Gildi fortíðarmyndar og gott framtak forsætisráðherra.

Þótt bílferjan Baldur komi við í Flatey í hverri ferð yfir Breiðafjörð er bannað að setja bíla þar á land. Sumum finnst þetta argasta afturhald og forneskja. 

Í eyjunni var lengi 450 metra löng sjúkraflugbraut, en hún var hlutuð í tvennt svo að ekki er hægt að lenda þar flugvélum eins og áður var.

Ekkert nýtt hús má reisa og þegar allt er talið saman, sem gert er til að bægja nútímanum frá, og sumir lýsa sem fráleitu andófi gegn nútíma framförum, verður niðurstaðan slík upplifun þeirra sem þangað koma, sem þeir geta ekki nógsamlega dásamað hana.

Fleiri svipaðir staðir á Íslandi koma í hugann. Nefna má Gjögur í Árneshreppi og eyjuna Knarrarnes á Mýrum sem dæmi.

Því er það vel að forsætisráðherra taki það frumkvæði sem hann hefur tekið til þess að hægt sé að forðast óafturkræfa eyðileggingu á miklum menningarminjum.

Munurinn á friðun og mannvirkjagerð er nefnilega sá, að friðun kemur ekki í veg fyrir að síðar meir verði reist mannvirki, en mannvirkjagerð verður hins vegar oftast óafturkræf.  


mbl.is Griðastaðurinn Flatey
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingur hvarf í áratug og vinur minn tekinn sprelllifandi af þjóðskrá.

Þótt fjöldi manna vinni við þjóðskrár ríkja, til dæmis um 90 manns hér á landi ef það er satt sem einn vina minna hefur tjáð mér, tekur fólk upp á því að hverfa sprelllifandi og vera teknir út af þjóðskrá.

Hér um árið komst upp að Íslendingur sem hafði verið skráður dauður í meira um áratug var sprelllifandi í Bandaríkjunum og kom meira að segja til baka heim til Íslands ef ég man rétt.

Skilríki vinar míns brunnu á Grænlandi og hann féll út af þjóðskrá eins og ég hef áður greint frá hér á blogginu.

Þegar hann neitaði að segja til nafns vegna þess sem hann mat sagði vera rangar sakargiftir varðandi akstur á rauðu ljósi, var hann settur í fangelsi og haldið þar í viku.

Spurningin er hvort einhver þeirra tuga eða hundraða Íslendinga sem horfið hafa hér á landi hafi verið látnir þegar það nöfn þeirra voru tekin út af þjóðskrá.

Að minnsta kosti er það eitt af óskaatvikum, sem ég gæti hugsað mér að lenda í, - skúbb aldarinnar, - að standa í beinni útsendingu í Leifsstöð þegar tveir menn koma labbandi í áttina til mín úr flugvél og ég s3egi við sjónvarpsáheyrendur:

"Hér er nú hafin bein útsending úr flugstöð Leifs Eiríkssonar og ég ætla að gefa mig á tal við tvo menn, sem koma þarna gangandi,"  

"Sný mér síðan að mönnunum og ávarpa þá: "Segið mér, Geirfinnur og Guðmundur, hvar hafið þið verið í allan þennan tíma?" 


mbl.is Lét sig hverfa í 31 ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Elvis lifir - Erlendur lifir.

"Ég hugsa, þess vegna er ég" eru fræg orð og þau eiga við um smíðar hugans á borð við Erlend Arnalds Indriðasonar. 

Öll meiri háttar listsköpun á borð við skáldsögur á sér líf í heilanum á fólki sem hefur annað hvort skapað fyrirbærin eða sáð tilvist þeirra í heila milljóna manna á þann hátt að þau öðlast jafnvel eilíft líf.

Þess vegna verða til máltæki eins og "Elvis lifir" og nú síðast "Erlendur lifir" sem erfitt eða ómögulegt er að kveða niður, af því að hugur fólks og andleg tilvist fyrirbæra er geta verið jafnvel dýrmætari og lífseigari en tilvist efnislega hluta.

 Þess vegna eru þjóðsögur og skáldverk sem byggjast á íslenskri náttúru ekkert síður verðmæt og mikilvæg en náttúran sjálf.

Og héðan af skiptir ekki öllu máli hvort Erlendur er lífs eða liðinn, því að það að hann skyldi verða til skipar honum til sætis með Elvis og meistaranum mikla, sem sagði: "Ég lifi og þér munuð lifa."    


mbl.is Er Erlendur á lífi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannleikskorn að einu leyti.

Þegar Bretar reyndu að komast að samkomulagi við Rússa um bandalag gegn innrás Þjóðverja í Pólland strandaði á nokkrum þýðingarmiklu atriðum. 

Eitt var það, að þegar Munchenarsamningurinn var gerður án þess að Sovétmenn fengju að ráða nokkru um það, og það varð til þess að Þjóðverjar lögðu undir sig Tékkóslóvakíu og voru í einu vetfangi komnir upp að vesturlandamærum Sovétríkjanna varð Stalín að sjálfsögðu tortrygginn í garð Breta og Frakka sem með þessari samningsgerð hafði hleypt Þjóðverjum inn í Tékkland án þess að hleypt væri af einu einasta skoti. 

Þetta leit út eins og Vesturveldin væru að beina Þjóðverjum í austurveg. 

Meðal þess sem samningaviðræður um samræmt viðnám gegn Hitler strönduðu á var pólskt fyrirbæri, sem nefnt er "Russofóbía", landlægur ótti Pólverja við hinn volduga nágranna sinn.

Forsenda fyrir því að Rússar gætu hjálpað Pólverjum var að þeir gætu sent herlið sitt um pólskt land til að takast á við Þjóðverja.

Þetta fannst Pólverjum óbærileg tilhugsun og þar með var botninn dottinn úr bitastæðri andstöðu breta, Frakka og Rússa við innrásina í Pólland.

Í ljós kom að Bandamenn áttu ekki neina áætlun um innrás inn í Þýskaland sem auðvitað var forsenda hernaðar vestan frá.

Ekkert gerðist á vesturvígstöðvunum sjö fyrstu mánuði styrjaldarinnar. 

 

Niðurstaða Stalíns var rökrétt: Illskásti kosturinn yrði að friðþægja Hitler og tryggja með því hernaðaraðstöðu Sovétríkjanna í Austur-Evrópu.

Fram að þessu höfðu Vesturveldin stundað friðþægingarstefnu og nú var komið að Rússum.  


mbl.is Að hluta Pólverjum að kenna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í landi frelsisins.

Frelsi eins endar það sem frelsi eins byrjar. Þetta virðumst við Íslendingar oft eiga erfitt með að skilja. 

Í landi frelsisins, Bandaríkjunum, liggur víða 130 þúsund króna sekt við því að henda rusli. 

Það þykir sjálfsagt vegna þess að enginn einn á að útvíkka svo frelsi sitt að það verði til þess að baka öðrum vandræði að óþörfu. 

Einhver þarf að tína það rusl upp sem annar hendir eða að taka afleiðingunum af sóðakap, kæruleysi og eigingirni. 

Fyrir slíkt á sá, sem hendir rusli að gjalda jafnt í landi frelsisins sem á okkar landi. 


Svipað viðhorf og oft hjá Bandaríkjamönnum.

Ástæða þess að Rússar hafa ævinlega staðið við bakið á Assad Sýrlandsforseta er áreiðanlega ekki sú að þeir séu hrifnir af stjórnarháttum þess manns, sem byggjast á því að hluti landsmanna og mikill minnihluti hefur haft öll ráð landsins í hendi sér og beitt valdi sínu af hörku.

Ástæðan er sú, að í augum Rússa er Assad illskásti kosturinn í landinu, og þetta mat þeirra, sem hefur reynst ekki svo galið í ljósi grimms veruleika og fyrir bragðið   sterkari staða en áður hefur nú orðið sjálfri Angelu Merkel ljóst, þótt ekki farið það mjög hátt.

Þetta minnir um margt á þá afstöðu sem Bandaríkjamenn tóku áratugum saman gagnvart ráðamönnum margra ríkja og taka enn, til dæmis gagnvart stjórnvöldum í Sádi-Arabíu.

Þar í landi eru stækt trúarofstæki, mannréttindabrot og einræðisstjórn við völd, en Vesturveldin og þjóðir heims þora ekki að rugga bátnum vegna hinnar einstæðu og sterku stöðu sem Sádarnir hafa í olíubúskap heimsins.   


mbl.is Hafa farið eftirlitsflug yfir Sýrland
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Páfi nýrra tíma.

Frans páfi er sá fyrsti sem á uppruna sinn í þriðja heiminum. Hann þekkir því betur en fyrirrennarar hans til aðstæðna þess yfirgnæfandi meirihluta mannskyns sem þarf að búa við örbirgð, rányrkju, spillingu og kúgun.

Hann talar tæpitungulaust um þau risavöxnu viðfangsefni sem hrannast munu upp og valda meiri óförum jarðarbúa en dæmi eru um í mannkynssögnunni ef ekki verður strax spyrnt við fótum.

Hann talar fyrir því að gömul og sígild gildi varðandi skyldu hverrar kynslóðar að ganga ekki á rétt þeirra sem á eftir koma.

Frans páfi kemur fram á hárréttum tíma þegar hrópað er á einhvern sem getur vísað veginn úr úr þeim ögöngum sem við blasa.

Ef þjóðir heims hafa einhvern tíma þurft á slíkum leiðtoga að halda er það nú.  


mbl.is Páfa fagnað eins og rokkstjörnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Elítan" krefst þess að ráða.

Afar upplýsandi viðtal við stjórnmálafræðiprófessor varpaði ljósi á það, hvernig það fyrirbæri, sem hann kallaði "elítu" krefst þess að fá að ráða lögum landsins. 

Hann sagði þetta hreint út í blaðaviðtali og var ekkert að skafa utan af því. 

Hinn mikla andstaða þessarar "elítu" við frumvarp stjórnlagaráðs um stjórnarskrá ber þessu glöggt vitni. 


mbl.is Bókstafstúlkun gegn stjórnarskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stundum fyrstir - stundum síðastir.

Það er oft í ökkla eða eyra varðandi áhuga Íslendinga á nýjungum. Annað hvort erum við fyrstir og fremstir allra eða aftastir á merinni. 

Við vorum langfremstir í kaupum á fótanuddtækjum hér um árið, sem voru í mörg ár á eftir jafnvel óupptekin úr kössum í geymslum hjá fólki, eftir að dellan hafði gengið jafn hratt yfir og hún hafði byrjað. 

Farsímanotkun var fljót að breiðast út, svo og notkun nets og snjallsíma. 

En á ýmsum öðrum sviðum drepur íhaldssemi allt niður, einkum hvað varðar viðbrögð hins opinbera, svo sem varðandi noktun dróna og nú síðast sjálfkeyrandi bíla. 

Af svari Ólafs Guðmundssonar hér á netinu að dæma virðast allar aðrar þjóðir vera á undan okkur Íslendingum varðandi þessa stórkostlegu tækni, og áhugaleysið undravert, miðað við það hve um mikla tækniframför er að ræða. 


mbl.is Eru sjálfkeyrandi bílar löglegir á Íslandi?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afar vel orðuð lýsing á ástandi staðgöngumóður.

Lýsing Guðlaugar Elísabetar Ólafsdóttur í Kastljósi í kvöld á þeirri hlið mála sem snýr að staðgöngumóðurinni var sterk og grípandi. 

Hún minntist á atriði sem flestir átta sig ekki á við fyrstu sýn, að missir staðgöngumóðurinnar þegar barnið er tekið frá henni getur orðið sárari en hún sjálf hefði búist við fyrirfram. 

Margar aðrar athyglisverðar hliðar þessa máls komu fram sem sýna hve vel undirbúin og ígrunduð staðgöngumæðrun þarf að vera. 


mbl.is Hefur ekki séð dóttur sína í tvö ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband