Glöggt er íslenska gestsaugað.

Ég hitti nýlega Íslending, sem hefur búið í Noregi í fjölmörg ár, en er nýfluttur heim og sagðist vera að venja sig við ýmsar sérkennilegar venjur í umferðinni hér á landi. 

Hann kvaðst undrast, að engu væri líkara en að aðeins hér á landi væri skylt að skoða eldri bíla árlega.  Þótt í Noregi væri víða svipað veðurlag og hér, til dæmis á Vesturströndinni, þar sem rigndi meira en hér, væri þessi tími tvö ár þar og það talið nægja. 

Það hlyti að vera mikill aukakostnaður fólginn í því að skoða á að giska hátt í hundrað þúsund bíla tvöfalt oftar en þörf væri á. 

Síðan væri furðulegt hve okkur væri fjarlæg meginreglan um forgang bíla hvað varðaði stöðu þeirra í umferðinni; sá sem framar væri; hefði forgang. 

Þetta lýsti sér til dæmis þannig hér á landi, að oft væri það svo, að ef einhver bílstjóri ætlaði að skipta um akrein, til dæmis að flytja sig af ytri akrein yfir á innri vegna þrengingar vegar, væri honum meinað um það, jafnvel með því að auka hraðann og koma í veg fyrir akreinaskiptingu.

Og kostulegt fannst honum að sjá, hve svokallað "tannhjól" eða "rennilás" væri okkur oft gersamlega framandi, þetta einfalda atriði að umferð, sem sameinast af tveimur akreinum í eina, rynni saman einn bíll á móti hverjum einum bíl líkt og tennur í tannhjólum. 

Hann sagði að í Noregi gilti sú regla, að sá bíll sem væri framar í hringtorgum hefði forgang, og að hann hefði orðið undrandi á þeirri ringulreið sem oft væri hjá okkur í akstri á hringtorgum. 

Tregða okkar til að gefa stefnuljós fannst honum líka sérstaklega undarleg, og merkilegt, hve slíkt tillitsleysi, sem bitnaði á svo mörgum, væri algengt, jafnvel frekar regla en undantekning í sumum tilfellum.  

 


mbl.is Viðamiklar breytingar á umferðarlögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Merkilegt starf og miklar framfarir í glímunni við krabbameinið.

Eitt stærsta atriðið varðandi lengri meðalævi fólks felst í miklum framförum í lyfjameðferð vegna krabbamein, sem er, ef ég man rétt, næst algengasta dánarorsökin hér á landi, næst á eftir blóðrásarsjúkdómum. 

En tilkoma nýrra lyfja er ekki nóg heldur kalla þessi fjölbreyttu lyf á mikið og markvisst starf í heilbrigðiskerfinu og leitun er að manni, sem ekki hefur orðið vitni að slíku hjá einhverjum nákomnum. 

Þegar Davíð Oddsson fagnaði 70 ára afmæli sínu í fyrradag var það til dæmis ekki síst því að þakka hve farsællega tókst til að vinna bug á flóknu og erfiðu krabbameini sem hann fékk hér um árið og sigraðist frækilega á. 

Nú á dögum felst meðferðin oft í að leysa afar flókin og vandasöm verkefni varðandi lyfjameðferðina sjálfa. 

Það lýsir vandanum og þessu viðfangsefni að hluta, að á hverju ári koma út í heiminum um 800 sérfræðiritgerðir lækna um þetta. 

Auðvitað getur enginn lesið og kynnt sér allar þessar ritgerðir, en það hefur verið lagt fyrir fullkomnustu gervigreindartölvu heims að nýta sér þær við krabbameinsmeðferðir og það hefur gefist vel. 

Hér á landi vinna Krabbameinsfélag Íslands og heilbrigðiskerfið ötullega að vörnum gegn þessum vágesti og er það mikið þjóðþrifastarf.  


mbl.is Stökkbreytt gen eykur hættu á sortuæxli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það einfaldasta virkar oft best.

Fyrir 20 árum hefði sá verið álitinn eitthvað skrýtinn, sem hefði sagt fyrir 20 árum að Bæjarins bestu í pylsuskúrnum frumstæða við Tryggvagötu yrði einn frægasti staður landsins.  

En það sem er einfaldast, er oft það óvenjulegasta og þar með jafnvel það eftirminnilegasta fyrir ferðafólk, sem sækist eftir óvenjulegri upplifun í ferðum sínum. 

Strákarnir, sem seldu kleinur við Gróttu í dag, og sagt er frá í tengdri frétt á mbl.is, eru gott dæmi um þetta.

Litla kaffistofan heillaði Jeremy Clarkson í Íslandsferð hans 1992 og hún stendur enn. 

Bensínstöðvar landsins eru orðnar hverri annarri líkar, og nýi flotti Staðarskálinn hefur ekki alveg sama sjarma og sá gamli hafði, 

En eitt, einfalt og lítið, gerir það þó að verkum, að margir stansa þar bara út af þessu "smáræði". 

Það eru ástarpungarnir góðu, sem þar eru á boðstólum. Alveg bráðóhollir fyrir þá sem eru að reyna að forðast aukakílóin, en eftir því óviðjafnanlega góðir og auðvitað meinlausir, nema að fólk gleymi sér og hámi þá í sig einn af öðrum.  


mbl.is Bjóða ferðamönnum nýsteiktar kleinur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Önnur fíkn á bak við sölumenn dauðans vestra.

Í fróðlegum þætti í bandaríska sjónvarpsþættinum um ópíóðum faraldurinn þar í landi var því lýst hvernig græðgisfullum sölumönnum dauðans hefði tekist að spila á langvarandi spillingu meðal bandarískra þingmanna til að fá tvo þeirra, þingmenn í ríkjum, þar sem stór lyfjafyrirtæki hafa bækistöðvar, til að leggja fram frumvarp um lyfjaeftirlit, sem rústaði bandaríska lyfjaeftirlitinu.

Nú mala lyfjafyrirtækin gull sem aldrei fyrr og leika lausum hala ásamt sölumönnum sínum, sem eru blandaður hópur, allt frá glæpamenn í undirheimum upp í þá, sem útvega "læknadópið".  

Í þætti 60 mínútna voru birtar tölur sem sýndu ævintýralegan gróða og umfang, sem spillingarnet lyfjarisa, undirheima og lækna velti við það að standa undir þessu banvænasta faraldri í seinni tíma sögu landsins. 

Þetta var eins og að fá að lýsa með vasaljósi inn í "skítaholu", svo að notað sé orðalag um skuggahliðar hjá öðrum þjóðum. 

Á bak við skæða fíkn liggur oft önnur fíkn. Í þessu tilfelli peningagræðgi, ein af dauðasyndunum sjö.  


mbl.is Höfðu nánast öll verið á Vogi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sparnaður, sem eykur heildarútgjöld?

Dæmin um svonefnt skúffubókhald í rekstri stofnana og fyrirtækja eru mýmörg. Það felst í því að spara í rekstri á einu sviði (skúffu), en að afleiðingarnar verði stóraukin úgjöld á öðru sviði (annarri skúffu). 

Það er til dæmis hægt að spara peninga með því að minnka mokstur og hálkueyðingu gatna, hjólastíga og gangstéttna en fyrir bragðið verður samanlagður kostnaður annars staðar vegna hálkuslysa margfalt meiri, kostnaðurinn færist úr skúffu borgar- eða sveitarsjóðs yfir á heilbrigðiskerfið og almanna borgara.  

Fróðlegt væri að sjá útreikninga á tilfærslu kostnaðar með því að nota sjúkraflugvélar til þess að spara sjúkrarými á yfirfullum Landsspítala. 

Er hugsanlegt að sparnaðurinn vegna minni útgjalda í skúffu húsnæðis syðra auki heildarútgjöld annars staðar, við sjúkraflug og á heilbrigðisstofnunum úti á landi?

Annað dæmi hefur áður verið nefn hér á síðunni, þegar vegna sparnaðar og skorts á fjármagni í októberlok 2015 var ákveðið að fresta rannsóknum vegna gáttaflökts fram á næsta fjárhagsár. 

Afleiðingin varð hætta á ótímabærum dauðsföllum eða mikilli örorku vegna heilablóðfalls hjá þeim sem voru á þessum sérkennilega biðlista. 

Mer var kunnugt um slíkt tilfelli, þar sem kostnaðurinn vegna alvarlegs áfalls, langrar spítalavistar og endurhæfingar auk tekjumissis varð margfaldur á við meintan sparnað. 

Tilfellin voru vafalítið fleiri, annars hefði Kári Stefánsson varla farið að minnast á gáttaflökt í blaðaskrifum sínum. 


mbl.is LSH notar sjúkraflug til að losa pláss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein þjóð í tveimur ríkjum.

Þrátt fyrir skiptingu Kóreuskagans 1945 í tvö ríki, sem hefur staðið í alls 71 ár, er það í raun ein þjóð sem byggir skagann, þótt í tveimur mjög svo aðskildum ríkjum sé. 

Við fall Berlínarmúrsins 1989 kom í ljós að þrátt fyrir að járntjald hefði legið í gegnum Þýskaland frá 1945 og hluti þess, Berlínarmúrinn frá 1961, bjó ein þýsk þjóð í Vestur-Þýskalandi og Austur-Þýskalandi. 

Að vísu var ekki eins gríðarlegur munur á kjörum og þjóðlífi í þýsku ríkjunum og hefur verið í Kóreuríkjunum, og það var ekki tæknilega mögulegt eftir því sem tímar liðu, að loka íbúa Austur-Þýskalands eins mikið frá vitneskju um menningu og þjóðlíf fyrir vestan járntjaldið og ráðamönnum Norður-Kóreu hefur tekist að einangra land og þjóð sína frá nágrannaþjóðirnar. 

Það sýnir þó viðurkenningu á sterkri sameiginlegri þjóðerniskennd Kóreubúa að þeir skuli koma fram undir sama fána og senda sameiginlegt lið til vetrarólympíuleikanna, sem hefjast í Pyeongchang í Suður-Kóreu 9. febrúar. 

Þótt Austurríkismenn tali sama tungumál og Þjóðverjar, stóð sameining Austurríkis og Þýskalands ekki lengi, aðeins í sjö ár.

Hugmyndin um Stór-Þýskaland með Austurríki innanborðs hlaut andlát vorið 1945 og mun varla vakna á ný. 

En aldrei skyldi útiloka sameiningu Kóreuríkjanna. Sameiginlegt lið þeirra á Ólympíuleikum sýnir þjóðernisstyrk sem Þjóðverjum tókst ekki að sýna meðan á skiptingu þess lands stóð. 

1985 var ekkert sem benti til þess að skipting Evrópu með járntjaldinu yrði breytt. 

Engan hefði grunað þá að aðeins fimm ár liðu þar til járntjaldið félli. En valdataka Gorbatsjofs í heimsveldi, sem var byrjað að molna og grotna niður innan frá, breytti öllu. 


mbl.is Sameiginlegt lið Kóreuríkjanna á ÓL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einu sinni voru innanlandsflugvellirnir margir.

Agnar Koefoed-Hansen var stórmerkilegur afreksmaður á marga lund meðan hans naut við. 

Hann var fyrsti og eini Íslendingurinn sem kornungur sökkti sér ofan í flugmál erlendis fyrir stríð, flaug sem atvinnuflugmaður hjá Lufthansa víða um Norður-Evrópu og einnig í innanlandsflugi í Noregi, komst í persónuleg kynni við innsta hring ráðamanna í Þýskalandi, en ráðlagði íslensku ríkisstjórninni engu að síður sem flugmálaráðunautur hennar, að hafna alfarið beiðni Hitlers um aðstöðu handa Þjóðverjum fyrir millilendingar í flugi þeirra yfir Atlantshaf. 

Þetta vakti heimsathygli á þeim tíma sem engar þjóðir þorðu annað en að gefa eitthvað eftir varðandi þrýsting Hitlers á ýmsum sviðum. 

Eftir stríð varð Agnar fyrsti íslenski flugmálastjórinn og tókst með því að nýta sér einstaka persónutöfra að fá því til leiðar komið að Íslendingar hrepptu lungann af Norður-Atlantshafinu sem flugstjórnarsvið í millilandaflugi og hafa æ síðan haft mikið upp úr því fjárhagslega. 

Flugvellir á Íslandi ( Icelandic aerodromes) urðu tvöfalt til þrefalt fleiri en þeir eru nú, - að vísu flestir malavellir í byrjun - en þó nothæfir fyrir flugvélar af mörgum stærðum í innanlandsflugi. 

Þetta gerðist á þeim tímum, þegar þjóðartekjur og allar aðstæður voru miklu verri og minni en nú er. 

En nú virðist öldin vera önnur. Þótt þjóðartekjur hafi margfaldast og ferðamönnum fjölgað tuttugufalt eða meira með 500 milljarða króna innkomu í þjóðarbúið á ári, eru umræðan og aðgerðir markaðar því að "loka flugvöllum" og draga stórlega saman á því sviði. BISA úr na

Það er meira að segja fjárskortur vegna einfaldrar völtunar á malarvöllum á vorin og tilhneiging til að loka enn fleiri þeirra en gert hefur verið. 

Lítið dæmi úr eigin ranni: Til þess að viðhalda eina stóra flugvellinum (aerodrome) á hálendinu í þágu flugöryggis þarf ég að borga hinu opinbera gjöld, - ekki öfugt. Nálægt því  flugvallarstæði drapst á báðum hreyflum Fokkers 2007, en til allrar hamingju tókst að koma öðrum hreyflinum í gang og nota hann út til að ná til Egilsstaða. Í framhaldi af því ákvað ég að útbúa þetta náttúrugerða flugvallarstæði þannig, að það hlyti alþjóðlega skráningu og viðurkenningu með stöfunum BISA, (Sauðárflugvöllur). 

Á sama tíma þurfti Isavia að hafa talsvert fyrir því að leggja niður ýmsa flugvelli, til dæmis eina flugvöllinn í heilum landsfjórðungi, Patreksfjarðarflugvelli, þar sem væru möguleikar til að gera flugvöll að þeim eina í fjórðungnum, sem býður upp á flug allan sólarhringinn. 

Já, mitt í öllu gróðærinu er hún Snorrabúð stekkur. DSC00668

P. S.  Í athugasemd er beðið um nánari upplýsingar um völlinn og brautakerfi hans. Hér er rissmynd af brautakerfinu, en völlurinn sést líka á mynd á Google Earth, sem tekin var 2006 þegar brautirnar voru aðeins þrjár, 15-20 metra breiðar og völlurinn á byrjunarstigi og ekki skráður. 


mbl.is Gætu þurft að loka flugvöllum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Einn Íslendingur var þó ekki "sendur heim."

Handbolti er flokkaíþrótt. Í slíkri íþróttagrein á örþjóð eins og við litla möguleika gegn þúsund sinnum fjölmennari þjóðum nema að viðkomandi íþrótt sé stunduð í tiltölulega fáum löndum og af fáum einstaklingum. 

Þetta er líklega helsta ástæða þess að handbolti hefur orðið að eins konar þjóðaríþrótt hér á landi og náði ljóminn hámarki á Ólympíuleikunum í Seoul.  

Þá vorum við svo heppnir að eiga einn leikmann, Ólaf Stefánsson,, sem gat á góðum dögum unnið úrslitaleiki á stórmótum fyrir lið sitt. 

Ógleymanlegt var til dæmis að horfa á hann í úrslitaleik í Evrópukeppni, þar sem hann var allt í öllu hjá Þýskalandsmeisturunum Madgeburg, og gilti einu þótt andstæðingarnir gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að stöðva hann.

Þegar illa gengur, eins og á tveimur síðustu Evrópumeistaramótum, er það huggun harmi gegn, að sú íþrótt að vera handboltaþjálfari, er einstaklingsíþrótt. Aðalþjálfarinn er aðeins einn. 

Þetta sannaðist í kvöld þegar hætta var á því að íslenska handboltaliðið yrði sent heim, en líka hætta á því að íslenskir handboltaþjálfarar erlendra landsliða yrðu sendir heim. 

Hinir ógnarsterku Króatar sáu ekki til sólar gegn Svíum, ekki frekar en Íslendingar gegn Serbum síðustu 20 mínútur þess leiks. 

En hvernig sem allt veltist, var ekki hægt að senda alla Íslendingna heim. 

Fyrir leik kvöldsins var ljóst, að annað hvort yrði allt íslenska landsliðið sent heim eða íslenskur þjálfari Svía, sem sá til þess að hann og hans lið sendu okkur heim. 

Og fyrir bragðið var þessi ágæti íslenski þjálfari ekki sendur heim, eins og ætlun íslenska liðsins var að gera. 

Og íslenskir landsliðsþjálfarar eru það margir á svona mótum, að það er nærri ómögulegt að senda þá alla heim eftir milliriðlana. 

Ef ég man rétt hætti Aron Kristjánsson eftir að íslenska liðið datt naumlega út hér um árið. 

Hvað verður um Geir nú?


mbl.is Svíar sendu Ísland heim af EM
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Er nokkur með...?"

Sérkennilegar bilanir á borð við þá, sem greint er frá í tengdri frétt á mbl.is eru ekkert nýtt í fluginu.

Í eldgamla daga þurfti ég eitt sinn að fara síðdegis í skammdeginu til Vestmannaeyja með tveggja hreyfla flugvél í eigu eins af litlum flugfélögum þess tíma. 

Farþegar settust um borð í myrkrinu og biðu þess að hreyflar yrðu ræstir. Það dróst þó, og hírðist fólk skjálfandi í myrkri og kulda. 

Eftir drjúglanga stund kom annar flugmaðurinn í dyragætt stjórnklefans og kallaði yfir hópinn: 

"Er nokkur hérna með vasaljós?"

Ég kvað já við, því að ég hafði ævinlega meðferðis litla skjóðu sem nokkrum nytsamlegum smáhlutum. 

Farþegarnir hristu höfuðið. Þetta lyktaði af því að vasaljós yrði að duga sem eina ljós vélarinnar. 

Flugmaðurinn fékk vasaljósið hjá mér og fór með það fram í stjórnklefann. 

Eftir aðra langa og erfiða bið, birtist hann aftur í dyrunum og spurði nú: "Er nokkur hérna með skrúfjárn?" 

Aftur kvað ég já við og lét hann nú hafa skjóðuna alla með þeim orðum, að í henni væri fleira nytsamlegt, þar á meðal forláta límband. 

Skömmu síðar var byrjað að ræsa hreyflana og ljós flugvélarinnar að innan sem utan voru kveikt. 

Flugmaðurinn kom nú í þriðja sinn í dyrnar með skjóðuna í hendi og ætlaði að afhenda mér hana. 

"Það er óþarfi", svaraði ég. "Hún gerir greinilega miklu meira gagn frammi í en hjá mér. Við viljum helst komast til Eyja og líður betur við að vita af henni frammi í hjá ykkkur. Ég fæ hana bara þegar við erum lent." 

Óræður svipur kom á flugmanninn, sem virtist óákveðinn, fannst það kannski ekki traustvekjandi að þiggja boð mitt svona fyrir framan alla. 

Leit svo ofan í skjóðuna og snerist hugur, kinkaði kolli og snerist á hæli með hana.

Kannski sá hann eitthvað fleira ofan í henni, sem gæti komið sér vel á leiðinni til Eyja, svo sem skiptilykill, lítil töng, skæri og plástur. 

Í Eyjum fékk ég skjóðuna til baka í þann mund sem maður með ögn stærri skjóðu kom um borð til að leysa viðfangsefnin, sem biðu fyrir ferðina til baka.    


mbl.is Hrundi úr lofti Primera-vélar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta skref: Að vaða með nýja stórlínu yfir öll vatnsverndarsvæðin.

Nú er sótt að flestum undirstöðum ímyndar Reykjavíkur og nágrennis sem auglýst hafa verið sem "hreinust í heimi" á öllum sviðum.

Innan við ár er síðan 40 ára ófremdarástand sjávar í Skerjafirði birtist á ný, sem var kannski ekki aðalatriðið, heldur það að þrjóskast var í lengstu lög við að leyna ástandinu.

Nýslegið er met í svifryksmengun, þrítugfalt yfir heilsuverndarmörkum með arsen, kvikasilfur, blý og brennisteini, og nú eru það gerlar í kalda vatninu í Reykjavík. 

Þessi nýjasta kemu frá vatnsverndarsvæði borgarinnar, en Landsnet lýsir yfir einbeittum vilja til að vaða sem stærstu gerð af nýrri háspennulínu í gegnum öll vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins með tölu með öllu því raski og mengunarhættu sem því fylgir. 

"Virkjanaæðið" sem forstjóri Orku náttúrunnar kallaði það, birtist meðal annars í því að á sama tíma sem virkjanamenn telja alltof dýrt að fara með línur í jörðu á skárri leið en yfir vatnsverndarsvæðin öll austan höfuðborgarsvæðisins og líka alltof dýrt að leggja línur í jörð á leið Vesturlínu til Ísafjarðar og Bolungarvíkur, telja þeir að leikur einn sé að leggja línur í jörð yfir þvert Vestfjarðahálendið og um alla firði Ísafjarðardjúps á leiðinni frá nýrri virkjun í Ófeigsfirði á Ströndum alla leið vestur á Ísafjörð. 

 

 


mbl.is Jarðvegsgerlar í neysluvatni í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband