Edgar Hoover var skæður. Hér á landi líka njósnað.

Það er gömul saga og ný að valdhafar beiti lögreglu eða leyniþjónustu séu til njósna um pólitíska andstæðinga eða aðra, sem vænisýki getur leitt menn til að njósna um. 

Stundum þarf ekki valdhafa til. Edgar Hoover yfirmaður FBI í áratugi, var afbrigðilega vænisjúkur og lét njósna um marga upp á eigin spýtur, líka yfirmenn sína.

Fyrir bragðið kom hann sér upp þvílíkri valdastöðu, en allir óttuðust hann, en þorðu ekki að hrófla við honum í þau 37 ár sem hann byggði FBI svo mjög upp, að menn óttuðust að gæti stefnt í stöðu Gestapo í Þýskalandi Hitlers. 

Hér á landi hefur líka verið njósnað um stjórnmálamenn og má nefna hleranir á símum stjórnmálamanna í Kalda stríðinu. 

Ég hef áður sagt frá líklegum símahlerunum 2005, en hið einkennilega er, miðað við viðbrögðin við hlerunum þá og fyrrum, að okkur Íslendingum virðist vera slétt sama um að slíkt sé stundað. 

Hafi Obama látið njósna um Trump er það að vísu skiljanlegt en ekki afsakanlegt. 

Trump stóð fyrir fordæmalausri ofsókn á hendur Obama í ósvífinni og þráhyggjuþrunginni tilraun til að koma honum frá völdum. 

 


mbl.is Var njósnað um Trump?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskastaða byssuframleiðenda.

Vopnaframleiðendur, hvort sem það eru byssuframleiðendur eða framleiðendur annarra vopna, græða á því þegar ófriðvænlegt verður. 

Undir lok ferils síns sem Bandaríkjaforseti hélt Dwight D. Eisenhower merka ræðu þar sem hann varaði sterklega fyrir auknum umsvifum og áhrifum hergagnaiðnaðarins vegna vígbúnaðarkapphlaups af völdum Kalda stríðsins. 

Þessi orð Eisenhowers voru athyglisverð í ljósi þess að hann var fyrrverandi yfirhershöfðingi Bandamanna á vesturvígstöðvunum í Seinni heimsstyrjöldinni. 

Þegar árásum á skóla fer fjölgandi vestra bera viðbrögð á borð við viðbrögð vararíkisstjórans í Texas þess merki, að líkur aukist á stórfelldri vígvæðingu í bandarískum skólum. 

"Fjórar til fimm byssur á móti einni" gæti þýtt það, að verðandi fjöldamorðingjar muni telja sig verða að auka vígbúnað sinn á móti með því að nota afkastamestu hálfsjálvirku byssurnar á markaðnum, sannkölluð fjöldadrápstæki, en markaður með slík vopn utan við byssubúðir er galopinn vestra. 

Þar með má hugsa sér að kennararnir telji sig líka þurfa fjöldadrápstæki til að eiga möguleika á að verjast. 

Fyrir byssuframleiðendur, sem þrýsta mjög á að rýmka fyrir aukinni byssusölu og auka vígvæðingu gæti verið að koma upp óskastaða.  


mbl.is Segir að vopna þurfi kennara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margþætt lausn.

Fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu um 70 þúsund til ársins 2040 mun skapa þörf fyrir minnst 50 þúsund aukabíla ef ekki 70 þúsund ef engu verður breytt. 

Dæmið gengur ekki upp við að koma 50-70 þúsund viðbótarbílum af núverandi meðalstærð fyrir í gatnakerfinu, sem þegar þekur helming hins byggða svæðis.

Það verður að leita margþættra leiða til þess að leysa vandann. Að einblína á eitt atriði er ekki nóg. 

Til dæmis er óvissan um það hve miklu Borgarlína fær áorkað of mikil til þess að aðeins sé einblínt á hana. 

Það var fyrir tilviljun sem ég sat uppi með rafreiðhjól fyrir þremur árum, sem ég gat ekki selt og varð að nota sjálfur. 

Þá sögðu sumir við mig: "Þú ert hræsnari, vilt ekkert leggja af mörkum sjálfur." Sem var að vísu ekki alveg rétt, því að ég reyndi eftir fremsta megni að nota eins litla og sparneytna bíla og unnt var. 

En gagnrýnendurnir sögðu að ég ætti að leggja af mörkum við kolefnisjöfnuð í gegnum skógrækt og landgræðslu og styðja Borgarlínuna. 

Bæði atriðin byggjast á því að leggja fram krafta og fé í aðgerðir, sem ekki fara að verða að gagni fyrr en eftir mörg ár eða jafnvel áratugi. 

Og skógrækt og landgræðsla, svo þarft sem slíkt má teljast, leysa ekki umferðarvandann í Reykjavík. 

Ég sagðist á opinberri ráðstefnu ætla að leita að "rafbíl litla mannsins" og sökkti mér því niður í alla fáanlega þekkingu um önnur samgöngutæki en bílana, sem höfðu verið eitt af mínum nördasviðum í næstum 70 ár. 

250 þúsund króna rafreiðhjólið var fínt, en vegna búset minnar austast í Grafarvogshverfi nýttist það ekki alltaf til ferðalaga í borginni og alls ekki í ferðum út á land þótt ég færi nokkrar slíkar. 

Þar með varð lausning sú að við bættist 450 þúsund króna létt"vespuhjól", sem hægt var að fara á á þjóðvegahraða um allt land fyrir brot af þeirri eyðslu, mengun og kostnaði sem bíll veldur. 

Þess utan losnar eitt rými fyrir bíl í umferðinni fyrir hvert slíkt lítið en þó hraðskreitt hjól, bæði á götunum og á bílastæðum. 

Í þessi tvö ár hefur aldrei komið vika svo að ekki hafi verið hægt að ferðast á hjóli vegna veðurs, og farnar ferðir á vélhjólinu út á land.

En engu að síður blasti við að í einstaka tilfellum kynni þó að þurfa meira skjól og rými en litla vespuhjólið veitir. 

Fyrir tilviljun rakst ég á bílasölu á minnsta, ódýrasta og umhverfismildasta rafbíl landsins, tveggja sæta en þó með 100 km drægi og 90 km hámarkshraða, og það er viðráðanlegt fyrir lífeyrisþega eða láglaunamann að borga 20 þúsund krónur mánaðarlega til að eignast slíkan bíl en að borga 53 þúsund krónur á mánuði fyrir rafbíl af þeirri gerð sem nú seljast mest. Þegar bensínsparnaður er dreginn frá verður mánaðarleg afborgun í raun 10 þúsund á litla rafbílnum en 43 þúsund á stærri rafbílnum. 

Þessi rafbíll er tveimur metrum styttri en meðalbíll og sparar því bæði rými og er meðfærilegri í gatnakerfinu en meðalbíll. 

Með þessu þrennu hefur persónulegt kolefnisspor mitt minnkað um 85%, - og það sem meira er, nú þegar, en ekki eftir einhverja áratugi. 

Í ljósi þessa má setja upp eftirfarandi hugmyndir: 

1. Betri nýting einkabíla, með ívilnunum til handa þeim, sem minnst rými taka. (Aðeins eins metra stytting meðalbíls losar um 100 kílómetra af malbiki daglega á Miklubrautinni, sem nú er þakið einkabílum. Það þarf ekki 1500 kíló af stáli til að flytja 100 kíló af mannakjöti (meðalfjöldi í bíl er 1,1)) Japanir hafa tekið til þessa bragðs og það hefur gefist vel. 

2. Nútímalegt tölvuvætt kerfi á innsigluðum mælum, sem menn geti fengið að setja um borð í farartæki sín til að sýna fram á ekna vegalengd sem sé það lítil, að þeir fái ívilnanir í gjöldum í samræmi við litinn akstur. Þetta getur auðveldað eign á bíl númer 2 á heimilinu til ferða utanbæjar eða með fleiri um borð en tvo. Þótt svona kerfi kosti fé, er geysimikill ávinningur fólginn í því að minnka þörfina á einum stórum bíl til allra ferða á heimilinu. 

3. Ívilnanir gagnvart vélhjólum með 125cc vélar eða minni og einnig á rafhjólum stærri og aflmeiri en 25km/klst 250 vatta hjólin, sem nú sjást eingöngu á götunum á sama tíma sem hraðar framfarir eru í gerð stærri og öflugri rafhjóla. 

4. Lagfæringar á helstu flöskuhálsum umferðarinnar, og þar koma auk mislægra gatnamóta eða jarðganga bæði til greina opnir stokkar og breikkun með viðráðanlegum uppkaupum á húsum. (T.d. á Miklubraut við gatnamótum við Rauðárárstíg, Nóatún og Háaleitisbraut. 

5. Ókeypis í strætó og bætt hjólastígakerfi. 

6. Borgarlína í áföngum með nógu örri tíðni vagna og metinn árangur hvers áfanga jafnóðum áður en lagt er í lengingu. 

7. Sjálfkeyrandi bílar og deilibílakerfi sem hluta af lausninni, en ekki má ofmeta þessi atriði. 

Fleira mætti nefna auk nánari rökstuðnings fyrir hverju atriði. 

 

 


mbl.is Stokkar greiði fyrir umferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær sem er getur Hekla gosið eftir klukkustund.

Gríðarlegar framfarir hafa orðið hér á landi í mælingum á jarðskjálftum og landi, sem hafa komið á undan alls 21 gosi á 41 ári, frá Heimaeyjargosinu til Holuhraungossins 2014. Hekla

Þó sáu menn það ekki fyrr en eftir að gosið í Heimaey hófst, að skjálfti fyrir gosið hafði verið fyrirboði þess, en það var vegna þess að einn þeirra þriggja skjálftamæla, sem þurfti tið að staðsetja gosið, var ekki virkur. 

Mælafjöldinn og nákvæmnin eru orðin það mikil, að oft hefur aðdragandinn gefið vísindamönnum tækifæri á að spá fyrir með býsna mikilli nákvæmni, hvenær gos yrði. 

Eitt eldfjall hefur samt nokkrra sérstöðu, því miður, en það er sjálf Hekla, sem öldum saman var lang þekktasta eldfjall Íslands, og víða eina eldfjallið, sem þekkt var í útlöndum. 

Gosinu árið 2000 var spáð með innan við klukkustundar fyrirvara, en vitað var fyrir það gos, að land hafði lyfst á svæðinu, sem fjallið er á, upp fyrir þá stöðu, sem það var í fyrir gosið 1991. 

Nú hefur hefur þessi landhækkun staðið lengur og orðið mun meiri en 2000, en ekkert gerist. 

Það eina; sem spá má fyrir um, er að þegar þar að kemur muni verða hægt að spá fyrir um gos með um einnar klukkustundar fyrirvara. 

Útlendingar spyrja stundum, hvaða eldfjall sé líklegast að gjósa næst. Svarið kemur þeim á óvart:  Það eru Grímsvötn, Bárðarbunga og Katla innan nokkurra vikna eða mánaða, - og hugsanlega Öræfajökull líka, -  en Hekla getur orðið á undan þeim öllum með klukkustundar fyrirvara hvenær sem er. 


mbl.is Eldgosin gera boð á undan sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brauð, leikir, að fá að taka þátt í ævintýri og verða "einn af þeim".

Keisararnir og yfirstéttin í Rómaveldi gættu þess vandlega að lýðurinn fengi "brauð og leiki." 

Alþýðan sylti ekki og ætti kost á að vera þátttakandi í dýrum sýningum í Colosseum  og öðru tilstandi valdhafanna. 

Hve oft hefur ekki verið gagnrýnt það dýra sjónarspil sem er í kringum konungsfjölskyldur Bretlands og annarra konungsríkja Evrópu? 

Hve miklu betur þessum bruðlpeningum væri varið í annað?

Enn þrátt fyrir rökfasta gagnrýni heldur konungsfjölskyldan með öllu sínu prjáli og bruðli velli. 

Það er eitthvað sálfræðilegt á bak við þetta, eins og var forðum í Róm. 

Eitt af því, sem velta má upp, er ákveðinn tvískinnungur í röðum lágstétta og öreiga, sem felst í draumnum um að fá að öðlast ríkidæmi og völd og verða "einn af þeim". 

"Ameríski draumurinn" spilar inn á þetta. Í brjóstum flestra býr nefnilega þrá eftir að verða flugríkur og lifa í vellystingum, verða hluti af "þeim", þ. e. hinum ríku og valdamiklu. 

Bryndís Schram lýsti þessu á athyglisverðan hátt í skrifum um það hvernig sumir af fátækasta fólkinu í Reykjavík, meðal annars þeir, sem bjuggu í "Pólunum", sem var hrörleg timburblokk þar sem nú er Valssvæðið, en Flugvallarvegurinn lá fyrrum um, einmitt fram hjá Pólunum. 

Þegar Friðrik Danakonungur kom í heimsókn til Íslands 1955, lenti hann á Reykjavíkurflugvelli og eina leiðin þaðan í bæinn lá fram hjá Pólunum. 

Þá voru þeir gerðir að eins konar Pótemkintjöldum, flikkaðir upp og málaðir að framanverðu, þótt þeir væru sama hreysið bakatil. 

Og íbúarnir bjuggust í sitt fínasta púss til að standa fyrir framan og veifa kóngkaslektinu. 

Árum saman naut lunginn af fólkinu sem þarna bjó ekki atkvæðisréttar og var í raun annars flokks þjóðfélagsþegnar. 

Síðan kom þó að því að mótspyrna auðstéttarinnar gegn því að þetta "hyski" fengi þessi réttindi var brotin á bak aftur með breytingu á lögum í boði flokka sem komust til valda á Alþingi og kenndu sig við alþýðu og framsókn. 

Þá brá svo við, að margir af þessum stigum fátæklinga á borð við þá sem bjuggu í Pólunum, skröpuðu saman aurum fyrir flottum klæðnaði, klæddu sig upp á kjördegi til að fara á kjörstað þannig útlitandi, að halda mætti að svokallað "fyrirfólk" væri á ferð, neytti nýfengis kosningaréttar síns með stæl á borð við hina ríku og lýstu því jafnvel yfir í heyranda hljóði, að þeir ætluðu að kjósa þá, sem hefðu áður barist gegn þessum réttindum!  

Jú, það blundar sennilega í flestum þráin til að "verða maður með mönnum", verða í vinningsliði. 

Það er sama hve fátækt fólk er eða illa statt, að í gegnum sjónvarp eða jafnvel með því að fara til Windsor, getur það orðið hluti af hinum hátimbraða draumi um glys, glingur, dýrindi og því að velta sér upp úr auði og vellystingum. 

Þrátt fyrir hinn yfirgengilega mun á kjörum konungsslektisins eru kóngafólkið samt í hugum margra í svipuðu sambandi við þegnana og gildir í nánum fjölskyldusamfélögum. 

Þetta eru þeirra drottning, þeirra prinsar og þeirra ríkiserfingjar, sem milljónum finnst þeir vera í beinu sambandi við. 

Þetta kom mjög vel í ljós varðandi Díönu prinsessu og ekki síður þegar Georg Bretakonungur kom þannig fram af hugrekki og samkennd með þegnum sínum í Seinni heimsstyrjöldinni, að það sameinaði þjóðina og myndaði sterk tengsl á milli kóngaslektsins og almúgans að konungsfólkið heldur enn velli. 

Enn í dag virðist draumurinn í gömlu ævintýrunum um kóng, drottningu og prinsessu í konungshöllinni andspænis karli, kerlingu og syni í koti sínu, vera furðu lífseigur. 

Hinn gamli Öskubuskudraumur. 

Ein af elstu minningum mínum frá frumbernsku var þegar ömmur mínar lásu fyrir mig ævintýri um syni karls og kerlingar í koti. 

Önnur amma mín fylgdist náið með öllum málefnum í Danmörku og gegnum dönsk blöð og timarit, þar með talið málefnum þáverandi konungs Íslands, Kristjáns tíunda og fjölskyldu hans. 

Það fylgdi með í frásögnninni af þeim, að konungsdóttirin væri jafnaldra mín og það þurfti oft minna en það til þess að ímyndunaraflið færi á kreik á þessum bernskuárum.  

 


mbl.is Athöfnin engri annarri lík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Útnes lýsir svæðinu best, er stutt nafn og laggott, rökrétt og auðskilið.

Á ysta hluta Reykjanesskaga eru tvö nes. Annað þeirra, sýnu stærra en hitt, er norðan línu frá Höfnum yfir í botn Stakksfjarðar og ber heitið Miðnes eða Rosmhvalanes. Ysti hluti þess heitir Garðskagi. 

Yst á Reykjanesskaga, um 12 kílómetra í suðvestri frá þessari línu, er mun minna nes Reykjanes, og heitir ysti hluti þess Reykjanestá. 

Sameiginlegt heiti þessara nesja og þar með ysta hluta Reykjanesskaga er Suðurnes. 

Reykjanesskagi er út af fyrir sér rökrétt heiti á þessum stóra skaga, af því að ef dregin er bein lína eftir Reykjanesfjallgarðinum, sem liggur eftir endilöngum skaganum, endar hún úti á Reykjanesi, fjarri Reykjanesbæ. 

Allt var þetta rökrétt og auðskilið. 

En á síðustu áratugum hefur ruglingur með þetta allt farið vaxandi og sér ekki fyrir endann á því, heldur er verið að bæta í. 

Eftir tilkomu Reykjaneskjördæmis var farið að tala um Reykjanesskagann allan sem Reykjanes og jafnvel er nú orðið farið að tala um að Bláfjöll, Selvogur og Krýsuvík séu á Reykjanesi. 

Og nú bætist við efni í enn meiri rugling.  

Á syðri hluta Miðness, vestan Stakksfjarðar, voru sveitarfélögin Keflavík, Ytri-Njarðvík og Innri-Njarðvík, sem fengu eftir sameiningu heitið Reykjanesbær, sem er ruglandi nafn í meira lagi, af því að þetta sveitarfélag liggur langt frá Reykjanesi. 

Heitið Miðnesbær hefði verið nær lagi. 

Bæjarfélögin Sandgerði og Garður eru á ytri hluta Miðness og það væri því fullkomlega rökrétt að kalla það sveitarfélag Útnes eða jafnvel Útnesbæ, enda oft talað fyrrum um Útnesjamenn.

Heitið Útnesjamenn eða Útnesingar þarf ekki að fela í sér neikvæða merkingu eins og sumir halda fram, heldur voru þetta fyrrum einhverjir hörðustu sjósóknarar landsins eins og vel kemur fram í ljóðinu og laginu Suðurnesjamenn. 

Þar er túlkuð vel sú virðing sem var borin fyrir þessum köppum sem sóttu sjóinn svo fast og sækja hann enn.  

Hinum megin við suðurströnd Faxaflóa er bærinn Akranes og íbúar hans eru kallaðir Akurnesingar. 

Það væri því fullkomlega rökrétt að þarna kölluðust á Útnes og Útnesingar annars vegar, og  Akranes og Akurnesingar hins vegar. 

Akurnesingar eru stundum kallaðir Skagamenn, af því að Skipaskagi er annað heiti á Akranesi. 

Kannski mætti leika sér með heitið Garðskagamenn um þá, sem búa á Útnesi eða í Útnesbæ. 


mbl.is Óvissa um nafnið þrátt fyrir kosningu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað, ef 30 væru skotnir árlega hér á landi?

Samanburður milli Íslands og Bandaríkjamanna er afar einfaldur, því að Bandaríkjamenn hafa verið um þúsund sinnum fleiri en Íslendingar.  

Nú hefur talan að vísu lækkað aðeins í áttina að 900. 

Hlutfallslega samsvarar einn Íslendingur því rúmlega 900 Bandaríkjamönnum. 

Árlega eru 33 þúsund Bandaríkjamenn skotnir til bana.

Það eru tíu sinnum fleiri en drepnir voru í árásinni á Tvíburaturnana 2001.  

Í landinu eru um 300 milljón skotvopn hið minnsta, en það samsvarar því að á Íslandi væru 300 þúsund skotvopn. 

Og drápin með þessum vopnum samsvara því að 30 Íslendingar væru skotnir til bana árlega og mörg hundruð særðir. 

Ekki er hægt að kenna múslimum um þennan óheyrilega fjölda skotinna vestra. 

Heldur ekki "villdýrunum" sem forseti landsins líkir Mexíkóum við og heiðrar reglulega hin gríðarlegu öflugu samtök byssueigenda og byssuframleiðenda á stærstu samkomum þeirra með því að taka undir kröfuna um enn almennari og meiri byssueign. 

Meðal þeirra krafna er að efla sölu á svonefndum "hálfsjálvirku" skotvopnum, sem eru í raun hernaðartæki í ætt við vélbyssur, sem hægt er að drepa með tugi manna á örfáum mínútum. 

Í árás í Las Vegas skiptu slasaðir hundruðum í árás úr launsátri í hóteli. 

Eftir því sem morðunum fjölgar herða byssusalar og byssuframleiðendur áróður sinn, þrýsting og mútur á þingmenn, og sækja fast að vopna sem flesta með hinum stórvirku skotvopnum. 

Hér á Íslandi má sjá og heyra marga mæla skotvopnavæðingu bót og hæla Trump fyrir að berjast fyrir stóraukinni vopnavæðingu og hömluleysi á því sviði. 

Í fróðlegum sjónvarpsþætti í vikunni var varpað ljósi á það ástand, sem er víðast vestra, að hver sem er geti í raun náð sér í óskráða, skattfrjálsa og eftirlitslausa byssu á innan við tíu mínútum. 

"Qui bono?" sögðu Rómverjar, og "follow the money" segja Kanar sjálfir um það hvernig helst eigi að rekja orsakir ófremdarmála. 

Það blasir við vestra: "Vopnaframleiðendurnir græða æ meira og hagnast mest á því að framleiddar og seldar séu sem flest og mikilvirkust skotvopn. 


mbl.is Mannskæð skotárás á skóla í Texas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraunið er merkilegast en lítils metið og þarf endurmat.

Fyrir löngu hefði átt að vera búið að friðlýsa Elliðaárdal samkvæmt ítrustu kröfum um friðlýsingu náttúruvætta. Náttfari í Elliðaárdal

Hve margir Íslendingar skyldu vera meðvitaðir um það að við miðju byggðar á höfuðborgarsvæðinu skuli enn mega sjá tiltölulega nýrunnið hraun, líkast til aðeins nokkur þúsund ára gamalt?

En orðin "skuli enn mega sjá" eru því miður að verða merkingarlítil, því að sinnuleysi ríkir gagnvart þessu merkilega fyrirbæri, sem komið er alla leið ofan úr Bláfjöllum.  

Svo er að sjá að hvar sem því hafi verið við komið, hafi verið í gangi svo mikil skógrækt að það komi í veg fyrir að einhvers staðar megi sjá hraunið ósnortið af slíkum aðgerðum. 

Ég er ekki að tala um mikið, bara autt hraunsvæði á svo sem eins og einum vel völdum hektara með góðu upplýsingaskilti. Reykjavík er vafalítið eina höfuðborg heims, þar sem svona nýrunnið hraun er að finna nálægt þungamiðju byggðarinnar með tugþúsunda manna íbúðahverfi allt um kring.  

 


mbl.is Hvetja borgarstjórn til að friðlýsa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítt skiljanleg frétt.

Það er svosem ekkert aðalatriði héðan af hvort ferðamennirnir, sem lentu í ógöngum á Grímsfjalli í gærkvöldi voru að ganga í "öfuga átt" eða ekki, en útskýringarnar í tengdri frétt eru óskiljanlegar. 

Betra er að vera með engar skýringar en rangar. 

Helst er að ráða af fréttinni að mennirnir hafi ætlað að ganga frá Skálafellsjökli vestur jökulinn en jafnframt sagt, að þeir hafi farið "þveröfuga" leið með því að ganga að Grímsfjalli og það sé óskiljanlegt. 

En Grímsfjall er einmitt í vestur frá Skálafellsjökli, en litlu má skakka, þegar komið er úr austri að fjallinu til að fara skástu leiðina upp eftir austurenda fjallsins. 

Ef það skakkar um aðeins nokkrar gráður geta menn lent aðeins of norðarlega utan í miklum bratta á norðausturhorni fjallsins. 


mbl.is Lentu í snjóflóði á Grímsfjalli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leikið lausum hala. Eftirlitsstofnanir "hafa engin úrræði."

"...hefur engin úrræði..." er gegnumgangandi setning, sem notuð er í útskýringum stofnana, sem eiga að hafa eftirlit í umhverfismálum á Íslandi. Skaftárfossar

Nú er það verksmiðja United Silicon í Helguvík, sem þetta hefur átt við, en í áratugi hefur rányrkja og ill meðferð beitilands á Íslandi viðgengist vegna þess að Landgræðsla Íslands "hefur engin lagaleg úrræði" til að beita í líkingu við þær heimildir, sem Fiskistofa hefur í sambærilegri meðferð á fiskistofnum landsins. 

Verksmiðjunum sjálfum hefur verið falið að annast loftmælingar og virkjanaaðilum hefur verið falið að sjá sjálfum um mat á umhverfisáhrifum. Skaftárhraunkvíslar

Til þess velja þeir þær verkfræðistofur, sem duglegastar eru í að hagræða staðreyndum og fela þær og hafa sérhæft sig í þessu. 

Allt er morandi í þessu, og þar er við löggjafarvaldið að sakast, ráðandi stjórnmálaöfl hér á landi. 

Eitt af fjölmörgum dæmum er það hvernig ekki er minnst einu orði á þau náttúruverðmæti, sem eyðilögð yrðu með Búlandsvirkjun þegar Skaftá verður veitt úr farvegi með einstaklega fallegu kvíslamynstri í gegnum Skaftáreldahraun við Skaftárdal og fimm fallegir fossar hverfa, sem heldur er ekki minnst orði á. 

Myndin hér að ofan er loftmynd af hluta þeirra og fyrir neðan hana er önnur mynd með hluta af kvíslanetinu, en hvorugt þessara fyrirbæra, sem erlendir ljósmyndarar hafa hrifist af í ferðum með mér, er talið vera til samkvæmt skýrslu hinnar "sérhæfðu" verkfræðistofu. 


mbl.is Engin úttekt á búnaði verksmiðja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband