Lungnabólgan varla umræðuefni lengur.

Hillary Clinton stóð sig mjög vel í kappræðum forsetaframbjóðendanna, sem fram fór í nótt, kom vel undirbúin, missti ekki þráðinn og lét Trump ekki koma sér úr jafnvægi. 

Báðir frambjóðendurnir eru við aldur, en það kveikir eðlilega spurningar um það hvort heilsufarið sé nógu gott. 

Frammistaða Hillary í nótt kveður sjálfkrafa slíkar raddir niður, að minnsta kosti í bili og hún svaraði dylgjumm Trumps um lítið úthald þannig, að ekki þurfti frekar að ræða það.  

Trump hefur byggt málflutning sinn mjög á uppstilltum og einföldum frösum eins og "lög og regla" og að ástandið í Bandaríkjunum sé slíkt, að það verði að "gera Bandaríkin mikil á ný", reisa þau við. 

Sömuleiðis að rífa þurfi niður tilhneigingu Hillary og hennar flokks til að njörva þjóðfélagið niður í reglugerðafargani. 

Í þau skipti sem þetta atriði kom við sögu í einstökum afmörkuðum málum, tókst Hillary yfirleitt að útskýra mál og varpa ljósi á þau, svo sem varðandi þá ólgu í samskiptum lögreglu og blökkumanna, sem aukist hefur að undanförnu.

Hún skaut skotum að Trump varðandi kvenfyrirlitningu hans, sem settu hann í vörn. 

Hillary gerði sér far um að vera afslöppuð og yfirveguð, höfða til millistéttarinnar eins og Obama gerði 2008, en fast að 90% fyrirtækja í landinu eru mjög smá, en gegna afar mikilvægu hlutverki, bæði í efnahagslífinu og sem kjósendahópur. 

Hillary hjó í málflutning hans varðandi meint mikilvægi þess að mylja undir auðkýfinga og gefa þeim fríðindi og lausan taum, með því að benda á afleiðingar slíks fyrir átta árum og það, að "brauðmolakenningin", að fjármagn auðjöfranna hríslist niður í gegnum þjóðfélagið, hefur ekki reynst raunhæf.  

Þessar kappræður voru þó aðeins upphaf, sem Hillary slapp vel frá, og leikurinn er rétt að byrja 

Auðséð var að Trump reyndi að líta meira traustvekjandi út en hann hefur gert hingað til, og hann býr enn yfir afli, sem taka verður alvarlega.

En Hillary bæði varðist og sótti af fimi án þess að láta koma sér úr jafnvægi þannig að áhorfendur hljóta að hafa fengið á henni það traust sem valdamesti stjórnmálamaður heims þarf að búa yfir.  


mbl.is Clinton hafði betur samkvæmt CNN
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bæði í því að fínpússa sig.

Athyglisvert var að sjá hvernig bæði Hillary Clinton og Donald Trump virðast hafa reynt að fínpússa framkomu sína og málflutning fyrir kappræðurnar í nótt. 

Að vísu var Trump nokkuð gjarn á að grípa frammí fyrir Clinton á tímabili í kappræðunum, svo að jaðraði við ókurteisi, en að öðru leyti reyndi hann greinilega mestallan tímann að koma öllu betur og yfirvegaðri fram en hann hefur gert í kosningabaráttunni til þessa.

Líklega kemur það mörgum á óvart, sem hefur fundið hann óalandi og óferjandi. 

 

Clinton sýndi þess lítil merki að hún væri kona að nálgast sjötugt að stíga upp úr lungnabólgu og lagði sig fram um að vera hlýleg, brosmild og yfirveguð.

Það ætti að slá á áhyggjur af heilsufari hennar og getu,  og einnig á þá gagnrýni á hana að vera ekki nógu hlýleg og aðlaðandi. 

 

Hún greip til svipaðs málflutnings og Obama gerði 2008 að draga fram mikilvægi millistéttarinnar í bandarísku samfélagi, bæði til þess að slá niður kenningu Trumps um að stórgróði auðkýfinga skilaði sér niður eftir samfélaginu og áreiðanlega ekki síður til þess að höfða til millistéttarinnar sjálfrar.

Ég sá ekki fyrsta hluta kappræðnanna og vantaði nokkuð í seinni hlutann líka, svo að ég get ekki dæmt um það til fulls hver útkoma þeirra sé, hef hugsanlega misst af einhverju sem gæti hafa vakið athygli.

Mér fannst Clinton hins vegar koma öllu betur út fyrir mína parta og verjast gagnrýni Trump býsna vel í þeim atriðum sem hún hefur verið beittust. 


mbl.is Hvað gerist í nótt?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gat hann ekki einu sinni "mæmað"?

Íslendingar og Norðmenn eru frændþjóðir og það hefði mátt ætla að tengsl Justins Biebers við þessar tvær þjóðir yrðu svipuð.

En það er nú öðru nær. Eftir tónleika Biebers á dögunum mátti heyra miklar rökræður um frammistöðu hans, sem ýmsir gagnrýndu nokkuð, svo sem það hve lítið hann söng beint og að hann stæði að baki öðrum stórstirnum bæði fyrr og nú, sem færu oftast hamförum á sviðinu.

Niðurstaðan varð þó oftast sú að sýna Bieber samúð og sanngirni, og langflestir virðast hafa verið ánægðir hér á landi.

Öðru máli gegnir um Norðmenn. Bieber hefur verið harðlega gagnrýndur, ekki aðeins fyrir að syngja lítið og "mæma" þeim mun meira, heldur líka fyrir dauðyflisskap og að kunna ekki einu sinni að "mæma".

Og eitthvert leiðinlegt fúllyndi virðist líka sækja að Bieber í Noregi og frændur okkar fara mikið í taugarnar á honum.  


mbl.is „Þið eruð glötuð“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rétt fyrir Hrun með minnstu spillingu heims.

Rétt fyrir Hrun sýndi alþjóðleg rannsókn að á Íslandi væri minnsta spilling í heimi. 

Fyrir rúmum áratug vorum við nálægt toppnum í umhverfismálum í alþjóðlegri rannsókn, en þegar rýnt var í tölur frá Íslandi, var því logið, að það skorti upplýsingar um ástand jarðvegs. 

Hið sanna var að nokkrum árum fyrr fékk Ólafur Arnalds umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir nákvæmalega það að hafa rannsakað ástand gróðurs og jarðvegs á Íslandi af stakri snilld.

Ef niðurstöður þeirrar rannsóknar hefðu verið teknar með í reikninginn hefði Ísland hrunið niður eftir listanum. 

Alveg fram á síðustu ár höfum við notið góðs af því að heilbrigðiskerfi okkar hefur verið gott og haft minni ungbarnadauða, reykingar og minni aukningu offitu en aðrar þjóðir.

Í rannsókninni í Lancet er Ísland efst á lista hvað snertir heilbrigðisástand, en ekki hvað snertir heilbrigðiskerfi eins og nú er strax byrjað að veifa hér innanlands. Ísland er að sönnu efst á lista, en "skarar ekki fram úr" eins og sagt er, heldur býr enn um sinn yfir naumri forystu á næstu þjóðir, vegna þess að við njótum góðs ástands fyrri ára, sem skilar sér enn í tölum um heilbrigði.

Það er hæpið, svo ekki sé meira sagt, að það sé "framúrskarandi heilbrigðiskerfi" sem lætur mann engjast í óvissu í sjö mánuði um það, hvort hugsanlegt krabbamein sé að láta á sér kræla, af því að biðlistar eftir skoðun séu svona langir.

Heldur ekki, að vegna þess að einn minna bestu vina var svo óheppinn að greinast með gáttaflökt í október í fyrra, en þá var fjárveitingin til aðgerða fyrir það ár búin, og hann lenti á biðlista sem gaf ekki vonir um skoðun á því ári, heldur alltof seint, á þessu ári.

Ekki kemur fram í opinberum tölum, hve miklar uppsafnaðar þjáningar og skert starfshæfni eru hjá þúsundum fólks sem bíður mörgum mánuðum og jafnvel árum saman eftir aðgerðum, svo sem liðskiptum.  

Vinur minn tapaði rússneskri rúllettu sinni þótt ég ynni mína. 

Óteljandi tilfelli sem nú hrúgast upp af þessu tagi vegna fjársveltis í heilbrigðiskerfinu koma ekki umsvifalaust fram í rannsóknum á heilbrigðisástandi.  


mbl.is Skarar fram úr í heilbrigðismálum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hvernig ætlar þú að aka til Keflavíkur?"

Því ölvaðri sem menn eru, því fjær eru þeir því að geta tekið vitrænar ákvarðanir. Það sýna tvær fréttir um öfurölvi menn undir stýri bíla í Hafnarfirði. 

Slíkir menn hafa fengið nýjan sess í huga mér eftir að ég fór að nota rafhjól og létt vélhjól nær eingöngu til ferða minna. 

Tilhugsunin um blindfulla menn undir stýri verðir ógnvænlegri þegar maður er jafn berskjáldaður og á hjóli. 

Þegar ég var drengur lá þjóðleiðin til Keflavíkur með byggðinni á Vatnsleysuströnd.

Á stríðsárunum voru miklir flutningar varnings frá erlendum skipum, sem komu til hafnar í Reykjavík, suður til herliðsins við Keflavíkurflugvöll.

Oft var biðröð vörubíla á hafnarbakkanum við uppskipum, og átti þreyttir bílstjórar þá til að dotta augnablik undir stýri í biðröðinni.

Eitt sinn þegar búið var að hlaða einn vörubílinn, brá svo við að engin viðbrögð fengust hjá bílstjóranums, þegar bankað var í frambrettið á bílnum til að láta hann vita að hann ætti að aka af stað.

Fór þá verkamaður, og opnaði dyrnar til að ræða við bílstjórann.

Reyndist hann þá svo ölvaður, að hann var nálægt því að velta út úr bílnum, en rankaði við sér og gerðist líklegur til að aka af stað.

"Takk fyrir, ég dríf mig af stað," umlaði hann.

"Hvernig í ósköpunum þykist þú ætla að komast suðureftir svona á þig kominn?," spurði verkamaðurinn.

"Það er enginn vandi," svaraði bílstjórinn. "ég fylgi bara ströndinni", var svarið.  

 


mbl.is Nálægt áfengisdauða undir stýri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miklar og skiljanlegar hræringar á nokkrum klukkustundum.

Forseti Íslands lýsti því í beinni útsendingu frá Bessastöðum eftir örlagaríkan fund hans með Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, að hann hefði synjað honum alfarið um að skrifa undir þingrofsheimild á þeim forsendum að með því væri hann að færa honum vopn í hendur í átökum við Sjálfstæðismenn og slíkt vildi hann ekki láta leiða sig út í. 

Þetta sáu og heyrðu ekki aðeins allir þeir landsmenn sem horfðu á sjónvarp, heldur barst þessi vitneskja til þingflokks Framsóknarmanna, sem varð svo brugðið við að heyra af för forsætisráðherra til forsetans, að einn þingmanna var nánast klökkur þegar rætt var við hann. 

Augskilin fyrstu viðbrögð þingflokksins við þessum einleik formannsins voru að rísa gegn honum og bjarga samstarfi stjórnarflokkanna. 

En til samþykktar vantraustsyfirlýsingar kom ekki vegna þess að þess reyndist ekki þörf, af því að sú lausn fram að Sigmundur Davíð stigi til hliðar og Sigurður Ingi Jóhannsson yrði forsætisráðherra í hans stað. 


mbl.is Voru búin að ákveða að setja Sigmund af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leðjuslagurinn á fullu, "brigsl, svik og óheiðarleiki."

Nú er kominn á fullt aðal leðjuslagur komandi kosninga, því það er erfitt að toppa slag á milli forsætisráðherra og fyrrverandi forsætisráðherra úr sama flokknum á sama árinu.

"Kalinn á hjarta þaðan slapp ég" kvað Grímur Thomsen um stjórnmálin, sem hann dróst inn í, og þetta á ekki við um leðjuslaginn, sem hafinn er hjá Framsókn, heldur hvern leðjuslag stjórnmálanna.

Eina ráðið, sem maður getur fundið, er að sjá einhvern húmor í þessu, sem maður getur létt af sér á statusi dagsins á facebook.  á


Gerð var skýrsla sem stungið var ofan í skúffu.

Fyrir tæpum tuttugu árum létu samtök norrænna borga gera mjög vandaða skýrslu með samanburði í smáu og stóru á helstu atriðum, sem skiptu máli varðandi þessar borgir.

Í skýrslunni var meirihluti borganna á stærð við Reykjavík og í ljós kom að Reykjavík og þessi höfuðatriði voru verulega frábrugðin í stóru borgunum, svo sem Kaupmannahöfn, Osló, Stokkhólmi, Björgvin, Helsinki og Gautaborg, eða í meðalstóru og smærri borgunum, svo sem Álaborg, Árósum, Óðinsvéum, Þrándheimi, Luleaa, Tampere o.s.fv. 

Stóru borgirnar voru yfirleitt eldri og með miklu þéttari byggð. 

Athygli vakti að smærri borgirnar voru áberandi líkar Reykjavík hvað þéttleika snerti og önnur höfuðatriði. Eina undantekning hvað þéttleika varðaði, var Stavanger, en það stafar af landfræðilegum ástæðum, af því að borgin er byggð á takmörkuðu svæði, sem umlukt er sjó.  

Þessi skýrsla hlaut hljóða útför, hafnaði ofan í skúffum og varð aldrei opinber.

Ástæðan fyrir því er óskiljanleg, af því að þetta voru þær borgir heims sem líkastar voru Reykjavík.

Eina hugsanlega ástæðan, sem mann gæti grunað, gæti verið sú að niðurstöður skýrslunnar rímuðu ekki við sönginn um það, hvaða borgir í Evrópu ættu mest sameiginlegt með Reykjavík.

Í Norðurlandaferðum mínum fyrir 10-15 árum heimsótti ég flestar þessar borgir og fleiri af sömu stærð til þess að sjá með eigin augum það sem skýrslan sýndi.

Aldrei gafst þó tími til að taka það til þeirrar meðferðar eins og málið hefði átt skilið að fá.  


mbl.is Affarasælla að heimsækja sambærilegar borgir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Úti´í auðninni / öðlast þú algleymi / sem einn í alheimi."

Ég þekki allmörg dæmi um það að fólk, sem jafnvel hefur ferðast mjög víða um strjálbýl eða óbyggð svæði í mörgum heimsálfum, hefur orðið fyrir slíkri ólýsanlegri upplifun af því að standa einn í auðn uppi á hálendi Íslandi, að það hafði aldrei áður getað ímyndað sér að svona upplifun væri til. 

Tilfinningunni lýsir þetta fólk sem eins konar algleymi, sem felst í senn í yfirþyrmandi undrun, ótta og alsælu, öllu í senn. 

Ég ætla mér ekki þá dul að geta lýst þessu nánar fyrir hönd þessa fólks, heldur láta fljóta með þetta erindu úr laginu "Við eigum land" þar sem gerð er tilraun til þess í tali og tónum: 

"Í djúpri þögn Drottni þig færa nær

óræð dularmögn, fegurðin kristaltær. 

Úti´í auðninni 

þú auðnast algleymi 

sem einn í alheimi,

alheimi,

aleinn í alheimi...."

Þessvegna er baráttan fyrir stóru friðuðu svæði, þjóðgarði á miðhálendi Íslands, svo mikilvæg, sjá myndbandið "Hjarta landsins" á facebook-síðu minni og Youtube:  

https://www.youtube.com/watch?v=UKGPSj-uzYk


mbl.is Víðerni á hverfandi hveli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kraftar sem geta breytt ströndinni og siglingaleiðinni.

Þeir kraftar, sem valdið hafa hopi Breiðamerkurjökuls svo langt inn í land, að eitt dýpsta vatn landsins hafi myndast, valda því líka að við það að leirframburður jökulsins fellur að mestu í lónið en berst ekki til sjávar við ströndina, rýfur sjórinn ströndina meira en áður var svo að hún færist æ innar. 

Með sama áframhaldi án nokkurra mótaðgerða mun brúin að lokum falla, hringvegurinn að rofna og lónið breysta í fjörð, fullan af ísjökum, sem munu berast með ströndinni og trufla siglingar, meðal annars hugsanlegar ferjusiglingar yfir þann farartálma sem fjörður yrði. 

Enga festu er að finna fyrir mannvirki til að verjast þessu, því að þarna eru tvö hundruð metrar lóðréttir niður á fasta klöpp undir sandinum.

Vaxandi líkindi eru til þess að útblástur gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum valdi hlýrra veðurfari, sem aftur veldur bráðnun jökulsins. 

En þegar Vatnajökull bráðnar, þynnist, minnkar og léttist, minnkar farg hans á landið, þannig að landið fer hækkandi. 

Það gæti seinkað því að Jökulsárlón breytist í fjörð. 

Aðal umhugsunarefnið varðandi hamfarir af mannavöldum í líkingu við það sem hér hefur verið lýst, er það hve lítið þarf oft að rugga bátnum til þess að hrinda af stað hrikalega stórri atburðarás. Að oft veltir lítil þúfa þungu hlassi. 

 


mbl.is Miklir kraftar að verki í Jökulsárlóni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband