Bættur Reykjavíkurflugvöllur er samt skásti kosturinn.

Þegar talað er um að ekki sé vænlegt að endurbæta Reykjavíkurflugvöll verður að gæta þess, Ð þrátt fyrir það eru aðrir kostir mun verri og seinlegri.

Með lengingu austur-vestur brautarinnar þarf ekki að gera neinar veðurfræðilegar athuganir, því að miðað við algengustu hvassviðraáttina er þetta langbesta flugbrautarstæðið á sunnan- og vestanverðu landinu og með aðflug yfir sjó í aðra áttina en yfir opið svæði í Fossvogsdal í hina áttina. 

Flugvöllur með sama notagildi í Hvassahrauni yrði margfalt dýrari og á svæði með nun verri flugskilyrði, auk þess sem undir honum er dýrmætt vatnsverndarsvæði.  

Þráhyggjan um  það endilega þurfi að byggja íbúðabyggð í Vatnsmýri vegna þess hve það svæði liggi vel við slíku byggist á því að leggja allt annan mælikvarða á flugmannvirki en siglingamannvirki og vegamannvirki. 

Ef flugmannvirki skulu ætíð víkja fyrir íbúðabyggð ætti hið sama að gilda um Reykjavíkurhöfn, sem tekur jafn mikið pláss í borgarlandinu og er nær þungamiðju þess. 

Vatnsmýri lá fram yfir miðja síðustu öld nálægt þungamiðju höfuðborgarsvæðsins, en það hefur gerbreyst; slík þungamiðja liggur nú á mörkum Elliðaárdals og Fossvogsdals. 

Furðulegt er að sjá enn þá röksemd gerða að fyrstu frétt i fjölmiðli, að ef flugvðllur hefði ekki verið gerður í Vatnsmýri/Skildinganesi hefði engin byggð risið austan Elliðaáa. 

Austan Elliðaáa og sunnan Fossvogsdals búa nú um eða yfir 100 þúsund manns, og það blasir við hvílík fjarstæða það er, að 100 þúsund manns hefðu geta komist fyrir í Vatnsmýri.   

 

 


mbl.is Ekki vænlegt að endurnýja Reykjavíkurflugvöll
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mistök eins flugstjóra breyttu gangi stríðsins.

Þegar Göring ákvað og lofaði Hitler því að eyða breska flughernum og aðstöðu hans áður en gerð yrði innrás í Bretland, beindust árásir Luftvaffe, sem mörkuðu upphaf orrustunnar um Bretland í júlí 1940, einkum að flugvöllum og hernaðarmannvirkjum, sem gögnuðust breska flughernum. 

Áætlunin gekk ágætlega þótt draga yrði Stuka-vélarnar út úr henni, og sagnfræðingar hafa síðan velt vöngum yfir því hvort hún hefði heppnast, ef henni hefði verið fylgt fram af einbeitni og fullum þunga. 

En þá gerðist atvik, sem virtist ekki mikilvægt í sjálfu sér, að áhöfn einnar af sprengjuflugvélum Þjóðverja villtist, og flugstjórinn ákvað, frekar en að fljúga með sprengjurnar til baka, að varpa þeim á byggð, sem birtist fyrir neðan vélina. 

Byggðin reyndist vera hluti af London, og Churchill varð bæði sleginn og reiður og valdi það sem hefndaraðgerð að senda flota sprengjuflugvéla til þess að varpa sprengjum á Berlín. 

Göring hafði lofað Hitler því í upphafi að engin flugvél Breta myndi komast til Berlínar, en þegar það brást, varð Hitler ævareiður og skipaði svo fyrir, að breytt skyldi um áætlun og ráðist af öllum þunga Luftvaffe á London og aðrar breskar borgir. 

Með því yrði hægt að valda svo miklum usla, að breskur almenningur og stjórn landsins myndu gefast upp. 

Annað kom á daginn, því að hinar illræmdu árásir stöppuðu stálinu í Breta, sem efldust við að hlusta á hinar mergjuðu og mögnuðu hvatningarræður Churchills. 

Ein þeirra hlaut heitið "The few" og fjallaði um dáðir bresku flugmannanna,  það að aldrei fyrr í átakasögu mannkynsins hefðu jafn margir átt jafn mikið að þakka jafn fáum. 

Enn í dag velta menn vöngum yfir því hvort það hefði fært Þjóðverjum sigur í lofthernaðinum að flugstjóri einnar árásarvélar hefði ekki sleppt sprengjum vélarinnar fyrir mistök yfir byggð í útjaðri London. 

Bent hefur verið á að ratsjár Breta, færir orrustuflugmenn og hagræði þeirra af því að verjast á heimavelli af stuttu færi flugvélum, sem komu það langt að, að drægi þeirra var illilega takmarkað, hefðu hvort eð er reynst Þjóðverjum dýrkeypt og óvænt óhagræði, auk þess sem hægt hefði verið að berjast frá breskum flugvöllum, sem lágu lengra inni í landi. 

Þegar Þjóðverjar gerðu örvæntingarfulla stórárás 15. september og misstu miklu fleiri flugvélar en þeir áttu von á, varð niðurstaðan sú, að fresta innrásinni Sæljón um óákveðinn tíma og draga innrásarflotana í höfnum á meginlandinu til baka og dreifa honum. 


Gott væri að leita ráða hjá stofnendum þjóðgarða erlendis.

Við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands er í flestum grundvallaratriðum verið að fást við svipuð úrlausnarefni og marga merka þjóðgarða erlendis. 

Meðal þeirra er Jóstedalsjökulsþjóðgarðurinn í Noregi, sem nær yfir þennan stærsta jökul á meginlandi Evrópu og næsta nágrenni hans. 

Þjóðgarðurinn er frekar ungur, og við stofun hans fyrir síðustu aldamót þurfti að leysa úr ýmsum álitaefnum, vegna þeirra mismunandi hagsmuna, sem þar rákust á. Erik_Solheim_(1947-)

Á þeim tíma kom Erik Solheim formaður Norsku náttúruverndarsamtakanna mjög við sögu þessa mikla úrlausnarefnis og deilumála, sem tókst síðan að leysa farsællega, og varð Solheim síðar stjórnarformaður þjóðgarðsins. 

Solheim kom tvívegis til Íslands og kynnti sér íslensk álitaefni, meðal annars Kárahnjúkavirkjum, og í síðari ferð sinni hélt hann fróðlegan og eftirminnilegan fyrirlestur á málþingi, sem haldið var á vegum Landverndar um stofnun Jóstedalsþjóðgarðsins. 

Solheim er enn á lífi, 72ja ára gamall, og væri áreiðanlega gagnlegt að leita í smiðju hans og jefnvel fleiri erlendis, sem hafa reynslu af svona málum.  

 


mbl.is Frumvarp um þjóðgarð á miðhálendinu lagt fram í vor
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórt stökk Renault Zoe. Skoda Citigo rafbíll verður spennandi!

Á tímabili naut Renault Zoe þess að vera með hlutfallslega einu stærstu rafhlöðuna í flotanum en að vera jafnframt seldur á lágu verði, enda stærð bílsins og þyngd hagstæð. Renault Zoe ´20

Það er gríðarlega mikið um vera í rafbílaframleiðslu heimsins og mikið rafhlöðukapphlaup í gangi. Stökkið hjá Zoe upp í 52 kwst er myndarlegt og enn mikilvægara er að hægt sé að hlaða hann á mun afkastameiri hátt en áður. 

En verð og þyngd eru helstu annmarkar rafbíla, og þess vegna verður afar spennandi að sjá hve snemma fyrsti Skoda rafbíllinn kemur á markaðinn hér. Skoda Citigo rafbíll

Citogo er systurbíll Volkswagen e-Up!, sem hefur hingað til verið sá minnsti og léttasti á markaðnum hér á landi hvað snertir verulega fjöldaframleidda smáa rafbíla, en uP! hefur liðið fyrir stutta drægni, aðeins rúmlega 100 kílómetra við íslenskar aðstæður, enda rafhlaðan aðeins 19 kwst. 

En nú er að koma fram systurbíll e-Up með tvöfalt stærri rafhlöðu, sem hlýtur að gerbreyta bílnum og hagkvæmni hans. 36 kwst rafhlaðan ætti að geta skilað vel yfir 200 kílómetra og verður væntanlega einnig með möguleika á hraðari hraðhleðslu en áður. 

Í Þýskalandi verður verðið á þessum frábæra rafknúna smábíl í kringum 20 þúsund evrur, sem er langlægsta verðið fyrir fjögurra sæta rafbíl. Tazzari á hleðslustöð 

Þrátt fyrir allan þann rafbúnað, sem nauðsynlegur er fyrir fjögurra sæta bíl, verður hann nákvæmlega með jafn mikið rými fyrir fólk og farangur og hinn vinsæli bensínknúni bíll, sem er með fimm stjörnur í árekstraprófunum. 

Hér á landi verða að vísu áfram í umferð tveir tveggja sæta ör-rafbílar af Tazzari-gerð, sem eru um 500 kílóum léttari en e-Up og Citigo og eru því ódýrustu og vistmildustu rafbílarnir hér eins og er, en engin áform eru um að flytja inn fleiri bíla af þessari gerð, sem hafa 90 km drægni og ná 90-100 km/klst hraða. 

 


mbl.is Kraftmeiri og langdrægari Renault ZOE kynntur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lærisveinninn og galdramaðurinn.

Geir Hallssteinsson var einhver mesti galdramaður handboltans á sinni tíð, og á stórbrotnum handboltaferli sínum tæpum aldarfjórðungi síðar gladdi Talant Dujshebaev milljónir manna með galdramennsku sinni. 

Það, sem gerði hann svo sérstakan, var að hann var lægri í loftinu en langflestir þeir, sem hann þurfti að keppa við, aðeins 1,83 m á hæð, en hann meira en vann það upp með einstakum leikskilningi, tækni, snerpu og útsjónarsemi. 

Það var fágæt unun að horfa á hann leika listir sínar á glæstum ferli sínum; áhorfendur trúðu oft vart sínum eigin augum. 

Nú hefur hinn bráðefnilegi Haukur Þrastarson ákveðið að leita til hins mikla galdrameistara sem þjálfara síns og verður spennandi að sjá hvaða ævintýri lærisveinninn og galdrameistarinn eiga eftir að galdra fram úr erminni. 


mbl.is Dujshebaev rétti þjálfarinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öldrun þjóðarinnar og fækkun fæðinga vilja gleymast.

Í áraraðir hafa þau grundvallaratriði vilja gleymast í umræðum um heilbrigðiskerfið, að ört stækkandi hluti þjóðarinnar er kominn á eftirlaunaaldur á sama tíma og fæðingum fækkar stöðugt. 

Ævinlega eru nefndar krónutölur um aukin útgjöld án þess að taka þetta með í reikninginn. 

Hluti af "dýpri umræðu" sem Bjarni Benediktsson gæti falist í því að kafa betur ofan í afleiðingar þessarar þróunar, ekki aðeins í fjðldatölum, heldur einnig í þeim verkefnum, sem fylgja þeim, og finna út hve stóran þátt sú niðurstaða á í því að umfang og útgjðld vegna heilbrigðismála fara vaxandi.   


mbl.is Saknar dýpri umræðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Indriði hefur gefið Íslandi falleinkun varðandi auðlindarentu.

Það blasir við að arðrán ríkra þjóða á auðlindum fátækra þjóða þýðir, að hinar fátæku þjóðir fá enga eða sáralitla auðlindarentu af náttúruverðmætum sínum. Þessu lýsir Indriði H. Þorláksson fyrrverandi ríkisskattstjóri í pistli á vef Stundarinnar, en Indriði býr yfir einhverri mestu þekkingu og reynslu hér á landi á þessu sviði.   

En það er til annað auðlindaarðrán sem Indriði hefur áður lýst vel, og það er það arðrán, sem erlend og innlend stórfyrirtæki komast upp með hér á landi og hafa lengi komist upp með. 

Hann hefur af rökfestu og þekkingu varpað ljósi á þetta fyrirbæri árum saman, en að mestu fyrir daufum eyrum. 


mbl.is Dapurlegt dæmi um arðrán
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Verðmunurinn er sláandi. "Það, sem hækkar, hlýtur að lækka."

Eitt af því fyrsta sem vekur athygli Íslendings á ferð erlendis er hinn mikli verðmunur, sem er á hótelgistingu þar og hér á landi. 

Hann virðist vera meiri en svo, að það sé hægt að útskýra hann með sæmilegu móti, og viðskiptavinir hótela eru í vaxandi mæli meðvitaðir um það að vera að versla á alþjóðlegu markaðssvæði, jafnvel þótt Ísland liggi fjarri öðrum löndum. 

Hætt er við því, að erlenda orðtakið muni fara að eiga við varðandi það, að það sem hækkar, líkt og þjónusta við ferðamenn hefur gert hér á landi síðan 2011, muni óhjákvæmilega lækka. (What goes up must come down). 


mbl.is Nóttin á nokkur þúsund
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórt skref í einstæðu landnámi með gæðastimpli Guðs.

Mannkynssagan er morandi af þjóðflutningum og landnámi, þar sem einna hæst ber þjóðflutningana miklu, sem urðu samfara hruni Rómaveldis, og hið víðfeðma landnám hvítra manna í Ameríku og Suður-Afríku. 

Þessi tvö landnám skorti þó það, að þau hefðu heilagan gæðastimpil heilla trúarbragða sem væri undirstaða þeirra. 

Að því leyti hefur það landnám, sem lesa má um Í Gamla testamentinu, landnám Gyðinga á "fyrirheitna landinu", algera sérstöðu, þegar litið er yfir hina löngu sögu þess. 

Gyðingar náðu í árdaga hinu fyrirheitna landi á sitt vald um hríð, en voru síðan reknir þaðan með valdi fyrir næstum tvö þúsund árum. 

En áfram lifðu trúarbrögðin og hin sundraða þjóð, sem átti trúarbrögðin sem grundvöll draumsins um "Landið helga", sem Guð hefði lofað þeim. 

Zíonistar sóttu því mjög í að flytja til hins forna Gyðingalands á 20. öldinni, sem þá gekk undir heitinu Palestína. 

Ein af hugmyndunum, sem fram komu til að sefa landnámsþorsta Zíonista um aldamótin 1900, var að gefa þeim Uganda, en ekkert varð af því. 

Eftir hið hrikalega þjóðarmorð á Gyðingum í Seinni heimsstyrjöldinni ríkti alþjóðleg samúð með Gyðingum og vilji til að bæta fyrir það eftir föngum.

Þá ríkti hernaðarástand í Palestínu, þar sem Gyðingar töldu þann tilgang göfugan og Guði þóknanlegan að ná landinu á sitt vald. Svo heilagur tilgangur helgaði flest meðöl, þar á meðal hryðjuverk. 

Fulltrúi Sameinuðu þjóðanna, Folke Bernadotte, var drepinn, en Sameinuðu þjóðirnar lögðu blessun sína yfir stofnun Ísraelsríkis, sem stóðst hernaðarárás Araba, sem hófst á fyrsta degi Ísraelsríkis. 

Aftur réðust Arabaþjóðir á Ísrael 1967 í svonefndu sex daga stríði, þar sem Ísraelsmenn höfðu betur og hernámu meðal annars Vesturbakka Jórdanár. 

Í hönd fór eitt stutt stríð 1973 og ástand, sem var markað mjög af hryðjuverkum Araba. 

Í rúm 50 ár hafa Ísraelsmenn beitt hernáminu og fleiri aðferðum til þess að sækja í átt að takmarkinu, sem þeir telja að Guð hafi lofað þeim í árdaga, að ráða algerlega yfir Landinu helga. 

Hluta þessa landnáms var lýst nokkuð vel í bandaríska sjónvarpsþættinum 60 mínútum fyrir um aldarfjórðungi, en það felst í því, að þegar arabískur húseigandi fellur frá, ná Ísraelsmenn tangarhaldi á eigninni. 

Þetta er seinleg aðferð en það liggur ekkkert á að ná hinu heilaga takmarki. 

Um hernumda svæðið frá 1967 hafa risið og rísa enn svonefndar landnemabyggðir Ísraelsmanna, sem miða að sama takmarki. 

Reistur hefur verið Apartheid múr á milli þjóðanna tveggja. 

Hernámið sjálft og landnámabyggðirnar hafa í meira en hálfa öld verið taldar ólöglegar að alþjóðlögum en ályktanir Sameinuðu þjóðanna þar að lútandi hafa Ísraelsmenn virt að vettugi. 

En nú hefur stjórn Trumps veitt Ísraelsmönnum tvö mikilvæg trompspil á hendi: Að Jerúsalem verði viðurkennd höfuðborg Ísraels og að landnemabyggðirnar verði hér eftir álitin í samræmi við alþjóðalög.  

Síðari viðurkenningin hlýtur að teljast afar mikilvæg, því að með henni er landnámið í augum Zíonista orðið jafn gilt að Guðs og manna lögum. 

 

 


mbl.is Landnemabyggðir fari ekki gegn alþjóðalögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þyngdin sígur í.

Flestir, sem komast nálægt því að ná líkamsþyngd, sem skilgreind er sem offita samkvæmt formúlu, sem um það gildir, kannast við það að finnast þessi aukalega þyngd skipta litlu máli, svo litlu að þeir finna jafnvel lítið sem ekkert fyrir henni. 

En til þess að átta sig á henni getur verið ágætt að kaupa til dæmis fjórar tveggja lítra gosflöskur og prófa að ganga með þær upp stiga. 

Þá kemur vel í ljós hvað þessi rúmlega átta kílóa þyngd sígur í og þessi litla tilraun getur verið hvöt til þess að gera eitthvað í málinu. 

Um átta aukakílóin sem eru innbyggð í viðkomandi persónu ef hún er of þung, getur nefnilega gilt svipað og þegar maðurinn settist upp á hest og með burðarpoka á baki sínu, og útskýrði þessa aðferð til að flytja pokann með hinum fleygu orðum: "Hesturinn ber ekki það sem ég ber."


mbl.is Missti 70 kíló og segir lífið allt annað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband