með aðeins þriðjung af útblæstri ódýrustu bílanna. 

Hef síðustu fjóra mánuði ekið alls tæplega 3000 kílómetra á þessu hjóli í ferðum um allt land. 

Í styttri ferðir innanbæjar í Reykjavík nota ég líka rafreiðhjól, sem er með núll útblástur. kawasaki-j300-640x408-620x395

Þetta er upphafið á hreinum sparnaði og ekki skemmir fyrir að slá á þau gagnrök að það sé hægara að predika yfir öðrum en að fara eftir því sjálfur. 

Þjóðir heims leggja mikið upp úr notkun einkabílsins, því að hversdagslegt snatt á honum er langstærsti þátturinn í menguninni. 

Hvergi í veröldinni er jafn auðvelt að gera þetta en hér á landi.Renault Twizy

En þá bregður svo við að jafnvel er lagt til að leggja öll gjöld af bensín- og olíuknúnum bílum og láta í staðinn nægja að fara út í hægfara tilraunastarfsemi með því að moka ofan í skurði. 

Með þessu er verið að reyna að komast hjá þátttöku okkar í átaki þjóða heims gegn loftslagsvandanum.

Á sama tíma sem við Íslendingar drögu lappirnar í þessum efnum með mest mengandi bílaflotann í okkar heimshluta berjum við okkur á brjóst og segjumst hafa verið í fararbroddi í viðleitninni við að minnka notkun jarðefnaeldsneytis.

Má skilja af þessu að þetta hefðum við gert af hugsjónaástæðum, en þannig var það nú bara ekki.

Þegar þetta hófst, á stríðsárunum og síðan víða á áttunda og níunda áratugnum var það eingöngu vegna þess að það borgaði sig peningalega og sparaði okkur gjaldeyri.  


mbl.is Vantar vísindin við endurheimt mýra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn meiri tilraunastarfsemi á Grundartanga?

Það kom fram í fréttum í fyrra að starfsemi sólarkísilverksmiðju Silicor materials á Grundartanga yrði mengunarlaus, vegna þess að þar yrði notaður alveg nýr búnaður til að afstýra mengun. 

Svo gulltryggt þykir þetta að verksmiðjan þarf ekki einu sinni að fara í mat á umhverfisáhrifum og er nýfallinn dómsúrskurður þess efnis. 

Upplýst hefur verið í Helguvík, að mengunin frá kísilverksmiðjunni í Helguvík hafi verið innan settra marka, og því er mikið ósamræmi á milli upplifunar íbúanna, sem kvarta og á milli þess sem leyft hefur verið. 

Á facebook-síðu íbúanna er kvartað yfir því að íbúar Reykjanesbæjar skuli vera tilraunadýr. 

Í ljósi þessa verður spennandi að sjá hvernig til tekst á Grundartanga, því að sé nokkur starfsemi "tilraunastarfsemi" hlýtur sú aðferð, sem sagt er að nota eigi í fyrsta skipti í heiminum á Grundartanga að vera það. 


mbl.is Áhyggjuefni að ofnunum muni fjölga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju ekki á eftir sumardeginum fyrsta?

Það er nýbúið að halda Dag íslenskrar tungu hátíðlegan og fyrr í haust Dag íslenskrar náttúru.

Eins íslenskt og hugsast getur.

Á hverju vori er haldinn hátíðlegur elsti alíslenski hátíðisdagurinn, sumardagurinn fyrsti, ævinlega á fimmtudegi. 

Af hverju er "bjartur föstudagur" ekki haldinn hátíðlegur á eftir honum ef það er svona mikil nauðsyn á slíkum degi? 

Líklegt svar: Nei, þá er ekki hægt að nota þetta sem innspýtingu og upptakt í jólaverslunina.  

Nei, við verðum að gera eins og Kaninn, kalla þetta "black Friday" næsta dag eftir Thanksgiving day. 

Ekki þakkargjörðardaginn, nei, Thanksgiving day.

Þá er Kaninn að ná sér eftir hátíðarhöld Thanksgiving day og nota þennan föstudag sem innspýtingu fyrir sína jólaverslun og við verðum líka að gera það. 

Við verðum að elta Kanann, það er algert möst. 

Glöggur maður benti á á facebook í gær að Thanksgiving day hefði ekki aðeins verið tekinn upp til að þakka fyrir vel heppnað landnám á austurströnd Bandaríkjanna, heldur líka til að fagna því að búið væri að losa sig við Indíánana á svæðinu.

Við Íslendingar verðum þá að halda upp á það líka! 

Jólin eru upphaflega norræn hátíð til að fagna hækkandi sól.

Þau heita jól hjá okkur, ekki Christmas. En það er kannski stutt í að við eltum Kanann og höfum heiti þessarar hátíðar á ensku eins og Black Friday. Það væri svo sem eftir öðru. 

Þessi elsti uppruni jólanna breytir ekki því að jólin eru mesta hátíð kristinna manna og hátíð jólabarnsins og barnanna. 

En að undanförnu hafa helstu fréttir um þau verið fólgnar í spám um það hve mörgum milljarðatugum meira verði eytt í jólabísnissinn en í fyrra. 

Bísniss, bísniss, bísniss, american way. 

Aðventan hefst á sunnudaginn og kom til Íslands með kristninni, þannig að það er komin löng hefð á hana.

En engin hugmynd hefur verið viðruð hjá kaupahéðnum um að virkja upphaf hennar. Black Friday færir þeim nefnilega heila blússandi verslunarhelgi og miklu meiri auglýsingu en fyrsti sunnudagur í aðventu.

Þótt Valentínusardagurinn sé af amerískum uppruna var þó ákveðin alþjóðleg þörf fyrir þann dag, líka hér á landi.

Kannski ekkert verra að láta hann verða að degi elskendanna en hvern annan.

En Thanksgiving day og Black Friday eiga ekkert meira erindi til Íslendinga en að öll þjóðin rjúki til að halda upp á þjóðhátíðardaga annarra þjóða af sömu ákefð og okkar eigin.   

 


mbl.is „Aldrei séð þetta fyrr“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margar ríkisstjórnir komu undir á meðan ekkert umboð var.

Margar ríkisstjórnir fullveldistímans hafa orðið til án þess að forseti hafi fyrst verið gefið einhverjum sérstökum umboð til þess að mynda þær. 

Sumar þeirra komu eins og þruma úr heiðskíru lofti og stað þess að forseti hefði frumkvæði um að gefa umboð, eftir að sú leið hafði reynst árangurslaus, gekk viðkomandi stjórnmálamaður á fund hans og sannfærði hann um að hann hefði þingmeirihluta að baki ákveðnu stjórnarmynstri. 

Eitt besta dæmið um slíkt er ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens í ársbyrjun 1980. Hugmyndina að henni átti Gunnar sjálfur og tókst með hnitmiðuðum leynifundum og samtölum við þá, sem að þeirri stjórn stóðu, að koma því þannig fyrir, að hann gæti átt frumkvæði að því að ganga á fund forseta Íslands og sannfæra hann um að stjórnin yrði mynduð. 

Minnihlutastjórn Alþýðuflokksins á Þorláksmessu 1958 kom þjóðinni líka á óvart.

Heimildir um það sem gerðist bak við tjöldin dagana og vikurnar á undan benda til þess að þáverandi forseti, Ásgeir Ásgeirsson, hafi átt stóran þátt í að sú stjórn var mynduð án þess að formlegt umboð lægi beint að baki.

Ásgeir átti að baki margra áratuga þátttöku í stjórnmálum þar sem hann hafði bæði gegnt störfum forseta sameinaðs Alþingis og forsætisráðherra, auk þess að hafa verið þingmaður bæði Framóknarflokksins og síðar Alþýðuflokksins. 

Hann var því öllum hnútum kunnugur innan þessara flokka og nýtti sér það. 


mbl.is Enginn einn flokkur fær umboðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur gerst oft að ekki hafa verið meirihlutastjórnir.

Ísland hefur verið "stjórnlaust" nokkrum sinnum ef menn vilja nota það orð um það ástand, sem ríkir þegar ekki situr meirihlutastjórn í landinu. 

Svokallaðar starfsstjórnir hafa setið upp í allt að fjóra mánuði, til dæmis 1946-1947 og 1949-1950 án þess að sögur fari af einhverju sérstöku stjórnleysi eða stórfelldum vandræðum á þeim tíma. 

Þessar ríkisstjórnir hafa reynt að haga málum þannig, að komast hjá því að geria eitthvað sem gæti orðið til þess að Alþingi samþykkti vantraust á þær. 

Í raun er það svipað ástand og verður, ef það tekst að klambra saman stjórn og stjórnarsáttmála, þar sem reynt er að sigla fram hjá stórfelldum árekstrum með því að gera málamiðlanir, fresta málum eða draga þau á langinn. 

Þetta gerðist þegar minnihlutastjórn Ólafs Thors sat 1941-1942, 1946-47, 1949-1950, þegar minnihlutastjórn Alþýðuflokksins sat 1949-1950, 1958-1959 og 1979-1980, og þegar minnihlutastjórn Jöhönnu Sigurðardóttir sat frá febrúar-maí 2007. 

Í mörgum tilfellum stóðu þessar minnihlutastjórnir fyrir heilmiklum aðgerðum, sem samið var um að flokkarnir, sem vörðu stjórnina falli, gerðu að skilyrði. 

1959 var til dæmis hrundið í framkvæmd langmestu breytingunni, sem gerð hefur verið á íslensku stjórnarskránni, og var tekist afar hart á um það í tvennum kosningum. 

Ef sú breyting hefði ekki verið gerð og engin breyting eftir það, væri enn möguleiki á að Seyðisfjörður gæti eyrnamerkt sér tvo þingmenn, og Framsóknarflokkurinn hefði hugsanlega getað myndað meirihlutastjórn 2013 út á fjórðung atkvæða. 

En það er til dæmis athyglisvert, að eitt af þeim skilyrðum, sem Framsóknarflokkurinn gerði fyrir stuðningi við minnihlutastjórn Jóhönnu, var að sett skyldi á fót sérstakt stjórnlagaþing til að endurskoða íslensku stjórnarskrána frá grunni. 

Þrátt fyrir meirihlutastjórnir síðan og afgerandi úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu í október 2012, hefur ekkert fengist fram í því efni í meðförum Alþingis. 

Í mörgum nágrannalöndum okkar hafa setið minnihlutastjórnir meira og minna í áratugi, og Belgía hefur verið "stjórnlaus" í hátt á annað ár á mælikvarða þeirra sem ætla að fara á límingunum yfir slíku hér á landi. 

Alþingi umbar utanþingsstjórn 1942-1944 vegna þess að engin samstaða var á þinginu um myndun meirihlutastjórnar. Ekki fara sögur af því að landinu hafi verið miklu verr stjórnað af þeirri ríkisstjórn en öðrum ríkisstjórnum á þeim tímum. 

Á valdatíma þeirrar ríkisstjórnar þurfti að sigla landinu í gegnum ólgusjó mestu styrjaldar heimssögunnar. 


mbl.is Össur vill sjá Alþingi stjórna Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gylfi Þ. "áhugalaus" 1971, Benedikt Gröndal 1979.

Sagan geymir dæmi um það að forystumenn flokka hafi eftir mikla ósigra í kosningum orðið "áhugalausir" um að fara í ríkisstjórn, þótt það hafi hugsanlega verið mögulegt. 

Tvívegis gerðist þetta í sögu Alþýðuflokksins. 

Í kosningunum 1971 fékk Alþýðuflokkurinn innan við 10% atkvæða og munaði hársbreidd að hann kæmi ekki manni á þing. Þótt mörgum fyndist eðlilegt að stjórnarandstaðan 1959-1971, sem hafði nú fengið meirihluta, myndaði ríkisstjórn, leist Hannibal Valdimarssyni og Birni Jónssyni á tímabili jafnvel betur á að fara í ríkisstjórn með fráfarandi stjórnarflokknum. 

En Gylfi ku hafa verið áhugalaus um þetta og talið réttara að Alþýðuflokkurinn sleikti sár sín, færi í stjórnarandstöðu og byggði sig upp að nýju.

Haustið 1979 var gerð hallarbylting í Alþýðuflokknum á meðan formaðurinn, Benedikt Gröndal, var erlendis og efnt til stjórnarslita við Framsóknarflokk og Alþýðubandalag.

 

Eftir stuttar þreifingar varð að niðurstöðu að Alþýðuflokkurinn myndaði minnihlutastjórn, nokkurs konar starfstjórn þar til kosningar hefðu farið fram í desember.

Í þeim kosningum glutraðist niður hið gríðarlega fylgi sem flokkurinn fékk í kosningunum 1978.

 

Á þessum tíma fengu Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur tækifæri til að hafa samstarf í nefndakjöri á Alþíngi og komast í aðstöðu til að mynda stjórn í anda Viðreisnarstjórnarinnar 1959-1971.

En Benedkit Gröndal og fleiri ráðamenn í Alþýðuflokknum voru áhugalausir um þetta og Alþýðuflokkurinn lenti utan stjórnar á árunum 1980-1987.

Síðar kallaði Jón Baldvin Hannibalsson þetta "pólitískt umferðarslys."

Erfitt er að segja um hvort eða fleiri pólitísk umferðarslys hafi orðið eða eiga eftir að verða í núverandi stjórnarkreppu.

Kannski verður niðurstaðan sú að Framsóknarflokkurinn sleiki sár sín og byggi sig upp að nýju, eins og kratar gerðu 1971 og 1979 eftir fylgishrun, sem þó var minna hlutfallslega en hjá Framsókn nú.

  


mbl.is Framsókn áhugalaus um samstarf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vinstri græn "þriðja hjól undir núverandi stjórn"?

Yfirlýsingar um útilokanir af ýmsu tagi strax eftir kosningar fara nú að verða hindranir, sem æ meiri líkur eru á að verði að ryðja úr vegi, eigi að mynda meirihlutastjórn á Alþingi. 

Yfirlýsing Viðreisnar um að ekki kæmi til greina hjá þeim flokki "að verða þriðja hjól undir vagni stjórnar Sjalla og Framsóknar" eru ekki aðeins hindrun í myndun slíkrar stjórnar, heldur einnig í myndun stjórna annarra flokka með bæði Sjalla og Framsókn innanborðs. 

Það er erfitt fyrir vinstri flokk að kyngja því að geta hugsað sér hlutskipti sem flokkur hægra megin við miðju getur ekki hugsað sér.

Yfirlýsing Benedikts getur að þessu leyti virkað eins og hrekkur gagnvart flokkunum, sem reyndu fimm flokka stjórnarmyndun en mistókst. 

En það verður hins vegar æ ljósara eftir því sem stjórnarmyndun dregst, að stjórn verður ekki myndun nema að aðilar hennar verði að gefa verulega eftir í ýmsum málum og éta ofan í sig ýmsar yfirlýsingar til þess að hægt sé að ná saman.  


mbl.is Leggur til D, V og B
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband