Ekki sama andrúmsloft og 2010.

Andrúmsloftið í síðustu byggðakosningum 2010 var um margt óvenjulegt. Stutt var frá Hruni og enda þótt óvenjugóður "vinnufriður" hefði verið í borgarstjórn Reykjavíkur síðasta ár kjörtímabilsins, var það skammt tilið frá einstæðri ringulreið og upphlaupjum í borgarstjórninni árin á undan, að það var efst í hugum stórs hluts kjósenda.

Þess vegna fengu ný framboð í stærstu bæjum landsins mikinn hljómgrunn og athygli, sem skilaði sér í stórsigrum þeirra.

Nú er annað andrúmsloft en 2010 og fátt nýtt eða spennandi að gerast. Í Reykjavík er ómögulegt að stærsta málið, flugvallarmálið, hafi nein teljandi áhrif á kosningarnar, því að framboðin hafa að mestu leyti sameinast um að setja önnur mál, sem eru nærtækari fyrir budduna, á oddinn í umræðunni.

Að höfða sem beinast til buddunnar hefur löngum dugað vel, bæði hér og erlendis.

En dauflegra andrúmsloft en 2010 mun líklega aðeins hraða þeirri vondu þróun, að fólk taki æ minni þátt í kosningum og stjórnmálum.  

Einn bloggarinn hefur reyndar fundið allsherjar skýringu á sífellt minnkandi kosningaþátttöku: Það er Samfylkingunni og VG að kenna.

Sami bloggari hefur haft það sem næstum daglegt stef í heilt ár að benda á að Sf sé 12,9% smáflokkur. Má það heita með ólíkindum að svo aumt stjórnmálaafl í hans huga beri ábyrgð á minnkandi kosningaþátttöku almennings.  


mbl.is Fyrstu tölur í Reykjavík um kl. 22.30
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslensk "leyni-eldgos."

Ísland er hluti af Reykjaneshryggnum sem teygist langt suður í haf og vafalaust hafa oft orðið eldgos þar á miklu dýpi án þess að þess sæist stað á yfirborðinu.

Mikil eldgosahrina gekk yfir landið 1783 og gaus ekki aðeins bæði suðvestan og síðan norðaustan við fjallið Laka og hraun gengu í tvær áttir frá þeim, heldur varð líka gos skammt undan Reykjanesi og síðan í Grímsvötnum.

Talið er líklegt að lítið eldgos hafi orðið undir ís við Hamarinn í ágúst 1996, rúmum mánuði áður en að síðan gaus í Gjálp.

Margt bendir til þess að lítið eldgos hafi orðið í Kötlu 1955 þegar Múlakvísl hljóp og ef til vill aftur þegar hljóp aftur í sambandi við skjálftahrinur þar fyrir þremur árum.

Fyrr á öldum urðu áreiðanlega minni háttar eldsumbrot í norðanverðum Vatnajökli, svo sem í Kverkfjöllum, án þess að þess yrði vart í byggð.   

Minnsta eldgos á Íslandi og kannski í heiminum er sennilega gos, sem varð í Bjarnarflagi, að mig minnir veturinn 1979, þegar gljóandi gjall kom upp úr borholuröri þar og dreifðist í kringum hana.  


mbl.is Merki um eldgos á Reykjaneshryggnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gert á hverjum degi um allt land.

Óteljandi eru þau skipti sem maður sér bílstjóra leggja bílum sínum í tvö stæði eða jafnvel allt upp í fimm ! Þetta hefur viðgengist hér á landi í áraraðir vegna þess að ekkert er aðhafst af hálfu lögreglu vegna þessara umferðarbrota og myndin á tengdri frétt á mbl.is sýnir þess vegna alvanalega íslenska hegðun.

Í Ameríku fjarlægir lögreglan svona bíla, lætur ökumennina borga kostnaðinn og sektar þá þar að auki.

"Á Íslandi við getum verið kóngar allir hreint" er hins vegar í fullu gildi hér á landi upp úr og niður úr.  

Nýlega kom ég á stað, þar sem var mikil umferð fólks og slegist var um bílastæðin. Þar lagði einn pallbílaeigandi bíl sínum þversum í ein fimm bílastæði ! Er búinn að setja ljósmynd á facebook síðu mína sem sýnir þetta.

Réttlætingarnar fyrir þessari frekju eru endalausar:

"Ég vil vera öruggur um að bíllinn minn sé ekki rispaður."

"Ég kom hérna á undan þér."

"Það var bíll hér, sem er farinn, en þvingaði mig til að leggja svona." Þetta er meira að segja sagt þótt bíllinn standi yst á stæðinu og enginn bíll hafi getað staðið þannig að það hafi valdið neinni þvingun. Líka sagt þótt maður hafi horft á þegar lagt var og séð að afsökunin er lygi.

Vegna þess hve ég ek um á litlum bílum, get ég oft lagt löglega innan settra marka, þótt búið sé að leggja öðrum bíl hálfum inn á það bílastæði. Ég er yfirleitt sjaldan í vandræðum að finna stæði fyrir örbílana mína, því að oftast er einhverjum bílum lagt ólöglega, sem gefa mér einum færi á að nýta hálf skert bílastæði. 

Að því leyti til get ég því verið persónulega þakklátur fyrir hina séríslensku hefð.  

Yfirleitt bregðast þeir plássfreku ókvæða við og saka mig um yfirgang. Einn sagði að ég kæmi í veg fyrir að kona hans kæmist farþegamegin inn í bílinn með því að leggja svona þétt upp að honum.

Ég sagðist vera með kaðal og geta dregið hann og gæti líka skutlast eftir hjólastól fyrir konuna hans. Hann varð eitt spurningamerki. "Jú," sagði ég, "það er greinilega bilaður bakkgírinn á bílnum þínum úr því að þú getur ekki bakkað þessa tvo metra sem þarf til að konan þín komist inn í bílinn, og ef hún getur ekki gengið þessa fáu metra, er sjálfsagt mál að ná í hjólastól."  

Ég hef líka svarað þessu fólki með því að hvetja það til að sækja lögreglu og láta hana skera úr. Þá sljákkar yfirleitt í því eða það ekur bölvandi og ragnandi í burtu.

Í því tilfelli sem myndin á facebook síðunni var tekin, voru flestir aðrir bílar farnir þegar ég kom að sækja minn bíl. Ég veit því ekki hvernig pallbílsbílstjórinn hefur brugðist við. Stundum sjá viðkomandi og viðurkenna að þeir hafi farið rangt að og kannski var það þannig í þetta skipti.

En oftar er það að þeir verða öskureiðir yfir afskiptaseminni og frekjunni í mér.  

Síðan er það hvernig ófatlaðir leggja í stæði fyrir hreyfihamlaða. Nákvæmlega sami yfirgangurinn.  


mbl.is Range Rover-eigandi tekur alltaf tvö stæði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðalkosningamálið: 9 metra spíra orðin að "helsta kennileiti borgarinnar."

Það vill svo til að frá barnæsku hef ég verið nörd í landafræði, sem stundum hefur virst smásmuguleg.

En fyrir bragðið þekki ég nokkrar staðreyndir án þess að þurfa að fletta þeim upp varðandi það mál, sem hefur orðið svo langmest umrædda málið fyrir borgarstjórnarstjórnarkosningarnar nú, að héðan af verður því ekki breytt.

Hér eru nokkrar staðreyndir:

Í rúm 20 ár, fram til ársins 1944, var Landakotskirkja "helsta kennileiti borgarinnar" af því turn hennar náði upp í 52ja metra hæð yfir sjó og sást í tuga kílómetra fjarlægð frá borginni. 

"Það er nú einu sinni þjóðkirkja hér á landi" segir Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir núna um 9 metra háa turnspíru í Sogamýri, en hvað hefði hún sagt í þá tvo áratugi sem kaþólsk kirkja var helsta kennileiti borgarinnar.

1944 bættist Sjómannaskólinn við með turn, sem náði upp í um 70 metra hæð yfir sjó og varð að öðru af tveimur helstu kennileitum borgarinnar, og þessi tvö kennileiti réðu ríkjum fram undir 1970, eða í tæpa hálfa öld, og annað þeirra var var kaþólsk kirkja, ekki þjóðkirkja.

Þegar Hallgrímskirkja kom til sögunnar er hún óumdeilanlega helsta kennileiti borgarinnar, með 74 metra háum turni, sem teygir sig upp í 112 metra hæð yfir sjó.

Hún sést um allan sunnanverðan Faxaflóa, sést ofan frá Mýrum, Akranesi, Kjalarnesi, Mosfellsbæ, Mosfellsheiði, Svínahrauni og af öllum norðvestanverðum Reykjanesskaga út á Suðurnes.

Nú bregður svo við að 220 manna trúfélag er talið svo hættulegt, án þess að nokkrar sönnur hafi verið færðar á það hafi í neinu brotið gegn siðum eða allsherjarreglu, að það eigi, eitt allra trúfélaga, skilið að verða svipt réttri trúfélaga til úthlutunar á lóð, og að eftir 14 ára bið þessa trúfélags eftir úthlutun, þurfi að afturkalla hana og láta kannski enn ein 14 ár í viðbót bætast við.

Turnspíran, sem nú er talin verða að "helsta kennileiti borgarinnar" nær í mesta lagi í einn sjöunda af hæð Hallgrímskirkju yfir sjó, og auðvelt væri, ef menn endilega vilja það, að "fela" hana með skógrækt í kringum þessa lóð.

Ég kleip mig í handlegginn fyrir viku þegar stóra moskumálið varð að aðalmáli heilla kosninga og ég klíp mig enn.   

 


mbl.is „Drögum ekki fylgi frá öfgahópum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Túrbínutrixin.

Túrbínutrixið, sem ég kalla svo, var þegar stjórn Laxárvirkjunar keypti árið 1970 túrbínur í stórstækkaða virkjun sem byggjast átti á því að sökkva Laxárdal undir lón og veita Skjálfandafljóti í Kráká, Mývatn og nýja lónið.

Þegar andstaða varð við þetta hjá landeigendum og fleirum, sem ekkert hafði verið rætt við eða talað við, var þeim stillt upp við vegg sem ábyrgðarmenn á stórfelldu tjóni sem myndi verða ef túrbínurnar yrðu ónotaðar.

Sigurður Gizurarson verjandi andófsfólksins, sneri ábyrgðinni hins vegar við og benti á að eðlilegt væri að afleiðingarnar af siðlausu frumhlaupi og yfirgangr túrbínukaupendanna yrðu á ábyrgð þeirra sjálfra.   

Síðan hafa svipuð trix verið notuð aftur og aftur. Nýjasta afbrigðið kom fram í frétt Kristjáns Más Unnarssonar þess efnis, að Landvirkjun hefði ráðstafað 75 megavöttum frá hinni nýju Búðarhálsvirkjun með samningi við Ríó Tintó sem hefur samt komið þannig út, að Ríó Tintó getur komist upp með það að nota ekki nema 30 megavött af þessum 75 en halda 45 megavöttum í gíslingu, en það myndi nægja og vel það fyrir eina af þeim kísilverksmiðjum sem nú banka á dyrnar hjá okkur.

Og í morgun kom fram í fréttum að Landsvirkjun teldi sig verða að fara þegar í stað út í virkjanir í Þjórsá til að útvega orku fyrir þar kísilverksmiðjur sem nú banka á dyrnar.

Þegar litið er baka yfir síðasta áratug sést hvernig íslensk valdaöfl og ráðamenn hafa hamast við að selja mesta orku á útsölu- eða gjafverði til mestu orkubruðlara heims, álver.

Í kosningabaráttunni fyrir kosningarnar 2007 héldum við í Íslandshreyfingunni því stíft fram, að þessi stefna væri hreint glapræði, því að til væru orkukaupendur, sem myndu vilja borga mun hærra verð, nota mun minni orku miðað við framleiðslu og framlegð og skapa betri og betur launuð stöf og miklu fleiri störf miðað við orkueyðslu en álverin sköpuðu.

Þótt við bentum þá strax á gagnaver og fleiri tegundir af verksmiðjum, töldu áltrúarmenn þetta rangt hjá okkur

En annað hefur nú komið í ljós, - nákvæmlega það sem við sögðum, að það hefði átt að bíða og hætta strax á þeirri braut að auka orkusölu til álveranna og eiga frekar orku til mun betri kaupenda.

En í því hvernig áltrúnaðurinn hefur mokað orkunni til álveranna hefur falist risavaxið túrbínutrix, sem felst í því að þegar reynt er að bjarga náttúruverðmætum, og að vísa ábyrgð af stöðunni til þeirra sem bjuggu þessa stöðu til, þá stilla áltrúarmenn andófsfólkinu og landsmönnum upp við vegg með því það taki afleiðingunum af alrangri og siðlausri stefnu stóriðjufíklanna.

  

    


mbl.is Framkvæmdir á Bakka hefjist í ágúst
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Smæð þjóðfélagsins getur verið kostur.

Bandaríkjamenn eru þúsund sinnum fleiri en Íslendingar. Slæmar fréttir?  Nei, góðar fréttir ef það er skoðað, að uppgangsfyrirtæki á Íslandi er hlutfallslega þúsund sinnum mikilvægara fyrir örþjóð eins og okkur heldur en stórþjóð eins og Bandaríkjamenn.

Þess vegna er gott gengi íslensks fyrirtækis á hinum stóra alþjóðlega markaði svo dýrmætur fyrir okkur og svo mikilvægt fyrir okkur að hlúa að slíkum rekstri.

En þá verður líka að búa svo um hnúta að fyrirtækið hafi aðstöðu til þessarar alþjóðlegu samkeppni, þótt það sé staðsett hér á landi, skapi störf hér á landi og skili arðinum hingað.

Meðan gjaldeyrishöft og þröngsýni ríkja hér er hætt við að um leið og vel fer að ganga fyrir íslenskt fyrirtæki á alþjóðlegum markaði, missum við það úr landi.  


mbl.is Sjá stór tækifæri um allan heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ánægjuleg stund á Reykjavíkurflugvelli.

Það var viðeigandi í dag að það færi svo, vegna veðurs um síðustu helgi, að uppstigningardagur skyldi verða fyrir valinu fyrir árlegan flugdag, svo dásamleg sem sú tilfinng er að "stíga upp" í átt til himins.

Það leit ekki vel út fram yfir hádegi með veðrið, en það rættist úr því að stundin úti á flugvelli var einstaklega ánægjuleg.

Ég hafði að vísu lofað mér austur á Hvolsvöll um hádegið en komst þó á flugsýninguna klukkan 13:40 og tókst það ætlunarverk mitt, að taka kvikmynd af hinum 86 ára gamla flugkappa Magnúsi Norðdal að brillera.

Þegar hann framkvæmir hið einstæða sýningaratriði sitt í listflugi á Yak-55, sem felur í sér að fara í svonefnt Lomcowack, sem er tékkneskt listflugsatriði og ekki keppt í á listflugsmótum, er það hugsanlega einstakt á heimsvísu að svo gamall maður skuli geta gert þetta yfirleitt, að ekki sé talað um á hve glæsilegan hátt það er gert.

Þess vegna reyndi ég að festa þetta á filmu í dag auk þess sem það var ánægjulegt að hitta fjölda fólks á öllum aldri og af öllum stigum og spjalla við það. 

Ég hef líklega ekki verið með flugvél á flugsýningu hér fyrir sunnan í meira en 25 ár, en viðvera flugvélarinnar ein gefur tækifæri til beinna og meira spjalls um flugið og dásemdir þess en ella.

Vísa á ljósmynd af stemningunni á flugsýningunni á facebook-síðu minni.    


mbl.is Margmenni á Reykjavíkurflugvelli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður andi á starfsmannafundi Tryggingarstofnunar.

Það var ánægjulegt að vera viðstaddur starfsmannafund Tryggingarstofnunar í gærmorgun, ekki aðeins vegna þess tilefnis að trú og góð starfskona, Björg Hulda Sölvadóttir, var heiðruð fyrir hálfrar aldar farsælt starf, heldur ekki síður vegna þess að í máli þeirra sem töluðu kom fram að mikið væri lagt upp úr því að bæta starfsanda, þjónustu og andrúmsloft hjá stofnuninni.

Fram komu meðal annars þær upplýsingar að í könnun á áliti viðskiptavina hinna ýmsu stofnana og fyrirtækja fyrir nokkrum árum hafi Tryggingastofnun lent neðarlega á blaði, fyrir neðan meðallag.

Það ætti kannski ekki að koma á óvart, því að flestir sem þurfa þangað að leita, gera það vegna þess að þeir standa höllum fæti í þjóðfélaginu, svo sem vegna fötlunar og aldurs.

En þessu hefur tekist að snúa við á siðustu árum og upplýst var nú væri Tryggingastofnun vel fyrir ofan meðallagið.   


mbl.is Hálfa öld í Tryggingastofnun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Everest, Ásbyrgi - Skógafoss.

Everest, hæsta fjall heim, gnæfir enn upp í himinhvolfið með ósnerta útsýn til sín úr öllum áttum. Engum hefur enn dottið í hug, enda ekki framkvæmanlegt, að setja í alla dali umhverfis fjallið svo risastór og viðfeðm hótel, að engin leið verði að eiga leið að fjallinu eða framhjá því til að fá útsýn til þess ótruflaða, nema að sjá hótelið fyrst og helst að kaupa sér herbergi í því til að njóta útsýnis til fjallsins.

Frá norðausturhorni Íslands suður til Vatnajökuls og þaðan ótruflað í suðvestur til Suðurjökla og niður á sandana sunnan við þau liggur ósnortin og einstæð náttúra Íslands, eitt af örfáum helstu undrum veraldar.

Inni í þessi svæði er keðja ótal náttúruundra, allt frá Ásbyrgi, Jökulsárgljúfri og Dettifossi í norðri, um Herðubreið, Öskju, Kverkfjöll, Vatnajökul, Grímsvötn, Lakagíga og Fjallabak yfir Mýrdalsjökuls niður um Skógafoss.

Nú er búið að ákveða að í stað þess að ferðafólk sem fer framhjá Skógafossi og sér hann ótruflaðan af mannvirkjum frá hringveginum skuli hér eftir sæta því að í forgrunni á þeim örstutta kafla, þar sem fossinn blasir beint við, skuli rísa stærðar hótel með tilheyrandi þyrpingu af byggingum, sem byrgja muni sýn til fossins.

Það er til þess að besta útsýnið til fossins verði í höndum hinna útvöldu, sem geta keypt sér gistingu í þessu hóteli.

Nefna má marga hliðstæða staði í heiminum, þar sem mönnum dettur ekki svona lagað í hug.

En á Íslandi er þetta gert. Nú er að rísa hár turn við Frakkastíg í Reykjavík sem eyðileggja á allt útsýni hundraða þúsunda heimamanna og ferðamanna, sem hafa getað horft niður stíginn með óhindrað útsýni yfir Kollafjörð og Esjuna.

Íbúðir hinna útvöldu í turninum, sem munu troða sér með búsetu þar fram fyrir almúgann til að njóta þess útsýnis, sem rænt var af honum, munu seljast á margra milljóna hærra verði hver, turneigendum til ágóða.

Ég er á leið austur á Hvolsvöll að hitta ferskt ungt fólk, sem ætlar í sérframboð vegna þess, að áformin við Skógafoss fyllti mælinn í huga þess varðandi eftirlátssemi við þá sem vilja troða sér fram fyrir almenning til að geta selt herbergi eða íbúðir á uppsprengdu verði.

Ég hlakka til að hitta þetta fólk þótt tilefnið sé dapurlegt.  


mbl.is Fyrsti Færeyingurinn á toppi Everest
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

65 ára gamalt trix og Framsókn með eina konu inni.

Trixið, sem virðist ætla að skila Framsókn konu inn í borgarstjórn, er gamalkunnugt og var fyrst reynt af þeim flokki í Alþingiskosningunum 1949. Þá hafði Framsókn aldrei verið neitt nálægt því að fá þingmann í Reykjavík en hugkvæmdist að gera tvennt í einu:

1. Bjóða fram vel menntaða konu, lögmann hvorki meira né minna, en það var afar sjaldgæft þá.

2. Keyra á eitt afmarkað einfalt mál sem myndi draga að sér alla athyglina í kosningunum í Reykjavík.

Rannveig Þorsteinsdóttir náði svo sannarlega athyglinni í Reykjavík í þessum kosningum og gerði það með því að yfirbjóða þá, sem gagnrýndu harðlega spillinguna sem ríkisstýrð skömmtun og höft höfðu innleitt.

Hún fór meira að segja létt með að taka upp miklu harðari afstöðu en kommarnir, sem voru þá í stjórnarandstöðu og gagnrýndu þáverandi ríkisstjórnarflokka harðlega. Hún réðist hreinlega á þá flokka sem stóðu lengst til hægri og þar með á sinn eigin flokk.

"Ég segi fjárplógsstarfseminni stríð á hendur!" hrópaði Rannveig. Já, hvorki meira né minna: Stríð !

Ég man vel eftir þessu, svo mikla athygli vakti það.

Hún var kosin á þing en fyrr en varði höfðu helstu fjárplógsöfl landsins ekki aðeins tekið upp það sem Rannveig sagðist vera á móti, heldur keyrðu þau spillinguna í nýjar hæðir næstu sex árin í tveimur ríkisstjórnum Sjalla og Framsóknar sem fengu nafnið Helmingarskiptastjórnirnar.

Kommissarar flokkanna skiptu eftirsóttustu gæðum, sem skömmtuð voru, bróðurlega á milli sín.

Einn af skólafélögum mínum hafði meira segja það sendilsstarf að fara á milli með skilaboð um skiptingu gæðanna, hvaða einkavinir Sjallanna fengju Packard eða Chrysler sem umbun fyrir góða flokksþjónustu og hverjir teldust minni spámenn og fengju bara amerískan eða jafnvel þýskan eða breskan Ford, Wolkswagen, Pobeda eða Moskwitch, -  og hvaða einkavinir Framsóknarforystunnar fengju Buick og Oldsmobile en hverjir væri það smáir spámenn að þeir fengju aðeins Chevrolet, Opel eða Wauxhall.

Stríðsyfirlýsingar Rannveigar gufuðu auðvitað upp og hún hvarf gersamlega, bæði inni á þinginu og síðan af þingi.

Nú býður Framsókn fram konu, sem hefur fundið sér eitt afmarkað og einfalt mál, sem tekur alla athyglina í kosningabaráttunni. Og fer sennilega inn eins og Rannveig forðum daga og enn og aftur er málefnið þess eðlis, að það er á skjön við stefnu flokks hennar.

Hvort hún hverfur eftir kjörtímabilið er síðan önnur saga. En 65 ára gamalt trix virðist ætla að virka.  

Í aðdraganda Alþingiskosninganna 2007 fann Frjálslyndi flokkurinn sér sama málefni og Framsókn nú í borgarstjórn og það dugði til að flokkurinn dytti ekki af þingi þá.

En eins og Rannveig datt hann af þingi fjórum síðar.

Ekkert er nýtt undir sólinni. Og gullfiskaminnið sér til þess að sömu trixin virka endalaust.  

   


mbl.is Framsókn með einn mann í borginni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband