Og allt í fína lagi?

Fréttin hér á mbl.is um ástandið á húsaleigumarkaðnum er þess eðlis, að það verður að lesa hverja setningu með athygli. 

Fram að þessu hafa margir yppt öxlum yfir þessu ástandi og bara sagt að markaðurinn sjálfur verði að ráða fram úr máli, sem sé ekkert til að fara á límingunum yfir. 

Leigutakar eru auk þess minnilhluti í þjóðfélaginu sem öðrum hópum virðist skítsama um. 

Þegar "forsendubresturinn" margumtalaði var leiðréttur sátu leigjendur og aðrir minnihlutahópar eftir þótt þessi sami forsendubrestur hefði skilað sér niður til þeirra í gegnum húsnæðiseigendur í formi snarhækkaðs leiguverðs. 

Við má bæta, að húsaleigubætur miðast við svo lágar tekjur, að þúsundir fólks, sem ekki hefur lengur ráð á að leigja húsnæði, situr á hakanum. 

Slæmt ástand fer síversnandi og það blasir við að það mun halda áfram að versna. 

Á að trúa því að það sé bara í fína lagi að þetta stefni í þessa átt? 

Að þeir sem þurfa að leigja húsnæði megi bara éta það sem úti frýs í bókstaflegri merkingu? 

 


mbl.is Slegist um íbúðir til leigu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löngu horfið viðhorf erlendis lifir góðu lífi hér.

Sjá má á bloggsíðum andmælt því að ástæða sé að amast við akstri utan vega á borð við þann, sem mynd náðist af við Vatnsfellsvirkjun. Sjá má setningar eins og "þetta verður horfið í næsta sandroki". Krepputunga. akstursskemmdir

Þetta viðhorf hefur fyrir löngu verið kveðið í kútinn hjá siðmenntuðum þjóðum, meira að segja í landi frelsisins, Bandaríkjunum. 

Þar er víða lögð 130 þúsund króna sekt við því að kasta svo miklu sem einum sígarettustubbi eða einu karamellubréfi frá sér á víðavangi. 

Fyrir bragðið er hægt að vera gestur á milljón manna flughátíð í heila viku án þess að sjá svo mikið sem sígarettustubb eða tyggjóklessu neins staðar. 

"En þetta er nú bara sandur og dropi í hafið á víðlendum auðnum Íslands" er sagt. 

En þá horfa menn framhjá því að þúsundir jeppa eru á ferð um hálendi Íslands á hverju sumri og ef leyfilegt er að aka þeim öllum eins og hverjum sýnist hvar sem er, hvenær sem er og hve oft sem vera vill, verður það allt útbíað í svona spjöllum, sem eru, þrátt fyrir talið um að þetta sé "bara sandur" alger eyðilegging á þeirri upplifun af hálendinu sem sóst er eftir. 

Á meðfylgjandi mynd hér á síðunni sjást spjöll eftir spól í ljósum vikri, þar sem undirlaginu, svörtum vikri, var rótað upp yfir hvíta vikurinn. 

Hugsanlega mun það taka mörg ár eða jafnvel áratugi að svona jafni sig, og því furðulegt að sjá því haldið fram, að það væri bara hið besta mál að öllum væri leyfilegt að spóla þetta svæði, Krepputungu, út á þennan hátt. 

Þar að auki er umhverfið þarna algerlega einstakt og inni í Vatnajökulsþjóðgarð. 

 

 


mbl.is Utanvegaakstur náðist á mynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tregða veldur því ef jöklarnir stækka ekki alveg strax.

Ákveðin tregða er byggð inn í jökla varðandi stækkun og minnkun. Jafnvel þótt snjóalög eftir sumarið verði miklu meiri nú en undanfarna áratugi þarf fleira en eitt snjóaár til þess að þeir fari að stækka að nýju eftir stanslausa minnkun.

Sú lína, sem aðskilur það svæði, þar sem snjór situr eftir sumarið og það svæði þar sem snjórinn hefur bráðnað svo að regn og sól komast að til þess að bræða ísinn, er kölluð snælína.

Ef hún liggur mun lægra núna en undanfarin ár bráðnar minni hluti af jöklinum en áður á neðsta hluta þeirra, en sú bráðnun er annar hlutinn af því sem hefur áhrif á stærð jöklanna.

En jöklarnir stækka mest við það að snjófargið fyrir ofan snælínuna hækkar og þrýstir með auknum þunga ofan á ísmassann, sem skríður undan þessum þunga.

Nýsnævið, þótt það sé allt að tíu metra þykkt, er tiltölulega létt og virkar því ekki alveg strax sem aukinn þungi sem þrýstist ofan á ísinn sem fyrir er og eykur skrið hans.

En komi fleiri svona köld og snjóþung ár í viðbót munu fargið aukast stig af stigi og jöklarnir fara að stækka að nýju og skríða fram.

 


mbl.is „Allt á kafi í snjó“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vita hinir erlendu gestir um eðli Hellisheiðarvirkjunar?

Alls staðar þar sem ég hef verið viðstaddur opinbera viðburði og íslenskir ráðamenn hafa rætt um íslenskar háhitavirkjanir fyrir raforkuver, hafa þeir eingöngu talað um að þessar virkjanir séu glæsilegt dæmi um "hreina og endurnýjanlega" orku og "sjálfbæra þróun" í orkuöflun. 

Það vekur spurningar varðandi það sem Ségoléne Royal umhverfsráðherra Frakklands fékk að vita þegar hún skoðaði Hellisheiðarvirkjun. 

1. Fékk hún að vita að orka virkjunarinnar er hvorki hrein né endurnýjanleg? 

2. Fékk hún að vita að síðustu misseri hefur afl virkjunarinnar byrjað að dala hratt og ákveðið og er nú komið úr 303 megavöttum niður í 260?

3. Var henni sagt frá því að eina forsendan, sem gefin er fyrir endingu svona virkjana er sú, að orkan endist í 50 ár og að eftir það þurfi að bíða í tvöfalt lengri tíma til þess að orkan byggist upp á ný? 

4. Var henni gerð grein fyrir því að til þess að standa við skilmála um að afhenda umsamda orku frá virkjuninni þarf að halda áfram að virkja á nýjum og nýjum svæðum á Reykjanesskaganum og einnig utan hans? 

5. Var henni sagt frá því að íslenskir vísindamenn hefðu sett fram aðferð við að gera nýtinguna endurnýjanlega og sjálfbæra með því að virkja í byrjun aðeins lítinn hluta orkunnar á svæðinu og hafa fulla yfirsýn yfir það að innrennsli heits vatns væri nógu mikið til þess að orkugetan minnkaði ekki? 

6. Var henni sagt frá aðgerðum til þess að minnka útblástur brennisteinsvetnis frá virkjuninni, sem enn sést ekki hvort muni duga? 

7. Eða var henni yfirleitt sagt frá því að gríðarlegt magn brennisteinsvetnis hefði streymt frá virkjuninni allt frá því að hún tók til starfa? 

Hlutverk afar góðra íslenskrar vísindamanna og kunnáttumanna við að ryðja braut sjálfbærri notkun jarðvarma í öðrum löndum er of mikilvægt til þess að verið sé skipulega að leyna ofangreindum atriðum þegar Íslendinga kynna þetta mikilvæga mál.

Fyrr eða síðar mun blaðran springa, og raunar er þegar byrjað að leka úr henni.  

 

 


mbl.is Royal í Hellisheiðarvirkjun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sami mávurinn og hjá Cameron?

Sumt, sem erfitt er að kanna og sanna, er furðulegt á okkar miklu tækniöld, þegar menn finna þotur og skip á mörg þúsund metra dýpi úthafanna, kafa niður og ná í hluti innan úr þessum flökum. 

Má sem dæmi nefna flak AF447 þotu Airbus í Suður-Atlantshafi, flak Titanic austur af Nýfundnalandi og flök orrustuskipanna Hood og Bismarcks á sunnanverðu Grænlandshafi og vestur af Biskayaflóa. 

Síðan koma önnur tilfelli þar sem ekki virðist vera hægt að rekja eða finna hluti á litlu dýpi upp við land, eins í sænska skerjagarðinum.

Við það bætast síðan misjafnir vitnisburðir sem villa um fyrir leitarmönnum.

Hér fyrr á árum gerðist slíkt oft þegar flugvélar hurfu hér heima og fólk taldi sig hafa orðið vart þeirra allt að hundrað kílómetra frá þeirri flugleið, sem síðar kom í ljós að þær höfðu flogið.Mávar í Brighton

Um daginn færði David Cameron forsætisráðherra Breta það í tal, hve hvimleiðir mávar væru orðnir í Bretlandi. Vöktu þessi ummæli talsvert umtal og fannst mér þetta tal undarlegt.

En nú hef ég skipt um skoðun eftir að hafa dvalið í Brighton á suðurströnd Englands í þrjár nætur.

Hér niðri við ströndina er stanslaust mávagarg allan sólarhringinn og engu er líkara en að sami mávurinn sé gargandi án afláts.

Út um gluggann sést enginn mávur og ég er jafnnær um hvaða fugl þetta er og Svíar um það hvaða bátar eru á ferð uppi i landsteinum hjá sér.

Hér í Brighton er aðeins sandfjara og vinsæl baðströnd og enga fiskibáta að sjá eða annað sem laðar að sér máva á Íslandi. Hér má sjá dæmi um aðgangshörku mávanna, einn sem situr á bakinu á bekknum, sem fólkið situr á við fjölfarna götu hér í Brighton og er örskömmu síðar búinn að steypa sér niður að öðru fólki til að reyna að hrifsa til sín bita hjá þeim. 

Raunar hef ég hvergi gist á Íslandi í bráðum sextíu ár þar sem er jafnmikið mávagarg og umferð máva og hér.

Þeir eru líka aðgangsharðir alls staðar og langt inn í land. 

Fyrirbærið er mun meira áberandi hér en í grennd við Reykjavíkurhöfn og gengur svo langt, að jafnvel kvikmynd Hitchcocks, "Fuglarnir" kemur upp í hugann.

Tal Camerons um mávana hljómar því ekki lengur undarlega í eyrum, heldur er full ástæða til þess að taka undir þau og styðja hann í þessu máli.  


mbl.is Óvíst hvaðan kafbáturinn er
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afkoma álveranna byggist á skammarlega lágu orkuverði.

Það er gott og blessað að blaðamenn kafi ofan í tekjur einstaklinga eins og þeir hafa gert áratugum saman. 

En allt frá upphafi stóriðju á Íslandi fyrir 45 árum hefur sannleikurinn um skammarlega lágt orkuverð til álveranna verið falinn eða beitt blekkingum um það. 

Hefði vegna stærðar málsins þó verið full ástæða til að upplýsa um þetta mál.

Þess vegna er ástæða til að fagna því að á Orkubloggi sínu hefur Ketill Sigurjónsson birt upplýsingar um þetta gríðarlega hagsmunamál þjóðarinnar, sem stinga svo sannarlega í augu.

Þar kemur fram að Alcoa og þó einkum Norðurál hafa fengið orkuna á spottprís, langt undir verðinu í nágrannalöndunum og meira að segja undir verðinu í Afríku, þar sem alþjóðleg stórfyrirtæki beita aflsmun miskunnarlaust til að keyra niður verðið gagnvart fátækum og veikburða þjóðum.

Fram kemur að í samningi við álverið í Straumsvík 2010 náðist skárra raforkuverð en við Norðurál og Alcoa og rofin var hin óhagstæða tenging við álverð á heimsmarkaði.

Ketill á miklar þakkir skildar fyrir vinnu sína við að afla þessara upplýsinga og koma þeim á framfæri.  


mbl.is Afkoma fyrirtækja „dúndrandi“ góð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alræðisríki, sem þrífst á því að styðja Bandaríkjamenn.

Eþíópíumenn þekkja ekkert nema alræðisstjórnir og hefur ekki skipt máli, hvort keisari hefur stjórnað þar, kommúnistar eða stjórnir, sem hafa viðrað sig upp við Bandaríkjamenn og þóst vera einlægir baráttumenn fyrir lýðræði, þótt það sé fótum troðið í landinu. 

Það er gömul saga og ný að með því að stilla sér upp sem bandamönnum Bandaríkjamanna hafa margar illskeyttar einræðisstjórnir tryggt sér stuðning þessa mesta herveldis heims og í skjóli þess fengið meira næði til að herða heljartökin á landsmönnum. 

Árin 2003 og 2006 fór ég í ferðir um þetta land í lofti og á landi og fékk nasasjón af kjörum landsmanna. 

Þótt Eþíópíumenn séu næstum 300 sinnum fleiri en Íslendingar voru aðeins innan við tíu flugvélar í landinu utan Eþíópíska flugfélagsins, sem er nokkurs konar flaggskip og stolt þessarar stóru þjóðar með sína merku sögu en hörmuleg kjör. 

Við lentum á flugvelli í Arba Minsh þar sem stórar flugstöðvarbyggingar úr marmara standa auðar sem og völlurinn sjálfur að mestu, því að það er hluti af öryggisráðstöfunum stjórnarinnar að halda flugi í landinu í skefjum. 

Bón Obama um umbætur í mannréttindamálum í landinu og innreið lýðræðis í Eþíópíu fellur í steindauðan og grýttan jarðveg hjá firrtum valdhöfunum sem svara með þvílíkri endemis lygaþvælu að hún sýnir hve firring þeirra er alger og hortugheitin sömuleiðis. 


mbl.is Kallar eftir lýðræðisumbótum í Eþíópíu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tónninn var gefinn með kaupunum á DV.

Kaupin á DV hafa gefið tóninn um það sem gerast mun við kaup sama aðila á öðrum fjölmiðlum. Gefin er yfirlýsing um að ekkert hafi breyst við kaupin heldur muni útgáfan halda áfram, - en að sjálfsögðu muni nýr eigandi íhuga öll atriðið rekstursins í rólegheitum, þar á meðal starfsmannahald.

Á DV hófst síðan hægfara umbreyting blaðsins sem hafði í för með sér að verðlaunablaðamenn og reynsluboltar hurfu hægt og rólega og fengið var nýtt fólk í staðinn.

Í bloggpistli í fyrradag skrifaði Björn Bjarnason róandi pistil fyrir þá sem héldu að kaupin myndu gerbreyta miðlunum, sem keyptir voru upp núna, og fullyrti að ekkert breyttist við þetta.

En daginn eftir kvað við annan tón: Þá skrifaði Björn að Ingimar Karl Helgason hefði breytt sínu blaði í öfgavinstriblað og því nú yrði undið ofan af því.

Björn Þorláksson er eldri en tvævetur og veit vel hvað er að gerast, - ætlar því ekki að láta blekkjast og bíða eftir hinu óhjákvæmilega, heldur fara strax.    


mbl.is „Ekki séns í helvíti“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðarsómi.

Íþróttir eru oft dæmdar og léttvægar fundnar af þeim sem finnst þær frekar lítilmótlegar. 

"Það er nú ekki mikill vandi að sitja á rassgatinu í þægilegu sæti og stýra bíl" var setning sem maður heyrði oft sagða um bílaíþróttir.

Oftast heyrðist þetta mælt úr munni þeirra sem aðeins mátu íþróttir eftir líkamlegu erfiði og skildu það ekki, að skák væri nefnd í fornu kvæði númer eitt af níu íþróttum þess tíma:... "Tafl em ek ör at efla / íþróttir kann ek níu..." - ef ég man þetta rétt.  

Samt var það nú svo að ef ekki voru notaðir hanskar í langa alþjóðlega rallinu, nuddaði stýrið lófana til blóðs þegar leið á keppnina. 

Crossfit er íþrótt sem reynir á alla þætti hæfileika, bæði andlega og líkamlega og er afar erfið. Hún kostar æfingar og þolinmæði árum saman upp á blóð, svita og tár. 

Það er þvi þjóðarsómi að því þegar íslenskir keppendur taka gull og brons í jafn erfiðri alþjóðlegri íþrótt og crossfit er, stundað af hundruðum þúsunda víða um heim. 


mbl.is Katrín Tanja sigraði á heimsleikum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlý norðaustanátt eina leiðin fyrir hlýindi?

Svarið við ofangreindri spurningu virðist vera: Já. Og ekki í fyrsta skipti. Hlý norðan- og norðaustanátt er að miklu leyti nýtt veðurfyrirbrigði sem var sjaldgæft fyrir síðustu áldamót. 

Mestallt þetta ár hefur veðrið verið óvenju hlýtt yfir austanverðri Evrópu. 

Hinn illræmdi rússneski vetur var hreinn aumingi, rauðar hitatölur löngum í Moskvu og vorið afar hlýtt. Í sumar hefur oft verið mjög hlýtt í sunnanveðri Evrópu. 

Hins vegar hefur verið kaldari sjór en venjulega suðvestur af Íslandi og kuldapollar hafa komið úr yfir landið á sama tíma sem "Íslandslægðin" hefur undanfarnar vikur haldið sig vestan við Bretlandseyjar. 

Þegar heiti loftmassinn yfir Evrópu hefur þanið sig út hefur sú útrás verið til norðurs og lægðin fyrir vestan Bretlandseyjar hefur beint því lofti í hálfhring suður yfir Ísland og þar af leiðandi hefur þessi norðaustanátt verið tiltölulega hlý.

Aldeilis merkilegt fyrirbæri.  


mbl.is „Hlý norðanátt?“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband