Hop dísilvélarinnar, ófyrirséð fyrir rúmum áratug.

Á fyrstu árum þessarar aldar virtust dísilknúnir bílar vera á góðri leið með að sigla fram úr bensínknúnum bílum. 

Ástæðan var sú, að með bættri innsprautunartækni og forþjöppun var hægt að þrefalda aflið frá því sem verið hafði aðeins aldarfjórðungi fyrr og jafnframt að lækka eldsneytiseyðsluna stórlega. 

Fyrir um 15 árum var svo komið, að hægt var að kaupa dísilbíla, þar sem hátt í 100 hestöfl var kreista út úr þróuðustu dísilvélunum yfir þriggja lítra rúmtaki og eyða forskoti bensínvélarinnar í hámarksafli. 

Aðal ókostirnir sátu þó eftir, -  enn voru dísilvélar dýrari í innkaupi og þyngri en bensínvélar af svipaðir stærð. 

Dísilvélarnar voru á þessum árum með minni kolefnislosun en bensínvélar, ef eitthvað var, og enda þótt sótkornamengun væri enn óleyst vandamál, voru ekki uppi miklar áhyggjur vegna hennar, af því að hún sest ekki að til frambúðar að uppi í lofthnjúpnum, heldur fellur smám saman til jarðar. 

Allt fram yfir 2010 fjölgaði dísilbílum mjög í Evrópu, þannig að þeir náðu víða meira en helmings hlutdeild í sölunni. 

En upp úr aldamótunum var birt viðtal við helsta ´vélasérfræðing Fiat verksmiðjanna, þar sem hann lýsti því yfir, að verksmiðjurnar teldu að bensínvélin myndi á ný sigla fram úr dísilvélunum, því að þróun þeirra hefði verið vanrækt. 

Hann boðaði byltingu á næstu árum.

Sú bylting hófst endanlega árið 2010 þegar Fiat Twin-air bensínvélin var kynnt með áður óþekktri nýtingu á eldsneyti. 

Vélarnar eru aðeins tveggja strokka og einungis 845 cc að stærð, en afkasta allt frá 65 hestöflum upp í 105 hestöfl,- tala, sem þýðir að afköstin eru um 120 hestöfl á lítra rúmtaks í dýrustu vélinni. 

Bensínvélin var, í samræmi við spádóm sérfræðingsins, í einu vetfangi að stinga dísilvélina af. 

Nokkrum árum síðar kom Ford með Ecoboost vélar sínar, þar sem aðeins eins lítra vélar gáfu 125 hestöfl! 

Hin nýja tækni byggðist á afkastameiri ventlastýringu samfara þróaðri innsprautun auk stórkostlegrar nýtingar á forþjöpputækni.  

Í vélhjólum, þar sem erfiðara er að koma forþjöppum fyrir, eru komnir fram hreyflar sem afkasta léttilega 120 hestöflum án forþjöppu og 170 kílóa lúxus "vespu"vélhjól eyða aðeins 2,3 lítrum á hundraðið en ná samt 110 kílómetra hraða. 

Þær vonir, að með nýrri tækni og harðari kröfum mætti leysa sótmengunarvandamál dísilbíla virðast hafa brostið. 

Dísilbílarnir verða að líkindum leyfðir áfram utan stórborga, en í stórborgum með öllu sínu kraðaki af fólki, farartækjum og útblæstri, standast dísilbílar ekki heilsuverndarkröfur. 

Og nú hefur dómstóll í Hannover í Þýskalandi úrskurðað, að borgaryfirvöldum  sé heimilt að setja takmarkanir á notkun dísilbíla, þar með talið alls herjar bann. 

Þetta er gríðarlegt áfall fyrir framleiðslu dísilbíla, vegna þess hve stór hluti bílaumferðar nútímans fer fram í borgum. 

Það er mikill kostur ef farartæki er jafnvígt hvenær sem er og allar stundir á stuttar og langar ferðir og að sama skapi ókostur, ef stórfelldar takmarkanir eru á þeirri getu, eins og til dæmis er á notkun rafbíla, sem hafa mjög litla drægni. 

Þeir njóta sín í venjulegu borgarsnatti, en ekki á lengri ferðum. 

Ágætt dæmi er tímabundin lausn mín á farartækjamálum fólks, sem hefur takmarkaðar fastatekjur. 

Til að brúa bilið á milli rafreiðhjóls og minnsta og ódýrasta rafbílsins, leysti Honda PCX 125 cc "vespuvélhjól" vandann að stórum hluta. Það leysti úr ókosti rafreiðhjólsins varðandi hraða og drægni og ókosti litla rafbílsins varðandi drægni. 

Honda hjólið kemst jafnhratt og bíll hvert á land sem er, kostar aðeins brot af verði ódýrasta bíls, er margfalt einfaldara en nokkur bíll og eyðir aðeins innan við þriðjungi af eyðslu sparneytnasta bíls. 


mbl.is Banna dísilbíla í miðborg Rómar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamalkunnugt tveggja turna módel að birtast.

Að undanförnu hefur þeim, sem styðja núverandi meirihluta í borgarstjórn orðið mjög tíðrætt um Eyþór Arnalds, nýkjörinn leiðtoga lista Sjálfstæðismanna. 

Um leið og hann hafði sigrað í leiðtogakjörinu beindist öll athygli vinstri manna að honum, og að sjálfsögðu var ekkert kærkomnarar fyrir hann. 

Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekki fengið 35 prósent í skoðanakönnunum síðustu átta ár, eða síðan Besti flokkur Jóns Gnarr komst þar í flug með himinskautum. 

Nú fær Björt framtíð, arftaki Besta flokksins, aðeins 0,7 prósent. 

Umskiptin síðan 2010 eru alger. 

Ef það væri tekið saman, hvaða nöfn hafa oftast verið nefnd í umræðunni í fjölmiðlum og á meðal fólks, eru það nöfn Dags B. Eggertssonar og Eyþórs Arnalds.

Og þetta skilar sér í eins konar hanaslag þessara tveggja manna. 62 prósent ætla að styðja annan hvorn þeirra.  


mbl.is Áfram í meirihluta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Langvarandi íslenskur óskýr slappleiki?

Aðild íslenskra aðila að umdeilanlegum flutningum á vopnum og föngum eru ekki nýtt fyrirbrigði. 

Þrátt fyrir byltingu í flugmálum hvað varðar langdrægni flugvéla og fjölbreytilegar flugleiðir sem henni hefur fylgt, liggur Ísland oft vel við flutningum yfir Norður-Atlantshafið og hefur gert það allt frá því í Seinni heimsstyrjöldinni, þegar Keflavíkurflugvöllur varð afar mikilvægur bæði fyrir almannaflug og hernaðarflug.  

Eftir stríðið var gerður svonefndur Keflavíkursamningur um afnot Bandaríkjamanna af vellinum vegna hernaðarumsvifa þeirra í Evrópu, og Nýsköpunarstjórnin svonefnda sprakk vegna deilna um þann samning. 

Í Kalda stríðinu stóðu deilur hér innanlands um völlinn, starfsrækslu hans og notkun, og deilt var um hvort kjarnorkuvopn væru á vellinum og kjarnorkuvopn flutt um hann.

Eftir árásina á New York og Washington 11. september kom upp umræða um það hvort völlurinn væri notaður til millilendinga fyrir fangaflug Bandaríkjamanna, og urðu ekki allir sannfærðir um að við hefðum hreinan skjöld í því efni. 

Nú er starfsemi íslenskra flugfélaga búin að þenjast svo út um allar álfur, að nýjasta málið, umdeilanlegir vopnaflutningar með íslensku flugfélagi, þarf ekkert endilega að vera bundið Keflavíkurflugvelli. 

Svör samgönguráðherra um að verið væri að semja reglugerð um slíka flutninga gefur til kynna að enn sé á ferðinni óskýr hugsun eða slappleiki hjá íslenskum stjórnvöldum.  

Umræddir flutningar hafa verið leyfðir fram að þessu að því er kom fram í fréttskýringaþættinum Kveik í kvöld, en í viðtali við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í fréttum RUV í kvöld, áræddi hún ekki að ganga lengra en að segja að "andi" ályktunar Sameinuðu þjóðanna hefði ekki verið virtur í þessu máli, nú væri búið að neita um leyfi til svona flutninga og að verið væri að semja reglugerð, sem samræmdist frekar fyrrnefndum "anda." 

Kunnuglegt stef í vetur heyrist nú enn einu sinni, málið og matið óskýrt og huglægt á því sem gert hefur verið, en verið sé að "læra af þessu". 

 

 


mbl.is Telur íslensk stjórnvöld hafa brugðist
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kínverjar og Indverjar sækja fram.

Kínverjar eru mestu bílaframleiðendur heims og Indverjar sækja fram í iðnaðarframleiðslu víða um heim, ekki aðeins í framleiðslu á ódýrum bílum og vélhjólum og reiðhjólum, heldur líka á lúxusbílum. 

Konan mín ekur á indverskum bíl sem allir halda að sé japanskur Suzuki, Suzuki Alto. Hann var ódýrasti, einfaldasti og einn umhverfismildasti bíllinn á markaðnum þegar hún keypti hann, en hann er líka afar ódýr í rekstri og viðhaldi. 

Nú þegar eiga Kínverjar Volvo og þær verksmiðjur eru í sókn. En með því að gerast stærstu eigendur í Mercedes-Benz seilast Asíuþjóðir til áhrifa á markaði fyrir lúxusbíla, því að Indverjar eiga þegar Landrover með sína Range Rover bíla. 

Asíuríkin Kína, Taívan, Japan og Suður-Kórea hafa yfirburði á vélhjóla og reiðhjólamarkaðnum. 

Allar þessar þjóðir keppast við að ná sér í skerf af bruðli olíualdarinnar sem vestræn ríki innleiddu áður en hún er öll. 


mbl.is Kínverjar orðnir stærstu eigendur Benz
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Það er ekkert annað í boði".

"ÞAÐ ER EKKERT ANNAÐ Í BOÐI."

 

Þegar við fæðumst og færir oss yl 

framtíðar morgunroði

við engu´um það ráðum, að erum við til, 

það er ekki annað í boði. 

 

Þótt lántið oft hverfult í lífinu sé

og lítið oft viðleitnin stoði

líkami þinn var þér látinn í té, - 

það er ekki annað í boði. 

 

Ef misgjörðir fortíðar mæða þinn hug, - 

þótt mistökin öll við þig loði, 

Bættu þitt ráð, sýndu djörfung og dug, 

það er ekki annað í bóði. 

 

Ef hlutskipti betra þú þráir oft heitt

og þér ógna hættur og voði

engu um flest af því færðu hér breytt, 

það er ekki annað í boði. 

 

Og hvernig sem vera þín veltur og fer

í veraldar basli og moði

njóttu hvers morgundags eins og hann er, 

það er ekki annað í boði. 

 

Því jarðlífið sveiflast sem hverfanda hvel, 

í heilsunnni´er fjör eða doði. 

Er dauðinn þig tekur, þá taktu´honum vel, 

það er ekki annað í boði. 

 

Núið, hver stund, sem þú nota skalt vel, 

fæðing og dauði, - fjörbrot og hel, 

upphaf og stopp, - samt hluti´af eilífðarvél, - 

það er ekki annað í boði. 


mbl.is Hefur sjaldan verið í betra formi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Braggahverfin og Höfðaborgin í den, - hluti Breiðholtsins núna?

Skilgreiningin á gettóum í Danmörku, sem nú er lagt til að skuli hlíta öðrum refsilögum en aðrir borgarhlutar, er sú að atvinnuleysi, tekjur og menntunarstig séu fyrir neðan ákveðna prósentu. 

Svo er að sjá, að samkvæmt þessum hugmyndum, sem sjá má að ýmsir á blogginu eru hrifnir af, muni ríkur og vel menntaður maður, sem hrindir gamalli konu og stelur af henni dýrum hlut í verslun, fá helmingi vægari refsidóm heldur en fátækur atvinnuleysingi í skilgreindu gettói fær fyrir sams konar afbrot. 

Einstæð ómenntuð móðir í Breiðholtinu myndi fá tvöfalt þyngri dóm fyrir að stela veski eða síma af manni heldur en vel menntuð og langskólagengin kona. 

Ég ólst í nokkur ár upp í Samtúni, en öðru megin við þá götu var svonefnd Höfðaborg, sem hýsti fátækt fólk. 

Krakkarnir við götuna léku sér saman og það hefði verið fróðlegt að sjá, hvort foreldrar Sæma hefðu fengið tvöfalt þyngri refsidóma og foreldrar mínir fyrir sams konar brot, til dæmis tvöfalt þyngri dóm fyrir beita einhvern hótunum um líkamsmeiðingar heldur en foreldrar mínir fyrir það sama.  

Eða ef við Sæmi hefðum báðir framið sams konar refisvert athæfi, sem unglingar í þessari götu, og þá hefði hann fengið tvöfalt þyngri dóm en ég. 

Og hefði átt að dæma tvöfalt þyngri fyrir afbrot á gangstéttinni norðan megin við götuna heldur en sams konar afbrot á gangstéttinni sunnan megin. 

Eða hvort Sæmi hefði á árum sínum sem lögreglumaður litið tvöfalt harðari augum á afbrot í braggahverfunum en á sams konar brot í fínu hverfunum. 

Kunnuglegt viðhorf má sjá hjá þeim, sem mæla þessari mismunun bót, sem sé það, að ástandið í gettóunum í Danmörku sýni, að fjölmenningarfólk hafi gert heildstæða árás á samfélagið og að það verði að láta hart mæta hörðu. 

Þetta hefur verið orðað hér á landi með setningunni "þetta eru nú engir kórdrengir" og var óspart notað í Geirfinns- og Guðmundarmálinu gagnvart ungu fólki, sem féll undir skilgreininguna utangarðfólk.  

Og þá vaknar spurningin um það hvort hópur vel menntaðs og ágætlega stæðs fólk, sem hefði verið þvingað með harðræði til að játa á sig tvö morð, hefði fengið tvöfalt vægari dóma en sexmenningarnir. 

Ekki þýðir að afgreiða þennan möguleika út af borðinu, því að ágætlega menntað og stætt fólk hefur í gegnum tíðina brotið af sér á þennan hátt.  

 


mbl.is Vilja þyngja refsingu fyrir brot í „gettóum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sjálfsagður dagur. Óvart hátíðardagur okkar Helgu frá 1962.

Ég minnist Valdísar Gunnarsdóttur með hlýju frá þeim árum þegar við störfuðumm bæði fyrir Bylgjuna og Stöð 2. 

Einkum fannst mér vel til fundið hjá henni að koma Valtentínusardeginum á almanakið hjá okkur Íslendingum. 

Ýmsir gagnrýndu hana fyrir að vera að elta ameríska hefð, en dagurinn er miklu alþjóðlegri og eldri en það, að slík gagnrýni standist. 

Heilagur Valentínus var uppi fyrir næstum 2000 árum og dagurinn því ekkert síður evrópskur en amerískur. 

Þess ber að geta að langflestir hátíðisdagar hér á landi eru útlend fyrirbrigði í upphafi. 

Jólin, páskarnir, uppstigningardagur, 1. maí hvítasunnan, bolludagur, öskudagur og sprengidagur, allt eru þetta upphaflega erlendir hátíðisdagar. Íslenskir dagar, sem finna má í almaneki Háskóla Íslands, eru bóndadagur, konudagur, sumardagurinn fyrsti, 17. júní, verslunarmannafrídagurinn, dagur íslenskrar náttúru og dagur íslenskrar tungu.

Ég var kannski ekki alveg hlutlaus varðandi Valentínusardaginn, því að án þess að vita af því, héldum við Helga upp á 14. febrúar í tuttugu ár áður en við vissum að sá dagur væri Valentínusardagurinn!

Ástæðan var sú að við hittumst og byrjuðum að vera saman 14.febrúar 1961. 

Við vorum því sennilega á undan Valdísi hvað þetta snerti, en munurinn var sá, að við vissum ekki að þetta væri Valentínusardagurinn. 

Á gullbrúðkaupsári okkar 2011 tileiknaði ég henni lagið "Dagur elskendanna", sem getur líka átt við trúlofunardaga og brúðkaupsdaga, og úr því að verið er að tala um Valdísi Gunnarsdóttur þá er hér text lagsinsm en lagið sjálft hyggst ég setja öðru sinni á facebook síðu mína.  

 

DAGUR ELSKENDANNA. 

 

Þetta´er dagurinn okkar, sem eigum við nú, 

þegar örlögin réðust og ást, von og trú

urðu vegvísar okkar á ævinnar braut 

gegnum unað og mótbyr, í gleði og þraut. 

 

Þú varst hamingjusólin og heilladís mín

og ég hefði´aldrei orðið að neinu án þín. 

 

Ég í fögnuði þakka þegar faðmarðu mig

að hafa fengið að lifa og elska þig. 

 

Og til síðasta dags, ár og síð, hverja stund, 

þá mun sindra björt minning um elskenda fund. 

Ég við ferðalok þakka, - straumur fer þá um mig

:,: að hafa fengið að lifa og elska þig :,:


mbl.is Valdís var drottning útvarpsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gamall draumur Norsk Hydro.

Séð frá Noregi er Reyðarfjörður anddyri að orku Íslands og upphaflega stóð til að Norsk Hydro reisti álver í Reyðarfirði og það með strangari kröfum um mengunarvarnir en Alcoa slapp með. 

Norsk Hydro dró sig til baka meðal annars vegna þess að í Noregi er mjög öflug náttúrverndarhreyfing sem fylgdist vel með málinu og studdi málstað íslenskra náttúruverndarsamtaka. 

Hákon Aðalsteinsson flutti Noregskonungi drápu og Erik Solheim, formaður norsku náttúruverndarsamtakanna, kom tvívegis til Íslands. 

Hann og Jan Riise, einn helsti virkjanasérfræðingur Norðmanna, voru sammála um það að Kárahnjúkavirkjun ylli margfalt meiri umhverfisspjöllum en versta virkjun Noregs, sem Gro Harlem Brundtland sagði í endurminningum sínum að hún sæi mest efir að hafa samþykkt. 

Eftir að Hydro dró sig til baka mátti fyrirtækið horfa upp á að Alcoa fengi miklu betri kjör en Hydro, til dæmis ákvæði í orkusölusamningnum sem skuldbindur Alþingi til þess að afsala sér rétti til að setja þak á það, hve miklar bókhaldskúnstir megi gera til að sleppa alveg við að greiða tekjuskatt af álgæsinni, en það samsvarar tugum milljarða króa á ári. 

Samkvæmt nýjustu fréttum getur gamall draumur Norsk Hydro ræst ef fyrirtækið kaupir álverið í Straumsvík, og séð frá Noregi fer fyrirtækið þá bakdyramegin inn á Íslandi. 


mbl.is Hydro gerir tilboð í álverksmiðju ISAL
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhrifamikil augnablik á kvikmyndahátíð og í kirkju í dag.

Á tveimur samkomum, sem ég var í dag, var fyrir tilviljun sama meginstefið, "Me-too"- byltingin og kúgun kvenna, á báðum stöðunum.

Fyrri samkoman var messa í kirkju Óháða safnaðarins en hin var á Eddunni í kvöld. 

Í stað hefðbundinnar predikunar safnaðarprest flutti starfsmaður trúboðs og hjálparstarfs kirkjunnar í Eþíópíu myndskreyttan fyrirlestur um viðfangsefni trúboðsins hjá þessara fátæku hundrað milljóna manna þjóð. 

Ég hafði svosem séð þetta áður í tveimur ferðalögum vítt og breitt um landið árin 2003 og 2006, en þetta rifjaðist upp á áhrifamikinn hátt í fyrirlestri trúboðans. 

Milljónir kvenna búa við svo mikla kúgun í þessu landi og öðrum vanþróuðum löndum í þriðja heiminum, að það er þyngra en tárum taki. 

Þetta voru svipaðar myndir og birtust í ferðalaginu 2003 í strákofaþorpinu Omo Rade, þar sem karlpeningur þorpsins lá aðgerðarlaus og dottandi eða sofandi með vopnum sínum, spjótum og sverðum undir stóru stráþaki á eins konar miðjutorgi í þorpinu á sama tíma og konur og unglingar sættu linnulausum þrældómi við að afla matar og bera níðþungar byrðar á bakinu daginn út og daginn inn. 

Í þessari forneskjulegu "menningu" er konan réttlaus eign karlmannsins, sem pískar hana áfram í þrældómi.  

Svo gagngert er þetta ranglæti, að enn stendur meira að segja í einu boðorðanna tíu í Biblíunni, að karlinn skuli "ekki girnast konu, ambátt, þræl, asna eða uxa náunga síns, né neitt annað en náungi þinn á." 

Liggjandi og sofandi karlarnir með öll vopnin sín hafa það hlutverk að verja þorpsbúa gegn hugsanlegri árás annarra liggjandi og sofandi karla hjá ættflokkum í öðrum þorpum. 

Mee-too-byltingin er aðeins hluti af óheyrilega risavvöxnu átaki á heimsvísu til að rétta hlut meira en helming mannkyns. 

Í Eþíópíu sögðu íslenskir trúboðar, það myndi taka minnst tvær kynslóðir að ná fram umbótum og gagngera hugarfarsbreytingu á þessu sviði. 

Að því leyti til er Mee-too-verkefnið margra áratuga verkefni. 

 


mbl.is Konur sýna samstöðu á Eddunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ótækt fyrir áratugum, uppnefnt sem "eitthvað annað."

Það er sífelld áminning um mátt sterkra valdaafla, sem nýta aðesötðu sína til þess að þjóna  hagsmunum sínum, hvernig þessi öfl keyrðu stóriðjustefnuna og virkjanaæðið áfram í upphafi þessarar aldar. 

Alltaf eru að koma fram ný og ný dæmi um þetta. 

Þeir sem minntust á gagnaver fyrir rúmum áratug sem mun skárri kost en álver, voru úthrópaðir sem "andstæðingar rafmagns, atvinnuuppbyggingar og lífskjarasóknar."

Ástæðan var sú, að gagnaver féllu undir skilgreininguna "eitthvað annað" en álver, og það var nóg til að fordæma þá sem komu með slíkar og þvílíkar hugmyndir, hvað þá ef ferðaþjónusta var nefnd.

Áltrúarmenn nefndu aldrei ferðaþjónustuna því hafni, heldur aðeins með orðum eins og "fjallagrasatínsla" og "lopapeysu latte-lepjandi afætulýður á kaffihúsum í 101 Reykjavík. "

Nýjasta útgáfan er "101-rotturnar."

Nú, rúmum áratug síðar, þegar hinn útlendi ferðamaður hefur fært þjóðinni mestu uppgrip, atvinnuuppbygingu og lífskjarasókn í manna minnum, er góðri ríkisstjórn 2013-2016 þakkað, ekki ríkisstjórninni þar á undan sem hóf þó hagvaxtartímabilið í kjölfar brunarústabjörgunar af völdum Hrunsins, og enn síður þeim sem mæltu þá með þeirri atvinnuuppbyggingu og lífskjarasókn sem "eitthvað annað." 

Þeir mega enn og áfram sitja uppi með ummæli eins og að "hafa lengi barist fyrir því með öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir uppbyggingu og mannlíf."  


mbl.is Gagnaver rís á Korputorgi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband