Hvílíkar 18 mínútur!

Síðasta mínúta leiks Austurríkismanna og Íslendinga verður lengi í minnum hafður en það er sama hvernig leikurinn, sem nú stendur yfir, fer, fyrstu 18 mínúturnar, hvílík veisla!

Hvílík dramatík! Hvílík frammistaða! Hún sýndi upp á hvað íslenska landsliðið í knattspyrnu gertur boðið þegar sá er gállinn á því.


mbl.is Ísland áfram eftir sögulegan sigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjálmurinn bjargar mörgum. Þarf að binda hann.

Ég get tekið undir með Sigmari Breka Sigurðssyni og hans fólki um það hvernig hlífðarhjálmur getur bjargað fólki, bæði ungu og gömlu frá stórslysi og jafnvel örkumlum og dauða.

Fyrir rúmum tveimur mánuðum reyndi ég þetta á sjálfum mér ég varð fyrir bíl og kastaðist upp á framrúðuna á reiðhjólinu mínu, braut framrúðuna með hjálmnum og kastaðist síðan eins og Sigmar Breki, og í svona slysi er um að ræða tvo árekstra, hinn fyrri við bílinn, en hinn síðari jafnvel miklu harðari við að lenda úr fluginu á malbikinu.

Ég hef nefnt hið síðarnefnda "að lenda í árekstir við gatnakerfi Reykjavíkur."

En það er ekki nóg að hafa hjálm ef hann er ekki bundinn með bandi undir hökuna.

Því miður hefu ég séð of marga með hjálminn óbundinn, og þá er hætta á því að hjálmurinn hafi fokið af í fyrri árekstrinum og hinn síðari því orðið án hjálms.


mbl.is Hjálmurinn bjargaði Sigmari
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er bara einn Maradona

Sumir sögðu að Pelé hefði verið lykillinn að heimsmeistaratitli Brasilíumanna.

Það snerist allt í kringum Puskás hjá ungverkska landsliðinu, besta landsliði heims 1956.  

Enginn knattspyrnumaður hefur fengið þau ummæli að enda þótt knattspyrna sé hópíþrótt hafi hann fært landi sínu heimsmeistaratitil.  Nema auðvitað Maradona.  

Það er erfitt fyrir besta knattspyrnumann heims að spila með lélegu landsliði og endurtaka afrek Maradona. Það er ekki bara vegna þess að liðið er ekki nógu gott heldur sennilega það að það hefur aldrei verið neinn annar Maradona. 


mbl.is Messi er hættur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enginn verður samur ferð yfir Grænlandsjökul.

Það skiptir ekki máli hvort gengið er yfir Grænlandsjökul eða farið á farartækjum hvað það snertir að jökullinn sjálfur hefur þau áhrif, að enginn verður samur eftir slíka ferð.

Víst er Vatnajökull einstakur og býður upp á staði eins og Grímsvötn og Kverkfjöll, sem hvergi finnast annar staðar á jarðríki.

En stærð, hæð og mikilleiki Grænlandsjökuls er í slíkum mæli, að í samanburðinum verða íslenskir jöklar líkari sköflum. Grænlandsjökull er einfaldlega 200 sinnum stærri og meira en þúsund metrum hærri og risinn meðal íslenskra jökla.

Ég átti þess kost að fara í einu jeppaferðina, sem farin hefur verið yfir jökulinn, og enda þótt aðstæðurnar hafi verið gerólíkar því sem þær eru þegar gengið er eða farið á hundasleðum, þurfti samt að sofa í tjaldi í svefnpoka sem gæti staðist 30 stiga frost og ég á enn.

Leiðin lá frá Ísortoq í nágrenni Kulusuk yfir til Kangerlussuaq eða Syðri-Straumfjarðar á vesturströndinni og farið var upp í um 3000 metra hæð.

Síðustu 100-200 kílómetrarnir voru og eru erfiðastir og hrikalegastir, svakalegur skriðjökull með ótal sprungum og hættulegum hindrunum, krapa og grófu íslandslagi.

Þar fyrir vestan er komið niður í einstaklega fallegan dal með rennandi jökulsá í fossaflúðum og hreindýraslóðum.

Í nágrenni alþjóðaflugvallarins í Kangerlussuaq eru sandöldur, og allt í einu uppi á einni þeirra birtist flugvöllurinn í landslagi sem líkist frekar eyðimerkurlandslagi Arabalanda en þessum mikla heimskautslandi.

Í júlí er þar 16 stiga meðalhiti á daginn, hærri en nokkurs staðar annars staðar norðan heimskautsbaugs, á sama tíma og á austurströndinni, hinum megin við jökulinn, þar sem hitinn í júlí rétt skríður yfir 4 stig.

Eitt af mörgum atriðum sem sýnir öfgar og hrikalegar andstæður þessa mikla lands, sem liggur aðeins 285 kílómetra frá Vestfjörðum.

Ég lýsti fyrirbærum þessum lítillega í bókinni "Ljósið yfir landinu" og nú loks hillir undir það að geta farið í það verkefni að setja saman sjónvarpsmynd um þennan leiðangur, þótt seint sé.


mbl.is Í tíunda sinn yfir Grænlandsjökul
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svipaðir straumar í forsetakosningum fyrr og nú.

Í fyrstu forsetakosnningunum hér á landi 1952 komu fram svipaðir straumar og síðan hafa ráðið miklu um úrslitin 1968, 1980, 1996 og 2016 varðandi val á nýjum forseta.

1952 vann frambjóðandi sem bauð sig fram á móti frambjóðanda þáverandi stjórnarflokka Sjalla og Framsóknar.

Í því félst aðallega tvennt: Að kjósa yngri mann og öðruvísi en fráfarandi forseti var og mann sem gæti verið ákveðið mótvægi við ríkjandi stjórnmálaöfl.

1968 var þetta enn meira áberandi, einkum hvað varðaði hið síðarnefnda, mótvægi við rikjandi öfl.

1980 kom það fram að kjósa frekar unga, glæsilega og vel menntaða konu sem mótvægi við endalaust karlaveldi heldur en miðaldra eða roskna karlmenn, sem var hægt að líta á sem hluta af kerfinu.

1996 voru Sjallar og Framsóknn við stjórn eins og 1952 og aftur var kosinn glæsilegur maður, sem þar að auki gat orðið mótvægi við ríkjandi stjórnmálaöfl.

2016 stendur þannig á að í þriðja sinn þegar kosinn er nýr forseti, eru Sjallar og Framsókn viö völd, enda ekki kosinn frambjóðandi sem hafði verið þar í flokki.

Fráfarandi forseti var karl á ellilaunum og þegar ég var að ræða þessi mál í vetur þegar fólk var að nefna ýmis nöfn, benti ég á það, að líklegast yrði að næsti forseti yrði alger andstæða Ólafs Ragnarson, ung og glæsileg kona.

Að því leyti sýndist mér þá að enda þótt Andri Snær Magnason væri að mínum dómi sá kandidat, sem helst væri maður framtíðarinnar og 21. aldarinnar, yrði hætta á að ung kona yrði fyrir valinu. 

Í byrjun féll Katrín Jakobsdóttir undir þau tvö atriði sem nefnd hafa verið, en ákveðið tómarúm myndaðist þegar hún gaf framboð frá sér.

Inn í það tómarúm komu Guðni Th. Jóhannesson fyrir einskæra tilviljun upphlaupsins vegna Panamaskjalanna, og síðar Halla Tómasdóttir, alger andstæða fráfarandi forseta hvað varðaði aldur og kyn.

Andri Snær er eftir sem áður maður framtíðarinnar og hann getur því sagt eins og Jóhanna forðum: "Minn tími mun koma!"

Og framboð hans er langt frá því að hafa verið sóun á tíma og fé, þvi að með því fékkst tækifæri til að kynna nýjar hugmyndir sem nauðsynlega þarf að hrinda í framkvæmd til að takast á við tröllaukin viðfangsefni þessarar aldar í umhverfis- og þjóðfélagsmálum.

Það var við ramman reip að draga fyrir Andra Snæ að koma þeim málum að og einnig voru aðrir frambjóðendur með einföld ummæli varðandi sjálfbæra þróun og umhverfismál.

Andri stóð sig mjög vel og var að öllu leyti til sóma. Hann vakti athygli á mikilvægustu málum framtíðarinnar, fékk áberandi mikinn hljómgrunn hjá unga fólkinu og þetta mun skila sér bæði nú og síðar.   


mbl.is Ánægður með undirtektir unga fólksins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eins og svar við ákorun, sem á sér mikinn hljómgrunn.

"Forseti allra, líka komandi kynslóða" er eins konar áskorun, sem birtist í næsta bloggpistli á undan þessum. Miðað við fyrri kynni mín af nýkjörnum forseta, sem hafa verið einstaklega góð og gefandi er hægt að hafa góða von um að hann muni hafa þetta í huga, úr því að hann tekur fyrri hluta þessarar áskorunar upp sjálfur.

Kjör hans eru góð tíðindi þegar miðað er við það, að þjóðin þoki sér úr hinum gamla tíma 20. aldrinnar inn í 21. öldina.

Þegar hann sest í stól Bessastaðabónda er hægt að vera bjartsýnn á framtíðina, sem færir okkur svo mörg stórbrotin viðfangsefni.

Guðni er einstaklega vandaður og vel gerður maður og vel hefur til tekist.

Það er táknrænt og gott að nú flytjist ung börn inn á Bessastöðum á sama hátt það var táknrænt 1961 þegar Kennedyhjónin fluttu með sína fjölskyldu inn í Hvíta húsið.

Það gladdi mig mjög hvernig aðrir frambjóðendur tóku úrslitunum. Davíð Óddsson tók sínum ósigri af mikilli yfirvegun og jafnaðargeði og var það mér mikil ánægja að verða vitni að því, hvernig hann gerði það.

Því að það er fekar í viðbrögðum við ósigrum sem sigrum sem menn sýna úr hverju þeir eru gerðir.

Þetta er sá Davíð, sem ég hef haft lengi mætur á og ekki síður hans einstaklega mikilhæfu og góðu konu.


mbl.is „Framar öllu vil ég vera forseti allra“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðin vill forseta. Hann á að vera fulltrúi allra, líka komandi kynslóða.

Í skoðanakönnun, sem verður að teljast marktæk, kom nýlega í ljós að yfirgnæfandi meirihluti vill hafa þjóðkjörinn forseta. Líklegt verður að teljast að ef það færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þetta myndi niðurstaðan verða sú sama. 

Í upphafi starfs stjórnlagaráðs lögðum við okkur eftir því að nema álit fólksins á þessu atriði og fengum um það margar ábendingar. 

Gagnstætt þeirri skoðun að unga fólkið væri róttækt og vildi svona "prjál"-embætti í burtu virtist það ekki vera þannig. 

Við gerð nýrrar stjórnarskrár var því viðfangsefnið fólgið í því að velja á milli embættis með afar litlum eða engum valdheimildum eða að nýta þá sérstöðu sem felst í eina beint þjóðkjörna embættismanni þjóðarinnar, þannig að hann hefði líka heimild til að koma til skjalanna á "ögurstundum" og til þess að hamla gegn of mikilli samþjöppun valds (checks and balance)

Ummæli Styrmis Gunnarssonar í Speglinum í gær og alla tíð um að leggja beri embættið niður og láta það í hendur forseta Alþingis eru því mótsagnakennd eins og staðan er í dag þegar litið er til hinna ágætu sjónarmiða Styrmis varðandi beint lýðræði. 

Ef þjóðin vill hafa forseta, á hún að fá að ráða því.

Það hefur verið hent á lofti að 1996 hafi legið fyrir að 26. greinin væri dauður bókstafur.

En Ólafur Ragnar Grímsson taldi hana þvert á móti í fullu gildi og lýsti þeirri skoðun yfir í kosningabaráttunni. Þetta atriði var eitt þeirra, sem réðu atkvæði mínu og áreiðanlega fleiri 1996.

Hitt er annað mál, að þrátt fyrir það, að sem betur fór beitti Ólafur heimild greinarinnar í þrígang, heyktist hann á því 2003 varðandi Kárahnjúkavirkjun, en það mál var eina málið sem Vigdís Finnbogadóttir taldi átta árum síðar, 2004, að hefði verið þess eðlis að hún hefði beitt málskotsrétti.

Grundvallarmunurinn á Kárahnjúkamálinu og EES áratug fyrr var sá, að EES-samningurinn var afturkræfur en Kárahnjúkavirkjun hafði hins vegar í för með sér mestu mögulegu óafturkræfu neikvæð umhverfisáhrif, sem hægt var að valda hér á landi.

 

Að öðrum forsetaframbjóðendum ólöstuðum hefur Andri Snær Magnason víðasta framtíðarsýn á öld, sem á eftir að færa okkur og öðrum þjóðum heims stórbrotnari viðfangsefni en nokkur önnur. 


mbl.is Sjötti forsetinn kjörinn í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skráður félagi í Fram tveimur mánuðum fyrir fæðingu.

Íþróttaáhugi getur tekið á sig magnaðar myndir á borð við landsliðstreyjur á fæðingadeild, en þó getur hann gengið svo langt að ná út fyrir gröf og dauða, eða jafnvel fram fyrir fæðingu.

Faðir minn heitinn var einstaklega gallharður Framari og varð 17 ára gamall Íslandsmeistari með Fram í sínum aldursflokki og valinn efnilegasti leikmaðurinn.

Hann hafði alist upp með góðum knattspyrnumönnum á borð við Albert Guðmundsson og kunni vel trix á borð við "skæri" og þess háttar.

Þau voru aðeins 18 ára gömul, hann og mamma, þegar hún var barnshafandi, og þau ákváðu, tveimur mánuðum fyrir afmælisdag hennar, að skrá mig sem félaga í Fram, sama hvort ég yrði strákur eða stelpa.

Þess vegna hef ég haldið upp á stórafmælisdag minn 16. júlí, tveimur mánuðum fyrir stórafmæli mín, þ. e. stórafmæli Framarans.   


mbl.is Á fæðingardeild í landsliðstreyju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Náttúran njóti loks vafans.

Íslendingar skrifuðu undir´Ríó sáttmálann 1992, þar sem tvö af meginatriðunum eru sjálfbær þróun og að náttúran njóti vafans.

Í vor mátti heyra úrtöluraddir varðandi það að nokkuð yrði gert til að hamla gegn hnignun lífríkis Mývatns. Aðal rökin voru þau að það væri ekkert víst að hnignunin væri af mannavöldum og þess vegna væri alls óvíst að það dygði að gera neitt.

Í þessum rökum lýsir sér það viðhorf, sem hefur verið landlægt svo lengi, að náttúran eigi ekki að njóta vafans, heldur þvert á móti hegðun okkar gagnvart henni.

Það er vel ef nú á að grípa til aðgerða við Mývatn. Ef vafi leikur á að það dugi svona seint á náttúran að njóta vafans, ekki hvað síst á svæði eins og Mývatnssveit er.


mbl.is Ráðuneyti vinnur tillögur um Mývatn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótsagnir og margræðni. "Rule, Britannia" á útleið?

Margt af því sem tengist úrsögn Breta úr ESB virðist fullt af mótsögnum og margræðni.

Þannig tala talsmenn meira sjálfstæðis tveimur tungum í Englandi og í Skotlandi, vilja fara úr ESB í Englandi, en í Skotlandi vill meirihlutinn vera áfram í ESB. Línurnar þar eru að vísu ekki alveg skýrar, en fyrir Skota eru yfirráð og áhrif Englendinga stærra mál en hugsanleg áhrif frá Brussel.  

Það er mikil margræðni í málinu öllu.

Það er löng hefð fyrir því í Englandi að hinn landfræðilegi aðskilnaður, sem Ermasundið veitir, skili sér í því að hamla gegn áhrifum frá meginlandinu.

Og hefðin fyrir mótþróa Skota gegn breskum yfirráðum og áhrifum í Skotlandi er einnig löng.

Kannski er það, sem er að gerast núna, upphaf á því að á Bretlandseyjum verði þrjú eða jafnvel fjögur sjálfstæð ríki, Írland, með Norður-Írland innanborð, Skotland og England-Wales, eða England sér og Wales sér.

Endalok Stóra-Bretlands síðustu þriggja alda? Þeir, sem elska að syngja hvatningarsönginn "Rule, Britannia!" senn að syngja sitt síðasta?


mbl.is Bretar kjósa að ganga úr ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband