Sérkennilegt í borg með umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs.

"Þetta eru bara nokkrir dagar á ári" heyrist sagt um staðreyndir, sem stangast á við þá ímynd, sem Reykjavík hefur aflað sér með því að auglýsa "hreinasta borg í heimi" og "forystu í sjálfbærri þróun", sem birtist meðal annars í orkuöflun borgarinnar. 

Einn stærsti þátturinn í að flagga þessari ímynd náðist með því að krækja sér í umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir nokkrum árum. 

En sumar staðreyndirnar, sem stangast á við þessa ímynd hreinleika og sjálfbærni, eru býsna stórar. 

Á svæðinu frá Þingvallavatni til Reykjanesstáar fer fram stórfelld orkuöflun í gufuaflsvirkjunum, nánar tiltekið hátt í 700 megavött, sem að mestu leyti framleiðir orku fyrir stóriðju. 

Þessi orkuöflun er fjarri því að standast kröfur um sjálfbæra þróun, því að um hreina rányrkju er að ræða í raun.  

Fyrir þremur árum kom í ljós við mælingar, að land hefur sigið um allt að 18 sentimetra á báðum helstu virkjansvæðunum, og meira en helmingur orkunnar, sem fer dvínandi og stefnir í að verða uppurin á þessari öld, er á yfirráðasvæði Reykjavíkur. 

Og þrátt fyrir metnaðarfullar og stórmerkar tæknilegar aðgerðir til að binda útblástur virkjananna verða gestir utan af landi vel varir við hið eitraða loft, sem leggur frá virkjununum í ákveðnum vindáttum. 

Þegar fréttir berast af loftmengun langt yfir heilsuverndarmörkum koma kínverskar og indverskar  borgir helst upp í hugann. 

En, eins og Samtök lungnasjúklinga bendir á, lendir Reykjavík árlega í flokki með borgum mestu loftmengunar í heimi án þess að séð verði að neitt hafi verið gert til að breyta því. 


mbl.is Lungnasjúklingar haldi sig innan dyra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Til að koma í veg fyrir að hinir..."

"Völd spilla og mikil völd gerspilla." Þessi forna speki er sígild og ævinlega að koma fram á afar ólíkum sviðum. 

Eitt afbrigði ásóknar í völd felst í því að stunda slíkt sem fyrirbyggjandi atriði, "til þess að koma í veg fyrir að hinir" beiti valdafíkn til að misnota völd sín og aðstöðu. 

Hernaðarstofnanir og herir eru næstum alltaf kenndar við varnir og Kínverjar, eins ogð önnur stórveldi, afsaka ýtni og ásælni með því að það sé gert "til að koma í veg fyrir að hinir valdi óskunda." 

Allt fullveldistímabilið hér á landi hefur það verið tíðkað mjög að ráða fólk í stöður eftir pólitískum línum.

Í starfi síðuhafa hjá RÚV 1969-1988 og 1995-2007 kom fyrrnefnt hugarfar varðandi "hina" oft fram á skondinn hátt. 

1971 hafði Viðreisnarstjórnin setið í 13 ár og þótti stjórnarandstæðingum mikið vera um mannaráðningar eftir pólitískum línum. Þá brá svo við að alger umskipti urðu og mynduð var vinstri stjórn, en viðreisnarflokkarnir lentu í stjórnarandstöðu. 

Vegna hinnar hörðu gagnrýni á misnotkun viðreisnarflokkanna hefði mátt búast við að búið væri að útrýma hinum fordæmdu ráðningum þegar vinstri flokkarnir náðu völdum og teknar upp heiðarlegar aðferðir. Einnig, að lítil ánægja innan þeirra raða með áherslur í umfjöllun í íþróttum og þrýstingur á sparnað við þær myndi þýða, að í "íþróttadeildini" yrði aðeins eitt fast starf sem fyrr. 

En, - viti menn, það sótti strax í það fara að raða "sínum mönnum"inn.  

Þegar fundið var að því var svarið oftast það, að þetta væri gert "til að koma í veg fyrir að hinir misnotuðu aðstöðu sína."

Og ekki nóg með það, skyndilega var kominn áhugi á því að fjölga störfum við íþróttir, að vísu með lausráðnum mönnum. Og svo merkilega vildi til, að fyrir einskæra tilviljun urðu menn, sem voru menntaðir í Austur-Evrópulöndunum, ráðnir. 

Voru þrír á tímabili! 

Þetta ástand reyndist ekki vara lengi, því að stjórnin sprakk og sat innan við þrjú ár.

Og þá skildi maður það sem heyrst hafði, að vegna þess hve vinstri stjórnir væru skammlífar, væri nauðsynlegt að hamla rösklega á móti og nota tímann vel, því að "hinir" væru búnir að vea svo þaulsætnir og búnar að raða svo mörgum á garðann. 

Og þegar Sjallar komust í stjórn, gátu þeir, sem höfðu verið "hinir" í tæp þrjú ár, náð vopnum sínum "til þess að koma í veg fyrir að "hinir" misnotuðu aðstððu sína. 

Rétt er að geta þess að hinir nýju "kommisarar" mér við hlið reyndust hinir ágætustu starfsmenn og var allt samstarf við þá óaðfinnanlegt og ánægjulegt. 

Rétt eins og samstarfið við Bjarna Felixson, sem sumir tengdu KR og "Vesturbæjaríhaldinu" var alveg einstaklega gefandi, og bar þar aldrei neinn skugga á. 

Og innan raða harðra vinstri manna mátti rekast á óvæntar áherslur. Magnús Kjartansson, ritstjóri Þjóðviljans, trúði mér fyrir því, að hann væri sérstakur aðdáandi ensku knattspyrnunnar og Bjarna Fel og eggjaði mig lögeggjan til að auka veg hennar sem mest.  


mbl.is Kína sækist ekki eftir heimsyfirráðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hata Bandaríkjamenn rafmagn af því þeir vilja ekki virkja í Yellowstone?

Bandarískur sérfræðingur í nýtingu jarðvarma sýndi kort af Bandaríkjunum á 10 ára afmæli Ísor þar sem margir ljósrauðir blettir voru dreifðir um landið og táknuðu þau jarðvarmasvæði, sem mönnum þar í landi sýndist álitleg við jarðvarmavinnslu. 

Í Klettafjöllunum mátti hins vegar sjá svæði á kortinu, sem var eldrautt og ógnarstórt miðað við hin. "Þetta er Yellowstone, lang, lang öflugasta orkusvæði Bandaríkjanna, en heilög jörð sem aldrei verður snert" sagði Kaninn.

"Heilög jörð." Mesta orkubúnt Norður-Ameríku. Samt er Yellowstone ekki jafnoki hins eldvirka hluta Íslands hvað snertir gildi sem náttúruverðmæti, og hið íslenska einstætt á heimsvísu. En við höfum tekið að okkur að rústa íslenskum náttúruverðmætum svo að Kanar geti varðveitt sín. 

Guðni Jóhannesson hefur sjálfsagt verið viðstaddur þetta erindi, en ekki hrópaði hann upp yfir sig að bandaríski gesturinn hataði rafmagn. 

Það hryggir mig að jafn góður og gegn maður og orkumálastjóri skuli leggjast niður á plan með þeim sem hafa sungið síbylju um það í áratugi að náttúruverndar- og umhverfisverndarfólk á Íslandi "hati rafmagn", "hati atvinnuuppbyggingu og mannlíf" og "vilji fara aftur inn í torfkofana." 

Öll þessi stóryrði hafa verið höfð uppi vegna þess eins, að hér á landi er til fólk, sem dirfist, eftir að búið er að virkja fimm sinnum meiri orku en við þurfum fyrir okkar eigin heimili og fyrirtæki, að andæfa þeirri einbeittu ætlun ráðamanna að á aðeins áratug verði virkjanaæðið tvöfaldað og þá búið að virkja tíu sinnum meiri orku en þarf fyrir okkur eigin heimili og fyrirtæki. 


mbl.is „Fólk sem hatar rafmagn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lítilsvirðing við sögu, menningu og ginnheilagan helgistað frá landnámi.

Myndin sem fylgir þessum pistli er táknræn fyrir efni hans. Hún er af menningarverðmæti, sem hefur verið kastað fyrir róða. Nánar um það í lok pistilsins. Flugmála stjórn

Fátítt er að fornsögur okkar tilgreini hvar ákveðnir gripir eða minjar séu niðurkomnar nokkrum öldum eftir að þeir komu til Íslands við landnám. 

En enda þótt kristni hafi verið lögvernduð trú landsmanna í meira en öld, þegar sagan er skrifuð, þykir ástæða til þess að greina frá því að öndvegissúlur Ingólfs Arnarsonar séu enn í eldhúsi á landnámsbænum Reykjavík. 

Sagan af súlunum og þætti þeirra í landnáminu og þar með sögu þjóðarinnar er í hávegum höfð í Landnámu, enda þótt þær hafi verið heiðin tákn ca 125 árum fyrir kristnitökuna og haldið við lýði þremur öldum eftir landnámið. 

Ástæðan er ginnhelgin, sem landnám Ingólfs er umvafin, og nær út yfir þröng mörk einstakra trúarbragða og skammgræðgissjónarmið hótelbyggjenda. 

Einnig dramatíkin í sambandi við dráp hins trúlausa Hjörleifs Hróðmarssonar, sem trúmaðurinn Ingólfur taldi hafa sprottið af því að hann hafi ekki viljað friðmælast við landvætti landsins. 

Sjálfur lagði Ingólfur svo mikið upp úr þessari vættatrú, sem átti sér samsvörun hjá Indíánaþjóðflokkum í Ameríku og er meira að segja í gildi á Grænlandi, þar sem eignarhald einstaklinga á landi er ekki viðurkennd enn þann dag í ag, að hann hafði ekki einasta heimilisguði sína, súlurnar, meðferðis til landsins, heldur útbjó sérstaka helgi- og fórnarathöfn við landtöku þar sem heimilisguðirnir voru fulltrúar Ingólfs gagnvart landvættunum. 

Þessi staður var helgaður og varð helgur 46 árum á undan stofnun Alþingis og það sýnir hörmulegt virðingarleysi fyrir sögu og menningu þjóðarinnar hvernig á að hrauna yfir hana á "einum merkasta minjastað Íslands". 

Dæmin um smekkleysi og vanvirðingu vaða uppi eins og ónefnið Air Iceland connect í stað Flugfélags Íslands er dæmi um. Isavia. Logo

Á sviði flugsins má nefna lýsandi dæmi, hvernig hið flotta merki Flugmálastjórnar Íslands var eytt þegar rekstrinum var skipt í tvö svið, en í staðinn tekið upp merki Isavia fyrir annað sviðið, sem í fyrstu gat alveg eins verið merki fyrir fiskbúð en síðar tók við merki, sem virtist líkjast merki raftækjabúðar, nema að heiti Isavia er að vísu í því og veitir ekki af til þess að vitað sé, fyrir hvað það stendur. 

Þess þurfti hins vegar ekki varðandi gamla merkið. 

Gætum að gildi gamla merksins fyrir unnendur flugsins. Það líkist fugli á flugi, séðum framan frá, og á því eru tveir vængir, - flugmaður getur varla beðið um meira. 

En vængirnir í merkinu bera hins vegar í stað höfuðs fuglsins, þjóðartáknin á glæsilegan hátt, landvættina fjóra, íslenska fánann, - sjálft skjaldarmerki íslenska ríkisins. 

Þess vegna tekur síðuhafi það fram yfir önnur merki til að hafa í húfu sinni, þótt einhverjir kunni að telja menn með svona merki gamaldags og púkalega kverúlanta fyrir vikið. 

En þessu merki hefur nú verið kastað fyrir róða, líkast til af því að það hafi þótt svo hallærislegt og púkó, en nýja "raftækjabúðar"táknið svo nútímalegt. 

Í svona meðferð stórra og smárra menningarverðmæta felst ekki aðeins virðingarleysi og lítilsvirðing, heldur yfirsést hinum framkvæmdaglöðu, að það er hægt að meta menningarverðmæti til fjár varðandi ferðafólk, ef menn vilja endilega meta alla hluti til beinna peninga. 

Fórnar- og helgiathöfn Ingólfs Arnarsonar hefur langlíklegast farið fram við verðandi landnámsbæ, sem síðan var reistur yfir öndvegissúlurnar, og er steinsnar frá Víkurkirkjugarði, sem getur enn orðið fallegur og friðsæll griðastaður og eftirlæti gesta og gangandi í hjarta gamla miðbæjarins.  


mbl.is Einn merkasti minjastaður Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"What goes up must come down".

Ofangreint lögmál á bókstaflega við í fluginu. Enginn hefur sig til flugs nema að koma niður aftur, fyrr eða síðar. 

Kjör flugfarþega hafa farið með himinskautum það lengi, að það hlaut að koma að því að þau misstu flugið. 

Flugfélögin geta ekki viðhaldið fáránlega lágum fargjöldum nema í takmarkaðan tíma. 

Nú hefur Wow-air lækkað flugið og enn ekki útséð um hvernig hinn háfleygi ferill fyrirtækisins endar. 

Almennt séð er vandi að sjá hvernig áframhaldandi lággjöld geta haldist áfram í sama mæli og verið hefur. 

Eldsneytisverðið hefur margsinnis sveiflast í gegnum tíðina af ófyrirsjáanlegum ástæðum og allt er í heiminum hverfult eins og hrakspár um alþjóðlegt efnahags- og fjármálalíf bera með sér. 


mbl.is Flugmiðaverðið hækkaði um 27%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gul merki, ljós og endurskinsmerki hefur sárvantað.

Það hefur vakið hroll hjá síðuhafa á ferðum hans um hjólastíga, gangstíga og götur, hve mikið er á ferðinni af fólki, sem er alveg blint fyrir þeirr hættu, sem því fylgir að vera í dökkum fatnaði eða á reiðhjólum, sem eru ósýnileg í myrkri. Endurskins vesti (2)

Svo er að sjá sem ástandið fari versnandi þrátt fyrir fjölgun hjólreiðamanna í umferðinni. 

Endurskins vesti

Og ekki aðeins reiðhjólum, heldur hefur aðgæsluleysið komist á það stig að þrír dökkklæddir voru hjálmlausir á einni ljóslausri skellinöðru, sem þeyst var á á miklum hraða þvert yfir stéttir, bílastæði og akreinar, sums staðar gegn leyfilegri akstursstefnu. 

Hvað gul vesti snertir, þurfa þau ekki að vera stór eða fyrirferðarmikil því að til eru svo handhæg og fyrirferðarlítil samanbrjótanleg vesti, að þau komast fyrir í veski, vasa eða umslag.

Og það tekur enga stund að skella þeim á sig og þá breiða þau ótrúlega vel úr sér. 

Endurskins vesti (5) Endurskins vesti (4)


mbl.is Sala á gulum vestum hefur tekið kipp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tær snilld. Miklu verra hjá hinum flokkunum í öllum skilningi.

Klaustursmálið er nú komið hringinn og snýst ekki lengur um það sem raunverulega var sagt á barnum og á sér engin dæmi í umræðum, sem sannanlega hafa farið fram, heldur um tvennt sem er miklu verra:

Annars vegar miklu svakalegri ummæli þingmanna annarra flokka en þeirra, sem áttu fulltrúa í umræðunum sem voru tekin upp, og þessi svívirðilegu ummæli þingmanna annarra flokka teljast vera staðreynd þótt engin áþreifanleg gögn séu til um þau. Undir þessu situr nú þorri allra þingmanna. 

Hins vegar eru álíka slæm eða verri ummæli, sem sett hafa verið niður í reyfarakenndum leikritum og eiga að sýna það sama, að þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins, sem voru sannanleg á barnum, séu þeir þeir skástu á þinginu, já, nánast hreinir kórdrengir í samanburðinum við þingmenn annarra flokka! 

Málið er komið í hring. Glæpurinn felst í því að vinstri sinnaðir samsærismenn hafi staðið fyrir því að tekin voru upp hin sönnuðu ummæli, og að þingmenn VG, Samfylkingar og Sjalla hafa sagt miklu verra, bæði i raun og í uppskrifuðum leikritum eða reyfurum. 

Dæmið hefur snúist við: Skáldskapurinn er sannari en sannanlegur veruleikinn. Skúrkarnir, með versta orðbragð allra, eru ofsækjendur fórnarlambanna á Klausturbarnum.  

Nú verður leikur einn að skrifa leikritsreyfara fyrir þúsund sinnum stærri markað, - Bandaríkin - um verstu skúrka síðari áratuga þar í landi, Deep Throat og blaðamennina á Washington Post, sem birtu illa fengnar og ólöglega fengnar upplýsingar um Nixon forseta, ofsóttu hann og hröktu úr embætti. 

 


mbl.is VG og Samfylkingin sitja á bar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar faðir síðuhafa lenti upp á kant við skurðlækninn.

Faðir síðuhafa þurfti á á æviferli sínum að gangast undir ýmsa uppskurði,og þegar hann beið þess á sjúkrastofu að farið væri með hann til síðasta uppskurðarins, sem var á hné, kom læknirinn til hans, heilsaði honum með virktum, tók um annað hné hans og sagði kotroskinn:

"Jæja, Ragnar, nú tökum við þetta hné í gegn svo að þú verðir á ný sprækur eins og ungur maður á ný." 

"Ekki er ég nú viss um að það breyti miklu," svaraði sá gamli, "þú getur varla breytt miklu um ástand þessa hnés, þótt fær sért." 

Lækninum hnykkti við þegar hann heyrði þetta óvenjulega tilsvar, og sagði: "Hvað ertu eiginlega að gefa í skýn?"

Svarið kom um hæl: 

"Jú, ég er það góður í þessu hné, að ég sé ekki neina þörf á að það sé skorið upp." 

"Nógu góður, - hvað meinarðu?" spurði læknirinn hranalega.  

"Jú, ég er alveg nógu góður í þessu hné, en það er hitt hnéð, sem þarf að skera upp." 

Smá þögn, og síðan bætti sá gamli við:

"Það er eins gott að það var ekki búið að svæfa mig." 

Við þetta glumdi við skellihlátur viðstaddra, en læknirinn brást illa við þessu beitta háði, og fannst föður mínum hryssingsleg viðbrögð hans honum ekki til sóma. 


mbl.is Skáru upp rangan fót
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ökumenn, sem loka fyrir gangbrautir þegar þeir bíða á rauðu.

Ýmis fyrirbæri í umferðinni eru býsna sérkennileg, og birtast þegar breytt er um ferðavenjur, sem hafa verið aflagðar um áratuga skeið. 

Við það að taka upp tvenn tvíhjól sem ferðamáta dúkka upp einstaka ökumenn á ferðum manns, sem virðast hafa einkennilegar hugmyndir um sambúð við hjólreiðafólks, svo sem við gangbrautir yfir umferðaræðar á gatnamótum. 

Sem betur fer gengur slík umferð yfirleitt snurðulaust og ánægjulega fyrir sig og byggist á samvinnu gangandi, hjólríðandi og akandi vegfarenda. Aðliar finna þá leið, sem samræmist reglum um forgang og gefur greiðustu, öruggustu og fljótustu lausnina. 

Þó finnast undantekningar þar sem einstaka bílstjórar virðast vera sömu skoðunar og birtist í leiðara einum þess efnis, að í umferðarlögum sé þess krafist að reiðhjólafólk fái því aðeins að nota gangbrautir yfir götur, að þeir fari af baki í hvert sinn og leiði hjólin eftir gangbrautinni. 

Gildi þá einu, þótt grænt ljós vísi hjólreiðamanninum veginn. Ökumenn bíla eigi að vera óhræddir við að fylgja fast því fast eftir að knýja hjólreiðafólk af baki.  

Vegna fullyrðingarinnar um lögbrot hjólreiðamanna, sem ekki leiði hjólin yfir gangbraut, hafði síðuhafi samband við tvo þeirra manna, sem helst má telja sérfræðinga í þessum málum og hafa starfað áratugum saman við þau, meðal annars í nefndastörfum, og voru þeir á einu máli um það þessi krafa fyndist hvergi í umferðarlögum. 

Enda myndi hún oftast valda óþarfa töfum og truflunum. 

Nokkur dæmi hefur síðuhafi um það, að einstaka ökumenn neyti aflsmunar farartækjanna við að taka forganginn af hjólreiðafólki og hræða það til hlýðni, jafnvel þótt gangandi vegfarandi sé líka á ferð samhliða hjólinu. 

Á nokkrum stórum og fjölförnum gatnamótum, þar sem eru þrjár akreinar fyrir bíla, eru grindverk sem afmarka göngu- og reiðhjólaleiðina yfir hina breiðu götu. 

Tvívegis hefur síðuhafi orðið fyrir því, að ökumenn, sem bíða á rauðu ljósi, þrír bílar samhliða, stöðva bíla sína þannig við ljósin, að þeir loka algerlega fyrir þessa gangbrautaljósa lýstu leið fyrir gangandi og hjólandi. 

Aka þessir bílstjórar sínum þétt meðfram grindverkinu fram yfir heila og breiða línu til þess að loka gönguleiðinni um til þess gert op á grindverkinu, og í bæði umrætt skipti varð þeim ekki þokað þegar komið var að þeim á hjólinu, sem grænt ljós blasti við, en rautt ljós við þeim. 

Þeir stóðu sem fastast og annar þeirra gaf meira að segja fingur og flautaði þegar leitað var eftir því að hann færði sig um svo sem hálfan metra til þess að opna leiðina, en það var auðvelt fyrir hann, - svo langt fram yfir hvítu línuna hafði hann ekið. 

Í bæði skiptin þýddi þetta, að bakka þurfti hjólinu til baka svo að bílarnir á tveimur akreinum, sem biðu á tilsettum stað, gætu farið af stað þegar grænt ljós birtist þeim. 


mbl.is „Er bara svona snúningur á öllu“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allt saman lygi segja Trumpsinnar.

Nýlega var Íslendingur sem ég þekki, Ásta Þorleifsdóttir, á ferð um Himalayafjöll og hefur greint frá bráðnun jöklanna þar og myndun nýrra stöðuvatna af þeim sökum, sem greint er frá í tengdri frétt á mbl.is.

Hér á landi hafa ný stöðuvötn myndast af sömu ástæðu, hlýnun loftslags á jörðinni, svo sem Jökulsárlón, Fjallsárlón og lón við jaðar Brúarjökuls.

Ásta Þorleifsdóttir er jarðfræðingur sem ég hef þekkt vel um árabil og ég trúi jafn vel því sem hún segir og mínum eigin augum, sem hafa fylgst með hliðstæðum fyrirbærum í návígi áratugum saman hér heima.

En harðsnúinn hópur Trumpsinna segir okkur Ástu fara með lygar, því að "jöklarnir hafi farið stækkandi undanfarin ár", "Grænlandsjökull hækkar og fer stækkandi" og að upplýsingar alþjóðlega vísindasamfélagsins séu lygar og falsfréttir. 

Sumir hafa spurt mig, hvers vegna ég sé sífellt að gera þessar fullyrðingar Trumpsinna að umræðuefni hér á síðunni. 

En það er óhjákvæmilegt, þegar maður er sífellt talinn fara með lygar og rangfærslur, og líka vegna þess að sá síbyljusöngur hefur tvennan tilgang: 

Að gera síendurteknar fullyrðingar Trumpsinna að sannleika -

og / eða

ef það tekst ekki til fulls, að vinna samt þann sigur að koma umræðunni á það plan, að vegna þess hve ólík sjónarmið vegist á, sé engu lengur að treysta til eða frá, - að vísindalegar rannsóknir og upplýsingaöflun séu fáfengilegar grillur og skást að trúa engu. 

Sem er það sama og að ónýta sem flest mikilsverð mál. 

Nú liggur fyrir að hin bandarísku stjórnvöld sem Trump ræður yfir, beita öllum tiltækum ráðum til þess að vinna gegn því samkomulegi sem kemur út úr loftslagsráðstefnunni í Póllandi og setja fram ný gögn um það að það þurfi að auka kola- og jarðefnaeldsneytisframleiðsluna á jörðinni, og í söng aðdáenda Trumps kemur fram, að Sahara megi vel verða aftur græn og gróðri vafin. 


mbl.is Stöðuvötn Himalaja tifandi tímasprengja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband