Enginn er búmaður nema hann barmi sér.

Ofangreint máltæki hefur lengi verið í gildi hér á landi. Í því hefur verið vísbending um að þær stærstu á hverju sviði láti verst af afkomu sinni. 

Hvað íslenskt þjóðfélag snertir eru þetta oft þeir sem í skjóli sérstöðu og fákeppni hafa mestu möguleikana til að koma sér í þægilega aðstöðu. 

Eitt dæmið er nýleg athugun á íslensku tryggingarfélögunum. Í henni kom í ljós að arður þeirra skiptir milljörðum á hvert félag og hefur augljóslega skapast í skjóli fákeppni þar sem tryggingargjöld hafa verið miskunnarlaus hækkuð.

Arðurinn eða gróðinn rennur að mestu til hluthafanna, tiltölulega fárra eigenda mestalls auðs, auðlinda og eigna í landinu. 


mbl.is Séríslenskar reglur hækka kostnað neytenda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Útlit fyrir litla rigningu í dag? Jæja? "Það rignir alltaf."

Í dag stóð til að taka nokkrar æfingalendingar hjá mér um fjögurleytið í dag, enda "útlit fyrir litla rigningu" eins og segir í tengdri frétt mbl.is og sama var að sjá á spákortum, sem sýndu úrkomu innan við einn millimetra. 

En annað kom á daginn. Það var eins og allar flóðgáttir opnuðust á fjórða tímanum og ekkert varð af lendingunum, enda varð rigningin 10 millimetrar nú síðdegis.

Viðbrögð við þessu í söng liggja nokkuð beint við hjá mér. 

Eitt af 72 lögum á 4 diska safndiskinum "Hjarta landsins" ber nefnilega heitið "Hann rignir alltaf" og textinn er 416 ára gamall, eftir William Shakespeare, nánar tiltekið lokasöngur í leikritinu "Þrettándakvöld. 

Þetta er elsti textinn á safndiskinum. 

Herranótt sýndi leikritið 1959 og Helgi Hálfdanarson þýddi það. 

Halldór Haraldsson, þá nemandi við skólann, samdi lag sem hefur oftast verið kennt við hirðfíflið Fjasta og nefnt Söngur Fjasta. 

Gegnumgangandi setning í söngnum er "...og hann rignir alltaf dag eftir dag." 

Ég stökk með Hauki Heiðari Ingólfssyni í hljóðver til að syngja lagið aftur 60 árum eftir að ég söng það í Herranótt og breytti laginu lítillega til þess að tengja betur á milli erinda og auka á vægi "húkk"-setningarinnar "...hann rignir alltaf." 

Það er nefnilega ótrúlega mikill hluti upprunalega textans, sem fjallar um veðrið í hverju erindi:  "...hann rignir alltaf dag eftir dag..."  og  "hæ, hopp, út í veður og vind." 

Þegar ég hafði samband við Halldór Haraldsson var hann alveg búinn að gleyma að hann hefði samið lagið, sem sungið var 1959, baðst í fyrstu undan því að vera tengdur við eitthvað sem hann myndi alls ekki eftir. 

Hann samþykkti þó það, að maður sem hefði sungið þetta lag sérstaklea einn á tugum sýninga og æfinga hlyti að muna eftir því, og niðurstaðan var að skrifa okkur báða fyrir laginu. 

Hér kemur textinn, en lagið mun verða sett á facebook-síðu mína nú á eftir.    

 

Ég var lítill angi með ærsl og fjör, - 

hæ, hopp út í veður og vind, - 

og stundaði glens og strákapör - 

- og hann rignir alltaf dag eftir dag. 

 

Rignir, rignir, rignir...

 

Ég óx úr grasi ef einhver spyr, - 

hæ, hopp út í veður og vind, - 

en klækjarefum er kastað á dyr - 

og hann rignir alltaf dag eftir dag. 

 

Rignir, rignir, rignir, rignir...

 

Mér varð til gamans að gifta mig - 

hæ, hopp út í veður og vind.

Nú dugar lítið að derra sig - 

og hann rignir alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag. 

 

Rignir rignir, rignir ....

Hæ, hopp, út í veður og vind! 

 

Ég hátta prúður í hjónasæng, - 

hæ, hopp út í veður og vind. 

Og brennivínsnefi bregði í væng - 

og hann rignir alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag. 

 

Rignir, rignir, rignir ...

 

Hæ, hopp út í veður og vind! 

 

Sem veröldin forðum fór á kreik, - 

hæ, hopp út í veður og vind. 

Enn vöðum við reyk, nú er lokið leik, 

en við lyftum tjaldinu, lyftum tjaldinu, lyftum tjaldinu dag eftir dag. 

 

Og hann rignar alltaf, rignir alltaf, rignir alltaf dag eftir dag

út í veður og vind, - 

dag eftir dag! 

 


mbl.is Heggur nærri rigningarmetinu í maí
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Grunaði landsbyggðarþingmenn þetta 1999?

Íslensk kjördæmaskipan hefur frá upphafi byggst á þeirri skoðun, að pólitísk hagsmunamál væru það ólík eftir byggðum og landsvæðum, að til þess að sem nánast og best samband næðist milli kjósenda og fulltrúa þeirra í fulltrúalýðræði, ætti að skipta kjósendum eftir búsetusvæðum. 

Í C-nefnd stjórnlagaráðs voru uppi ólík sjónarmið í þessu. Þrjú dæmi. 

1. Landið ætti allt að vera eitt kjördæmi. 

2. Landið ætti að verða mörg kjördæmi eftir búsetusvæðum.

3. Skipta mætti kjósendum eftir menntun, störfum, menningarhópum og áhugamálum eins og að skipta þeim eftir landsvæðum og landsháttum. 

Þegar kjördæmum var fækkað 1999 úr átta niður í tólf var reynt að hafa þau sem jafn fjölmennust. 

Ein undantekning var þó á, fjölgun á einum stað:

Reykjavík, sem er eitt sveitarfélag, var skipt niður í tvö kjördæmi, alveg á skjön við fækkun kjördæma. 

Rökin voru meðal annars þau, að borgin bæri slíkan ægishjálm yfir önnur kjördæmi varðandi mannfjölda og miðlæga stöðu, að það þyrfti að sporna við því. 

Enn skrýtnari var þó skipting Reykjavíkur. Í stað þess að virða sjónarmiðið varðandi ólíka hagsmuni og viðhorf eftir landsvæðum og skipta Reykjavík um Elliðaár, - í vesturborgina annars vegar og úthverfin hins vegar, - var ákveðið að skipta henni eftir endilöngu, til þess að koma í veg fyrir að "kjördæmahagsmunir og kjördæmapot" væru stunduð í höfuðborginni! 

Sagt var að landsbyggðarþingmenn svokallaðir vildu þetta, en fékkst aldrei staðfest, enda hefði með staðfestingu á þeim orðrómi fengist upplýst að myndun kjördæma hefði í för með sér kjördæmapot í ljósi kjördæmahagsmuna. 

Skoðanakönnunin, sem sagt er frá í tengdri frétt á mbl.is, staðfestir hins vegar að kjósendur skynja ólíka hagsmuni eftir því hvort þeir eiga heima í vesturhluta borgarinnar eða í úthverfunum. 

Einmitt það! Það skyldi þó ekki vera að landsbyggðarþingmenn hafi grunað þetta í lok síðustu aldar? 


mbl.is Ólík viðhorf eftir búsetu í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Látið ekki karlinn komast upp með þetta!"

Sumum leikmönnum í boltaíþróttum eru gefnir hæfileikar til þess að "lesa" stöðuna í leiknum og vera ævinlega á þeim stað þar sem boltinn kemur. 

Einn knattspyrnumaður fyrr á árum, sem hafði þennan hæfileika, var Ellert Schram. 

Hann var einn af þessum "klettum í vörninni", batt hana saman, stjórnaði spilinu og stöðvaði sóknir andstæðinganna.  

Var herforinginn á sínum vallarhelmingi. 

Ellert var um nokkurra ára skeið í útvarpsráði og kom einu sinni inn í lið Sjónvarpsins í árlegum leik við KEA þegar þessi fyrirtækjalið mættust á Melavellinum. 

Þá voru liðnir um tveir áratugir frá því að hann hætti að keppa, en hann hafði greinilega engu gleymt þegar komið var á Melavöllinn til að fást við knáa KEA menn, sem á tímabili státuðu af landsliðsmönnum úr ÍBA. 

Í fyrri hálfleiknum stöðvaðist hver sókn norðanmanna af annarri á Ellerti, oftast á höfði hans, þar sem hann virtist ævinlega geta stokkið hærra upp en aðrir, bæði á eina hárrétta augnablikinu og eina hárrétta staðnum. 

Fóru smám saman að heyrast formælingarhróp frá áhorfendum, sem höfðu komið með liðinu að norðan: "Látið ekki kallinn fara svona með ykkur!" "Stoppið þið helvítis kallinn!"  "Látið ekki kallinn komast upp með þetta!"

Ef ég man rétt varð rekistefna út af því í hálfleik að Ellert væri að spila með RÚV-liðinu vegna þess að hann væri ekki fastráðinn starfsmaður þar. 

Ekki man ég hver úrslit þess máls urðu, en Ellert spilaði ekki aftur með liðinu. 

Ég spilaði innanhússbolta með hópi um margra ára skeið í hópi, þar sem þeir Ellert og Óli Schram voru meðal þátttakenda. 

Betri og ljúfari menn var ekki hægt að finna á vellinum, hvort sem þeir voru með manni í liði eða ekki. 

Því svæsnara sem orðbragðið varð í köllum áhorfenda á leik KEA og RUV, því betur og ljúflegar spilaði Ellert. 

Ég reikna með að ókvæðisorðin hafi hljómað eins og dýrlegt tónverk í eyrum hans. 

Því fyrirbæri kynntist ég þegar ég var hálffimmtugur enn að keppa í rallakstri og flestir keppinautarnir voru mun yngri. 

Einu sinni heyrði ég út undan mér að einhver hinna yngstu sagði í hálfgerðum formælingartóni við aðra ungliða í hópnum: "Djöfull keyrir helvítis kallinn!" 

Þetta hljómaði eins og dýrlegt hól og var eins og hrein vítamínssprauta.  


mbl.is „Hún er náttúrulega 1,87!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Voru Íslendingar tunglfífl 1967?

Viðbrögð ýmissa við fréttum af erlendu vísindafólki til að undirbúa geimferðir hafa löngum verið þau, að svona geimferðatal sé hreinn fíflaskapur og að verið sé að hafa Íslendinga að fíflum. 

Í nýjustu viðbrögðunum af þessu tagi stinga þessi sjónarmið enn upp kollinum og er NASA nefnd "rugludallastofnun." 

Ég er nógu gamall til að minnast viðbragða við fróðlegan fyrirlestur í útvarpinu um komandi geimferðir 1954 þar sem spáð var fyrir um skot á gervihnöttum út í geiminn og geimferðir. 

Var gengið svo langt að spyrja, hver það væri hér heima sem leyfði útvarpinu að eyða tíma og fé í flutning á svona bulli. 

Ekki liður samt nema þrjú ár þar til Sputnik var skotið á loft og sjö ár þar til fyrsti geimfarinn fór í sína ferð. Gjástykki. Sköpun. Hraunleki

Árið 2000 kom Bob Zubrin, arftaki Carls Sagan í kynningu á geimferðum, og þá sérstaklega ferðum til mars,  formaður alþjóðlegra samtaka áhugafólks um marsferðir, til þess að kynna sér aðstæður hér á landi. 

Þremur árum seinna kom heil sendinefnd til landsins og leist vel á aðstæður í Gjástykki norður af Mývatni. 

Ég fór í hluta af báðum þessum ferðum, fljúgandi með Zubrin og akandi í Gjástykki, og sumir sem ég hitti, aumkuðu mig fyrir fíflaháttinn að vera í ferðum með þessum vitleysingum, taka myndir og flytja fréttir. 

Nú, fimmtán árum síðar, er ekki lengur hægt að afgreiða erlendu gestina sem fávíst áhugafólk, heldur er sérfrótt vísindafólk á ferð, rétt eins og að 1967 voru raunverulegir geimfarar hér á ferð. 

Tal bandarísku vísindamannanna nú um gjárnar íslensku rifjar það upp fyrirmér, að fyrir áratug hóf ég gerð kvikmyndar með heitinu "Sköpun jarðarinnar og ferðir til mars" með Gjástykki sem miðpunkt.Gjástykki. Sandmúli, loftmynd

Þá stefndi hraðbyri í að framkvæma þá einróma niðurstöðu nefndar um skipulag hálendisins að Gjástykki yrði iðnaðar/virkjunarsvæði með tilheyrandi orkuveri, stöðvarhúsi, skiljuhúsi, háspennulínum, gufuleiðslum og virkjanavegum. 

Ég kláraði að skrifa handrit og ljúka kvikmyndatökum, en varð að hætta eftir klippingu á 20 fyrstu mínútunum vegna fjárskorts. Þessi 20 mínútna kafli bíður því eftir að verða lengdur, ef fé og tími gæfust til þess. 

Þegar hver virkjana- og stóryðjuhugmyndin kom fram eftir aðra á þessum árum, og Gjástykkisframkvæmdin frestaðist, fór maður að eltast við slík fyrirbæri um allt land, sem fer sífjölgandi. Virkjanirnar stefna nú í að komast yfir 200!   


mbl.is Vilja undirbúa Mars-leiðangur á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stoðkerfið er flókin smíð. Tveir söngvarar gerðu aðra að spýtukörlum.

Tveir söngvarar voru í nokkurri sérstöðu í lok níunda áratugarins. Einn erlendur og annar íslenskur. 

Sá erlendi var að sjálfsögðu Michael Jackson, sem hreyfði sig þannig á margan hátt, að allir aðrir virtust vera spýtukarlar á sviðinu í samanburðinum. 

Á þessum árum var svo margt fleira en söngurinn og tónlistin sjálf, sem gerðu Jackson og Madonnu að kóngi og drottningu poppsins, meðal annars kapphlaup í sem stórfenglegastri umgjörð og útliti tónleika. 

Tískan er harður húsbóndi eins og sést á bílum nútímans með sínar örlitlu, mjóu og sífellt minnkandi gluggaborur. 

Svipað fyrirbæri helltist yfir bílaiðnaðinn á árunum 1934-1948, og óhjákvæmilegt andsvar í öfuga átt tók við á árunum 1949-1964, þegar kapphlaup var í að hafa gluggana sífellt stærri og útsýnið úr bílunum æ betra. 

Yfirgengilegar glæsisýningar Jacksons og Madonnu kölluðu á andsvar, sem yrði aldger andstæða, og það reyndist verða Björk. 

"Ómögulegar" hreyfingar Jacksons voru hluti af þeim fórnum, sem hann var tilbúinn að færa fyrir stöðu sína, og hallastaðan var ein þeirra. 

Hryggurinn, mænan og taugakerfið og stoðkerfið út frá henni eru flókin smíð og afleiðingarnar af því að þessu kerfi sé misboðið sést í ótrúlega mörgu bakveiku fólki. 

Þegar ég varð bakveikur 1994 og veikin náði hámarki 2006 fór sérfræðingur minn rækilega í gegnum allt sem ég gerði, meðal annars líkamsæfingaprógrammið mitt. 

Sumt, sem þá kom í ljós, kom mér á óvart, svo sem afar krefjandi, hröð, áköf og langvarandi uppréttuhreyfing úr liggjandi stöðu með beina fætur og beinan hrygg þar sem höndum og tám var slegið saman, þegar annars vegar fæturnir og hins vegar efri hluti líkamans mættust í lóðréttri stöðu og fingrum var klappað á tærnar.

15 sinnum í röð. Þetta var eitt af því sem leiðbeinandinn krafðist að ég leggði niður. 

Ýmislegt fleira tíndist til sem kom á óvart, enda var sumt af því sem maður gerði, þess eðlis, að afleiðingarnar komu ekki fram fyrr en tveimur til þremur dögum seinna. 

Hvað um það, - Jackson var erlenda poppstjarnan sem lét allar aðra söngvara líta út eins og spýtukalla. 

En hér innanlands var það Páll Óskar Hjálmtýsson sem lét aðra poppsöngvara líta út eins og spýtukalla á sviðinu.


mbl.is Ómögulegar hreyfingar Jackson skýrðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fárviðri á slysstaðnum.

34 metrar á sekúndu jafngilda 70 hnútum eða 12 vindstigum, fárviðri eftir gamla skalanum. 

Hviðurnar undir Hafnarfjalli komust upp í þennan vindhraða í dag. Spáin gerði ráð fyrir meira en 20 metrum að jafnaði, en undir fjöllum geta hviður orðið mun snarpari en það. 

Þrátt fyrir spár er Íslendingum oft gjarnt á að "láta á þetta reyna" í bland við "þetta reddast" heilkennið. 


mbl.is Húsbíll fauk út af veginum við Hafnarfjall
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Væri gott að fá að sjá mynd af Teigsskógi.

Á þessari bloggsíðu hafa alloft verið gerðar athugasemdir við upplýsingar um staði og svæði á mbl.is, og farið fram á leiðréttingar, en einnig hefur Sigurður Sigurðarson gert svipaðar athugasemdir þegar það hefur átt við. Þorskafjörður, séður frá þjóðvegi 60

Slíkt hefur lengi átt við um fréttaflutning af vegarstæðinu um Teigsskóg, en hingað til hefur ekki sést nein mynd af Teigsskógi í fjölmiðli, heldur hafa myndirnar, jafnvel af ráðherra í skoðunarferð, verið teknar utan skógarins. 

Það á við um myndina, sem birtist á mbl.is af þeim stað á núverandi vegi, þar sem vegur um Teigsskóg myndi byrja. Teigsskógur. Reynitré

En Teigsskógur er reyndar í fimm kílómetra fjarlægð og séð frá ljósmyndaranum alveg i hvarfi handan við austurhlíð Hrómundarfells hægra megin á þessari mynd. 

 

P. S.  Í athugasemd greinir Ólafur Arnalds frá tilvist mynda úr Teigsskógi á vef sínum, og set ég eina slíka hér inn af þessu "kjarri" sem sumir kalla svo, jafnvel þótt um reynitré sé að ræða. Maður stendur neðan við trén neðst á myndinni. 


mbl.is Vilja að vegurinn liggi um Teigsskóg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Konur á barneignaaldri eru stærsta byggðamálið.

Ótal rannsóknir og niðurstöður á ráðstefnum um málefni jaðarbyggða og dreifbýlis hafa leitt fram þá staðreynd, að þótt mannfjöldi á hverjum tíma, framleiðsla, atvinnutækifærir eða hagvöxtur séu mikilvæg atriði varðandi hag og viðgang byggða, hefur eitt atriði verið vanmetið alla tíð: Fjöldi kvenna á barneignaaldri. 

Skorti eitthvað upp á í þeim efnum, er viðkomandi byggð dauðanum merkt. 

Af því leiðir, að sú gamla hugsun að aðalatriði í stjórnmálum sé að "skaffa" verksmiðjur eða svokölluð atvinnutækifæri, sé til lítils ef þau atriði skortir, sem laða að konur á barneignaaldri, svo sem nútimalegt umhverfi, leikskólar, þjónusta, góðar samgöngur og menntunartækifæri. 

Þótt óhjákvæmilegur samdráttur í fjármögnun innviða fylgdi Hruninu 2008, voru þær ráðstafanir verstar, sem sneru að þessum atriðum, svo sem lokun eða fækkun leikskóla og annarra menntastofnana og niðurfelling þjónustu, sem gerir nútíma fjölskyldulíf mögulegt. Gjögur, Árneshreppi

Gott dæmi um þetta er umræðan um Hvalárvirkjun i Árneshreppi. Eins og lenska hefur verið í heila öld hefur hún snúist um afar stutta og tímabundna atvinnu í kringum framkvæmdirnar, þar sem svipað fyrirbæri hefur verið á dagskrá og við fyrri framkvæmdir af þessu tagi sem aðallega hafa laðað að erlent vinnuafl, sem hefur komið haft í för með sér ruðningsáhrif, en síðar horfið af vettvangi við lok framkvæmda. 

Þessi varð raunin hinum megin við flóann við Blönduvirkjun, sem átti að "bjarga Norðvesturlandi" frá fólksfækkun. 

Þegar virkjanaframkvæmdum lauk, urðu jafn margir atvinnulausir og höfðu fengið tímabundna atvinnu við framkvæmdirnar. 

Eftir sátu tvö störf til frambúðar og mesta fólksfækkun í þáverandi kjördæmi á okkar tímum, 13%. 

Hvalárvirkjun mun ekki skapa eitt einasta starf til frambúðar. Lettir við Jökulsárlón

Á málþingi um málið í fyrrasumar kom fram að þjóðgarðarnir á Snæfellsnesi og Vatnajökulsþjóðgarðar hefðu skapað störf fyrir fjölda kvenna á barneignaaldri, tugi slíkra starfa. 

Snæfellsjökulsþjóðgarður færir 3,8 milljarða króna tekjur með sér á ári og þar af verða 1,9 milljarðar eftir á svæðinu. 

Augljóst er, að enda þótt Strandaþjóðgarður eða Drangajökulsþjóðgarður skapi ekki svo miklar tekjur, munar það miklu fyrir 50 manna byggð að fá búbót af þessu tagi upp í fangið. 

Þar að auki er auðlindarenta fyrir borð borin með Hvalárvirkjun. Einn landeigandi verður ríkur en aðrir íbúar fá ekkert. 

 

 


mbl.is Konur auka hagvöxt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirsjáanlegt en hundsað.

Það er búið að vera fyrirsjáanlegt í mörg ár, eins og margoft hefur komið fram á þessari bloggsíðu,  en samt verið hundsað, að með stóraukinni umferð og umsvifum síðustu ára ferðamannasprengingar og verkefnum margra aðila, sem falla undir svokallaða innviði í starfsemi þjóðfélagsins, aukast líkurnar á því að það valdi vandræðum og tjóni að ekki er brugðist við ástandinu. 

Það skiptir ekki máli, hvort þyrla hefði breytt einhverju eða engu varðandi slysið í Þingvallavatni, viðbúnaður Landhelgisgæslunnar er ónógur eftir langvarandi svelti í framlögum, bæði hvað varðar þyrlukost, mannskap og annan viðbúnað. 

Það er til skammar fyrir okkur þegar erlendir ferðamenn moka 500 milljörðum árlega, meira en fjórum sinnum meira en fyrir 2011, af gjaldeyristekjum inn í rekstur þjóðarbúsins, skuli nánasarháttur og níska ráða ríkjum hjá okkur og vera jafn áberandi og raun ber vitni.  


mbl.is Þyrlan gat ekki sinnt útkallinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband