Sömu "breyturnar" í jafnréttislandinu um aldir?

Fyrir fimm árum blöskraði mér sú firring gagnvart kjörum alþýðu um aldir hér á landi og þáverandi forsætisráðherra hélt fram 17. júní að hefðu verið hér alla Íslandssöguna. 

Nú les maður aftur hér á blogginu að Ísland sé jafnlaunaland og að í gegnum aldirnar hafi verið sömu "breyturnar" í þeim efnum hér á landi. 

Fólk hafi getað "valdið sér foreldri" ef það var heppið og líka komist vel af ef það var óheppið með foreldri. 

Ég hef aldrei heyrt það fyrr að fólk geti valið sér foreldri og talið um jöfnuð í gegnum aldirnar passar ekki við mína reynslu af fyrrum samtíðarfólki mínu. 

Amma mín heitin valdi sér ekki foreldri þegar hún var send að heiman sjö ára gömul frá Hólmi í Landbroti austur yfir Skeiðarársand í skiptum fyrir kú. Og hún valdi sér ekki heldur verðmiðann. 

Það er ekki lengra síðan. Ég er að tala um ömmu mína. 

Afi minn var sendur frá 16 ára aldri í tíu vetur gangandi um vegleysur frá Landbroti í Skaftafellssýslu til Suðurnesja til að róa á vertíð um hávetur á litlum bátum við hættulegar og útrúlega frumstæðar aðstæður. 

Hann gekk heim í maí og afhenti húsbónda sínum launin, en þáði húsnæði og fæði í staðinn fyrir vertíðarvinnuna og stritið heima síðari hluta árs. 

Það er ekki lengra síðan. Ég er að tala um afa minn. 

Á bænum þar sem ég var í sumardvöl í sveit í fimm sumur sem drengur kynntist ég fjórum konum, sem hvorki "völdu sér foreldri" né áttu þess kost að ráða kjörum sínum eða búsetu. 

Ein þeirra, Margrét Sigurðardóttir, var niðursetningur á bænum, þá orðin fjörgömul en hélt heilsunni með göngum um dalinn í hlutskipti förukonu.  

Skarpgáfuð og fjölfróð um ljóð og fagurbókmenntir, en hún var fædd á bæ ómegðar og hörmulegra kjara, þar sem fjölskyldan flosnaði snemma upp og henni var holað niður sem barn. Hún valdi sér hvorki foreldri, fósturforeldri né búsetu og lýsti fyrir mér þeim kulda, sulti og eymd sem hún ólst lengstum upp við. 

Systir hennar varð næstum úti í óveðri og missti fæturna vegna kals. Var uppnefnd Steinunn fótalausa en Margrét "Manga með svartan vanga." 

Þótt vistarbandið hefði í orði kveðnu verið aflagt, var fólk af hennar toga í raun haldið í fátæktrargildru vistarbands. Það hafði ekki atkvæðisrétt. Vesturfarirnar voru úr sögunni og ráðandi öfl á Íslandi höfðu haldið myndun þéttbýlis við sjóinn niðri eftir föngum. 

Manga átti sér draum um bónda og fjölskyldu á eigin jörð, en missti eina barn sitt við fæðingu af völdum vinnuhörku á bænum. Eftir það var hún jafnvel kölluð Gelda Manga. 

Barnsfaðirinn hljóp frá henni, enda öll kot í Húnavatnssýslu setin, allt upp í 330 metra hæð á Laxárdal, þar sem 200 manns bjuggu á 30 kotum, og einnig var búið langt inn á heiðar og hálendi, allt upp í Rugludal í 440 metra hæð langt inni á Auðkúluheiði. 

Á því koti bjó Ásdís Jónsdóttir skáldkona, um hríð með heilsuveilum bónda sínum sem lést um aldur fram. Ég á í fórum mínum bréf frá henni til vinkonu sinnar sem lýsir vel ófrelsinu og ömurlegum kjörum hennar líka. 

Það er ekki lengra síðan. 

Hún varð niðursetningur ásamt tveimur dætrum sínum og var þeim holað niður í ömurlegasta hreysi Húnavatnssýslu, hálfhrundan torbæ í Hvammi, þar sem ég var í sveit. 

Engin þeirra valdi sér foreldri né búsetu. 

Þær bjuggu við ömurleg kjör sem ég reyni að lýsa í bókinni "Manga með svartan vanga - sagan öll." 

Síðan koma menn í dag og halda því fram að um aldir hafi ríkt hér frelsi og jafnrétti. 

Eins og áður sagði lýsti þáverandi forsætisráðherra því meira að segja í hátíðarræðu 17. júní, hvílíkur jöfnuður hefði verið hér á landi alla tíð, og þetta tal stingur enn og aftur upp kollinum. 

En ennþá eru þeir þó til sem geta borið vitni um hið sanna í þessum málum. 

Vitnað til samtíðarfólks og ættingja fyrr á tíð. 

Það er ekki lengra síðan. 


mbl.is Eignaskipting mjög ójöfn á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Jæja, gott að maður skrapp þarna yfir 1968.

1968 var sérstætt tilboð í gangi ef flogið var um Bandaríkin. Ef lent var og stansað í minnst sólarhring á fimm stöðum í landinu í ferðalaginu, fékkst helmings afsláttur á fargjaldi. Þetta var gert til að örva ferðamannastrauminn. 

Á ferli mínum sem skemmtikraftur hefur mér iðulega boðist að skemmta á skemmtunum Íslendingafélaga víða um lönd, og 1968 bauðst mér að skemmta í Los Angeles og myndi Íslendingafélagið greiða ferðakostnað til og frá Íslandi og nokkurra daga gistingu. 

Ég ákvað að nýta þetta tilboð og líka ameríska tilboðið með því að Helga kæmi með mér, við lentum á alls fimm stöðum í ferðalaginu og samtals ferðakostnaður því ekki mikið meiri en flug beint fram og til baka fyrir mig einan. 

Staðirnir voru New York - Washington - El Paso - Las Vegas og San Fransisco. 

El Paso varð fyrir valinu, vegna þess að sú borg liggur samhliða Mexíkósku borginni Ciudad Juarez, og því auðvelt að gista þar í tvær nætur, fara yfir landamærin í borginni fyrri daginn og til að skoða Carlsbad-hellana í New Mexíkó daginn eftir. 

Það var ákveðin upplifun fólgin í því að fara um svæði, sem var ein borg í raun, en samt með gerólíku umhverfi, kjörum og menningu sitt hvorum megin við ákveðna línu. 

Þótt þetta væri róstusamasta sumar sögunnar í bandarískum borgum, og eldar væru kveikir sums staðar á götum og nýbúið að drepa Robert Kennedy, ríkti friðsæld og óþvingað andrúmsloft í El Paso / Ciudad Juarez. 

Því hryggir það mig að Donald Trump ætli að byrja á þúsunda kílómetra múraframkvæmdum sínum einmitt á þessum stað, sem var tákn um friðsamlega sambúð Bandaríkjamanna og Mexíkóa 1968 og reisa þarna jafnvel svakalegri múr en reistur var í Berlín 1961 og Bandaríkjamenn fordæmdu manna mest. 

Við hann stóð Ronald Reagan í Berlínarheimsókn og sagði í ræðu sinni við múrinn: "Herra Gorbatsjof, rífðu þennan múr!" 

Nú er öldin önnur. Við eigum Bandaríkjaforseta sem stendur við mörk síns lands inni í miðri borg og segir í raun: "Hér reisi ég hundrað sinnum stærri múr en Reagan bað Gorbatsjof um að rífa niður!"

Ég er feginn að ég skyldi fá að fara þarna yfir á frjálslegan og eðlilegan hátt á sínum tíma og safna í ljúfan minningasjóð. 


mbl.is Múr Trump byrjaður að rísa í Texas
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Auðræðið í sinni tærustu mynd.

Ekki þarf annað en að líta á ljósmynd, sem fylgir tengdri frétt á mbl.is til að sjá, hvílíkt ofhlæði af smekkleysi á sér stað við Hafnartorg í Reykjavík. 

Þótt maður legðist undir manns hönd til að afstýra þessu ofhlæði, sem gerbreytir og skekkir alla mynd gamla miðbæjarins, þótt ekki væri nema með því að hafa húsið tveimur hæðum lægra, kom það fyrir ekki. 

Vafasamt er að hin ágæta hugsjón um þéttingu byggðar og lausn á ömurlegum húsnæðisvanda í miðju góðærinu kristallist í fjölbýlishúsi, þar sem meðalverð íbúða getur verið hið hæsta sem um getur í fjölbýli hér á landi.  

Gaman væri að fá í athugasemdum við þennan pistil álit fólks á þessu tákni auðræðisins, sem veður yfir allt og alla og er að fá á sig endanlega (ó)mynd. 


mbl.is Meðalverðið 110 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórum sinnum um Reykjanesröst var fjórum sinnum of oft.

Ekki þarf annað en að líta á kort til að sjá hagræðið af því að efla siglingar til landsins án þess að siglt sé fyrir Reykjanes og Garðskaga til Faxaflóahafna. 

Þegar búið verður að rafvæða flutningabíla verður hagræðið á marga vegu, ekki aðeins styttri siglingatími og kostnaður við sjóflutningana heldur líka miklu minna kolefnisfótspor. 

Þá er ótalið eitt: Að losna við að sigla fyrir Reykjanes. 

Fjórum sinnum á ævinni hef ég farið þá sjóleið og orðið dauðsjóveikur í öll skiptin, enda skítaveður í hvert einasta sinn.  

Fyrst með Dronning Alexandrine 1955, fram og til baka, síðan með skemmtiferðaskipinu Regínu Maris 1967. 

Í þessum sjóferðum var eindæma veðurblíða strax og komið var að Færeyjum í júlí og farið frá Færeyjum á leið heim 1955 og eftir að farin hafði verið hálf leið til Dublin 1967 og síðasta daginn heim frá Rotterdam.

Í ferð Reginu Maris hélst veðurblíðan í 15 daga af 17. 


mbl.is Vilja efla Þorlákshöfn enn frekar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skondin mótsögn.

Það skiptir líklega oftast ekki miklu máli á hvaða tungumáli dýralæknar tala við dýr eða í návist dýra. Enda geta dýrin engu svarað á móti, hvort eð er. 

Að sama skapi ætti að vera mikilvægara á hvaða tungumáli læknar tala þegar um fólk er að ræða. 

En svo er að sjá af tengdri frétt á mbl.is að í lögum hafi þetta verið öfugt hér á landi:  Mikilvægt að tala íslensku í návíst dýra en alveg öfugt varðandi málnotkun í návist manna. 

Já, það er margt skrýtið í kýrhausnum, sagði kerlingin víst. Á íslensku. 


mbl.is Þurfi ekki að tala íslensku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótrúleg forsaga löngu, löngu tímabærs fréttamyndvers.

Ætli það hafi ekki verið fyrir um 15 árum sem fulltrúar frá BBC komu og skoðuðu Útvarpshúsið. 

Þeir áttu varla orð yfir því bruðli sem þeim sýndist vera í gangi varðandi aðalmyndverið og sögðust ekki vita um aðra sjónvarpsstöð í Evópu þar sem menn teldu sig hafa efni á því að fréttir væru sendar út úr aðalmyndverinu og þar með bruðlað stórlega með jafndýrt fyrirbæri og stórt myndver er. 

Þetta þýddi einfaldlega, eðli málsins samkvæmt, að nýting myndversins fyrir bæði fréttir og annað efni yrði miklu verri en ella. Það yrði að hætta í miðjumm klíðum við venjulegar en dýrar og flóknar upptökur af því að það væru að koma fréttir! 

Og það væri miklu dýrara og erfiðara, ef það væri þá hægt, að senda út fréttir með þyrftu að fara í loftið með mjög stuttum fyrirvara. 

Því að fréttir hafa þann óhentuga eiginleika að taka oft upp á því að gerast þegar þeim sýndist, en ekki þegar það hentaði bókunum á myndverum. 

Þeim var sagt, að allt væri þetta gert vegna sparnaðar og skorts á fjármagni. Aðalmyndverið hefði upphaflega átt að vera hljóðver í útvarpi og að húsið allt hefði upphaflega verið hannað bara fyrir útvarp og skrifstofur en ekki fyrir sjónvarp. 

Tvö önnur hús hefðu átt að rísa við hliðina, annars vegar fyrir sjónvarp og hins vegar fyrir tækjabúnað, en vegna sparnaðar og fjárskorts orðið að hætta við það. 

Sjónvarpið hefði sem sagt átt að vera í öðru sérstöku húsi með myndverum sem væru hönnuð fyrir fréttir annars vegar og annað sjónvarpsefni hins vegar. 

Ekki minnkaði undrun þeirra við að heyra þetta undarlega sparnaðartal notað um eindæma bruðl, og sömuleiðis það, að vegna sparnaðar og fjárskorts hefðu ekki verið til peningar til að hanna nýtt heildar útvarpshús upp á nýtt.

Hinir erlendu gestir hefðu orðið enn meira undrandi ef þeir hefðu vitað, að vegna sparnaðar yrði haldið áfram með þetta bruðl í fimmtán ár í viðbót. 

Og að ef að líkum léti, myndu ýmsir, í ljós fyrri reynslu, verða til að gagnrýna "bruðlið" sem fælist í því að gera sérstakt fréttamyndver eftir að sérstakt rými fyrir lítið hljóðver hafði beðið eftir því að vera gert að myndveri fyrir fréttir árum saman. 

Hvað um það, - nú er þessari stóru og langvinnu áratuga vitleysu lokið að mestu, en eftir stendur, að svonefnd aðalmyndver og fréttamyndver áttu upphaflega að vera hljóðver fyrir útvarp. 

Það verður sennilega ekki að veruleika hjá núlifandi mönnum að komist verði alla leið á þessari vegferð. 

Og öll þessi saga er afleiðing af þeirri ákvörðun fyrir um fjórum áratugum að láta hanna og reisa alltof stórar og dýrar byggingar við Efstaleiti yfir Ríkisútvarpið. 


mbl.is Nýtt myndver RÚV kostar 184 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér."

Þegar móðir mín heitin vann sem ung stúlka hjá tímaritinu Eimreiðinni, nýútskrifuð úr Verslunarskólanum, var helsta þjónustuboðorðið, sem hún lærði: "Viðskiptavinurinn hefur alltaf rétt fyrir sér."  

Sem þýddi, að leita ætti eftir þeim þörfum og löngunum sem viðskiptavinurinn hefði og gera hann þannig sem ánægðastan, í stað þess að þrasa við hann eða þvinga hann til einhvers annars. 

Ferð sem ég fór á vegum Stöðvar 2 til Írlands 1993, eða fyrir 25 árum, opnaði alveg nýja sýn. 

Írarnir lögðu sig fram um að laða til sín ferðamenn frá Miðjarðarhafslöndunum til þess að uppfylla upplifunarþörf þeirra á einhverju nýju. 

Á vesturströnd Írlands var það hryssingslegt og hvass skúraveðrið, sem stóð af Atlantshafinu, svo að trén á ströndininni voru blaðlaus á þeirri hlið sem sneri að saltrokinu. 

Þessi ferðamenn voru ekki komnir til að upplifa steikjandi sólarhita, logn og heiðskírt veður. 

Þurftu ekki að ferðast til þess. 

Eftir þetta gerðí ég margar fréttir um þetta fyrirbæri, "upplifunarferðamennskuna" og hef sagt frá ýmsu hér á bloggsíðunni. 

2005 opnaði ferð til Lapplands augu mín enn betur. Þar var helsti markhópurinn lokkaður þangað norður í rassgat til að upplifa fernt:  Kulda, myrkur, þögn og ósnortna náttúru.. 

Þetta fernt er nánast allt það sem við höfum talið okkur trú um að sé það mest fráhrindandi sem hugsast gæti. 

2005 komu fleiri ferðamenn til Lapplands að vetrarlagi en komu til Íslands allt árið. 

Eftirtalar vonleysis mótbárur okkar voru léttvægar fundnar í vetrarferðalaginu um Lappland: 

1. Ísland er of langt í burtu.  Svar:   Það er styttra til Íslands frá flestum löndum í vestanverðri Evrópu en til Lapplands. 

2. Það er alltof mikið myrkur:    Svar: Lappland liggur norðar en Ísland og þar er enn meira myrkur.  

3. Það er alltof kalt, já skítakuldi á Íslandi.  Svar: Það er miklu kaldara, fimbulfrost í Lapplandi. 

4. Það er ekki hægt að sýna útlendingum neitt.  Svar: Jú, upp úr stríðinu skrifuðu evrópsk börn bréf til jólasveinsins á Íslandi. Þetta þótti hvimleitt hjá okkur og tómt vesen og urðum við fegin þegar þessu linnti.  En Finnarnir í Rovaniemi sáu hvað var á seyði og lokka hundruð þúsunda til Lapplands ár hvert til að upplifa jólasveininn, af því að hann býr í Lapplandi, ekki á Íslandi. 

5. Ókey, Finnarnir hirtu jólasveininn af okkur og þar með eigum við ekkert.  Svar: Jæja, það er bara einn jólasveinn í Lapplandi en 13 hjá okkur auk Grýlu, Leppaljóða, álfanna og tröllanna.  Finnarnir eiga hreindýr og hreindýrasleða til að bruna á um frosin vötn á heiðum, en við eigum líka hreindyr sem gætu dregið hreindýrasleða til að bruna á um frosin vötn og heiðar, - en þar að auki eigum við stórkostleg eldfjöll og eldfjallanáttúru. 


mbl.is Ferðaþjónustan öflug heilsársgrein
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heill flokkur hjóla gleymist.

Ekki þarf annað en að koma í evrópska borg á meginlandi álfunnar til að sjá flokk hjóla á ferð í umferðinni þar sem nær alveg vantar í islenska umferð. Niu N GTX (2)

Þetta eru bæði bensínknúin og rafknúin hjól, sem eru öflugri en þau hjól, sem nota má á hjólastígum og eru því notuð í almennri götuumferð. 

Hvað rafknúin hjól snertir eru gríðarlegar framfarir í gerð þeirra hjóla, sem komast bæði hraðar en 25km/klst og eru mun kraftmeiri en hjólin á hjólastígunum. 

Sem dæmi má nefna hjól af gerðinni Niu-N-GTX með drægni upp á 180 km á 40 km hraða við bestu aðstæður, en nær líka allt að 100 km hraða ef á þarf að halda, en auðvitað á kostnað drægninnar. kawasaki-j300-640x408-620x395 

Sömuleiðis gerir léttleiki og sparneytni þessara hjóla það mögulegt að þau séu með færanlegar rafhlöður, sem hægt er að taka úr hjólinu og setja í samband við venjulegar innstungur á heimilum. 

Verðið á þessum hjólum er enn dálítið hátt, en þá er hinn möguleikinn fyrir hendi, að nota bensínknúin hjól með vélarstærð frá 110 til 155 cc, sem eyða aðeins um tveimur lítrum á hundraðið og kosta aðeins um tíunda hluta þess sem rafbíll kostar, en ná þó 90-115 kílómetra hraða. 

Vegna þess hve kolefnisfótsporið við smíði þessara hjóla, viðhald og förgun og sömuleiðis kolefnisfótspor eigandans við að vinna fyrir þessum útgjöldum, er hugsanlegt að svona hjól sé jefnvel með minna heildar kolefnisfótspor en rafbíll. 

Einnig er á það að líta hve gríðarlegur ávinningur er af því hve mikið rými losnar á götunum við notkun svona hjóla. 

Í annars ágætri umfjöllun Kastljóss í Sjónvarpinu voru bornir saman þrír rafrænir kostir, 25 km hraða rafhjól, rafbíll og rafstrætó. 

Á milli rafhjólanna og rafbílanna er heil flóra af rafknúnum tækjum, - og einnig þyrfti að láta reyna á notkun "vespuhjóla" með vélarstærð frá 110 cc upp í 155 cc. 


mbl.is Vöxtur hjólreiða kom aftan að fólki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengdarlaus steinbákn, hákassar og hávaði.

Margar borgir Evrópu urðu fyrir búsifjum af völdum loftárása í Seinni heimsstyrjöldinni. 

Í ákafanum við að byggja þær upp að nýju fengu stórkarlar stein- og glerbákna að leika lausum hala og eyðileggja þá þægilegu og aðlaðandi borgarstemningu sem gömlu borgarhlutarnir höfðu haft. 

Hefur það verið harmað víða síðar meir, og þær borgir, sem þykja vinalegastar og mest aðlaðandi eru borgir á borð við Prag, sem slapp við loftárásirnar. 

Hér á landi sluppum við við eyðileggingu stríðsins, en því miður ekki við ágang þeirra, sem vildu elta steinsteypu- og glerjahalaæðið, sem rann á borgaryfirvöld, arkitekta og byggingarfíkla erlendis. 

Litlu mátti muna að Bernhöftstorfan yrði rifin og reist þar mikið steinbákn og rutt burtu húsum til að rýma fyrir stórum hraðbrautum um Reykjavík fyrirstríðsáranna auk þess að leggja margfalda hraðbraut eftir endilöngum Fossvogsdalnum. 

Heldur slaknaði á þessum ofstopa um sinn, en á síðustu árum hefur keyrt um þverbak samfara stórfjölgun ferðamanna. 

Það er bókstaflega verið að drekkja borginni okkar í svo stórkarlalegum hótelum, sem standa sums staðar næstum því í röðum, að maður þekkir varla borgina lengur. 

Allir möguleikar á að búa til friðsælt íslenskt umhverfi í borginni hafa verið eyðilagðir með þessum andskota, - afsakið orðbragðið. 

Stóru steinkassarnir yfirgnæfa og kaffæra allt, loka fyrir útsýni og eru á góðri leið með að fæla innfædda og eðlilega verslun þeirra í burtu. 

Vaðið er yfir einn helgasta reit landsins, Víkurkirkjugarð, sem á sér sögu aftur til landnáms, þrengt að Alþingi og öðrum merkum stöðum.  

Hávaði virðist eiga að verða eitt af táknum Reykjavíkur og Reykvíkingum, jafnt sjúklingum sem nemendum í skólum. 

Græðgin gagnvart ferðamönnum er látin grassera svo mjög, að hún og ferðamannafjöldinn, sem hrúga á inn í öll þessi hótel, fela í sér hættu á sjálfseyðingu. 


mbl.is Vinnuvélar slá taktinn í miðbænum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Berlínarmúrinn bliknar í samanburðinum.

Múrarnir, sem Donald Trump vill reisa þvert yfir heilu heimsálfurnar, stefna hraðbyri í það að verða 10 þúsund kílómetra langir samtals. 

Berlínarmúrinn frægi, sem  mestöll heimsbyggðin stóð á öndinni yfir og fordæmdi frá 1961 til 1989 og var aðeins nokkrir tugir kílómetra, bliknar í samanburðinum. 

Hlutverk Berlínarmúrsins var að koma í veg fyrir straum fólk til betri heimkynna, og risamúrar Trumps eiga að hafa svipað hlutverk. 

Ekki fylgir sögunni hvernig eigi að múra inni allt það fólk í Afríku, sem myndi eiga heima norðan hins glæsilega Trump-múrs og þyrfti því ekki að fara yfir neinn múr til að komast að Atlantshafinu. 

Og ekki fylgir heldur sögunni hvernig Spánverjar eiga að ráðast í þetta mikla stórvirki á yfirráðasvæðum annarra þjóða. Líklega eru landamæri smámunir í augum Trumps þegar Bandaríkin eru orðin "great again." 

Í ofanálag við múr þúsundir kilómetra yfir víðáttur mestu sandflæma jarðar, vill Trump stofna sérstakan bandarískan geimher, til þess að tryggja yfirráð Bandaríkjanna yfir geimnum, en það gæti jafngilt kúlulaga geim-múr umhverfis alla jarðarbúa og yrðu allir jarðarbúar þá innan vébanda yfirráða Bandaríkjahers. 

Því að eftir Saharamúrinn, Mexíkómúrinn og fleiri væntanlegra múra verður Trump sennilega ekki skotaskuld úr því að reisa sérstakan geim-múr til þess að tryggja bandarísk yfirráð út fyrir endimörk sólkerfisins hið minnsta. 


mbl.is Lagði til vegg yfir Sahara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband