Sundruð þjóð?

Allt frá lokum Seinni heimsstyrjaldar hafa blossað upp í átök í Grikklandi. Í kjölfar stríðsins hófst borgarastyrjöld þegar kommúnistar reyndu að ná þar völdum líkt og gerðist norðar í austurhluta Evrópu. 

En Stalín og Churchill höfðu samið um það að Grikkland lenti á áhrifasvæði Breta, Búlgaría, Ungverjaland, Tékkóslóvakía, Austur-Þýskaland og Pólland á áhrifasvæði Sovétmanna, en Júgóslavía og Austurríki yrðu á mörkunum og hlutlaus.

Stalín stóð við sitt og kommúnistar töpuðu í Grikklandi.

Klofningur var þó áfram og herforingjar tóku síðar einræðisvöld á árunum 1967-74.

Lýðræðisöflum tókst að varpa herforingjum af sér og síðan gekk Grikkland í ESB árið 1981.

Nú verður athyglisvert að sjá hvað gerist í ólgusjó viðburða þessara daga.

Þjóðin virðist klofin. Að minnsta kosti sýnast flokkadrættir í uppsiglingu. Það er ekki nýtt í þessu landi, þar sem er vagga lýðræðisins.  

Samt liggur fyrir að svipað óréttlæti er í gangi varðandi rukkun á skuldum og hefur verið í gangi um allan heim. Í stað þess að lánardrottnar taki áhættuna af lánum til jafns við skuldara er allt regluverk fjármálakerfis heimsins á þá lund að það verði að skuldararnir einir verði að taka á sig tjónið, sem forsendubrestur eða önnur atvik geta valdið þegar greiðslugeta bregst.

Víst fóru Grikkir ógætilega í fjármálum sínum þegar hið alþjóðlega fjármálakerfi blés upp falska dýrðarmynd af gulli og grænum skógum lánveitinga langt umfram greiðslugetu skuldaranna.

En fjármálastofnanirnar áttu sjálfar mestan þátt í bólunni, annars hefði hún aldrei orðið svona stór og þeir aldrei veitt þessi stóru lán.

Þess vegna verða báðir aðilar málsins að viðurkenna sameiginlega ábyrgð og leysa málið í samræmi við það.  


mbl.is Skuldahlutfallið 118% árið 2030
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ætlar þetta aldrei að lagast?

Fyrir 36 árum fórum við Guðmundur Jónasson um nokkrar leiðir á sunnlenska hálendinu til að fjalla um umgengni fólks þar. Hún var í einu orði sagt svakaleg. Spólför um viðkvæman mosagróður þar sem getur tekið hátt í öld að sporin afmáist. 

Þau urðu til fyrir allt að 70 árum og sjást enn. 

Draslið, sem fólk henti frá sér, var yfirgengilegt. 

Sjónvarpið endursýndi þáttinn tvisvar, enda full ástæða til að fjalla um málið og nýta upplýsingarmiðil til að ástandið héldi ekki áframm að versna. 

Nú heyri ég fréttir af því að ólöglegur akstur utan vega sé að færast í vöxt og að ekki sé hægt að kenna útlendingum um það allt, þótt einhverjir þeirra séu sekir um þetta, heldur er það svo í mörgum tilfellum að þeir hafa séð landið auglýst sem himnaríki fyrir utanvegaakstur. 

Það er til lítils að afsaka þetta með því að um unglingaglöp sé að ræða. 

Svonefnd unglingavandamál eru nefnilega oftast í raun foreldravandamál, það að foreldrarnir hafa vanrækt uppeldið. 

Ætlar þetta aldrei að lagast heldur jafnvel versna? 

 


mbl.is „Sjaldan séð jafnmikinn viðbjóð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

25 risaálver?

Á undanförnum vikum hefur mátt sjá í blöðum lofgreinar um stóriðjustefnuna, þar sem tíunduð hafa verið þau beinu störf og tengdu störf, sem hefur verið hægt að skrifa samtals á áliðnaðinn.  Var gumað mikið af á hátt í tvö þúsund störf í álverunum sjálfum og öðru eins í tengdum störfum. 

En þrátt fyrir þessar tölur er aðeins um að ræða um 1% af vinnuafli þjóðarinnar hvað varðar beintu störfin og um 2% ef miðað er við samtals bein störf og tengd störf. 

Ekki hafa sést slíkar dýrðaróðsgreinar varðandi ferðaþjónustuna, sem ekki einasta skapar margfalt fleiri störf, heldur er hægt að skrifa nær alla fjölgun vinnandi fólks síðustu árin á hana og uppganginn í henni. 

Það er verið að tala um allt að tíu þúsund ný störf, en það er álíka margt fólk og fengi vinnu í 25 risaálverum eða álíka margt fólk og fengi vinnu samanlagt í tengslum við álverin, ef bætt yrði við tengdum störfum, sem ævinlega er viðkvæðið þegar talað er um álverin en yfirleitt ekki nefnt varðandi aðrar atvinnugreinar.

Slík tvöföldun er hæpin því að þetta fyrirbæri á við allar atvinnugreinar og ef þær krefðust allar svona útreiknings myndu þær samanlegt skapa næstum hálfa milljón starfa hjá 330 þúsund manna þjóð!  


mbl.is Flestir í ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær ætla menn að hætta þessu?

Um miðja síðustu öld kom það hvað eftir annað fyrir, að deilur um rjúpuna voru það mál sem tók einna mestan tímann í umræðum á Alþingi. 

Ég held að enginn muni lengur hvers vegna þetta var svona, hvernig var deilt um rjúpuna eða hvernig þetta fór á endanum, nema að það er staðreynd að rjúpan hefur verið veidd á hverju hausti áratugum saman, mismunandi mikið þó. 

Erfitt er að hafa tölu á því hve oft hafa verið borin fram frumvörp um að setja vínsölu í búðirnar og taka hana frá Ríkinu. 

En aldrei breytist neitt í þeim málum, sem betur fer. 

Nú er kvartað yfir því að fá þingmannafrumvörp fáist rædd en mikið væri nú gott ef þetta eilífðar vonlausa frumvarp hætti að flækjast fyrir mönnum á þingi og menn hættu þessu einhvern tíma. 


mbl.is Frumvarp um vín í búðir ekki afgreitt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Enginn undir hálfri milljón."

Úrvalið á reiðhjólamarkaðnum er mikið ekkert síður en á bílamarkaðnum.  Ég þekki lítið til venjulegra reiðhjóla en veit, að hægt er að kaupa "reiðhjól með rafhjálp" fyrir allt niður í 140 þúsund kall. Raunar væri alveg eins hægt að segja "rafhjól með fótahjálp", því að hjólreiðamaðurinn notar fæturna til að framkalla rafknúið átak á hjólið.

Ég kom í reiðhjólaverslun í Hafnarfirði í dag og þar var heldur betur mikið úrval hjóla eins og í öðrum helstu reiðhjólaverslununum.

Ég var eingöngu að spá í rafknúin hjól og hjólin þarna voru öflugri en hjólið sem ég á og var metið nýtt á 250 þúsund kall, en þessi kostuðu tæpa hálfa milljón.Rafhjól í Subaru

Þarna voru afgreiðslumenn og viðskiptavinir og þegar ég spurði hvort nokkur keypti svona hjól fyrir hálfa milljón sögðu þeir einum rómi: "Enginn okkar er á hjóli sem kostar minna en hálfa milljón."

Rétt einsRafhjól í bíl og á bílamarkaðnum er gríðarlegur munur á hönnun, getu og útbúnaði hjólanna.

Síðan bætist við ekki neitt smá úrval af alls kyns aukabúnaði og aukahlutum, sem getur spólað verðið upp um hundruð þúsunda fyrr en varir.

Þarna var á boðstólum öflugt, dýrt en handhægt rafhjól, sem nýtur þess að vera með aðeins 20 tommu hjól í stað 26 tommu.

Það getur munað um það ef fara á í blandað ferðalag þar sem hjólið er haft í bílnum eða utan á honum eða ofan á honum hluta leiðarinnar.

Það myndi koma sér vel fyrir mig að hafa hjólið mitt aðeins styttra, því að með það um borð, er aðeins hægt að sitja í ökumannssæti bílsins.

 Myndirnar eru tvær, því að eftir á sá ég eð neðri myndin mætti vera betri og setti því hina efri inn líka. 

Það hefur orðið bylting í hjólastígum síðan ég hjólaði smávegis fyrir 15 árum, en samt mættu þeir vera ögn sléttari víða. 

Þar sem þeir eru steinsteyptir eru þeir sums staðar ansi ósléttir. 


mbl.is Dýrari reiðhjól orðin að raunhæfara samgöngutæki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svikin vara seld.

Afl Hellisheiðarvirkjunar hefur þegar dalað úr 303 megavöttum niður í 260 og heldur áfram að minnka. 

Eina leiðin til að bregðast við afleiðingum rányrkjnnar á varma svæðisins er að hefja vinnslu á nýjum svæðum í kring og halda þannig áfram að pissa í skó sinn. 

Þetta er svona álíka og að eftir að þorskstofninn væri ofveiddur á Íslandsmiðum yrði haldið til sams konar rányrkju á miðum nágrannalandanna. 

Frá fyrsta bloggpistli á þessari síðu fyrir átta árum hefur verið varað við því að við ljúgum að okkur sjálfum og öllum öðrum þjóðum að svona ágeng orkustefna sé sjálfbær og byggist á endurnýjanlegri orku. 

Auðvelt er að vitna í ótal heimildir um hið sanna, svo sem skrif Ólafs Flóvenz og Guðna Axelssonar í greinaröð í Morgunblaðinu, þar sem þeir lýsa forsendum þess að hægt sé að kalla virkjun háhitasvæða til rafmagnsframleiðslu sjálfbæra þróun og nýtingu á endurnýjanlegri orku.

Því fer víðs fjarri að farið sé eftir þessum forsendum og það eitt er okkur ekki aðeins til háborinnar skammar, heldur ekki síður að ljúga til um málið upp í opið geðið á allri heimsbyggðinni og stunda verslun með endurnýjanlega orku, sem ekki er endurnýjanleg.

Það heitir á mannamáli að selja svikna vöru. 

 


mbl.is „Kjarnorka“ seld Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ömurleg orðanotkun.

Nú er okkur sagtí netfrétt að gera eigi tilraun til að fljúga í einum legg yfir Kyrrahafið. 

Í hvers konar fæti eða löpp á flugmaðurinn að fljúga? 

Eða ætlar hann vegna hinnar löngu flugleiðar ao leysa ákveðið vandamál með því að fljúga í þvaglegg?

Charles Lindberg flaug fyrstur manna einn í einum áfanga yfir Atlantshafið frá New York til Parísar árið 1927. 

Hann flaug ekki í neinum andskotans legg, fyrirgefið orðbragðið. 

Það verður að gera lágmarkskröfur til fjölmiðlafólks um málakunnáttu þess og enda þótt kunnátta í ensku sé nauðsynleg og að það sé gaman að slá um sig með því að troða enskum orðum alls staðar inn þar sem mögulegt og ómögulegt er til að sýna kunnáttu í því máli, er enn nauðsynlegra að hafa vald á eigin móðurmáli og misbjóða því ekki. 

Eða verður næsta skref í "hreinsun" íslenskrar tungu að breyta einni hendingunni í laginu Sprengisandi og syngja: "...Drottinn leiði drösulinn minn. /  Drjúgur verður síðasti leggurinn"?


mbl.is Mun ekki snúa við úr þessu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ómetanleg kona og yndisleg kvöldstund.

Kvöldstundin á Arnarhóli núna áðan var einstök. Læt hér fylgja með tvær myndir sem ég tók í kvöldblíðunni. Vigdís, 28.6.15

Þarna var hægt að standa á skyrtunni ef svo bar undir og halda á vestinu í hendinni innan um fólk, sem komið var þangað þúsundum saman til að halda hátíð í tilefni af 35 ára afmæli þess að þjóðin varð sú fyrsta í heiminum til að kjósa sér á lýðræðislegan hátt konu sem forseta. 

Enn ekki var síður verið að hylla Vigdísi Finnbogadóttur, þessa einstöku konu sem vann þetta afrek með hjálp þjóðar sinnar og hefur verið ómetanleg fyrir okkur. Vigdís 28.6.15. b

Ef veðrið var einstakt var dagskráin ekki síðri og naut sín vel í veðurblíðunni.

Þetta fór allt saman.  

Kvöldinu var svo sannarlega vel varið og þeir, sem stóðu að þessum hátíðarhöldum eiga þakkir skildar. 

Ekki síst þótti mér vænt um hvernig Vigdís talaði sérstaklega um einstæða náttúru viðerna hálendis Íslands og íslenska tungu sem okkur bæri skylda til að standa vörð um.

Og viturleg voru ummæli hennar að líta ekki á það sem kvöð þegar á brattann þarf að sækja, heldur sem ljúft verkefni og viðfangsefni.

Þrek og elja Vígdísar allt fram á þennnan dag hefur verið með eindæmum og fáir á hennar aldri sem geta státað af slíku. Vonandi megum við njóta hennar lengi enn og vera stolt af því sem þjóð að eiga slíka konu.   


mbl.is Þakkaði þjóðinni traustið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótsagnirnar í illmennunum.

Það eru hreinar línur þegar við fæðumst. Í byrjun er ekki hægt fyrir barn í reifum að lifa af nema í 100% eigingirni og tillitsleysi, en þeir eiginleikar eru frumþættir í skaphöfn illmenna.

Adolf Hitler er yfirleitt nafnið sem nefnt er þegar rætt er um illmenni og margir hafa talið það í takt við eðli hans og skaphöfn að hann hefði verið búinn að kænsku og útsjónarsemi búinnn að sviðsetja dauðdaga sinn með því að láta brenna lík tvífara síns og Evu Braun.

En það hefði verið algerlega á skjön við grunnstefið í einstrengislegri sýn hans á hlutverk sitt og þjóðar hans. Hann var með Messíasarkomplex og trúði því að forsjónin hefði falið honum það hlutverk að reisa Þjóðverja úr öskustó niðurlægingar Versalasamnninganna og skipa þeim á stall sem öflugasta heimsveldinu.

"Aldrei aftur 1918!" var skýlaus krafa hans sem allt annað varð að víkja fyrir. 

Aldrei aftur skyldu Þjóðverjar gefast upp fyrir óvinum sínum á meðan þeir réðu enn yfir landi sínu. 

Margt bendir til þess að Hitler hefði látið Bretum eftir heimsveldi þeirra að mestu ef þeir hefðu samið frið 1940. Hitler dáðist að breska heimsveldinu og vildi koma sér upp svipuðu heimsveldi án þess að ganga um of á hlut Breta. En allt varð það að vera undir þeim formerkjum að Þjóðverjar yrðu lang voldugasta heimsveldið. 

Hitler fyrirleit sviksemi og mat tryggð ofar öllu svo framarlega sem það þjónaði þessum heimsveldistilgangi hans, sem allt varð að víkja fyrir. 

Það takmark hafði forgang og þess vegna sýndi hann sjálfur sviksemi lét hann drepa Ernst Röhm og sveik griðasamkomulagið við Stalín.

Allt stríðið fordæmdi hann þá hershöfðingja sem gáfust upp í stað þess að fremja sjálfsmorð og hélt því staðfastlega fram að hann myndi sjálfur aldrei gera slíkt.

Uppgjöf Von Paulusar í Stalíngrad var hámark aumingjaskapar að dómi hans.

Ótal tilraunir voru gerðar til þess að drepa Hitler en eftir því sem hann slapp oftar varð hann sannfærðari um að guðleg forsjón héldi yfir honum verndarhendi.

Persónuleiki Hitlers spannaði allt litrófið, frá bræðiköstum til ítrustu kurteisi, kímni og góðsemi í persónulegum samskiptum, já, einstakra persónutöfra sem margir vitnuðu um.

En krafan um yfirburði og aldræði hins aríska kynstofns var alger og ófrávíkjanleg auk þess sem hægt var að beisla undirliggjandi kynþáttahyggju og þjóðernisrembu með því að stilla upp sýnilegum óvinum þjóðar og ríkis og gera "Gyðingavandamálið" og "lausn" þess að forgangsatriði.

Þess vegna var óhugsandi annað en að Hitler, útvalinn af guðlegri forsjón að eigin dómi, léti fallast fyrir eigin sverði eða byssukúlu eftir atvikum frekar en að falla lifandi í hendur óvinanna.

Illugi Jökulsson hefur skrifað um þá hugsun Hitlers að leika hlutverk í dramatískri nútíma endurgerð germanskra snilldarbókmennta og að flótti úr rústum Berlínar hefði verið óhugsandi í hans huga.  

Að þessu leyti komumst við Illugi Jökulsson að svipaðri niðurstöðu varðandi hugsun Hitlers um hinn rökrétta dauðdaga í stíl við germanskar fornbókmenntir í kjölfar þess að heiglarnir Himmler og Göring höfðu á lokadögum 3ja ríkisins svikið hann og málstaðinn til að bjarga eigin skinni. 

Með byssukúlunni í höfuð sitt tryggði Hitler það að kjörorðinu "aldrei aftur 1918!" yrði fylgt til enda.  

Hitler var ekki eini einræðisherrann í sögunni sem lét einfalda sýn og hugsun leiða sig út í hreina í valdasjúka villimennsku. En hún varð að lokum stórfelldari hjá honum að umfangi og viðbjóði en hjá öllum öðrum. 

    


mbl.is Illskan er ógnandi og heillandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sumarið pakkfullt af viðburðum.

Sú var tíðin að lítið var um að vera á landsbyggðinni á sumrin, sem voru stutt, rétt eins og æ siðan. 

Þrjár hátíðir, hvítasunnuhelgin, Sjómannadagurinn og 17. júní buðu upp á skemmtidagskrár og tilbreytingu snemmsumars, en veðrið lék stórt hlutverk, einkum um hvítasunnuhelgina, þegar boðið var upp á útileguhátíðir, sem voru yfirleitt haldnar of snemma sumars.

Á sjötta áratugnum færðust héraðsmót flokkanna, einkum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins, í aukana og voru haldnar innanhúss í æ fleiri nýjum félagsheimilum landsins með skemmtidagskrá milli klukkan 9 og 11 á kvöldin, en dansleik á eftir.

Um verslunamannahelgina héldu stórar útihátíðir uppi fjörinu.

Á árunum 1972 til 1986 tók Sumargleðin við af héraðsmótum flokkanna, byrjaði seint í júní og stóð fram í september með um það bil 30 samkomum með formúlunni tveggja tíma skemmtun og ball á eftir.

Síðustu ár Sumargleðinnar hélt hún skemmtanir í Reykjavík fram eftir hausti.

Hún  leið undir lok vegna breyttra þjóðfélagshátta þegar stórbætt vegakerfi, sólarlandaferðir og myndbandabylting sköpuðu ný skilyrði.

Tími sveitaballanna hélt áfram í nokkur ár, en síðan kom nokkurs konar frjálslegt millibilsástand fram yfir aldamót.

Sjómannadagurinn, 17. júní og verslunarmannahelgin héldu þó sínu.

En þörfin fyrir viðburði og tilbreytingu var áfram og á síðustu árum hefur orðið til alveg nýtt mynstur bæjarhátíða, sem er nú búið að stútfylla hið stutta íslenska sumar.

Lummudagarnir á Sauðárkróki eru ágætt dæmi um það þegar fundin er upp ákveðin ástæða eða "konsept" til þess að búa til fjölsótta viðburði um allt land hverja einustu helgi sumarsins, allt frá Suðurnesjum austur á Borgarfjörð eystri.

Þær sýna, að með hugkvæmni og útsjónarsemi má búa til fyrirtaks grunn fyrir það að fjölmenni komi í heimsókn til bæja og þorpa, jafnvel tugþúsundir eins og á Fiskidögunum á Dalvík.

Sumarið er sá árstími hér á landi þegar fjölmiðlarnir glíma við fyrirbærið fréttafæð, sem stundum er kallað gúrkutíð.

Ótal stórar og smáar hátíðir um allt land hafa létt áhyggjum af fjölmiðlafólki vegna gúrkutíðar á sumrin, þótt það sé í raun engin frétt að haldnar séu árlegar og árvissar samkomur um allt land.

Hátíðirnar gegna nú orðið ekki aðeins mikilvægu hlutverki í þjóðlífinu heldur geta þær líka gert Íslandsdvalir sífjölgandi erlendra ferðamanna skemmtilegri og eftirminnilegri.    


mbl.is Fullur bær á Lummudögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband