Afbrigði af "Orkunýtni - koma svo!" á morgun.

Í fyrramálið kl. 09:00 verður ræsing á sparakstri hjá Atlantsolíu við Húsgagnahöllina, en AO og FÍB standa þá að sparakstri á bílum frá Reykjavík til Akureyrar, sömu leið og ég fór á vespuhjólinu Létti í síðustu viku.  Sá leiðangur bar yfirskriftina "Orkunýtni - koma svo!" og akstur bílanna á morgun er í raun afbrigði af því. DSCN7914

Það verður afar fróðlegt að fylgjast með þessum sparakstri, því að hann byggist á svipuðu uppleggi og var hjá mér á vespuhjólinu, að líkja eftir venjulegri ferð á eðlilegum þjóðvegahraða.

Ég fór leiðina, sem farin verður á morgun, á því sem næst þjóðvegahraða,  5 klst 50 mínútum brúttó, en á 5 klukkustundum sléttum nettó, þegar frá eru dregnar tafir við enda Hvalfjarðarganga, bensínáfyllingu og áningu í Staðarskála og bensínáfyllingu í Varmahlíð.DSCN7923

Á þessari leið eyddi Léttir 9,9 lítrum sem kostuðu 1916 krónur.

Á morgun er stefnan sett á 5 klukkustundir brúttó með hálftíma áningu á Gauksmýri, sem er nokkurn veginn á miðri leið.

Í ferð Léttis var haldið áfram hringinn á svipuðum hraða, stansað í 3 klst á Akureyri til að blogga og setja á facebook. komið til Egilsstaða klukkan 22:00 og reyndist bensínkostnaðurinn frá Húsgagnahöllinni í Reykjavík alls 3195 krónur. Bensín var tekið í Reykjahlíð við Mývatn og stansað stutt til að taka myndir við Mývatn og sunnan við Möðrudal. Sunnan við brúna yfir Jökulsá á Dal var langur kafli með grófri möl, sem tafði mikið fyrir. DSCN7959

Áð var á Egilsstöðum í sex klukkustundir, þar af sofið í þrjár stundir, en síðan haldið áfram um Fjarðaleið á Austfjörðum til Reykjavíkur og farið fram hjá Húsgagnahöllinni rétt rúmlega fimm.

Bensínkostnaður á þessari bakaleið um hringveginn frá Egilsstöðum var 3590 krónur, enda leiðin næstum 50 kílómetrum lengri en norðurleiðin og einnig munaði um það, bæði á tíma og eyðslu, að ég fékk arfa vont veður á leiðinni frá Egilsstöðum til Hornarfjarðar, niðaþoku og allar tegundur af slagviðri, sem gerðu aksturinn afar skrykkjóttan og erfiðan.Léttir, Jökulsárlón

Stansað var við myndatöku yst í Stöðvarfirði í Berufirði og við Jökulsárlón, tekið bensín á Djúpavogi, í Nesjum í Hornafirði, þar sem bloggað var, Freysnesi og Vík í Mýrdal auk myndatöku á þessum stöðum. 

Heildarbensínkostnaður við að aka hringinn á hringveginum sjálfum var 6890 krónur og heldartími ferðalagsins 31 klukkustund, 18 klukkustundir nettó sem hjólið var á ferðinni. 

Nú verður gaman að sjá tölurnar á norðurleiðinni á morgun, sérstaklega hvað tengil-tvinnbílarnir gera.

Þess má geta að bílarnir á morgun lenda strax í auknum útgjöldum miðað við Létti við Hvalfjarðargöngin, því að gjaldið fyrir bílana er 1000 kr., en 200 krónur fyrir hjólið.DSCN7954

Ég gerði það líka að kröfu að maturinn í ferðalaginu yrði ódýrari en ef ég hefði verið heima hjá mér allan tímann. Hægt var að fara ferðina alla á einum og hálfum pakka af barnamat og 200 króna sykurlausum Coladrykk.

Þess má geta að hjólið eyðir minna eldsneyti innanbæjar en á þjóðvegahraða, eða 2,2-2,3 lítrum á hundraðið. 

Það er vegna þess að uppréttur maður, sitjandi á hjóli, veldur mikilli loftmótstöðu á 90 km hraða, en bílar eru aftur á móti straumlínulagaðir.

Innanbæjar er bíll með manni hins vegar fimm sinnum þyngri en hjólið og því þarf meiri orku í hraðaaukningu á bílnum, til dæmis þegar ekið er af stað eftir að hafa beðið á rauðu ljósi.  


Skemmtileg íslensk áhrif.

Íslensku áhrifin í landnemabyggðum í Vesturheimi taka oft á sig skemmtilegar myndir. 

Þannig heita tvö þorp í Manitoba í raun sama nafninu, þótt annað sé enskt nafn en hitt íslenskt. 

Þetta eru bæirnir Árborg og Riverton. Sama nafnið!

Vesturíslensk hjón gistu eitt sinn í sumarleyfi sínu hjá okkur Helgu. Hann hét Þorsteinn, kallaður Steini, og margt skemmtilegt datt upp úr honum. 

Ég fór með vesturíslensku hjónin norður í land á Bronkójeppanum, sem ég átti þá, og rétt áður en lagt var af stað opnaði ég vélarrúmið til að tékka á ýmsum hlutum. 

"Hvað ertu að gera?" spurði Steini. 

"Ég er að skoða kertin," svaraði ég. 

"Kertin!" hrópaði Steini upp. "Kertin!", hrópaði hann aftur og hló svo dátt að eftirminilegt var. 

"Já," svaraði ég. "Af hverju hlærðu svona mikið að því." 

"Þetta eru ekki kerti," sagðí Steini. "Þetta eru neistatappar. Við köllum þetta neistatappa fyrir vestan." 

"Já, auðvitað," sagði ég, "spark plugs á ensku."

"Já," sagði Steini, "auðvitað. Hvernig í ósköpunum datt ykkur þetta í hug?"

Ég átti enga skýringu á því.  


mbl.is Íslensk bæjarheiti vestra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tekur Ólajó á þetta.

Á útmánuðum 1979 ríkti óvissuástand um það hvort ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar myndi lifa veturinn af. 

Ekki náðist samstaða um eitt mikilvægasta málið, verðtrygginguna, sem var Alþýðuflokksmönnum einkar hugleikið, einkum Vilmundi Gylfasyni, vegna hinnar stórfelldu og óréttlátu tilfærslu fjármuna frá sparifjár/fjármagnseigendum sem gríðarleg verðbólga hafði í för með sér. 

Ólafur Jóhannesson tók þá það til bragðs að höggva á hnútinn með því að leggja einn fram frumvarp um verðtryggingu. Sagt var að hann hefði samið það á eldhúsborðinu heima hjá sér og hét þessi löggjöf Ólafslög í munni almennings. 

Nú virðist Sigurður Ingi Jóhannsson ætla að taka Ólajó á stjórnarskrárbreytingar. 

En ekki er víst að hann nái sama árangri og Ólijó. Til þess eru ákvæðin um náttúruvernd og auðlindanýtingu orðnar of útvatnaðar og marklitlar í meðförum stjórnarskrárnefndar. 

Það er helst að greinin um þjóðaratkvæðagreiðslur kunni að verða samþykkt, þótt það sé líka gallað. 

Á sínum tíma taldi ég 10% þröskuldinn full lágan til þess að fara strax af stað með svo lága prósentutölu. Betra væri að byrja í 15% og sjá hver reynslan yrði af því, því að breyting á einni tölu væri tiltölulega einfalt mál, ef hún þætti nauðsynleg síðar. 

 


mbl.is Leggur til stjórnarskrárbreytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikil fáfræði kallar fram fordóma.

Í starfi stjórnlagaráðs leituðu margir til ráðsins með athugasemdir og tillögur. Einn þessara hópa var transfólk. 

Á fundi með því fólki vakti það undrun mína hve fáfróður ég var, elsti maðurinn í ráðinu, um þessi málefni, sem reyndust margfalt fjölþætrari og víðtækari en ég hafði haldið.

Samtöl við þetta fólk sýndu, að mjög langt er í land að almenningur og ráðamenn viti nógu mikið um þessi málefni, og það hringir aðvörunarbjöllum um hættu á fordómum þegar almenn fáfræði ræður ríkjum.  


mbl.is Berjast fyrir sýnileika intersex-fólks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gömlu stolti Breta er misboðið með EES-samningi.

Heimsveldi Breta hrundi í raun eftir lok Seinni heimsstyrjaldarinnar, þótt Breska samveldið lifi enn. 

Öll saga Breta mótast af þeirri staðreynd, að Ermasund skilur að Bretlandseyjar og meginlandið, orrustan við Hastings, Flotinn ósigrandi, flóttinn frá Dunkirk, Orrustan um Bretland, - allt eru þetta stór nöfn í sögu landsins. 

Staða Noregs og Íslands varðandi aðild að EES-samningnum var allt önnur, staða tveggja smáríkja sem áttu gríðarlega mikið undir því á sínum tíma og eignast aðgang að frjálsu flæði fjármagns og vinnuafls og tollaríðindum, sem EES veitir. 

En með því að skuldbinda sig til að taka við flóði tilskipana frá ESB án þess að geta haft nokkur áhrif á þær var afsal ríkisvalds það mikið með þessum samningi, að hefði stjórnarskrá stjórnlagaráðs verið í gildi, hefði orðið að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um samninginn. 

Stórveldishugsun Breta er enn svo grunnmúruð í þjóðarvitund þeirra, að óhugsandi er að þeir fari að breyta úr því að geta þó haft einhver áhrif á tilskipanir frá Brussel yfir í það að taka við þeim án möguleika á því að vera með í ráðum. 


mbl.is Vilja fríverslun frekar en EES
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ömurlegur seinagangur.

Athyglisverð frétt Þorbjörns Þórðarsonar á Stöð 2 um vexti hér á landi og í nágrannalöndunum endaði hræðilega, og þessi endir sýndi hve glötuð vaxtastefnan er hér á landi . 

Í henni kom fram að vextir húsnæðislána á Norðurlöndunum eru 0,8 - 2,0 prósent,´óravegu frá því sem er hér.

Þorbjörn sótti fast að talsmanni vaxtastefnunnar hér en hann hékk á kröfunni um stöðugleika eins og hundur á roði gaf svo loðin svör að maður var engu nær.

"Hvað þarf stöðugleikinn að vara lengi,- 5 ár, 10 ár, 20 ár eða meira?" spurði Þorbjörn.

Vaxtasérfræðingurinn gaf í skyn að það gæti orðið jafnvel lengri tími.

Þvílíkt og annað eins!!    

 

                      


mbl.is Allt of lítið og allt of seint
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Stjórnmál snúast um traust."

"Stjórnmál snúast um traust" var svar Davíðs Oddssonar, þáverandi forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, þegar upp kom slæmt mál hjá einum af þingmönnum flokksins. 

Á grundvelli þessa hafa verið settar reglur um hæfi og vanhæfi opinberra embættismanna, sem þurfa að njóta fulls trausts. 

Þegar slíkt er metið skiptir ekki máli, hvort embættismaðurinn hafi sannanlega ekki látið tengsl sín hafa áhrif á gerðir sínar eða ekki. 

Einnig er mikilvægt, já jafnvel enn mikilvægara, að viðkomandi embættismaður reyni ekki að leyna tengslum sínum, heldur gefi fullar upplýsingar um þau frá upphafi máls. 

Á einu af eftirminnilegum augnablikum sjónvarpssögunnar ákvað þáverandi forsætisráðherra þjóðarinnar að leyna og ljúga til um tengsl sín við aflandsfélag, sem gerði honum og konu hans kleift að njóta þeirra forréttinda að hafa sín verðmæti í erlendri mynt á sama tíma og flestir samlandar hans urðu að sæta því að þeirra verðmæti væru innilokuð í krónuhagkerfinu sem hryndu í Hruninu. 

Að kona hans væri ein af kröfuhöfunum í föllnu bankana, í hópi þeirra sem hann hafði sjálfur notað heitið "hrægamma" yfir. 

Af hverju viðurkenndi hann ekki sannleikann á þessu mikilvæga augnabliki? Af hverju hafði hann ekki upplýst um þetta fyrr? 

Ef þessi mál hans voru svona eðlileg og sjálfsögð, af hverju leyndi hann þeim í lengstu lög?

"Stjórnmál snúast um traust". 

Á því augnabliki sem forsætisráðherrann laug varð trúnaðarbrestur á milli hans og mikils meirihluta þjóðar hans.  Það má verja viðbrögð hans með því að margir hefðu freistast til að gera hið sama í hans sporum, - að öll séum við mannleg. 

En stjórnmál snúast samt um traust. Annað hvort ríkir trúnaður, eða það hefur orðið trúnaðarbrestur. 


mbl.is Kom ekki að samskiptum við kröfuhafa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brýnt að málið verði tekið upp að nýju.

Vitnisburðir þriggja vitna, sem í tilefni af bókinni Hyldýpið hafa snúið sér til mín, hvert í sínu lagi, til að trúa mér fyrir vitneskju sinni um Geirfinnsmálið, benda til þess að brýnt sé að það mál að minnsta kosti verði tekið upp að nýju og rannsakað betur og með opnari huga en gert var. 

Þetta er sérstaklega brýnt vegna þess að þessi vitni eru nú orðin það gamalt fólk, að frekari töf á þessu getur orðið dýrkeypt.

 

Sú vitneskja sem vitnin búa yfir, snertir mismunandi þætti málsins, og er einkum eitt þessara vitna mikilvægt, vegna þess að framburður þess bendir til þess að um að ræða stórfelldan galla í rannsókn málsins.

Öll vitnin segjast hafa þagað í öll þessi ár vegna þess hve erfitt það hefði verið í umrótinu, sem ríkti, að eiga von um að frásagnir þeirra yrðu teknar alvarlega, og því hætta á það eina, sem þau hefðu upp úr því að stíga fram, yrði að baka sér sjálfum og sínum nánustu mikil vandræði án þess að nokkur árangur næðist í að fá fram eðlileg málalok.

Augljóst hafi verið að öll rannsóknin beindist að því að negla ungmennin, sem á endanum voru sakfelld. 

 

Vitnin segja líka að erfitt hefði verið fyrir þau að koma fram að eigin frumkvæði og líklegra að þau hefðu haft sig í það að bera vitni, ef rannsóknaraðilar hefðu leitað til þeirra.

Að mínu mati sýnir þetta hve brýnt það er að algerlega ný, óháð og vönduð rannsókn verði framkvæmd.  


mbl.is Varpar ljósi á hvernig Sævar var bendlaður við hvarf Guðmundar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nafni hans Pálsson kom úr þessum herbúðum.

Þorsteinn Víglundsson er sterkur kostur fyrir nýja flokkinn Viðreisn. Hann er ekki sá fyrsti, sem kemur úr herbúðum atvinnurekenda inn í stjórnmálin. 

Þorsteinn Pálsson var talsmaður samtakanna í upphafi ferils síns og varð síðar formaður Sjálfstæðisflokksins, forsætisráðherra og síðar sjávarútvegsráðherra. 

Einar Oddur Kristjánsson fór á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn eftir að verið einn af höfuðsmiðum einhvers mesta stjórnmálaafreks liðinnar aldar, Þjóðarsáttarinnar 1990. 


mbl.is Þorsteinn í framboð fyrir Viðreisn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðlögun og aðstoð er nauðsynleg.

Íslensk kona, sem hefur verið ráðgjafi hjá BBC varðandi hraðar breytingar í fjölmiðlun og samskiptamiðlum, flutti fróðlegan fyrirlestur um þessi mál í fyrra. 

Ljóst er að bæði RUV né aðriar fjölmiðlar verða hafa sig alla við til að bregðast við gerbreyttu umhverfi.

Upp er að alast heil kynslóð sem varla horfir á sjónvarp eða les blöð heldur hefur allt sitt annars staðar frá.

Íslenskir ráðamenn virðast ekki átta sig á nauðsyn þess að styða við íslenska fjölmiðlun, bæði á ljósvakanum og í rituðu máli.

Þeir stóðu fyrir hækkun virðisaukaskatts á bókum í stað þess að fara í hina áttina, bæði á sviði bóka og tímarita og ekki síður á ljósvakanum.

Á sama tíma og RUV nýtur langmests trausts allra fjölmiðla er jafn fráleitt að ráðast gegn slíkum fjölmiðli hér á landi frekar en í nágrannalöndunum.

Afar erfitt er að draga línu á milli auglýsinga og nauðsynlegrar upplýsingagjafar um það sem er að gerast í þjóðfélaginu, svo sem á sviði menningar.

Skynsamlegra er að létta gjöldum af einkareknum fjölmiðlum, því að þeir þurfa ekki síður að keppa við nýja erlenda samkeppni en við RUV.  


mbl.is Fjölmiðlar vilja sjá breytingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband