14.12.2021 | 17:56
Hluti draums frá 1965 og orkan er ekki endurnýjanleg.
Þeir, sem studdu Búrfellsvirkjun og álverið í Straumsvík á sjöunda áratug síðust aldar, gerðu það ekki aðeins vegna þess að þessar framkvæmdir myndu "skjóta nýjum stoðum undir hagkerfið" og að orkan yrði ódýrari í stórvirkjun heldur en í smærri virkjunum eins go við Sogið.
Tvö önnur atriði vógu þungt.
1. Samhliða álverinu myndu rísa upp verksmiðjur sem framleiddu fullunnar afurðir úr áli, til dæmis þakplötur úr áli, sem ekki tærðist.
2. Orkan, sem beisluð yrði, væri og yrði endurnýjanleg orka.
Hver varð siðan raunin?
1. Áratugir liðu, þar til nú, að það bólar á afleiddum iðnaði með fullunna vöru. Ein stórverksmiðja erlendis getur framleitt á hluta úr degi allar þakplótur úr áli sem Íslandingar þurfa árlega. Svipað gildir um fleiri fullunnar álvörur; hagkvæmni stærðar keppinautanna erlendis ræður úrslitum. Það sem verið er að gera hjá Norðuráli er aðeins hluti af draumnum frá 1965.
2. Þróunin í virkjunum fyrir álverin hefur þróast í þá átt að æ stærri hluti hennar er fengin úr gufuaflsvirkjunum, þar sem ekki eru gerðar meiri kröfur til endurnýjanlegrar orku en þær, að orkan dugi í 50 ár. Það er ekki lengri ending en hjá kolaverum og ýsmum olíulindum heimsins, sem eru góð dæmi um óendurnýjanlega orku, öðru nafni rányrkju.
Og í jökulánum, sem virkjaðar eru, fyllast miðlunarlón eins og Sultartangalón upp af aurseti, sem veldur vaxandi orkutapi.
![]() |
Nýjar áherslur hjá Norðuráli |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.12.2021 | 22:56
Það þarf stórskotalið í stórorrustum.
Ráðning Bjðrns Zoega sem tímabundins ráðgjafa heilbrigðisráðherra er merki um það að nú þurfi að draga fram stórkanónur til þess að vinna bug á því einstæða ófremdarástandi sem skapast hefur á Landspítalanum.
Willum Þór Þórsson hefur af því reynslu eftir frammistöðunni í störfum sínum fyrir knattspyrnuna, að það verður að grípa til ráða sem duga og að það þurfi að vera stórskotalið í þeirri stórorrustu sem framundan verður að eiga sér stað á því sviði þjóðlífsins, sem þjóðin sjálf hefur hvað eftir annað talið það mikilvægasta í undirskriftasöfnun og skoðanakönnunum.
Ferill Björns Zoega sýnir að nú er að duga eða drepast og blása til sóknar út úr því ömurlega ástandi, sem nú ríkir.
![]() |
Björn Zoëga ráðgjafi Willums |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.12.2021 | 14:23
"Það er svo gott þegar einhver talar til mín."
Um aldamótin síðustu var enn lifandi og komin yfir tírætt kona af íslenskum ættum í Gimli í Manitoba og tekið við hana sjónvarpsviðtal.
Hún var heimsótt í tengslum við för forseta Íslands um Íslendingabyggðir, en árið á undan hafði látist önnur kona af íslenskum ættum, Dóra Björg Björnsdóttir, sem elst hefur orðið af fólki af íslenskum ættum.
Báðar þessar konur, sem nefndar eru, voru ættaðar frá Vopnafirði.
Þegar reynt var að tala við gömlu konuna 1999 var það alveg ómögulegt, því að hún var búin að gleyma svo miklu af þeirri ensku, sem töluð var, þótt allir töluðu það tungumál.
Við hjónin byrjuðum að ræða vandamálið, þegar gamla konan tók allt í einu við sér og fór að tala íslensku, mál, sem hún hafði ekki talað í mörg ár, því að enginn afkomendanna talaði það mál.
Þetta varð til þess að Helga fór að tala við hana og bjargaði því, að hægt væri að ná nógu miklu upp úr þeirri gömlu til að hægt væri að spila það á móðurmáli viðmælandans, íslensku.
Þegar við kvöddum hana stundi gamla konan upp og beindi orðum sínum til Helgu: "Kemurðu ekki aftur?"
"Nei, við erum á leið til baka til Íslands."
"Æ, hvað það var leiðinlegt; mér þykir svo gott þegar einhver talar til mín" sagði sú gamla.
Þessi orð voru ógleymanlegt og sögðu svo mikið þegar málið var athugað nánar.
Gamla konan sá sína nánustu sárasjaldan og skildi þá ekki. Þegar ókunnur maður byrjar að tala við hana, næst ekkert samband.
En þegar hún heyrir fagra kvenrödd kemur rödd móður hennar upp í hugann frá dögum bernskunnar og allt verður svo bjart og hlýtt og yndislegt.
Og mikilvæg og djúp merking orðsins móðurmál er ljóslifandi og sterk.
Því er það henni þungbært að önnur svona stund muni kannski ekki koma.
![]() |
Dóra setur Íslandsmet í langlífi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.12.2021 | 19:03
Hefði þá verið betra að sleppa hitaveitunum á sínum tíma?
Allar götur síðan Sigríður Á. Andersen fór að láta til sín taka sem talsmaður Sjálfstæðisflokksins í umhverfismálum fyrir fimm til sex árum hefur hún lagt ofuráherslu á að reikna niður orkuskipti í samgönguflotanum og reikna ávinning Kolviðar og endurheimt votlendis upp, og það svo hressilega, að ávinnngur orkuskiptanna væri aðeins brot af því sem hinar aðgerðirna gefa.
Þegar viðfangsefnið í heild er skoðað í ljósi sögunnar kemur í ljós að við Íslendingar höfum áður farið í gegnum orkuskipti á stóru sviði, sem á þeim tíma fólst að skipta út notkun á kolum og olíu til húsahitanum og taka í staðinn upp notkun jarðhitavatns.
Þessi orkuskipti kostuðu mikið fé til borana og leitar að nýtanlegum jarðhita og mikilla "heitaveituframkvæmda" í formi dýrra dreifikerfa heim i hvert hús.
Íslendingar hafa alla tíð verið stoltir yfir þessari byltingu sem fól meðal annars í sér mikinn gjaldeyrissparnað vegna olíu- og kolakaupa og flutninga á olíu og kolum til landsins.
Að ekki sé talað um það að losna við þá loftmengun sem fylgdi notkun jarðefnaeldsneytisins.
Ef orkuskiptin framundan núna eru tuttugu sinnum óhagkvæmari en aðgerðir í skógrækt og endurheimt votlendis eins og Sigríður Á, Andersen heldur fram, væri fróðlegt að vita hvort útskiptin á jarðefnaeldsneyti yfir í heitt vatn á síðustu öld hafi verið stórfelld mistök.
Raunar eru margir sem "taka Andersen" á notkun bensín- og dísilbíla ef marka má auglýsingar sem bjóða upp á kolefnisjöfnun við bensíndæluna, sem seljandinn muni sjá um hjá Kolviði.
Raunar var það svo, að þegar Sigríður setti kenningu sína fyrst fram her um árið voru þau firn, sem í henni voru og eru enn, léttvæg fundin.
![]() |
Segir ríkið geta sparað milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.12.2021 | 05:01
Baráttan við aukakílóin mikilvæg við smíði bíla og flugvéla.
Eitt af því sem vekur athygli við nýja Kia EV6 rafbílinn, er hve léttur hann er miðað við stærð og samkeppnisbíla. Þetta gefur færi á meiri sparneytni og drægni.
Samg0ngur snúast um það að flytja þunga á milli staða. Í fluginu er þetta einkum mikilvægt á lengri leiðum og á milli landa, því að komast þarf upp i flughæð, sem er ofar skýjum og býður upp á miklu minni loftmótstöðu og meiri orkueyðslu en flug í lægri hæðum.
Notkun jarðefnaeldsneytis við slíkt flug hefur þann kost, að enda þótt að rogast þurfi í upphafi flugs með mikinn þunga eldsneytis upp í 30 til 40 þúsund fet, léttist þessi byrði eftir því sem eldsneytið eyðist.
Í harðri samkeppni við Airbus lenti Boeing í vandræðum í fyrstu þegar 737 Max var hönnuð með vandasömum breytingum á vél, sem var hönnuð fyrir 40 árum í stað þess að hanna alveg nýja þotu frá grunni.
Tveir ókostir rafafls blasa við þegar finna á nýjan orkugjafa fyrir flugvélar. Annars vegar hve miklu þyngri rafhlöður eru miðað við afl heldur en jarðefnaeldsneyti.
Miðað við núverandi tækni er það mikill dragbítur að þurfa að rogast með alla þessa þyngd upp i æskilega flughæð, og til að bæta gráu ofan á svart, léttast rafhlöðurnar ekkert á leiðinni eins og jarðefnaeldsneytisforði gerir.
Hvað rafbílana snertir voru þeir dýrustu og aflmestu orðnir alltof þungir fyrir nokkrum árum, allt að 2700 kíló.
Með því að stækka sífellt rafhlöðurnar fór sú stækkun að bíta í skottið á sér, því að með stækkuninni jókst þyngd bílsins, sem aftur kallaði á enn stærri rafhlööur.
Audi, Kia og fleiri bjóða nú upp á nettari rafbíla, sem eru allt að 600 kílóum léttari, en samt með meiri drægni.
![]() |
Kia EV6 fær góða dóma frá Top Gear |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2021 | 15:24
Jónas og Einstein; svipuð ummæli með aldar millibili. 0:0 eða 1:1 ?
Eftir að hinn íslenski höfuðsnillingur Jónas Hallgrímsson hafði verið í vísindaferð við fjallið Skjaldbreið orkaði þessi návist við fjallið svo mjög á skáldið, að hann orti innblásið snilldarljóð um fjallið og undur þess.
Undir lok ljóðsins kemur þessi ljóðlína um tilurð það sem "hrauna veitir bárum bláum":
"Gat ei nema guð og eldur
gjört svo dýrðlegt furðuverk."
Sem sagt: spurningin um skapara og sköpun himins og jarðar.
Nú líða árin og annar höfuðsnillingur, Albert Einstein, lendir öld síðar inni í rökræðum um guðstrú manna, og er inntur eftir því sem fróðasti þalifandi maður um alheiminn, hvort hann trúi á guð.
Haft var eftir Einstein á þessum árum, að hann hefði áttað sig á því í rannsóknum sínum og uppgötvunum, að hann vissi æ minna eftur því sem þekkingin yrði meiri.
En svarið um Guð var víst einhvern veginn svona:
"Það sem ég þó veit um alheiminn er, að hann er svo yfirgengilega undursamlegt og mikilfenglegt fyrirbæri, að enginn, nema Guð hefði getað skapað hann."
Einstein er oftast eignað það, að hafa bryddað fyrstur manna upp á þessu sjónarhorni á Guð og guðdóminn.
En öld fyrr hafði íslenskur snillingur reyndar orðað svipað.
Á annar þeirra höfundarrétt á þessum ummælum sínum?
Jónas vissi ekki um að öld síðar myndi annar snillingur orða hans fleygu hugsun.
Og Einstein hafði áreiðanlega aldrei lesið eða heyrt ljóðið um Skjaldbreið.
Svarið um einkarétt á hugsuninni verður því líklega annað hvort 1:1 eða 0:0.
![]() |
Hryggilegt að sjá svör Ásgeirs og Sverris |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
10.12.2021 | 23:08
Stórsókn ungs hæfileikafólks linnir ekki. Til hamingju, Akranes!
Ef listi helsta afreksfólks á hinum ýmsu sviðum á Íslandi í ár væri borinn saman við sams konar lista frá því fyrir rúmum áratug myndi vart vera hægt að trúa þeim gríðarlega mun sem er á þeim; svo hraðar breytingar hafa orðið á þessum stutta tíma.
Nú kemur nýtt nafn, Birkir Blær Óðinsson til skjalanna eins og hvítur stormsveipur.
En "tíminn líður hratt á gervihnattaöld" kvað Magnús Eiríksson á sinni tíð og það á við um okkar tíma.
Fyrir fimmtán árum var Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir meðal ungra og upprennandi stjórnmálamanna, en í upphafi þings um daginn gengdi hún hlutverki forseta þingsins sem sá þingmaður, sem hefði lengst starfað á þingi.
Fyrir sjö árum höfðu fæðst 28 beinir afkomendur síðuhafa og konu hans, en nú hafa tíu bæst við á aðeins sjö árum í fyrirbæri, sem kalla mætti þriðju bylgjuna í fjölguninni.
Þegar ný kynslóð ryður sér til rúms af svona miklum krafti, verður mikil breyting á stöðu kynslóðanna í heild, sem streyma fram; kornungt fólk verður foreldrar og feður og mæður verða afar og ömmur.
Og fljótt kemur í ljós, að það hefur í för með sér mikla hreyfingu á þungamiðjunni í þessari kynsloðaröð.
![]() |
Birkir Blær sigraði í sænska Idol |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.12.2021 | 15:49
Framtíðarsýn Disneys orðin að meiri allsherjarvá en farsóttarveirur?
Walt Disney var einn hugmyndaríkasti og mikilvirkasti áhrifamaður 20. aldarinnar.
Auk teiknimyndanna kom hann á fót heimsþekktum skemmtigörðum og lét víða til sín taka.
Þegar plast fór að ryðja sér til rúms tók hann sérstöku ástfóstri við þetta nýja "töfraefni" sem myndi gerbylta öllu umhverfi mannsins.
Til þess að leggja áherslu á þetta lét hann gera heilt "Plastþorp" þar sem allt var úr plasti, stórt og smátt, til að sýna fram á að plastið gæti komið í staðinn fyrir nánast hvaða efni sem væri.
En plastið, var líkt og Frankenstein, með eiginleika, sem nú líkt og rísa gegn skapara sínum.
Það er að vísu léttara, sterkara og oft sveigjanlegra og ódýrara en önnur efni, en lumar á eiginleikum sem engan óraði fyrir, ekki einu sinni Disney, varðandi það að geta sundrast í öragnir, sem eru jafnvel svo litlar, að þær sjást ekki, en geta smogið inn í vatnsheld efni og frumur manna og dýra.
Sem dæmi um veldi plastsins má nefna, að innan í bílum er oftlega allt úr plasti og hvergi hægt að snerta á neinu nema það sé úr plasti.
Bílasérfræðingar og bílablaðamenn benda oft á það að það sé merki um að reynt sé aðt sleppa sem billegast frá smíði ódýrustu bílanna að þeir séu nánast "plastaðir" að innan.
Þetta er til dæmis nefnt í frásögnum af tilraunaakstri á komandi rafbíl frá Dacia, sem á að verða ódýrastur allra.
Efni hrollvekjandi viðtengdrar fréttar á mbl.is er sláandi og minnir á það, að í Eyjafjallajökulsgosinu 2010 smaug gosaskan um allt og komst eins og hárfínn reykur inn í vatnshelda tölvu svo að hún og allar myndirnar og efnið í því varð eyðileggingu að bráð.
Öragnirnar úr plastinu ku vera enn fíngerðari en fíngerðustu reykagnir og þess vegna eru skaparar plastsins gersamlega varnarlausir gegn þeim.
Walt Disney var sannspár um ótrúlega eiginleika og útbreiðslu plasts, en á hans tíma óraði engan fyrir þeim Frankensteinsku ógnum, sem þetta galdraefni býr yfir og er vaxandi ógn við allt lífríki jarðar.
Sá, sem þetta ritar, situr í stól úr plasti, með gleraugu úr plasti og pikkar á tölvu úr plasti, handleikur tölvumús úr plasti, drekkur úr plastglasi drykk úr plastflösku, skrifar með penna úr plasti og stingur usb-lykli úr plasti í tölvuna.
Rafmagnið kemur í gegnum fjöltengi úr plasti, sem er tengt við innstungu úr plasti í grennd við brauðrist og eldhúsklukku úr plasti.
Á ganginum utan við eldhúsgluggann stendur rafknúið léttbifhjól úr plasti og trefjaefnum.
Úti er lítill tveggja sæta rafbíll, sem er að mestu úr plasti, og yfirbyggingin límd við burðarvirki úr áli og koltrefjaefnum.
Á myndinni stendur l25 cc léttbifhjól fyrir aftan hann, og er líka að mestu leyti úr plasti.
![]() |
Örplast getur valdið frumuskemmdum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.12.2021 | 01:26
Enn þarf að yfirvinna ókosti við notkun vetnis sem orkubera.
Langdrægni og yfirráð yfir orkugjafa til þess að koma á notkun vetnis sem orkubera eru meðal kosta þess að setja vetnisvélar í bíla.
Eins og er liggja gallarnir hins vegar í miklum kostnaði við framleiðslu vetnisins og einnig tefur fyrir að yfirgnæfandi meirihluti bílaframleiðenda hefur tekið venjulega rafbíla fram yfir vetnið.
Hyondai hefur farið þá skynsamlegu leið að bjóða bæði vetnisbíla og hreina rafbíla til þess að dragast ekki aftur úr öðrum.
Gælur Toyota við hybrid bíla sem aðalsmerki hafa reynst erfiðar, en þessi mikli bílarisi er samt alls ekki búinn að tapa kapphlaupinu, því að það er langhlaup.
![]() |
Mikil framþróun í smíði vetnisvéla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.12.2021 | 16:46
Hrikaleg saga sem Rússar vilja ekki gleyma.
Þegar spenna vex í deilum og skoðanaágreiningi er nauðsynlegt fyrir báða aðila, að reyna að setja sig í spor heins.
Í heimsókn til Murmansk 1978 blöstu við illa byggð hús og malargötur, sem gamaldags vörubílar óku um með verkamenn standandi á pöllunum, rétt eins og sjá mátti í Reykjavík 30 árum fyrr.
Þúsundir ungra manna voru á biðlistum til að komast í vinnu á risastórum verksmiðjutogurum þar sem aðbúnaðurinn var svo slæmur og stéttaskiptingin um borð svo mikil, að slíkt hefði verið óhugsandi á Íslandi og í Noregi.
Ungu mennirnir á biðlistunum þráðu að komast út úr hinu risastóra fangelsi, sem föðurland þeirra var, jafnvel þótt þeir væru að þræla um borð í skipum, sem ekki komu í erlenda höfn, heldur voru á rúmsjó allan tímann.
Í landi féllu hurðir féllu illa að stöfum í hótelinu og hrákavinnubrögð hvarvetna að sjá.
En eitt stakk alveg í stúf við öll þessi merki um hrun kommúnismans. Í Murmansk voru stór söfn sem voru afar vel úr garði gerð.
Sögusafnið var meiriháttar flott, og þar skipaði Seinni heimsstyrjöldin stóran sess.
Raunar var orðið heimsstyrjöld hvergi að sjá og heldur ekki ártalið 1939.
Nei, stríðið hét Föðurlandsstríðið mikla og ártölin voru 1941 og 1945.
Og árið 1941 var áberandi, því að þegar það gekk í garð hafði Hitler raðað upp bandalagsríkjum Öxulveldanna við vesturlandamæri Sovétríkjanna frá Eystrasalti suður til Svartahafs og komið þýskum hermönnum til þeirra.
Frá þessum löndum var síðan gerð stærsta innrás allra tíma inn í Sovétríkin og áður en sá hildarleikur var allur, lágu um 20 milljónir manna í valnum.
Þetta stríð rís eins og fjall yfir alla aðra viðburði í sögu Rússlands, og nú, þegar ætlun NATO virðist vera að gera Ukraínu að NATO ríki, eru vestrænir herir komnir í það sem var við hjarta Sovétríkjanna, mun lengra en bandalagsríki Hitlers voru komin fyrir Föðurlandsstríðið mikla, og það hjá þjóð, sem sór dýran eið í því stríði: Aldrei aftur 1941 !
Frá sjónarhóli nágrannaríkja Rússlanda er sókn þeirra í að komast undir verndarhjálm NATO skiljanleg.
Hjá þeim er eiðurinn: Aldrei aftur undir járnhæl Rússa eins og í Kalda stríðinu!
Nú reynir á skilning beggja aðila á afstöðu hins.
Á fundi á Möltu eftir hrun Sovétríkjanna hét Baker, utanríkisráðherra því, að NATO yrði ekki þanið út til austurs.
Þegar haft er í huga að nú er verið að tala um NATO í Úkraínu sést, að það hefur ekki gengið eftir.
Rússar fórnuðu 54 þúsund ungum hermönnum í Krímstríðinu fyrir rúmum 160 árum til þess að viðhalda yfirráðum sínum yfir Krím, sem Krustjoff færði yfir til Ukraínu í misskilinni ofurtrú á samheldni og vináttu lýðveldanna innan Sovétríkjanna.
Í Heimsstyrjöldinni síðari féllu líkast til milljón manns í stríðinu um Sevastopol og Krímskagann.
Ekki þarf annað en að líta á landakort til að sjá að Krímskaginn með Sevastopol er í hliðstæðri afstöðu til Rússlands og Floridaskaginn og Norfölk eru gagnvart Bandaríkjunum.
Þegar vestrænt herskip gerðist líklegt til að sigla inn í landhelgi Krímsskagann, sem Rússar voru þá að hertaka, útilokaði Pútin ekki að beita kjarnorkuvopnum til að hafa yfirráð yfir skaganum.
![]() |
Biden ræði við Zelensky |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)