Skjóta fyrst og spyrja svo; Hvesta, Helguvík, Nubo, Sólvellir o.s.frv.

Með reglulegu millibili koma upp stórmál, þar sem farið er af stað með miklum látum án þess að athuga neitt eðli málsins og afleiðingar. 

Fyrir átta árum kom allt í einu upp sú staða að sögn bæjarstjóra Vesturbyggðatr að það yrði 99% öruggt að  rússnesk risa olíuhreinsistöð með 500 manns í vinnu risi í Hvestudal við Arnarfjörð. 

Í ljós kom að það var rússneskt skúffufyrirtæki í Skotlandi með nokkur sterlingspund í ár í árlegri veltu, sem myndi gera þetta og "bjarga Vestfjörðum".

Engin olíuhreinsistöð hefur risið á Vesturlöndum í aldarfjórðung af því að enginn vill hafa svona mengunarskrímsli hjá sér. 

En hér var hlaupið upp til handa og fóta. 

Enn er í minni þegar nánast var búið að ganga frá því að Kínverjinn Huang Nubo keypti Grímsstaði á Fjöllum og reisti þar risahótel með golfvelli og öllu tilheyrandi.

Fyrirtækið sem ætlar að reisa risa sjúkrahús við Sólvelli í Mosfellsbæ er líka með stórfelldar áætlanir um fjárfestingar í íslenskum auðlindum og fleira. 

Allt á þetta sameiginlegt í því að ekkert er spurt um áhrifin af þessu né eðli mála. Nei, það á að skjóta fyrst og spyrja svo, í nýjasta tilfellinu eftir að tugmilljarða króna sjúkrahús er risið.

Engum dettur í hug að það gæti verið gagnlegt að kanna reynslu af svipuðu erlendis, ef hún er þá til. 

2007 var tekin fyrsta skóflustungan að risaálveri í Helguvík án þess að hafa gengið frá raforkusamningum, lagningu raflína og gerð vega og virkjanamannvirkja í alls tólf sveitarfélögum. 

Enn er í fullu gildi einróma viljayfirlýsing núverandi ríkisstjórnar frá fyrsta starfsdegi sínum um að þessi ósköp verði að veruleika. 

Mörg fleiri dæmi af svipuðu tagi má nefna um allt land. 

 

 


mbl.is Mótfallin byggingu sjúkrahúss í Mosfellsbæ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífróður á bæði borð eins og hjá Hermanni 1956.

Já, nú virðist eiga að "taka Hermann á þetta" eða hvað?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson metur stöðuna í stjórnmálunum þannig að hann og Framsóknarflokkurinn verði að róa sameiginlegan lífróður á bæði borð til að endurheimta þau 65% fylgis hans við síðustu kosningar sem tapast hafa. 

Sigmundur getur nýtt sér örvæntingu þingmanna flokksins vegna þess að svakalegt fylgistap þýðir að yfirgnæfandi meirihluti þingmanna flokksins er í svipaðri stöðu og hann, að lenda utan þings nema kraftaverk gerist. 

Það er líklegt að í ljósi þessarar stöðu sé nú verið að efna til sem flestra ágreiningsefna við Sjálfstæðisflokkinn og auðvelt að fá þingmenn og ráðherra Framsóknarmanna til þess, eins og ummæli Eyglóar Harðardóttur bera vitni um.

Auðvelt verður að valta yfir hófsamari stefnu Sigurðar Inga Jóhannssonar og æsa menn upp í einstökum málum, og því harðari sem skoðanaskiptin verða, því betur ætti SDG með að stimpla sig inn í þau og fá flokksmenn til að forðast sameiginlegt skipbrot.

Grein Guðna Ágústssonar um flugvallarmálið gæti verið forsmekkur þess að Framsókn stökkvi á það mál og geri fyrst og fremst að sínu.  

Aðeins rúmum tveimur mánuðum fyrir kosningarnar 2013 var Framsókn í lægð, en SDG stökk á óvæntan dóm EFTA dómstólsins og meira en tvöfaldaði fylgi flokksins á mettíma með því að setja fram svo stórkostleg kosningaloforð að enginn annar flokkur gat boðið betur.

Við höfum samsvörun úr sögu Framsóknar frá árinu 1956 þegar formaður flokksins sat utan stjórnar eins og nú.  

1956 hafði Hermann Jónasson þáverandi formaður Framsóknarflokksins, verið utan stjórnar í þrjú ár þótt flokkurinn væri í stjórn með Sjálfstæðismönnum eins og nú, og líkaði Hermann það ekki vel að hafa ekki verið forsætisráðherra í 14 ár á sama tíma og Ólafur Thors hafði verið forsætisráðherra samtals fimm ár í þremur ríkisstjórnum.

Hermann hafði góð sambönd inn í stjórnarandstöðuflokkana og sagt var að hann og Finnbogi Rútur Valdimarsson hefðu fundið hugvitssamlega lausn, sem gat ekki annað en skilað Hermanni í forsætisráðherrastólinn á ný. Hún fólst í tveimur áætlununum, A og B. 

A: Bæði þessi leið og leið B fólust í að setja stjórnarsamstarfið við Sjálfstæðisflokkinn á hvolf með óyfirstíganlegum ágreiningi.  Stofnað var til kosningabandalags við Alþýðuflokkinn, sem Alþýðuflokkurinn gat ekki hafnað, af því að hann fékk fleiri þingmenn út úr því en áður. Spilað var á meingallaða kosningalöggjöf í því skyni að þessir flokkar fengju meirihluta á þingi út á innan við 40% atkvæða og Hermann yrði í kjölfarið þar með orðinn forsætisráðherra. 

B: Til þess að skapa óbrúanlega gjá milli Framsóknar og Sjalla var efnt til samstarfs Framsóknarmanna og minnihlutaflokkanna á Alþingi með samþykkt Alþingis um brottför hersins, sem Framsókn og minnihlutaflokkarnir sameinuðust um. 

Þótt ekki tækist að uppfylla áætlun A og að litlu munaði í því efni, var búið að tryggja það, að Sjálfstæðismenn gætu ekki hugsað sér samstarf við Framsóknarmenn og að vinstri flokkarnir stæðu fyrir tilboði, sem ekki var hægt að hafna:  Vinstri stjórn með Hermann í forsæti. 

Með þessari djúphugsuðu og pottþéttu áætlun setti Hermann endapunkt á 12 ára samfellda stjórnarsetu Sjálfstæðismanna.  

Herinn sat sem fastast út öldina og fór ekki fyrr 50 árum seinna. En það var algert aukaatriði.  

 


mbl.is Fer á fullt í stjórnmálabaráttunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins ein tveggja flokka stjórn möguleg.

Samkvæmt skoðanakönnun MMR er aðeins ein tveggja flokka ríkisstjórn möguleg, stjórn Pírata og Sjálfstæðisflokks. En vegna þess að um 10% atkvæða féllu "dauð" yrði slík stjórn með drjúgan og tryggan meirihluta á þingi. 

Ef Sjálfstæðisflokkurinn yrði ekki með í stjórn, yrði þriggja flokka stjórn möguleg með Pírata sem stærsta stjórnarflokkinn og Vg með í þeirri stjórn, því að vegna fyrrnefndra 10% dauðra atkvæðia myndi slík stjórn hafa nægan þingmeirihluta.

Önnur stjórnarmynstur yrðu ýmist flóknari eða tæpari.

En það er langt til kosninga, nánast eilífð á mælikvarðann, sem gildir oft í stjórnmálum.  


mbl.is Píratar með 26,8% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert lát á afneituninni.

El nino er nú á undanhaldi á svipaðan hátt og gerst hefur áður þegar þetta fyrirbæri hefur staðið, en "kuldatrúarmenn" kætast, því að þeir birta línurit, sem sýna lækkandi hita í bili og halda því fram að loftslag fari nú "hratt kólnandi" á jörðinni. 

Þessu sama var reyndar líka haldið fram fyrir 2-3 árum.

Þegar litið er á línuritið, sem birt er, sést þó mjög glögglega, að niðursveiflan nú á sér hliðstæður í fyrri El nino, og að sé dregin bein lína í gegnum sveiflukennt hitalínurit síðustu 40 ára, liggur hún upp á við. 

Hlýnunin blasir við á þessum línuritum vegna þess að í hvert skipti, sem þessi El nino sveifla verður, er botn hennar hærri en í fyrri sveiflum og toppur hennar líka hærri en í fyrri sveiflum. 


mbl.is Hitametahrinunni lýkur - í bili
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...drjúgur verður síðasti leggurinn."? "Leggsigur"?

"Drottinn leiði drösulinn minn, /  drjúgur verður síðasti áfanginn." 

Þannig hljóðar ein hendingin í hinu þekkta kvæði Gríms Thomsen "Á Sprengisandi" og andi hennar gæti vel átt við í lokaáfanga stórmerkrar hnattferðar sólarknúnu flugvélarinnar Solar Impulse. 

Ef einhverjir gera lítið úr ferð þessa loftfars vegna þess hve hægt það flýgur og ber lítinn þunga ættu þeir að íhuga hvernig fyrsta vélknúna flugferð Wrigth-bræðra var, 37 metra löng, flogið í mest 3ja metra hæð á sex km/klst hraða á klukkustund miðað við jörð. 

Þetta litla og hæga flug var aðeins fyrsti áfanginn á langri sigurgöngu vélknúins flugs, áfangasigur. 

En, - meðal annarra orða: Er ekki nokkur leið að hamla gegn eins augljósri ofdýrkun á enskri tungu og þeirri sem birtist í því að stefna að því að útrýma hinu ágæta íslenska orði "áfangi" og taka upp enska orðið "leg" í staðinn með því að vera sífellt að klifa á því að floginn sé þessi leggurinn og hinn leggurinn?

Breyta orðinu "áfangasigur" í "leggsigur"?

Og að með sama áframhaldi verður að lokum sungið:

"Drottinn leiði drösulinn minn, drjúgur verður síðasti leggurinn." 

Mikil reisn yfir því?


mbl.is Hringferðinni lýkur á morgun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Endemi í sögu Bandaríkjanna.

Monroe-kenningin frá 19. öld var grundvallaratriði í utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Samkvæmt henni var því slegið föstu að Bandaríkin myndu ekki líða neina íhlutun ríkja utan Ameríku í álfunni.

Monroe-kenningin náði yfir Grænland og þess vegna lenti það land strax undir verndarvæng Bandaríkjamanna þótt hvorki Grænlendingar né Danir legðu neitt peningalega til.

Þau mistök Bandaríkjamanna að draga línuna ekki fyrir austan Ísland voru leiðrétt þegar Íslendingar leituðu til Bandaríkjamanna um að taka að sér hervernd landsins sem hlutlaust ríki, þegar sá samningur var gerður og Bretar viku að mestu í burtu.

Eftir Heimsstyrjöldina fyrri kom að vísu bakslag í viðleitni Bandaríkjamanna til að beita sér gagnvart komandi ógn af völdum Mussolinis og Hitlers, en sú einangrunarstefna átti eftir að hefna sín.

Þegar menn óttuðust, með réttu eða röngu, að Sovétríki Stalíns myndu ekki láta staðar numið með því að gera Tékkóslóvakíu og alla Austur-Evrópu að leppríkjum, var NATO stofnað til þess að draga skýrar línur í þessu efni.

Grundvallaratriði var að NATO liti á árás á hvert ríki bandalagsins sem árás á þau öll.

Ef nú á að fara eftir kenningu Donalds Trump um það að Bandaríkin áskilji sér rétt til að verja aðeins þau ríki, sem uppfylli fjárframlagskröfur Bandaríkjanna, er þetta grundvallaratriði NATO fokið út um gluggann.

Ýmsir einangrunarsinnaðir og hægri sinnaðir frambjóðendur hafa boðið sig fram fyrir Republikanaflokkinn síðustu hundrað árin, en eftir að einangrunarstefnan beið skipbrot í tvígang við upphaf Heimsstyrjaldanna tveggja, hefur engum frambjóðanda dottið slík fádæmi í hug fyrr en nú.

Það er ekki eitt heldur allt, sem gerir marga orðlausa varðandi fjölmörg endemis ummæli Donalds Trump.

 


mbl.is „Styður við vinnu Ríkis íslams“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hélt hann áfram í vinnunni og leitaði samt?

Í morgun áttum við Helga leið frá Reykjavík vestur í Stykkishólm til að taka Baldur út í Flatey. 

Við vorum á leið út úr hringtorgi og fórum fram úr ógnarlöngum flutningabíll með stærðar aftanívagni, sem var að ná upp hraða eftir að hafa hægt á sér í torginu. 

Helga sá út um hægri glugga bílsins að bílstjórinn á flutningadrekanum hélt snjallsíma beint fyrir framan sig. 

Kannski var hann að fylgjast með einhverri útsendingu og í tilefni af Pókemon-æðinu að undanförnu flaug okkur i hug að það gæti ekki verið útilokað að hann væri að leita að Pókemon, þótt hann væri í vinnunni. 


mbl.is Hætti í vinnu til að eltast við Pokémon
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dýrið, sem gabbaði Íslendinga.

Stórslys, sem orðið hafa hér á landi vegna innflutnings á erlendum dýrum, hafa reynst þjóðinni dýr, fjárkláðinn um miðja 19. öld og mæðiveikin síðar, og loks minkurinn, sem slapp út úr búrum og gerðist hluti af dýraríki landsins og olli miklum usla í því.

Í öll skiptin var fullyrt að engin hætta væri á þessum áföllum, útilokað væri að þau gætu gerst.  

Þegar ég var í sveit á árunum 1949-1954 voru afleiðingarnar áberandi vegna tveggja af þeim. 

Man ég hvað mér var brugðið sem barni að horfa á aðfarirnar þegar féð var baðað í sérstöku kari fyrsta sumarið sem ég var í Hvammi, og síðustu sumrin var stöðugur straumur vörubíla eftir þjóðveginum með fé sem flutt var af ósýktum svæðum af mæðiveiki til landshluta, þar sem skorið hafði verið niður. 

Nú um stundir er fullyrt að óhugsandi sé að neitt misjafnt kunni að fylgja því að standa að laxeldissprengingu í fjörðum landsins, svo tryggilega sé öryggis gætt á alla lund. 

Norðmenn eiga þó í miklu vandræðum vegna síns laxeldis, en okkur er sagt að þetta verði miklu betra hjá okkur. 

En hollt kann að vera að hugsa til minksins og þeirra erlendu hrúta sem reyndust gabba Íslendinga á dýrkeyptan hátt.

Fiskar, sem sleppa úr búrum, þótt fullyrt sé að það geti ekki gerst, geta líka gert það.  


mbl.is Minkafjölskylda veiddi sér til matar – myndskeið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru ekki allir menn í óflughæfu ástandi?

Þegar rætt er um farartæki, sem ekið er, flogið eða siglt, er talað um að viðkomandi farartæki sé í óökuhæfu, óflughæfu eða ekki í siglingarhæfu ástandi.

Í tengdri frétt á mbl.is er sagt að ökumaður hafi verið í óökuhæfu ástandi.

Það er svolítið erfitt að skilja, hvernig einhver hefði átt að reyna að aka manninum, og alveg nýtt að tala um að fólk sé ekki í ökuhæfu, flughæfu eða siglingarhæfu ástandi. 

Menn voru til dæmis ekki skapaðir með vængi og geta því ekki flogið einir og sér, - eru sem sagt alla sína lífstíð í óflughæfu ástandi. 

En hver veit nema sumir verði að englum í góðu flughæfu ástandi eftir dauðann?


mbl.is Bæði í óökuhæfu ástandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hverjir töluðu um "ónýta Ísland" 1999 til 2011?

Í upphafi 21. aldarinnar töldu þeir, sem ferðinni réðu hér á landi, að Ísland væri ónýtt nema að stóriðjan "bjargaði þjóðinni." 

Ráðherra sagði orðrétt í sjónvarpsviðtali í Kastljósi eftir að Siv Friðleifsdóttir leyfði Kárahnjúkavirkjun, að Siv hefði "bjargað þjóðinni."

Erlendur efnahagssérfræðingur, sem hingað kom til að gagnrýna bankabóluna var hvattur til að fara í endurhæfingu.

Síðan kom hrunið og forsætisráðherrann fórnaði höndum og bað Guð um að blessa Ísland, svo ónýtt var landið.  

Alveg fram yfir gosið í Eyjafjallajökli voru allir aðrir möguleikar til atvinnusköpunar en stóriðjan taldir gerónýtir, jafn fjarstæðír og fjallagrasatínsla, Ísland var ónýtt og þjóðin bjargarlaus nema sex risaálver risu. 

Allt annað en þessi sýn var talað niður með orðunum "eitthvað annað" með djúpri fyrirlitningu. 

Í fyrstu voru þessar sömu raddir hlaðnar svartsýnisrausi vegna gossinn í Eyjfjallajökli. 

En í ljós kom hið augljósa: Það "eitthvað annað" sem tengdist frægð náttúru landsins reyndist hrinda af stað fjölgun ferðamanna, sem hefur, ásamt lágu eldsneytisverði, staðið undir nær öllum þeim uppgangi sem síðan hefur verið og stendur enn. 

Skapandi greinar, sem taldar voru hreinir órar að nefna, eiga líka sinn þátt. 

Það kom í hlut annarra en þeirra sem fyrst og fremst skópu hrunið, að slökkva elda og hreinsa til í rústunum.  

Síðan 2011 hefur leiðin legið upp á við á stjórnartíma tveggja ólíkra ríkisstjórna og hlálegt er þegar aðeins annarri stjórninni er þakkað allt, en stjórn rústabjörgunarinnar talin bera ábyrgð á tjóninu af völdum Hrunsins, sem stofnað var að mestu til á valdatíma núverandi stjórnarflokka.  


mbl.is Einsdæmi í hagsögu Íslands framundan?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband