"Þegar jörðin þiðnar koma ormarnir upp."

Ofangreint máltæki kemur upp í hugann þegar hlustað er á frétt dagsins varðandi söluna á ríkisbönkunum og fleiri ríkisfyrirtækjum fyrir hálfum öðrum áratug.

Ríkisfyrirtækjajörðin þiðnaði og ormar gróðaafla komu upp.

Ég verð sífellt hrifnari af þessu rússneska máltæki, sem varfærnir íbúar Sovétríkjanna vitnuðu í þegar þeir voru spurðir við upphaf Glasnost og Perestrojku um álit þeirra á þessum ráðstöfunum Gorbatjofs.

Sovétmenn höfðu myndað sér hentuga aðferð til að neita að segja skoðanir sínar með því að svara: "Ég hef enga skoðun á þessu, en það er til rússneskt máltæki sem segir:...

Og síðan mæltu þeir máltækið af munni fram án þess að segja neitt annað.

Það er sagan endalausa að þegar los kemur á þjóðfélagið vanmeti menn þau öfl, sem þá ryðja sér til rúms.

Hindenburg forseti Þýskalands og Von Papen vanmátu Adolf Hitler gróflega þegar hann braust til valda. Hindenburg hafði afar lítið álit á "austurríksa liðþjálfanum" og Von Papen taldi það verða létt verk og löðurmannlegt að hafa hemil á honum.

Annað kom í ljós.  

Gandhi var gróflega vanmetinn lengi vel í baráttu hans fyrir sjálfstæði Indlands. Haft er eftir honum: Fyrst láta þeir sem þú sért ekki til, síðan gera þeir gys að þér og tala um þig af lítilsvirðingu, síðan vinnur þú.

Winston Churchill vanmát stórlega hug bresku þjóðarinnar í stríðslok og treysti á það að frábær forysta hans í gegnum stríðið myndi gera annað óhugsandi en að hann sigraði í fyrstu þingkosningunum eftir stríð.

En meirihluti kjósenda var dauðfeginn að stríðinu var lokið og uppteknari af umbótum í innanlandsmálum.

Aðeins níu árum eftir að Churchill hafði talað í frægri ræðu um "stærstu stund Bretlands og heimsveldisins í þúsund ár, hafði Indland fengið sjálfstæði og lönd breska heimsveldisins á hraðri leið til sjálfstæðis.

Á Atlantshafsfundi Roosevelts og Churchills 1941 hafði Roosevelt gefið það sterklega í skyn við Churchill að Bandaríkjamenn myndu að vísu styðja Breta gegn Öxulveldunum eftir megni, en þó ekki veit stuðning í því að koma í veg fyrir lönd breska samveldisins gæti fengið sjálfstæði.

Bandaríkjamenn og Vesturveldin vanmátu Mao og baráttu Víetnama fyrir sjálfstæði og lögðu hvað eftir annað rangt mat á ástandið í Írak, fyrst varðandi upphaflegan stuðning þeirra við Saddam Hussein og síðar varðandi seinna varðandi innrásin í Írak 2003.

Þeir vanmátu líka ástandið í Íran þegar þeir héldu, að með því að ryðja burtu Mossadek eftir stríðið og styðja keisara, sem gæti orðið þægur bandamaður.

En Resa Palevi varð æ firrtari eftir því sem valdatími hans lengdist uns honum var steypt af öflum, sem nýttu sér svipaða óánægju og Mossadek hafði leyst úr læðingi 30 árum fyrr.

Bæði Sovétmenn og Bandaríkjamenn vanmátu möguleika sína í Afganistan, Sovét menn þó sýnu meira.

Síðustu ár hefur formúlan fyrir "arabísku vori" í framhaldi af "frelsun" Íraks, Líbíu og Sýrlands reynst óraunhæf og valdið meira tjóni en gagni.

Rússneska máltækið um það sem tæki við eftir að sovétfrostinu lyki reyndist eiga við þegar allt fór þar úr böndunum eftir fall Sovétríkjanna og ormar olígarkanna og ósvífinna gróðapunga spruttu upp og sölsuðu mestöll auðæfi landsins undir sig.

Og ef marka má skoðanakannanir er af sú tíð, að "fjórflokkurinn" svonefndi njóti fylgis allt að 90 prósent kjósenda, því að þetta fylgi hefur ekki verið samanlagt nema rúmlega 60% í meira en heilt ár.     

 

 


mbl.is „Ég vanmat óstöðugleikaöflin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árgangar eins og í þorskinum?

Fyrir nokkrum árum náði íslenska unglingalandsliðið tímamótaárangri í alþjóðlegri keppni og þá var hægt að spá því hér á síðunni, að ef rétt væri haldið á spilum, gæti hér verið að skapast nokkurs konar gullaldarlið í íslenskri knattspyrnu.

Sú varð raunin, að aðeins það eitt að hafa spilað sig af öryggi inn í lokakeppni EM og velgt sjálfum Hollendingum undir uggum er nægilegt útaf fyrir sig og allt meira en það aðeins bónus.

En hvað svo? Er í sjónmáli nýrri árgangur sem getur tekið við kyndlinum?

Það er ekki svo að sjá svo óyggjandi sé, og margt í umgerð íslenskrar knattspyrnu gefur tilefni til að krefjast úrbóta, því að annars getur komið bakslag þegar´núverandi landslið fer að eldast.

Að einu leyti hrjáir svipað íslenska knattspyrnu og þá ensku: Of margir erlendir leikmenn eru hjá félögunum og þetta bitnar á landsliðunum.

Mikill fjöldi erlendra leikmanna veldur því að heimamenn eiga erfitt með að komast lengra en að sitja á bekknum, og verða of oft jafnvel að víkja fyrir gömlum erlendum leikmönnum, sem hingað koma í lok keppnisferils síns.  

Í öllum íþróttum er næg keppnisreynsla í krefjandi alvöru leikjum forsenda fyrir framförum.

Allt of margir ungir og efnilegir íslenskir leikmenn fá ekki tækifæri til þess að öðlast þessa ómetanlega reynslu, ekki einu sinni þeir, sem eru jafnvel valdir efnilegustu leikmenn síns aldursflokks.

Sumir neyðast til að fara of ungir til útlanda í örvæntingarfullri von til að bæta þetta íslenska ástand upp, - of ungir til þess að vera búnir að öðlast þroska til þess að standast það álag sem framandi umhverfi og ungur aldur leggja á þá.

Mistekst kannski og koma heim vonsviknir eftir að hafa misst úr dýrmæt ár til náms og undirbúnings fyrir lífið.

Rétt eins og í þorskstofninum þarf að rækta og vernda uppvaxandi árganga og sjá til þess að skilyrði þeirra til vaxtar verði sem best.

Núna njótum við einstaks árgangs á knattspyrnuvellinum, en framantaldir annmarkar varðandi árgangana sem eiga að taka við eru áhyggjuefni, ástand sem krefst aðgerða.


mbl.is Breytingar í íslenska fótboltanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Myrkvanum lokið.

Sólmyrkvinn skóp ástand, ansi dimmt

og enginn vissi hvar það myndi lenda.

Er fólk tók kipp og fé sitt lagði inn grimmt

var fjárhagslegi sólmyrkvinn á enda.


mbl.is Komið nóg fyrir skuldinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Eitthvað annað" var lykillinn.

Allan fyrsta áratug þessarar aldar var af hálfu ráðandi afla talað með fyrirlitningartóni um "eitthvað annað" en stóriðju sem grunn undir betri kjörum.

Nú liggur fyrir að á undra fáum árum hefur "eitthvað annað" í formi ferðaþjónustu og skapandi greina skapað tugi þúsunda nýrra starfa og uppgang í efnahagslífinu.

Stórlækkun eldsneytisverðs hefur líka verið drjúg búbót og hækkun gengis krónunnar er fyrst og fremst hægt að þakka þessu tvennu auk þeirrar handstýringar sem gjaldeyrishöftin hafa falið í sér, en getur reynst varasöm og hemill á efnahagslífið til lengdar.


mbl.is Kaupmáttur aukist um 11,6% á einu ári
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jafnan grunnt á gullæðinu.

Gullæði er jafngamalt mannkyninu. Ísraelsmenn dönsuðu í kringum gullkálf og tilbáðu hann í árdaga, en vægari útgáfa var hugmynd Egils Skallagrímssonar um að dreifa silfri sínu yfir Alþingi að störfum og skemmta sér yfir því þegar allur þingheimur myndi berjast um það.

Í Reykjavík varð gullæði fyrir rúmlega öld þegar fréttist af gullfundi í Öskjuhlíð.

Ghaplin gerði fræga kvikmynd um gullæði sem malaði gull fyrir hann.

Fyrir 25 árum var gerður leiðangur til Sördalen syðst á Blosserville-ströndinni á austanverðu Grænlandi gegnt Vestfjörðum, lögð lendingarbraut þar og flogið þangað frá Ísafirði. 

Þangað fór ég meira að segja fréttaferð fyrir sjónvarp og ekki voru fáar fréttaferðirnar á Svínafellsfjöru á Skeiðarársandi á fyrstu árum níunda áratugarins til að lenda þar og fylgjast með umfangsmikilli leit af gullskipinu svonnefnda, Het Vapen van Amsterdam.

Síðar fór ég að minnsta kosti eina fréttaferð vestar á sandana og flaug á vélknúnum svifdreka í leit að hinu mikla gullskipi eftir að í ljós kom að gullskipið á Svínafellsfjöru var flak af þýskum togara.

Allan tímann voru gamlir menn í Öræfasveit sem bentu á að gullskipið hefði farist við Skaftafellsfjöru en ekki Svínafellsfjöru, og síðasta leitin eystra var langt vestan við báðar fjörurnar.

Fyrir um 20 árum var leitað að gulli við Þormóðsdal austur af Reykjavík.

Nú á að leita að gulli á Tröllaskagasvæðinu og virðist af fregnum, að leitarsvæðið sé afar stórt.

Ekkert gullæði mun þó enn komast í hálfkvisti við gullæði peninganna sem heltók þjóðina í aðdraganda Hrunsins og loforðanna um gull og græna skóga nokkrum árum eftir það.

Og nú gengur eins konar gullæði yfir ferðaþjónustuna, þar sem gullæðishugsunin birtist í drullusvaði og kúki og pissi á ferðamannastöðum, ferðamenn eru varaðir við göróttu íslensku kranavatni, en það sama kranavatn sett á flöskur og selt dýrum dómum.

Og enn og aftur er hafin leit að gullskipinu á Skeiðarársandi, en ekki fer sögum af því hvort farið verði eftir ábendingum öldunga um að það liggi á Skaftafellsfjöru en ekki Svínafellsfjöru.


mbl.is Gullleit á Norðurlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sól tér sortna...

Sól tér sortna,  -  /

sannlega´er lánið valt.  /

Sólmyrkvagleraugu gagnleg  /

gefin voru út um allt. /

 

Í basli með nýjungarbólu /

hins bjartsýna´og gjafmilda manns  /

sortnaði fyrir sólu /

og svart varð bókhaldið hans.

 

 

 


mbl.is Gjaldþrot vegna sólmyrkvagleraugna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hvernig getur allt þetta fólk lifað...?"

 Eftir að myndun þéttbýlis hófst fyrir alvöru á Íslandi rúmri öld hafa eyddar sveitir verið ímynd okkar um byggðir, sem ekki gætu þrifist.

En í svartsýnisspám margra fræðimanna, sem kynnt hafa sér byggðamál í heiminum, eru það ekki eyddar sveitir, sem birtast þeim, heldur hafa þeir mestar áhyggjur af úthverfum og útborgum borga nútímans.

Þeir telja að vegna yfirvofandi skorts á orku þegar jarðefnaeldsneyti fer að þrjóta muni úthverfin og útborgirnar verða verst úti, en miðborgirnar síður.

Gunnar Hansen leikstjóri hjá L.R. upp úr 1950, setti upp Vesalingana eftir Hugo á sviði 1953 og gerði hlutverki götudrengsins Gavrosche drjúg skil, því hann taldi, að í framtíðinni yrðu götubörnin fjölmennustu og verst settu vesalingar mannkynsins.

Gunnar var þarna á undan sinni samtíð, því að það er einkum á síðustu árum sem mannfræðingar hafa komist að svipaðri niðurstöðu.

Spurningin um sjálfbærni tvöfalt fjölmennara þéttbýlis á jörðinni eftir aðeins 35 ár er áleitin og minnir mig á orð gamallar frænku minnar, Bjargar Runólfsdóttur að Hvammi í Langadal, sem ég dvaldi hjá á sumrin sem drengur.

Eftir að ég varð fullorðinn og fór að fara í ferðalög til útlanda til þess að skemmta Íslendingum, sendi ég henni póstkort úr hverri ferð.

Þegar ég síðan leit við í Hvammi á ferðum mínum á sumrin, skoðuðum við póstkortin saman.

Hún hafði þá hætt búskap en dvaldi í hárri elli hjá afkomendum sínum.

Eitt sinn skoðuðum við mynd af Manhattan í New York, sem ég hafði sent henni á póstkorti.

"Hér skrifar þú að margar milljónir manna eigi heima þarna", sagði hún. "Er það virkilega satt?"

"Já," sagði ég. "Það er staðreynd," svaraði ég.

"Hvað segirðu?" spurði hún, og bætti við: "Og hvernig getur allt þetta fólk lifað þarna án þess að hafa neinar skepnur?"

Mér verður stundum hugsað til þessara orða gömlu konunnar þegar birtar eru vangaveltur fræðimanna um framtíð allra sívaxandi stórborga heimsins.     


mbl.is Getur borg verið sjálfbær?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misjafnt hve öruggt er að taka ábyrgð á flóknum ráðstöfununum á mettíma.

Það er erfitt fyrir fólk að taka ábyrgð á því sem það fær ekki tíma til að kynna sér nógu vel.

Sumt af því sem þingmenn þurfa að afgreiða er afar flókið og ekki reynast allar ráðstafanir sem skyldi.

Það er svo að sjá að ekki ríki nægur trúnaður á þingi þegar jafn stórt og viðamikið mál og aflandskrónufrumvarpið er lagt fyrir með afar skömmum afgreiðslutíma og það um helgi í ofanálag.

Æskilegra hefði verið að lengri tími hefði verið gefinn undir fullum trúnaði.  

Öllum er ljóst að af tæknilegum ástæðum verður þingmeðferðin að vera afar stutt og snörp svo að ráðstafanirnar gangi örugglega upp og líka er mikilvægt að ekki ríki bein ósátt um frumvarpið, svo að alvarleiki málsins og mikilvægi þess speglist í afgreiðslunni.

Þetta átti svo sannarlega við þegar Neyðarlögin svonefndu voru sett í Hruninu og aðrar lagasetningar síðar sem vörðuðu afléttingu gjaldeyrishafta.

Í því ljósi verður að skoða það, hve margir stjórnarandstöðuþingmenn ákváðu að leggja hinu brýna máli beint liðsinni.


mbl.is Birgitta styður frumvarpið ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sérkennilegur spuni og afneitun.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson virðist vera kominn galvaskur til leiks í íslenskum stjórnmálum ef marka má digurbarkalegar yfirlýsingar hans bæði á Sprengisandi í morgun á Eyjunni í dag og þessar yfirlýsingar í báðum þáttunum gerðar upp í heild.

Hann sér ekki eftir neinu nema því að hafa verið of barnalega saklaus þegar hann hafi verið leiddur í lævíslega gildru í sjónvarpsviðtalinu fræga 11. mars.

Hann sakar forseta Íslands um að hafa rofið trúnað trúnað við sig varðandi einkaviðtal þeirra á Bessastöðum og að koma í bakið á sér með því að halda strax dæmalausan blaðamannafund, sem hefði átt að vera liður í leikfléttu forsetans sem miðaði að því að tryggja forsetanum setu í embætti í eitt kjörtímabil enn, hugsanlega með því að hann skipaði sjálfur sérstaka starfstjórn! 

Þessar spuni Sigmundar eru þvert á álit flestra, sem sjá ekki betur en að forsetinn hafi þvert á móti lagt sitt af mörkum til þess að Sjallar og Framsókn gætu haldið áfram stjórnarsamstarfi.

Svo blindur virðist SDG enn á Bessastaðaför sína að honum finnst eftir á ekkert athugavert við það að hann hafi "ítrekað" krafið forsetann um að lofa sér því fyrirfram að veita honum samþykki til þingrofs síðar.

Því lýsti forsetinn strax réttilega sem kröfu um að SDG gæti notað slíkt loforð sem svipu á samstarfsflokkinn í pólitískum aflraunum, en svo blindur er Sigmundur enn, að hann sér ekkert athugavert við þessa beiðni sína.

Sigmundur virðist vera í mikilli afneitun, ætlar að fara um landið og undirbúa áframhaldandi setu í embætti formanns og stefna að því að verða forsætisráðherra á ný!

 


mbl.is Snýr Sigmundur aftur með skegg?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafið gleymist allt of oft.

"Föðurland vort hálft er hafið..." var ort á sinni tíð. Og ef miðað er við flatarmál íslenskrar auðlindalögsögu (mun betra orð en efnahagslögsaga) er föðurland okkar margfalt stærra en það sem skilgreint er sem þurrlendi.

Alltof sjaldan er minnst á súrnun sjávar, hvað þá á minnkun súrefnis í hafinu og það að fiskistofnar flytji sig.

Þar sem um er að ræða mesta magn koltvísýrings í andrúmsloftinu í 800 þúsund og hraðari vöxt þess en dæmi eru um, gildir máltækið um að í upphafi skyldi endinn skoða.

Því miður er mikið til í því sem Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands hefur sagt, að vegna hinna tröllauknu verkefna náttúruverndarfólks megi segja að náttúruverndin nái aðeins niður í flæðarmál, og að verndun hafsins verði því of mikið útundan.

Því þarf að breyta, bæði í umræðunni og í aðgerðum.


mbl.is Hlýnunin gæti skapað súrefnisþurrð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband