Er það virkilega að "fjallagrasatínsla" og "eitthvað annað" geti þetta?

Nú eru liðin fimm ár síðan ríkisstjórn Íslands lýsti því einróma yfir að stefna skyldi að því áfram með oddi og egg að risaálver skyldi rísa í Helguvík.

Liðin eru tíu ár síðan margir frammámenn, ráðherrar, sveitarstjórnarmenn og fulltrúar orkuseljenda og orkukaupenda stungu saman fyrstu skóflustunguna að kerskála, sem síðan var byrjað að reisa af fullum krafti. 

Þetta var gert án þess að búið væri að ræða við á annan tug sveitarfélaga, sem þyrfti að semja við um lagningu háspennulína, vega og byggingu virkjanamannvirkja allar götur frá Reykjanestá upp í Skrokköldu á hálendinu og austur í Skaftárhrepp til þess að útvega orku til 360 þúsund tonna álvers, sem talsmaður Norðuráls játaði á fundi, að yrði að rísa á endanum í Helguvík til þess að álverið gæti borið sig. 120 þúsund tonna álver yrði fyrsti áfangi af fjórum. 

Í morgun kemur síðan ein af ótal fréttum um það hverju það er er að skila árlega í atvinnu- og efnahagslífið, sem áltrúarmenn töluðu niður sem fjarstæðu árum saman sem "fjallagrasatínslu" og "eitthvað annað" á þann hátt að fyrirlitningin og vantrúin skinu út úr orðalaginu og röksemdumm þeirra. 

"Fjallagrasatínslan" og "eitthvað annað" er nú sagt í fréttum vera ígildi þess að álver rísi á hverju einasta ári. 

En yfirlýsing ríkisstjórnarinnar sumarið 2013 um einróma vilja til að reisa risaálverið hefur aldrei verið dregin til baka. 

Yfirlýsingar forstjóra Landsvirkjunar um tvöföldun orkuframleiðslunnar á næstu sex árum og um að það sé ekki spurning um hvort, heldur hvenær sæstrengurinn komi, standa óhaggaðar. 

Enda vex þrýstingurinn á virkjanir, sæstreng og aukinn hernað gegn náttúruverðmætum landsins svo mjög, að bara á einu ári dúkka upp tæplega 60 nýjar virkjanahugmyndir í viðbót við þær ca 100 hugmyndir, sem eru nú á borðum rammaáætlunar. 

Ástæðan er tvöföld:

1. Svonefndir fjárfestar og fjármagnseigendur, innlendir og erlendir, sem græða svo mjög, að þeir vita varla hvað þeir eiga að gera við alla peningana, eru æstir í að herja á vatnsföll og jarðvarmasvæði landsins, enda hafa þeir yfirburði yfir náttúruverndarfólk hvað varðar fjármagn og valdaaðstöðu. 

2. Þetta, yfirburðirnir í fjármagni og valdaaðstöðu, auðveldar þeim síðan að dreifa sókninni í náttúruverðmætin svo mjög, að þeir geti valtað yfir náttúruverndarsamtökin, sem hafa enga möguleika til að verjast því leifturstríði og stórsókn, sem þegar er hafin.  


mbl.is Samsvarar heilli stóriðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stækkandi vígvöllur netheimanna.

Netheimar og tölvuheimar soga til sín sífellt víðtækari stórfelldari átök þjóða og öflugra valda- og peningaafla. 

Þetta sést vel á útgjöldum flokkanna fyrir kosningar. 2007 náðu þau sennilega hámarki, fjórflokkurinn eyddi hundruðum milljóna, og litlu flokkarnir, Frjálslyndi flokkurinn og Íslandshreyfingin - lifandi land töldu sig knúna til að eyða meira en 80 milljónum sá fyrrnefndik, en 32 milljónum hinn síðarnefndi, ef þeir áttu ekki að láta þá stóru valta yfir sviðið. 

Núna er hægt að reka öfluga kosningabaráttu fyrir miklu minna fé, af því að umfangið og árangurinn í netheimum kostar svo margfalt minni fjárútlát en var á tímum "gamaldags" aðferða eins og útgáfu bæklinga og auglýsingar í blöðum. 

Eins konar stríðsástand verður æ algengara, samanber tölvuárásir Rússa. 

Þetta eykur líkurnar á viðsjárverðu og eldfimu ástandi og á hvers kyns klækjum, þar sem ekki eru notuð vönduð meðöl.  


mbl.is Hver var tilgangurinn með hnappinum?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihlutinn kaupir ekki "hvort eð er" röksemdina.

Sumir heitir talsmenn þess að leyfa áfengisauglýsingar í íslenskum fjölmiðlum hafa viðurkennt vandann sem leiðir af áfengisneyslu en segja á móti, að úr því að "hvort er er" séu seld erlend blöð og í gangi erlend fjölmiðlum með áfengisauglýsingum, sé óréttlátt gagnvart íslenskum fjölmiðlum að þeir fái ekki líka að græða á slíkum auglýsingum eins og erlendir keppinautar. 

Þarna sé óviðunandi misrétti á ferðinni. 

Sem sagt: Efla verður samkeppnisstöðu íslenskra fjölmiðla og auglýsingamarkaðarins með því að auka á á áfengisbölið!  

Ekki er nú hugmyndaauðgin mikil. Eins og það séu ekki einhver skárri ráð finnanleg til þess að rétta hlut íslenskrar fjölmiðlunar en þetta. 

En nú sést í skoðanakönnun að öruggur meirihluti svarenda í skoðanakönnun kaupa ekki þessi rök né önnur rök fyrir íslenskum áfengisauglýsinum. 

 


mbl.is Meirihluti andvígur áfengisauglýsingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Flugmiði nóg til að flýja land..."

Stundum geta blaðafyrirsagnir verið svo yndislega ljóðrænar, samanber þessa hér að ofan á tengdri frétt á mbl.is. 

 

Það virðist óþarfi að óttast strand 

ef eltir mann harðsnúin lögga. 

"Flugmiði nóg til að flýja land" 

ef fer hún mann eitthvað að bögga. 


mbl.is Flugmiði nóg til að flýja land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ódýrir: Rafbíll sem ekki er hægt að tengja og smájeppi, sem ekki er jeppi.

Nú er varla hægt að opna blað án þess að þar séu auglýsingar um ævintýralega bíla á mjög hagstæðu verði. 

Dæmi 1.

Tvinnbíll (hybrid) dásamaður af því að hann sé "sjálfhlaðandi." Hvað þýðir "sjálfhlaðandi"? Jú, það er ekki hægt að tengja hann við hið hreina og ódýra rafmagn, heldur verður að hlaða rafhlöður bílsins með orku úr hans eigin bensínvél, en síðan er rafaflið leitt út í hjólin. Þetta er ókostur en ekki kostur hvað spareytni og umhverfismildi snertir.  

Eyðsla þessara bíla á jarðefnaeldsneyti er ekkert minni en á sambærilegum og einföldum dísilknúnum bílum. 

Sala "hydbrid" leið fyrir það árum saman að þeir voru eingöngu sjálfhlaðandi og það var ekki fyrr en "tengil-tvinnbílar" komu fram að hægt var að hlaða slíka bíla með raforku úr heimilisúttaki eða hraðhleðslustöð og aka þeim jafnvel dögum og vikum saman innanbæjar eingöngu á því rafmagni. Ef ekki er hægt að hlaða bílinn í gegnum tengil, svo sem á lengri leiðum eða ef gleymst hefur að hlaða, geta þessir bílar verið "sjálfhlaðandi" eftir þörfum. 

Dæmi 2. 

Smájeppi, sportjeppi, dásamaður fyrir það að vera léttur, ódýr og með stórt farangursrými. En af hverju er hann léttur, ódýr og með mikið farangursrými? Af því að hann er ekki jeppi, það vantar í hann fjórhjóladrifið! 

Nú þegar hef ég heyrt um fólk, sem telur sig hafa keypt köttinn í sekknum með því að kaupa "sjálfhlaðandi" bíl, "hybrid" í staðinn fyrir "plug-in hybrid." 

Og úr því að orðið sekkur er hér notað má minna á þjóðsöguna um manninn með poka á bakinu, sem settist upp á hest til þess að létta álaginu af skepnuni. 

Þegar hann var spurður af hverju hann gerði þetta svaraði hann: "Hesturinn ber ekki það sem ég ber." 

Sem gæti verið hliðstætt þvi að nefna "sjálfhlaðandi bíl" og bæta við: "Rafmagnsreikningurinn hefur ekki hækkað í krónu við það að ég keypti þennan bíl. Reikningurinn hefur hins vegar hækkað hjá vinum mínum sem hafa keypti tengiltvinnbíl (plug-in hybrid). 


mbl.is Þarft að auka drægi og fjölga rafbílum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn af örlagavöldunum í lífi mínu.

Guðrún Stephensen leikkona skilur eftir sig dýrmætar minningar hjá mörgum.

Hún vann við kennslu í Laugarnesskólanum þegar ég var þar nemandi frá sjö til tólf ára aldurs, og enda þótt hún kenndi mér ekki varð hún sá kennari í skólanum, sem hafði mest áhrif á lífshlaup mitt. 

 Án þess að ég væri meðvitaður um það þegar ég var tólf ára, beindi hún mér inn á braut í lífinu sem ég átti eftir að feta. 

Þetta gerði hún með því að benda föður sínum, Þorsteini Ö. Stephenssen og þeim Gunnari Hansen leikstjóra og Einari Pállsyni leikara á að fela mér hlutverk götudrengsins Gavroche í leikritinu Vesalingarnir, sem Gunnar skrifaði eftir hinu heimsþekkta stórvirki Victors Hugo.

Þorsteinn lék aðalhlutverk sýningarinnar, Jean Valjean. 

Gunnar hafði ætlað götudrengnum tiltölulega stóran hlut í sýningunni, og hann og Einar útskýrðu það fyrir mér að það stefndi í að fjölmennasti hópur "vesalinga" í heiminum yrðu götubörnin í ört vaxandi stórborgum fátæku ríkjanna. 

Götudrengurinn átti að halda mikilvæga þrumuræðu í upphafi seinni hlutans eftir hlé og vera talsmaður "vesalinganna." 

Ég hafði tekið þátt í tveimur leikritum í skólanum, sem Guðrún sá, og byggði tillögu sína til Gunnars og Einars á. 

Í undirbúningnumm fyrir hina miklu sýningu, sem tók meira en þrjár klukkustundir, lögðu þeir Gunnar og Einar alúð við að fræða mig og undirbúa sem best fyrir hlutverkið og túlkun boðskapar skáldins, og var það ómetanlegt veganesti út í lífið, þótt ég áttaði mig ekki á því til fulls fyrr en löngu seinna, að fá svo ungur jafn góðan grunn til að byggja á síðar.

Guðrúnu kynntist ég betur síðar í þeim leikritum, sem ég tók þátt í í Iðnó og hún var í einu orði sagt yndisleg manneskja og öðlaðist sérstakan sess í hjarta mér.

Því kveð ég hana með þökk og söknuði og votta hennar nánustu dýpstu samúð. 

 


mbl.is Andlát: Guðrún Þ. Stephensen leikkona
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Athyglisverð umfjöllun 60 mínútna um tölvuárásir Rússa.

Donald Trump lét sér það í léttu rúmi liggja í kosningabaráttunni 2016 fréttir um tilraunir Rússa til árása á tölvukerfi vestra og tilraunir á þann hátt til að hafa áhrif á kosningarnar þar. 

Fram kom í þessum 60 mín þætti, að erfitt verði að uppfæra öll tölvukerfi í tæka tíð,  sem tengast kosningum og lýðræði vestra 2020, hvað þá fyrir "miðjutímabilskosningarnar" sem er mun skemmra undan. 

Trump talaði einnig ansi vinsamlega um Pútín 2016 og hafði skilning á stefnu hans. 

Nú kveður við annan tón hjá Trump, enda langlíklegast að þessar aðgerðir Rússa séu til þess að grafa almennt undan bandarísku lýðræði og veikja trúna á það og stjórnkerfi BNA bæði innan lands og utan. 

Þar með vaknar óvissa, það verður enginn óhultur og Trump sjálfur eða þau öfl sem að baki honum standa gætu orðið skotmörk. 

Það þarf engan að undra þótt Pútín fari inn á þetta svið til þess að veikla önnur stórveldi og auka veldi síns lands í staðinn. 

Hagkerfi Rússlands er veikt, minna en Spánar, en Pútín dreymir um að veldi Rússlands verði almennt í samræmi við kjarnorkuveldi þess og veldi og áhrif Rússlands svipað og veldi Sovétríkjanna var fram til 1980. 

Í kjarnorkumálum ríkir hins vegar dauð pattstaða milli Rússlands og Bandaríkjanna því að sagt er að kjarnorkuherafli þeirra myndi nægja til að eyða báðum löndunum minnst fimm sinnum. 

Pútín rígheldur því í sterka stöðu í Sýrlandi, sem er það afmarkaður vígvöllur, að her Rússa ræður vel við það verkefni og hefur náð betri stöðu en flestir héldu að væri mögulegt. 

Að því frátöldu er tölvuhernaður spennandi kostur fyrir Rússa, því að afleiðingar tölvuhernaðar eru það miklar, miðað við það fjármagn sem lagt er í hann, að þar fæst kannski mest fyrir peninginn til að efla vald Rússlands á kostnað annarra öflugra ríkja. 


mbl.is Hannity er leyndi skjólstæðingur Cohen
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stinningskaldi skapar sandmistur.

Á leið eftir hjólastígum og gangstígum í dag frá Kringlunni austur í Spöng í Grafarvogshverfi varð maður óþyrmilega var við það, að svo mikið ryk af götum borgarinnar hefur sest um alla borg, að þegar það komu vindhviður, uppgefnar um 15 m/sek samkvæmt vedur.is, feyktu þær upp rykinu af gatnakerfinu án þess að helsti valdur ryksins aðra daga, stórir bílar sem þyrla því upp, kæmu við sögu. 

Á nokkrum stöðum stóð rykstrókurinn inn í andlitið og sandur settist í augun. Svifryk Kópavogi

Myndin sem fylgir tengdri frétt á mbl.is sýnir einmitt hvernig aðeins einn stór bíll getur búið til fyrirbæri, sem lítur tilsýndar út eins og sandstormur. 

En það getur líka vindur sem er þó ekki meira en um 15 metrar á sekúndu í hviðum. 

Tðlurnar sem birtar eru í fréttinni eru sláandi, 366 grömm (afsakið, míkrógrömm, sjá athugasemd) á hálftíma, en heilsuverndarmörkin eru 50 yfir heilan sólarhring. 

Ekki amalegt fyrir borg sem er búin að fá Umhverfisverðlaun Norðurlanda. 

 


mbl.is Svifryk yfir heilsuverndarmörkum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

62ja ára gömul saga þáttöku í NATO-ríkisstjórn.

Í mars 1956 tóku þrír flokkar, Framsókn, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag sig saman um þingsályktun um að varnarliðið færi úr landi. 

Um sumarið var mynduð vinstri stjórn þar sem ekki var orð um NATO, og nokkrum mánuðum síðar hafði Kalda stríðið blossað upp með innrás Rússa í Ungverjaland og innrás Ísraelsmanna, Breta og Frakka í Egyptaland. 

Brottför hersins búið spil, og aldrei talað um NATO. 

1971 var mynduð vinstri stjórn með svipaða stefnu, enn ekkert varð úr aðgerðum. 

1978, 1980 og 1988 voru myndaðar stjórnir með Alþýðubandalagið innanborðs án þess að minnst væri á NATO í stjórnarsáttmálum, hvað þá annars staðar. 

Í Júgóslavíustríðinu í aldarlok gerði NATO loftárásir, meðal annars grimmilega árás á Útvarpshúsið í Belgrad. 

Sjallar og Framarar voru við völd og ekki var sagt múkk. Var þessi hernaðarþátttaka þó ekki vegna þess að ráðist hefði verið á neitt NATO-ríki. NATO fór að hegða sér eins og heimslögregla. 

2011 var Vg í ríkisstjórn þar sem ekki var minnst á NATO og NATO réðist á skotmörk í Líbíu.

Vg var í svipaðri aðstöðu og núna en ekki hrikti neitt í ríkisstjórninni. 

Nú er Vg enn í ríkisstjórn þar sem ekki var minnst á NATO í stjórnarsáttmála og enn eru gerðar loftárásir sem NATO samþykkir, í þetta skipti á Sýrland. 

Enn og aftur er það ekki hernaðarárás á NATO-ríki sem verið er að svara, heldur hefur NATO-ríkið Tyrkland ráðist inn í Sýrland til að herja á Kúrda þar í landi. 

Staðan er gamalkunnug og á sér 62ja ára forsögu. 

Það er "titringur" í Vg en skrýtið væri, ef eitthvað afdrifaríkt gerðist nú, frekar en 2011.  


mbl.is Ræða afstöðu Íslands í kvöld
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vélhjól: Að vinna upp glötuð unglingsár. Bylting að hefjast.

Ég hef áður lýst því hér á síðunni hvernig áunnir fordómar mínir gegn hjólum hrundu við það að fara af bíl yfir á tvö hjól, rafreiðhjól og létt "vespu"vélhjól í 125 cc flokki og hætta að mestu notkun á bensínbíl.  Honda 125cc og skellinaðra 50cc

Þessi stærðarflokkur vélhjóla hefur þá kosti, að eyða aðeins um þriðjungi á við bíl af eldsneyti, kosta fjórum sinnum minna nýtt, eru tíu sinnum léttara en svokallaður smábíll en ná samt þeim hámarkshraða sem leyfður er á þjóðvegum hér á landi. 

50 cc hjólin, sem talsvert eru farin að sjást hér, eru enn léttari og ódýrari, en bundin við 25 km hámarkshraða ef komast á hjá skráningu og tryggingarskyldu. 

Í öðrum löndum Evrópu fá heldur stærri 125 cc hjól ívilnanir (sjá mynd) vegna þess hve mjög þau létta á borgarumferð með nettleika sínum og unglingar mega aka þeim ári yngri en bíl.Léttir, Hjallahálsi 

Ástæðan er einnig sú að reglurnar um þessi hjól eru þannig, að þau eru í kringum 100-130 kíló að þyngd, með mest 125 cc mótor, sem má ekki vera meira en 15 hestöfl.

Allt stuðlar þetta að ótrúlega litlu vistspori og minni slysahættu, því að á slíku hjóli og stærri hjólum er mikill munur.

Í dag hafa vélhjólaframleiðendur á markaði ný vélhjól, sem kosta álíka og ódýrustu bílar og eru fyrir ofan þennan 125 cc flokk, ná 200 kílómetra hraða og eru innan við 4 sekúndur úr kyrrstöðu upp í 100 km hraða, fljótari en fljótustu Benzar og BMW. 

Áður hefur verið greint frá því, að langstærsta orsök hærri slysatíðni á vélhjólum en á bíl felst í slysum vegna ölvunar ökumannanna. 

55 prósent slysa á vélhjólum eru vegna ölvunar ökumannsins, en innan við 20 prósent á bílum.Honda Forza 125 

Ef í viðbót við að vera allsgáður er þess síðan gætt að vera með lokaðan hlífðarhjálm og í vélhjólastígvélum, auk viðbótar tortryggni gagnvart hættunni frá öðrum ökutækjum, eru leikar jafnir á milli bíla og vélhjóla. 

Niðurstaða mín af tilraunum með ökutæki í þrjú ár er sú, að láglaunafólk á vaxandi möguleika á að kaupa sér viðráðanleg farartæki, sem hjálpa til við að minnka þrengslin og umferðartafirnar á götum borgarinnar. 

Bestu 125 cc hjólin eru kölluð "sofascooters" vegna hinna miklu þæginda sem þau bjóða upp á, svo sem Honda Forza, Suzuki Burgman og Yamaha X-max. 

Ég hef alla tíð verið eindreginn fylgjandi þess að slá tvær flugur í einu höggi: Gefa fleirum færi á að ferðast á einkafarartæki sem taka miklu minna rými en meðalbíllinn en losa með því um rými í gatnakerfinu. 

Ég var reiðhjólafrík til 19 ára aldurs, en hljóp yfir skellinöðrutímabilið á unglingsárum margra vina minna og fór yfir á minnsta og sparneytnasta bíl landsins. 

1969 hljólaði ég talsvert á samanbrjótanlegu reiðhjóli en síðan ekki söguna meir í 45 ár. 

Á þeim tíma gleymdi ég hve mikið ég hjólaði upp að 19 ára aldri, í flestum veðrum, svo að aldrei féll heil vika úr. 

Mér varð aldrei kalt og var aldrei blautur, - þetta var spurning um réttan klæðnað. Niu N1s

Síðan 2015 hefur þetta aftur komið til skjalanna, aldrei fallið vika úr, og með létta vélhjólinu finnst ég mér vera að vinna upp glötuð unglingsár, - þetta er svo gaman jafnframt því að vera ódýrt spara mikla peninga og vera þægilegt. 

Þægilegt?

Já aldrei neinar áhyggur af því að fá ekki bílastæði eða festast í umferðarteppu. 

Og í haust fara að birtast byltingarkennd rafhjól á markaðnum, svo sem NIU GTX og Honda PCX hybrid. Þetta eru rafhjól, gerð til að ná 100 kílómetra hraða. electric-1

Hjólin hafa þann kost, að þau eru með útskiptanlegum rafhlöðum, en það getur boðið upp á svipað fyrirkomulag og er þegar komið á 350 þúsund manna þéttbýlissvæði Taipei, höfuðborgar Taívan. 

Kerfi skiptistöðva, þar sem vélhjólamaður á hjóli af gerðinni Gogoro rennir upp að sjálfsala á gangstétt, setur kort í og tekur út tvö hlaðin batterí, en setur tvö tóm inn í staðinn!

Vélhjólamaðurinn getur líka átt auka batterí heima hjá sér, sem hann hleður í svefnherberginu á meðan hann notar hin. electric-3

Aðeins vélhjól geta í bili boðið upp á útskiptanlegar rafhlöður. 

Það er nefnilega talsvert mál að skipta út meira en 300 kílóa þungum rafhlöðum í meðalstórum rafbíl. 

Á rafhjóli af svipaðri stærð og 125 cc bensínvespa, er þessi þungi á rafhlöðunum ca 15 til 20 kíló.  

 


mbl.is Mótorhjólakappar komu færandi hendi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband