Til heimabrúks?

Stundum er sagt að yfirlýsingar stjórnmálamanna séu til heimabrúks fyrir þá, ýmist í kjördæmi þeirra eða flokki.  

Nú tíðkast nokkuð yfirlýsingar hjá ráðherrum þriggja stjórnarflokka sem eru á skjön við þá raunverulegu stefnu, sem ríkisstjórnin rekur. 

Forsætisráðherra telur sjálfsagt að flokkssystkin hennar séu með mótmælaaðgerðir gegn NATO, fjármálaráðherra telur skattahækkanir á háar tekjur ekki koma til greina á meðan félagsmálaráðherra segir hið gagnstæða.

Í augum almennings eru hins vegar allir kjörnir fulltrúar þjóðarinnar undir sama hatti sem hluti af elítunni, sem þrátt fyrir stór orð gerir ekkert til að sýna svipað fordæmi og forseti Íslands og slá af þeim stórfelldu kauphækkunum og ekki síst af þeim miklu sporslum utan kjaradóms, sem alþingismenn hafa skammtað sjálfum sér 

Síðustu níu áratugi eða svo hefur enginn einn flokkur getað myndað meirihlutastjórn og smám saman hefur myndast sú hefð að hver ráðherra sé næsta einráður í sínum málaflokki. 

Með því myndast samtrygging sem oft er slæm, því að oft nota ráðherrar þetta til þess að firra sig ábyrgð af ákvörðunum samráðherra sína og fara á móti sínu fram í málfnum síns ráðuneytis. 

Stundum er þetta orðað svona: "Við erum sammála um að vera ósammála."

 

Gildir þá oft erlenda máltækið: "Ég klóra þér á bakinu og þú klórar mér." ("I scratch your back and you scratsch mine") enda er þessu ekki svona varið í flestum nágrannalöndum okkar. 

Í tillögum stjórnlagaráðs er dregið úr þessari samtryggingu og línur gerðar skýrari.

En að sjálfsögðu vill elítan það ekki raun. Annars væru ekki liðin sex ár síðan mikill meirihluti kjósenda vildi í þjóðaratkvæðagreiðslu nýja stjornarskrá í samræmi við stórnarskrá stjórnlagaráðs. 


mbl.is Styður álagningu hátekjuskatts
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Unaðsdraumur Walt Disneys að breytast í martröð.

Walt Disney hreifst svo mjög af plastinu, þegar það kom á markað, að hann lét gera heilan þorpshluta þar sem allir hlutir voru úr plasti. Hann var sannfærður um að þetta yrði eitthver heillavænlegasta uppfinning okkar tíma. 

Enda hefur útbreiðsla plastsins orðið slík, að jarðarbúar flestir opna ekki svo augun á morgnana án þess að sjá eitthvað úr plasti og berja það augum allan daginn. 

Plastið er tískuvara og alltumlykjandi. Tazzari. Farþegarými

Gott dæmi eru 850 milljónir bíla heimsins, þar sem það varð með árunum að keppikefli að hylja alla hluta bílsins að innan með plasti, af því að bert járn væri svo "billegt" í útliti og viðkomu. 

Síðar, eftir að plastið varð svo ódýrt, varð það keppikefli að nota dýrari og flottari efni í stað plastsins, og sjá má dóma bílablaðamanna víða um lönd þar sem þeir setja út á það hve "billegt" útlit þeirra bíla er að innan, þar sem plastið hefur verið notað sem mest vegna þess hve ódýrt það er. 

Sennilega er innrétting flugvéla enn meira allsherjar plast en koltrefjaefni svonefnd ryðja sér líka til rúms í flugvélum og bílum og þá helst í burarvirkjum þessara farartækja.

Ef plast er komið inn í líkama fólks eins og nýleg rannsókn bendir til, er það áreiðanlega hvorki heilsusamlegt né heillavænlegt. 

Agnirnar komast í drykkjarvatn og mat, í það minnsta í hægðirnar,samkvæmt rannsókninni, og ef þær komast inn i blóðrásina er ekkert líffæri líkamans óhult. 

Plastmengaðir mannsheilar gætu þá orðið að veruleika, eða hvað? Vonandi ekki.

Þessi hraða útbreiðsla plastsins er vegna þess hve mikið af því fer á flakk eftir að því er hent eða því týnt. Heilu plasteyjurnar eru orðnar að veruleika víða í höfunum og plastmengaða eyjan á Midway með dauðu fuglunum og dauðir hvalir og fiskar eru bara byrjunin á öðru verra, nema gripið sé til ráða strax.  

Einnota plastflöskurnar á Arctic Circle voru umræðuefni um daginn. Plastpoki,fjölnota (3)

Það er hins vegar hægt að nota ýmsar aðferðir til þess að komast af án þess vera sífellt að kaupa og henda plasti. 

Ég hef í mörg ár notað þrjá hluti sem fjölnotavörur úr plasti, sem gera mér kleyft að hafa jafnan með mér þrennt hvar sem ég fer:

Lítinn margra ára gamlan plastpoka með litla myndavél, litla, gamla plastflösku með vatni, sem ég endurnýja eftir þörfum þar sem ég er á ferð, til dæmis á ráðstefnum og fundum, og aðra litla, gamla plastflösku með sykurlausum koffeindrykk.Plastpoki,fjölnota 

Þegar ég sótti ráðstefnuna Arctic Circle í fyrrahaust, þurfti ég ekkert á einnota plastflöskum hátíðarinnar að halda. 

Ef ég er með aðeins meira meðferðis nota ég svartan taupoka fyrir það, og er raunar með litla, þreytta plastpokann í honum til þess að geta skilið taupokann eftir í bílnum eða hjólinu þar sem litli pokinn er handhægari til að fara inn í hús.  

Best væri að fara alveg yfir í fjölnota tau- eða nógu sterka bréfpoka, og það verður að játast, að maður er orðinn svo samdauna plastnotkuninni að það þarf heldur betur að taka betur til hendinni. 

 


mbl.is Plast orðið hluti af fæðukeðjunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óháða rannsókn á skemmdafaraldri í tiltölulega nýjum húsum?

Kársnesskólinn í fréttunum í dag,  Orkuveituhúsið í síðustu viku o. s. frv.

Orkuveituhúsið eitt af furðulega mörgum húsum sem lenda á aftökulista. 

Er hægt að útskýra það að tiltölulega ný hús hér á landi, jafnvel innan við 20 ára gömul, hrynji niður vegna rakaskemmda og myglu á sama tíma og margfalt eldri hús, stór og smá, 80 ára gömul, standa af sér íslenska veðurfarið óskemmd og með miklum sóma?

Síðuhafa hafa borist til eyrna kenningar kunnáttumanna um að síðustu áratugi hafi verið farið framhjá ákvæðum laga og reglugerða um byggingar í stórum stíl og að þar kunni að leynast orsök þess að eins konar faraldur hefur farið um hundruð bygginga sem eru tiltölulega nýjar og orðið annað hvort stórskemmdar eða ónýtar, líkt og Kársnesskóli og Orkuveituhúsið. 

Hugsanlega þyrfti að leita til óháðs erlends aðila um að halda utan um svona rannsókn, því að umfangið er slíkt, að afar margir kunna að vera flæktir í þetta mál. 

Þetta er ekkert smámál, tjónið ekki bara tugir milljarða í allt, heldur talið í mörg hundruð þúsund milljörðum. 


mbl.is Byrjað að rífa Kársnesskóla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bárðarbunga og Grímsvötn koma?

Bárðarbunga, Dyngjujökull, Kverkfjöll"Katla kemur" segja margir Skaftfellingar um þennan ógnvald þeirra og Rangæinga, sem getur sent hamfaraflóð allt vestur í Landeyjar og austur í Álftaver. 

Og á áhrifasvæði hennar hafa komið tvö stærstu hraunflóð á sögulegum tíma mannkyns.

Raunar er Katla ógnvaldur allra landsmanna,því að á Suðvesturlandi er 4 sentimetra þykkt öskulag úr gosi í Kötlu fyrir nokkur þúsund árum.

Falli slíkt öskulag á vori eða snemmsumars getur það haft miklar afleiðingar fyrir allan jarðargróður og Katla getur stöðvað flug í Evrópu hvenær sem er. 

Bárðarbunga hefur hins vegar ákveðna sérstöðu um það, að gos á áhrifasvæði hennar geta valdið hamfarahlaupum á mörgum vatnasviðum, allt frá vatnasviði Tungnaár og Þjórsár austur til Hverfisfljóts og norður til Skjálfandaflóa og Öxarfjarðar, auk þess sem hraun frá áhrifasvæði Bárðarbungu hafa runnið allt til sjávar í Flóanum. 

Og af því að Grímsvötn eru virkasta eldstöð landsins, koma þau að sjálfsögðu, og fer meira að segja að verða komin tími á næsta gos þar. 


mbl.is Stórir skjálftar við Bárðarbungu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sömu málin og dugðu vel 2016.

Tvð atriði hafa löngum reynst stjórnmálamönnum vel í aldanna rás. 

1. Skammtímagróði í veskinu á kosningadag. "Gerum Ameríku mikla á ný" sagði Trump 2016 og nú heitir hann 10% skattalækkun á sama tíma og hallinn á ríkisstjóði er í öllu góðærinu 779 milljarðar dollara ( um 100 þúsund milljarðar íslenskra króna) Á sama tíma ætlar hann að stórefla herinn og stofna sérstakan geimher, sem færi Bandaríkjamönnum alræðisvald í öllum geimnum, hvorki meira né minna. Ekki veitir af þegar hann er byrjaður að rifta afvopnarsamningum út og suður.   

2. Utanaðkomandi ógn. 

Hann notaði þetta síðara með góðum árangri í kosningunum 2016 og stigvaxandi ógn sem jafn vænisjúkur valdamaður, Pútin, hótar að stofna til við riftun afvopnunarsamninga mun sækja fylgið og völdin í svipaðan minnihluta Bandaríkjamanna og hann sótti 2016.  

Hann segir að stór hluti göngumannanna sem ógni Bandaríkjunum séu múslimskir hryðjuverkamenn komnir frá Miðausturlöndum, væntanlega til þess að rústa Bandaríkjunum. Engin gögn hefur hann um þetta en nógu margir trúa þessu og því að hann muni senda herlið á móti göngufólkinu og jafnvel lýsa yfir neyðarástandi í Bandaríkjunum. 

Hann segir að þegar sé byrjað að skera niður þróunaraðstoð við Hondúras þótt reyndin sé raunar sú, að það mál er ekki á hans valdsviði. En nógu margir munu trúa þessu. 

 


mbl.is Mörg þúsund á leið að landamærunum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einfalt forgangsskilti eða snertiljós, takk.

Víða erlendis, að minnsta kosti allt frá Rússlandi til Kaliforníu, eru sett upp skilti við einbreiða þengda vegakafla aða brýr, þar sem umferð úr annarri áttinni hefur forgang fram yfir hina. 

Stórfurðuleg tregða hefur ríkt hér á landi varðandi þetta einfalda atriði sem ég rakst fyrst á á Kolaskaga í Rússlandi 1978Umferðarmerki á Kolaskaga,og meðfylgjandi mynd er af.

Stórslys hafa orðið hér á landi vegna þess að bílstjórarnir, sem komu úr gagnstæðum áttum, fóru í kappakstur um það að verða á undan hinum inn á brúna. 

Meginorsökin er sú, að bílstjórarnir átta sig ekki á því, að í raun eru þeir á tvöföldum hraða miðað við bílinn á móti. 

Ef tveimur bílum er ekið inn á brú á 90 km hraða, nálgast þeir hvor annan á 180 km hraða. 

Ef svona skilti eru sett upp, hverfur þetta fyrirbæri. 

Síðan er til önnur lausn, umferðarljós með snertistrýringu eins og eru víða í Reykjavík. 

Án slíkrar stýringar verður umferðin ekki eins skilvirk og án ljósa, því að þegar umferð er lítil, þurfa þeir, sem koma á móti rauðu ljósi en enga umferð að sjá á móti, kannski að bíða alveg að óþörfu.

Það var bloggað um þetta mál hér á síðunni fyrir nokkrum árum, en það var eins og að skvetta vatni á gæs. 


mbl.is Ljósastýring við Goðafoss?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Til eru Íslendingar sem haga sér svona eða mæla því bót.

Atvikið í flugvél Ryanair, sem greint er frá í tengdri frétt, þar sem flugfarþegi ræðst á fatlaða blökkukonu fyrir það að hún er fötluð og þeldökk, er því miður líka til á meðal okkar Íslendinga.

Meira að segja má sjá núna á íslenska blogginu að ekkert hafi verið út á framkomu mannsins að setja, hann hafi bara verið að segja sannleikann um "heimsku beljuna" og "svarta ljóta bastarðinn." 

Og hver manneskja verði að sætta sig við það að sagður sé sannleikurinn um hana. 

Engin ástæða sé til að gera neitt veður út af svona löguðu, þetta sé ekki frétt.

Ég lenti einu sinni í því á leið frá Kararíeyjum til Íslands í leiguþotu með öðrum Íslendingum, að fljótlega eftir að komist var í flughæð, ruddist ölvarður farþegi að okkur hjónunum og konu sem sat okkur við hlið, og byrjaði að ausa yfir mig svívirðingum. 

Hann linnti ekki látum og þegar lengra leið á flugið fóru farþegar í sætunum í kringum okkur að kvarta við flugfreyjurnar yfir því að ekki væri hægt að fá frið á þessari löngu flugleið fyrir manninum. 

Þær komu til okkar og báðu hann um að fara í sæti sitt, en við það færðist hann allur í aukana og svo fór, þegar flugliðarnir gátu engu tauti við hann komið, að ég bauðst til að reyna að leysa málið með því að standa upp og fara fram á klósett. 

Það er ekkert grín að fást við svona í sex klukkustunda flugferð yfir úthafi langt frá landi. 

Hann elti mig fram eftir vélinni, þannig að þegar ég kom út af náðhúsinu, sá ég mér þann kost vænstan að setjast í autt sæti allra fremst í vélinni, langt frá fyrri stað, þar sem ekki voru eins margir nálægt mér. 

Þeir, sem þarna höfðu setið, reyndu að færa sig fjær, og það þýddi bara það eitt að maðurinn ruddi mér yfir í næsta sæti við og hlammaði sér sjálfur niður við hlið mér, slefandi og lítt geðslegur. 

Augljóst var að þarna, yfir miðju Atlantshafinu, væri ekkert hægt að gera nema að reyna að koma því þannig fyrir að maðurinn eyðilegði ekki flugferðina nema fyrir sem fæstum. 

Þetta varð til þess að það sem eftir var ferðarinnar varð ég að dúsa þarna og biðja hann um að hafa lægra, en við slíkar bónir hertist hann bara upp og mokaði út úr sér óhroðanum: "Djöfuls merkikerti ertu! Hvað heldurðu að þú sért?  Að líta niður á fólk og vilja ekki tala við það, auminginn þinn!" O. s. frv. o. s. frv..

Úthaldið hjá honum var ótrúlegt, hann hafði það af sem hann hafði greinilega ætlað sér í upphafi ferðarinnar, að eyðileggja allar sex klukkustundirnar heim. 

Nú les maður á íslenska blogginu svipaðar lýsingar á blökkukonunni og ausið var yfir mig hér um árið:   "Taugaveiklaðar kellíngar, sem þola ekki að vera kallaðar beljur.." - "hörundsár, á erfitt með að heyra að þú ert skíthæll með hor í nös." - "Sumir eru svartir, aðrir skáeygir, og enn aðrir fatlaðir á sál og líkama." - "Ef þér finnst staðreyndir særandi, then, get over it."

 

 

 


mbl.is „Sama hvort hún er fjandans fötluð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni sogaðist flugstjórinn út.

Já, rúða í flugstjórnarklefa er ekki eins og rúða í stofuglugganum. Það er ekki að ástæðulausu sem flugstjórnarklefarúðurnar eru með mörgum lögum, því að ef þær brotna, getur það haft miklar afleiðingar ef þotan er í mikilli hæð vegna þrýstingsmunarins úti og inni. 

Þetta kom vel ljós í alvarlegu flugatviki í Bretlandi þegar framrúðan á ská fyrir framan flugstjórann losnaði og spýttist út og flugstjórinn sogaðist á eftir henni en festist í glugganum. 

Neyðarástand skapaðist að sjálfsögðu í flugvélinni þar sem gríðarlegt loftsog myndaðist við það að glugginn var án rúðunnar og á tímabili leit út fyrir að engin leið væri að stjórna vélinni. 

Aðstoðarflugstjóranum tókst loks að ná stjórn á vélinni og dýfa henni niður í aðflug, en allan tímann var flugstjórinn fastur í glugganum. 

Hann lifði atvikið af, en það og fleiri flugatvik af þessu tagi sýndi vel hve mikilvægt er að gluggarnir þoli þann mikla þrýsting á þá innan innan frá sem myndast í mikilli flughæð.  

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


mbl.is Ekki eins og rúða í stofuglugganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Andinn frá Höfða" víkur fyrir illindum og yfirtroðslu.

Hegðun leiðtoga Bandaríkjamanna og Rússa í alþjóðamálum er eins og blaut tuska framan í okkur Íslendinga, sem létum 1986 þáverandi leiðtogum þessara þjóða í té fundarstað með jákvæðum straumum í Höfða. 

Riftanir, upphlaup, hefndarhugur, refsiaðgerðir, hringlandaháttur og tuddaskapur Bandaríkjaforseta kallast nú á við undirferli, hernaðarbrölt, einræðistilburði, hótanir, hefndarhug og skemmdarverkastarfsemi í net- og tölvuheimum nútímans. 

Sjá nánar næsta bloggpistil á undan þessum. 


mbl.is „Hættulegt skref“ að rifta samkomulaginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn meira GAGA / MAD en nokkru sinni fyrr?

Maður hélt að ástandið í vopnabúnaði risaveldanna í kjarnorkuvopnabúnaði gæti ekki orðið öllu verra en það sem felst í MAD (Mutual Assured Destruction) kenningunni, skammstafað GAGA á íslensku (Gagnkvæm Altryggð Gereyðing Allra). 

Sú kenning hefur líka verið nefnd ógnarjafnvægið og felst í því að Bandaríkin og Rússland verði að vera viðbúin því að geta gereytt hvort öðru (og lífinu á jörðinni) minnst fimm sinnum, en helst oftar. 

GAGA-kenningin er einnig með þá fáránlegu forsendu að hvor aðilinn um sig geti trúað hinum til þess að hefja allsherjar gereyðingarárás og sömu leiðis geta treyst því að hinn aðilinn muni svara með eigin gereyðingarárás!  

Ronald Reagan og þó einkum Mikael Gorbatsjof tókst að hægja aðeins á þessu brjálæði með afvopnunarsamningum, sem grundvallaðir voru í raun á Reykjavíkurfundinum í Höfða. 

Nú eru hins vegar við völd í þessum ríkjum tveir GAGA leiðtogar, sem báðir eru veikir fyrir hefnigirni og stórmennskubrjálæði, þeim tveimur eiginleikum sem hafa leitt mestu hörmungar stríðsátaka í mannkynssöngunni yfir jarðarbúa í formi tveggja heimsstyrjalda. 

Donald Trump hikar ekki við að setja fram þá stefnu að stofna sérstakan geimher Bandaríkjanna til þess að "make America great again" á þann hátt að Kaninn ráði yfir geimnum, hvorki meira né minna. 

Ýmsir hafa bent á það, að Vladimir Putin hafi augljóslega svarið þess dýran eið að ná fram hefndum, þegar Rússland varð fyrir niðurlægingu á níunda áratugnum við fall Sovétríkjanna, gríðarlegri spillingu heima fyrir, hruni þjóðarframleiðslu og sókn NATO og ESB í átt að Rússlandi, þvert ofan í loforð George Bush eldri og utanríkisráðherra hans. 

Þegar svo virtist, sem meira að segja Krímskagi, sem Rússar fórnuðu lífi 54 þúsund hermanna fyrir í Krímstríðinu og milljónum í Seinni heimsstyrjöldinni, kæmist undir ESB, greip Pútín til harkalegra aðgerða og sagði meira að segja, að ef það kostaði notkun kjarnorkuvopna að Krím væri undir rússneskri stjórn, myndi hann ekki útiloka þann möguleika. 

Rússland er ennþá veikt efnahagslega, en getur þó bætt sér það upp með því að nýta sér það að vera risaveldi á sviði kjarnorkuvopna og í sókn Pútíns eftir því að gera Rússland mikilfenglegt á ný sjáum við rússneskan Trump þar lifandi kominn. 

Með því að Trump segi upp afvopnunarsamningum Reagans og Gorbatsjofs er komið ástand, þar sem tveir leiðtogar, hálfsturlaðir af mikilmennskubrjálæði, ætla að leika sér að þeim vítiseldi sem kjarnorkuvopnakapphlaupið GAGA/MAD byggist á.  

 


mbl.is Ætlar að rifta afvopnunarsamningi við Rússa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband