Aðferð Kárahnjúkabókarinnar eða ekki?

Sum deiluefni geta verið svo heit að sú ætlan að reyna að snerta á þeim má líkja við það að reyna að snerta glóandi hlut með töngum. 

Rétt er að taka það fram, að þessi pistill er aðeins skrifaður almennt um ákveðna tæknilega útfærslu við að snerta á heitum deilumálum í fjölmiðlum, ræðu eða riti, og tekið eitt íslenskt dæmi.

Deilur um Kárahnjúkavirkjun voru ákaflega heitar í aðdraganda byggingar hennar og á meðan hún var gerð.

Með útgáfu bókarinnar "Kárahnjúkar - með og á móti" var reynt að varpa ljósi á það flókna og viðkvæma mál með útgáfu bókar, staðreyndir og mismunandi sjónarmið, þar sem á hverri opnu vógust á rök með og á móti, - rökin með vinstra megin á opnunni og rökin á móti hægra megin, líkt og gert er í málflutningi í réttarsal.

Til þess að tryggja sem að bestu rök og mikilvægustu staðreynir kæmu fram, var fulltrúa frá náttúruverndarfólki boðið að lesa yfir sín rök og gera athugasemdir við kaflana vinstra megin, og fulltrúa og helsta talsmanni virkjana á þeim tíma boðið að lesa yfir kaflana sem settu fram rök meðmælenda virkjunarinnar á síðunni hægra megin á hverri opnu.

Þetta tókst og þessi efnistök og útkoman vöktu ekki deilur á sínum tíma.

En margir mánuðir liðu reyndar, þar sem illa gekk að leysa þetta mál farsællega.

Og útkoman hefur vonandi orðið betri og aðgengilegri við það að fá þetta allt fram í einni bók heldur en í tveimur eða fleiri mismunandi bókum.

En reynslan af því að skrifa þessa bók gefur til kynna, að ekki megi mikið út af bregða til þess að sérstakar deilur geti skapast um einstakar bækur, sem skrifaðar eru á þennan hátt. ð8 

 


mbl.is Íhuga kæru vegna Mein Kampf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Misjöfn reynsla af kosningabandalögum og samstarfi flokka.

Reynsla af kosningabandalögum hefur verið misjöfn í áranna rás og formið líka misjafnt. Í bæjarstjórnarkosningum í Reykjavík 1938 stilltu kratar og kommar upp sameiginlegum lista, sem fékk mun minna fylgi en flokkarnir tveir fengu samanlagt í kosningum á undan og eftir.

Í Alþingiskosningunum 1956 mynduðu Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur kosningabandalag sem byggðist á því að flokkarnir ætluðu að ná meirihluta á Alþingi út á rúmlega þriðjung atkvæða með því að nýta sér galla þáverandi kjördæmaskipunar.

Þeir buðu ekki fram sameiginlega lista, heldur var ætlunin að Framsóknarmenn bygðu ekki fram lista í þéttbýliskjördæmum  heldur kysu lista Alþýðuflokksins, en í dreifbýliskjördæmum byðu kratar ekki fram heldur kysu lista Framsóknarflokksins.

Bandalagið fékk nafnið Umbótabandalagið, en öflugir andstæðingar þess klíndu á því heitinu Hræðslubandalagið, sem svínvirkaði greinilega, því að þessi tilraun krata og Framsóknar mistókst.

Eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hafði fengið meirihluta í bæjar- og borgarstjórnarkosningum í Reykjavík samfellt alla öldina að undanteknum kosningunum 1978 tóku andstæðingar Sjalla sig saman og buðu fram sameiginlegan lista, Reykjavíkurlistann eða R-listann 1994 með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem borgarstjórnarefni og höfðu sigur.

Listinn bauð aftur fram 1998 og 2002, en ekki 2006, eftir að samstarfið hafði rofnað, og eftir kosningarnar 2006 mynduðu Sjallar og Framsókn meirihluta.

Það virðist mest fara eftir samhug og heilindum í svona samstarfi hvernig það gengur.

Stundum gefst betur að lofa ákveðnu samstarfi fyrirfram frekar en kosningabandalagi eins og Viðreisnarstjórnin gerði 1963, 1967 og 1971.

Það gekk upp 1963 og 1967, en þegar Samtök frjálslyndra og vinstri manna voru stofnuð og buðu fram 1971, laskaðist Alþýðuflokkurinn það mikið að Viðreisnarstjórnin féll.


mbl.is Samstarf en ekki kosningabandalag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég tek hundinn!" Kötturinn Kalli.

Gæludýr geta orðið jafnokar mannlegra meðlima í fjölskyldum og miklu meira virði en dauðir hlutir.

Ég reyndi að lýsa þessu í textanum "Ég tek hundinn!" og kynntist þessu sérstaklega vel þegar kötturinn Carl Möller var einn af fjölskyldunni meðan hún bjó í parhúsi.

Þegar við fluttum síðan í blokk var það tilfinningaþrungin kveðjustund þegar Kalli, eins og kötturinn var alltaf kallaður, fékk athvarf hjá miklu sómafólki og dýravinum á bænum Skriðulandi í Langadal.

Vegna þess að engin leið var að Kalli nyti síns þráða frelsis uppi á 9. hæð í blokk og ætti enga leið út og inn nema í gegnum sameign, varð þetta niðurstaðan.

Öðru máli finnst mér gegna ef dýrið fer eingöngu beint út og inn úr húsi án þess að trufla eða ónáða nokkurn.

Kalli var einstæður persónuleiki. Þegar kom að því að flytja hann nauðungarflutningi kom það í minn hlut að sjá um það.  Ég útbjó kassa úr þykkum pappa og lokkaði hann inn í kassan með því að setja inn í hann eftirlætis rétt hans, rækjur.

Bóndinn á Skriðulandi, sem var í Reykjavíkurferð, fékk síðann kassann í hendur og fór af stað með hann norður með Norðurleiðarútunnni.

Kalli trylltist í kassanum þegar honum voru ljós svik mín og hamaðist svo mjög, að þegar rútan stansaði við Ferstikluskála, var hann búinn að klóra gat á kassann og tróð sér hvæsandi í gegnum gatið og hljóp út úr rútunni.

Bóndinn hélt að þar með væri kötturinn horfinn, en þegar síðasti farþeginn gekk inn í rútuna kom Kalli hlaupandi, stökk inn í rútuna og fór beint til bóndans.

Klappaði fótum hans með kattarrófunni eins og katta er siður og gerði sér dælt við hann, stökk upp í fang honum, lagðist þar og malaði.

Þetta var gáfaður köttur, sá að taflið var tapað og kom sér umsvifalaust í mjúkinn hjá nýjum og betri húsbónda.

Nokkrum árum síðar áttum við Helga leið um Langadalinn og fórum að Skriðulandi til að heilsa upp á Kalla, sem hafði verið hvers manns hugljúfi á bænum.  

Hann var með aðsetur í horni í skemmu, og þegar ég kom í dyrnar, fitlaði ég við dyrastafinn eins og ég hafði gert á Háaleitisbrautinni, en þá hafði Kalli ævinlega komið hlaupandi og farið að leika við mig.

En hann sýndi engin viðbrögð.

Ég kallaði þá nafn hans, en hann lá áfram sem fastast og rótaði sér ekki.

Helga nefndi nú nafn hans, og þá kom hann hlaupandi og stökk upp í fang henni en virti mig ekki viðlits.

Að sjálfsögðu, ég hafði svikið hann í tryggðum og greinilegt að hann myndi aldrei gleyma því.

Kalli varð fjörgamall og hrumur. Eitt fagurt og hlýtt sumarkvöld hökti hann hægt inn í eldhús að Skriulandi þar sem fólk sat að snæðingi.

Hann gekk á milli fólksins, nuddaði sér upp við fætur hvers og eins og haltraði síðan rólega út.

Út um gluggann sást hvernig hann dróst hægt upp á smá þúfu fyrir utan, settist rólega, horfði í sólarátt upp til himins og hneig síðan hægt niður, örendur.

Þannig kvaddi þetta yndislega dýr þennan heim og þá, sem honum voru kærastir, með stæl.

Er furða að maður geti komist við þegar maður rifjar upp minningar um slíkt.

Kalli virðist hafa tileinkað sér nokkurs konar austrænt æðruleysi, kannski ekki ólíkt því sem ég var að setja inn í formi langs á facebook síðu minni: "Það er ekki annað í boði".


mbl.is Selja ef hundurinn þarf að fara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslendingar fjarlægðu gögn í raun úr SÞ skýrslu.

Enska skammtstöfunin N/A þýðir "Not Available", þ. e. að gögn eða upplýsingar um ákveðið málefni eða hluti liggi ekki fyrir.

Ástralir hafa nú látið fjarlægja öll gögn úr skýrlu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar af því að þeim finnst hún koma ekki nógu vel út fyrir þá.

Hefðu líka getað haft þann háttinn á að láta engar upplýsingar í té ef það hefði verið tæknilega mögulegt að koma í veg fyrir birtingu gagnanna.

Báðar aðferðirnar fela í raun í sé það sama, að villa um fyrir fólki.

En þetta er svo sem ekki nýtt fyrirbæri.  

SÞ gerði ítarlega úttekt á stöðu umhverfismála í löndum heims um síðustu aldamót og birtu síðan lista yfir þau lönd, sem fremst stæðu á vettvangi umhverfismála og umhverfisverndar.

Ísland lenti á meðal efstu fimm þjóðanna og var því hampað mikið hér heima.

Mér fannst ég stunda kranablaðamennsku ef ég tæki þátt í þessum dýrðarsöng án þess að fá í hendur forsendurnar fyrir þessarar niðurstöðu hjá þjóð sem var í þann veginn að fremja stórfelldustu náttúruspjöll aldarinnar í Evrópu og byggi í landi, þar sem jarðvegur og gróður væri verr leikinn af mannavöldum en í nokkru öðru landi.

Ég óskaði því eftir því að sjá skýrsluna og fékk það.

Þegar hún var skoðuð blasti skýringin við: Ekkert var þar um komandi Kárahnjúkavirkjun, og í dálkinum, þar sem stóð "Ástand jarðvegs og gróðurs" stóð: "N/A", þ.e. engin fyrirliggjandi gögn.

Örfáar aðrar þjóðir notuðu svipaða aðferð, t.d. Úkraína með sitt Chernobyl og tvær aðrar þjóðir í Austur-Evrópu sem allir vissu að hefðu verið mestu umhverfissóðar álfunnar.

"N/A" var hrein staðleysa hjá Íslendingum. Nokkrum árum fyrr hafði Ólafur Arnalds orðið eini Íslendingurinn, sem fengið hefur umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.

Og um hvað skyldi nú einstakt vísindalegt afreksverk hans í umhverfisrannsóknum hafa fjallað: Jú, "ástand jarðvegs og gróðurs á Íslandi."

Sem Íslendingar höfðu hampað ríkulega af mikilli verðskuldaðri hrifningu, rétt eins og þeir hömpuðu örfáum árum síðar skýrslu af enn meira yfirlæti, þar sem afrek Ólafs var þaggað í hel!

Sú þöggun jafngilti því og að farið hefði verið inn í skýrslu Sþ og réttar upplýsningar fjarlægðar en "N/A" sett í staðinn.


mbl.is Ástralar létu ritskoða SÞ-skýrslu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ruglskipting Reykjavíkur.

Skipting Reykjavíkur í tvö kjördæmi er rugl á fjóra vegu:

1. Þetta er eina tilfellið í sögu landsins þar sem bæjarfélagi er skipt í tvö kjördæmi. Rökin voru þau að vegna yfirþyrmandi stærðar Reykjavíkur yrði að búa borgina niður og haga stærð annarra kjördæma þannig að kjördæmin yrðu með sem jafnasta kjósendatölu. Sem hvort eð er hefur samt ekki tekist, - því veldur sífelld fjölgun í Suðvesturkjördæmi og fækkun í r.

2. Önnur hlið á þrýstingi "landsbyggðarkjördæmanna" til að draga úr vægi Reykjavíkur birtist í því að úr því að borginni var skipt upp á annað borð, skyldi henni ekki verða skipt við Elliðaár, þannig að hinn eldri hluti borgarinnar yrði annað kjördæmið en úthverfin hinn hlutinn. Þetta máttu landsbyggðarþingmenn helst ekki heyra nefnt vegna þess að með þessu yrði hætta á því að vegna mismunandi aðstæðna og hagsmuna í vestur- og austurkjördæmi Reykjavíkur myndi skapast hætta á einskonar kjördæmapoti þingmanna Reykjavíkurkjördæma. En eins og allir vita eru Reykjavíkurþingmenn lélegustu þingmenn landsins í að stunda slíkt pot. Þar að auki var höfuðástæðan fyrir kjördæmaskiptingu yfirleitt að það væri nauðsynlegt vegna mismunandi aðstæðna og hagsmuna! Þess vegna væri eðlilegt að gera það í landsbyggðakjördæmunum og efla kjördæmapot þar sem allra mest! Eðlilegast hefði verið að hafa kjördæmamörkin sem styst frá Elliðavogi yfir í Fossvog. En í staðinn liggja þau eftir borginni endilangri, svo hús sitt hvorum megin við Hringbraut, Miklubraut og Vesturlandsvegi lenda í sitt hvoru kjördæminu!

3. Of stór landsbyggðakjördæmi. Það er vonlítið fyrir þingmenn landsbyggðarkjördæmanna að sinna sambandi við kjósendur sína vegna stærðar þeirra. Gömlu kjördæmin fyrir 1999 voru mun skárri. Vegalengdin frá Akranesi vestur í Vesturbyggð og Bolungarvík og áfram norður til Skagafjarðar er of mikil. Sömuleiðis frá Siglufirði til Djúpavogs og Hornafirði til Sandgerðis. Og hagsmunir Skagamanna, sem búa í eins konar úthverfi Reykjavíkur, eru gjörólíkir hagsmunum Vesturbyggðar, Bolungarvíkur og Fljótamanna. Sama er að segja um hagsmunina í endum hinna kjördæmanna.

4. Misvægi atkvæða. Það er fráleitt að atkvæði kjósanda á Akranesi hafi meira en tvöfalt meira vægi en atkvæði kjósanda í Vallahverfi syðst í Hafnarfirði. Hvort tveggja er eins konar úthverfi Reykjavíkur og á álagstímum í umferðinni tekur álíka langan tíma að komast frá miðju Reykjavíkur til þessara hverfa.

4.  


mbl.is Mörk Reykjavíkurkjördæma óbreytt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kárahnjúkavirkjun afturkræf framkvæmd og með undirskrift Vigdísar? NEI.

Davíð Oddsson sagði í umræðuþætti forsetaframbjóðenda á Stöð 2 í kvöld að stærð mála og það, hvort þau væru afturkræf, skiptu miklu máli þegar forseti stæði frammi fyrir því að skrifa undir lög frá Alþingi.

Vel hefði mátt ræða þetta frekar í ljósi þess, að á sínum tíma sagði Vigdís Finnbogadóttir, að í upphafi forsetaferils síns hefði hún ákveðið með sjálfri sér, að sitt prinsip skyldi vera að undirrita ekki lög, sem fælu sér mikilvæga óafturkræfa gerninga eins og Kárahnjúkavirkjun.

Best er að vísa orðrétt í bókina "Kárahnjúkar - með og á móti", sem kom út árið 2004. Þar segir orðrétt neðst á blaðsíðu 79 í kaflanum "Mesta afsal og missir lands í Íslandssögunni", og staðfesti Vigdís eftirfarandi texta þegar þessi kafli var borinn undir hana við samningu bókarinnar: 

"Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, hefur sagt opinberlega, að hið eina sem hún hefði örugglega ekki skrifað undir sem forseti væri lögleiðing dauðarefsingar, ef svo ólíklega hefði viljað til að slíkt hefði komið til hennar kasta, og afsal á landi. Það vekur athygli að hvort tveggja er óafturkræft. Hinn dauði verður ekki vakinn til lífsins og eyðilagt land verður ekki endurheimt. Skilaboðin eru skýr. Það liggur ljóst fyrir að Vigdís hefði ekki undirritað frumvarp um Kárahnjúkavirkjun hefði það verið lagt fyrir hana sem forseta. ÞAÐ HEFUR HÚN NÚ STAÐFEST." (Leturbreyting mín)

Vigdís minnist ekki orði á undirskriftir, - þetta var einfaldlega prinsipmál fyrir hana.

Erfitt er að skilja þau orð Davíðs í umræðuþætti á Stöð 2 í kvöld að Vigdís hefði skrifað undir lög um Kárahnjúkavirkjun næstum sjö árum eftir að hún lét af embætti.

Kannski er þetta sérkennilegt minnisleysi varðandi svo stóran og afdrifaríkan atburð með mestu mögulegu óafturkræfu neikvæðum umhverfisáhrifum og spjöllum Íslandssögunnar.

Kannski tengt ómeðvitaðri þrá eftir því að Vigdís hefði verið þæg og góð og undirskrift hennar gæðastimpill

Eða að treysta á vanþekkingu þáttarstjórnenda og áhorfenda, sem sæu á þessu, að jafnvel Vigdís hefði ekkert haft við Kárahnjúkavirkjun að athuga. 

En það er gott að Davíð hefur bryddað upp á tali um stórar og óafturkræfar ákvarðanir, því að það vekur spurninguna sem ekki hefur verið spurt en þarf að spyrja fyrir þessar forsetakosningar:

Hvaða frambjóðendur núna hafa í heiðri sama prinsip og Vigdis Finnbogadóttir hafði?  

 

P.S. Með því að skoða ummæli Davíðs orðrétt má sjá, að hann orðar þetta það ónákvæmt að með góðum vilja má skilja það sem svo að hann sé að vitna í skoðanir Vigdísar 2004. Hann hefði þurft að orða þetta skýrar, svo að engin tvímæli væru um þetta.  


mbl.is Mikilvægt að meta hvert mál
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löngu tímabært framfaraskref.

Loksins, eftir að áratuga draumur um millidómstig hefur ræst, hillir undir einhverja mestu framför, sem möguleg er í meðferð dómsvaldsins á Íslandi.

Lýðræði við stjórn landsins og löggjöf og réttlæti í dómskerfinu fæst ekki ókeypis.

Hvort tveggja er dýrt og kostar mikið fé, enda er um að ræða grundvöll fyrir réttlátu nútíma samfélagi.

Hinn kosturinnn, að reyna að komast ódýrt fram hjá því að rækta þessi svið, verður dýrari ef ókostir skorts á lýðræði og réttlæti fá að valda tjóni.

Jón Steinar Gunnlaugsson hefur réttilega bent á ókosti þess að auka álag á Hæstarétt úr hófi fram. Það hefur ekki einasta kostað hættu á því að rétturinn fái ekki tíma og aðstöðu til að kryfja erfið mál til mergjar, og aukið þannig hættu á röngum dómum, heldur er það afleitt fyrir stöðugleika í dómum og mótun fordæma, að skipun dómara í málum sé vegna álags og fjölgunar hæstaréttardómara, undirorpið miklum breytingum.

Það skapar til dæmis hættu á því að það verði áhætta falin í því að sækja mál fyrir réttinum og veðja á það að vera heppinn með það í hlut hvaða dómara kemur að skipa réttinn í einstaka málum.

Auk millidómstigs kæmi fyllilega til greina að setja á stofn sérstakan stjórnlagadómstól svipaðan þeim sem eru í mörgum öðrum löndum.

Sú afsökun, að vegna smæðar þjóðarinnar sé of dýrt að hafa millidómstig og stjórnlagadómstól, er hættuleg, því að ef Ísland ætlar að keppa við önnur lönd um góða stjórnsýsluhætti, verður það að vera á öllum mikilvægustu sviðum þjóðlífsins.  


mbl.is Dómsmál munu fá vandaðri meðferð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tíu sinnum fleiri en í stóriðju en samt ekki "atvinnuuppbygging"?

Á þeim 50 árum sem liðin eru síðan stóriðjustefnan var nánast lögfest hér á landi sem eins konar trúarbrögð, samanber kristnitökuna árið 1000, hefur hún fengið á sig gæðastimpilinn "atvinnuuppbygging" sem helst er aldrei notuð um önnur störf en þau sem felast í framleiðslu, sem hægt er að mæla í tonnum.

Sömuleiðis hefur stóriðjan fengið annan gæðastimpil, svonefnd "afleidd störf", sem aldrei er notaður á atvinnugreinar eins og ferðaþjónustuna.

Það er auðvitað ekki sanngjarnt, rétt eins og að til dæmis þjónusta við viðhald og þjónustu við tugþúsundir bíla, sem ferðamenn aka, geti ekki talist afleidd störf.

Enda skapa allar atvinnugreinar afleidd störf, þannig að ef hver og ein þeirra fengi að bæta við starfsmannafjölda sinn afleiddum störfum, yrðu störfin 7-800 þúsund, allt að þrisvar fleiri en nemur öllum íbúum landsins.  

Ævinlega þegar ætlunin er að reisa álver eða stóriðjufyrirtæki (heavy instustri) er þeim möguleika stillt upp sem einu leiðina til "atvinnuuppbyggingar" en þjónustugreinar á borð við ferðaþjónustuna afgreiddar sem andstæða þess  og gildi þeirra afneitað.

Þótt öll orka landsins yrði virkjuð fyrir stóriðju, myndu innan við 2% vinnuaflsins fá störf  í stóriðjuverunum, en núna er þessi tala í kringum 1% eða einn tíundi hluti af störfunum í ferðaþjónustunni.  

 


mbl.is 22 þúsund vinna í ferðaþjónustu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mýtan um hreinu borgina.

Vinur minn einn á bíl erlendis, sem hann notar þegar hann fer til meginlands Evrópu. Hann segist geta treyst því að bíllinn sé ávallt hreinn þegar hann kemur að honum eftir að hann hefur staðið kyrr í talsverðan tíma.

Þessu sé þveröfugt farið í Reykjavík. Þar sem stórum bílum sé ekið úr skítugum svæðum eins og húsgrunnum erlendis, séu hjól þeirra þvegin þegar þeir fara út í umferðina.

Aldrei sést neitt slíkt gert hér.

Ein algengasta leiðin, sem ég hjóla, er um Malarhöfða. Sú gata ber nafn með rentu, en enn betra væri að kalla hana Sandstormshöfða eða moldrokshöfða.

Stórir malar-og sandflutningabílar aka um þessa götu, bera sand og leir inn á hana og þeyta síðan óhreinindunum upp ásamt fleiri þungaflutingabílum, sem fara títt um þarna um

En geta skal þess sem jákvætt er. Smám saman fara hjóla- og gangstígar batnandi og almennt eru hjóla- og gangstígar mun betri en áður var, enda ekki úr háum söðli að detta.

Það er ekkert smáræðis munur á nýjustu stígunum og þeim gömlu. Dæmi er nýr hjóla- og göngustígur meðfram Háaleitisbraut frá Miklubraut að Bústaðavegi.

Að sjálfsögðu vel malbikaður en ekki með hrjúfum steypuklumpum eins og allt of víða er ennþá.

Dekkin á reiðhjólum eru miklu viðkvæmari og þynnri en dekk á bílum og fjöðrunin að aftan engin á flestum reiðhjólum og því er slétt malbik lágmarkskrafa.  


mbl.is „Þetta er bara hættulegt“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Blær átakastjórnmála hjá Davíð.

Davíð Oddsson naut sín vel þegar svonefnd átakastjórnmál voru algeng við stjórn landsins og sveitarfélaganna.

Á ferli sínum hefur hann fært rök að því að nauðsynlegt sé að stjórnmálamenn tali skýrt og ákveðið í málflutningi sínum og leyfi ólíkum og mismunandi sjónarmiðum og skoðunum að vegast á.

Á þann hátt geti kjósendur helst myndað sér skoðanir og stjórn ríkisins og sveitarstjórnir komist að niðurstöðum sem byggjast á því að meirihlutinn ráði.

Ýmsir hafa gagnrýnt stjórnmálastarfsemi af þessu tagi og notað orðið "skotgrafir" til að lýsa göllum þessarar aðferðar í lýðræðislegu ferli.

Málflutningur Davíðs fyrir forsetakosningarnar bera svolítið keim af þessu. Hann skýtur föstum skotum á köflum að helsta mótframbjóðanda sínum og er óragur við að viðra ákveðnar skoðanir sínar.

Þótt Davíð hafi oft notið sín vel í átakastjórnmálum á fyrri tíð með leiftrandi kímni og rökfimi oft á tíðum, virðist þessi aðferð hans og heitra fylgismanna hans ekki enn hafa breytt miklu um fylgi hans eða annarra frambjóðenda enn sem komið er ef marka má nýjustu skoðanakannanir.

Með aldrinum hættir Davíð og fylgismönnum hans stundum til þess að gera mótframbjóðendum sínum upp skoðanir með því að taka einhver atriði út úr og alhæfa um þau, - og í framhaldinu að berjast síðan við þær af miklum krafti.

Má sem dæmi nefna að fullyrða að Guðni Th. hafi barist hart fyrir inngöngu Íslands í ESB og gert lítið úr baráttu Íslendinga í þorskastríðunum, jafnvel talið hana vera þjóðsögu.

En það verður ekki skafið utan af því að þátttaka Davíðs hleypir heilmiklu fjöri í kosningabaráttuna. Það er aldrei lognmolla þar sem Davíð er.


mbl.is Guðni með 57% fylgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband