Álíka gaga og GAGA.

Áróður firrtra ráðamanna Norður-Kóreu og villtar hótanir um árásir á Suður-Kóreu og Bandaríkin eru galnar, já, gaga. Flestum býður við þeim, því að þessir spilltu valdhafar virðast til alls vísir. 

En þó er þessi hegðun útaf fyrir sig ekki meira gaga en GAGA, "Gagnkvæm altryggð gereyðing allra" (MAD, "Mutual assured destruction") sem er forsenda kjarnorkuvopnabúra Bandaríkjamanna og Rússa sem búa yfir getu til að eyða öllu mannkyni.

Sú kenning í framkvæmd með notkun gereyðingarvopnabúranna er eins og nafnið bendir til margfalt skelfilegri en það að Norður-Kóreumenn grípi til sinna vopna.

Það eina sem getur gert gaga-stefnu Norður-Kóreumanna jafn slæma og hið stóra GAGA er að við treystum frekar ráðamönnum Bandaríkjamanna og Rússa til að komast hjá því að nota sín skelfilegu vopn.

En það er samt gaga í ljósi þess hve litlu hefur munað og má muna til að allt fari í bál og brand fyrir mistök.  


mbl.is Sýna kjarnorkuárás á Washington
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Landsbankinn ráðlagði..."

Sumir þurfa aldrei að kvíða neinu, hvorki fjárskorti né vantrausti.

Þar var smá von um að á páskadag yrði tveggja daga hlé á Tortólumálinu, en 12 blaðsíðna aflátsbréf hins kvíðalausa kom í veg fyrir það.

 

Þegar stefndi í efnahagshrun á Íslandi 2007-2008 þurftu sumir ekki að kvíða því. "Landsbankinn ráðlagði.." segir í þessu eftirtektarverða aflausnarbréfi. 

"Banki allra landsmanna" reyndist banki sumra landsmanna og ráðlagði útvöldum en ekki almúganum að koma fé sínu fyrir í aflandsfélagi á stað, sem þá var kallað skattaskjól og felustaður af því tagi að núna erum við Íslendingar aðilar að alþjóðlegu átaki gegn slíku. 

En nú er okkur sagt að staðurinn hafi breyst og sé bara ósköp venjulegur geymslustaður fyrir fé og að fullir skattar séu greiddir af fénu, sem "Landsbankinn ráðlagði" útvöldum að koma burtu úr íslenska krónuhagkerfinu í tæka tið á sama tíma sem krónan var, - og er reyndar enn, - mærð fyrir það hve vel hún hefur reynst okkur alla tíð. 

Má furðu gegna að á sama tíma séu þeir sömu og það segja um Tortólu heilshuga aðilar að alþjóðlegri "aðför" að svo göfugum stað.

Og mikið má sauðsvartur almúginn vera þakklátur fyrir að skattar skuli greiddir af fé sem sumir fengu í leyni að halda óskertu á sama tíma og aðrir, sem Landsbankinni ráðlagði ekki, misstu mestallt eða allt sitt og geta engan skatt borgað af því.

Orðin "í leyni" eiga við um það að Landsbankinn og gæludýr hans leyndu því fyrir öðrum en útvöldum hvernig hægt væri að komast kvíðalaust í gegnum Hrunið á meðan hann ráðlagði öllum almenningi að festa féð í krónuhagkerfinu hér heima og tapa því síðan að meira eða minna leyti og taka á sig 72% hrun krónunnar.

Tvær þjóðir virðast búa í þessu landi. Önnur þarf aldrei að kvíða neinu og hefur alltaf allt sitt á þurru, af því að hún býr í erlendu hagkerfi á meðan hin þjóðin býr við allt önnur kjör.

Og talsmaður yfirþjóðarinnar segir ekki aðeins að allt sé þetta löglegt, heldur líka að það sé siðlegt.

Svona til öryggis til þess að máta fyrirfram þann, sem dettur í hug að bera sér fræg orð Vilmundar heitins Gylfasonar í munn.   

 


mbl.is Kvíðir ekki vantrauststillögu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Öllu snúið í hring og á haus.

Svo er að skilja af því sem  hefur fram hjá Árna Páli Árnasyni, að allir þeir, sem tengdust aðgerðum vegna samninga við kröfuhafa föllnu bankanna hafi verið krafðir um upplýsingar um hugsanleg hagsmunatengsl sín við kröfuhafana, en svör allra hafi verið að enginn hafi haft slíkin tengsl.

Hinn eini, sem ekki hafi verið krafinn um þetta hafi verið forsætisráðherra.

En nú kemur í ljós að hann einn tengdist einmitt einum kröfuhafanna. 

Þá kemur hann bara og segir að af því að enginn hinna hefðu talið sig eiga nein hagsmunatengsl, hefði hann ekki verið skyldugur til að gefa neitt slíkt upp!

Halló!? Einmitt ekki hann sem virðist hafa verið sá eini sem hafði tengsl?! 

 

Hér er öllu snúið á haus og í hring. Hvað snýr fram og hvað snýr aftur ? 

Svo má bæta því við að það er alveg nýr skilningur á vanhæfi að nóg sé að skoða gerning hins vanhæfa eftir á til að meta hvort hagsmunatengsl hans hafi haft áhrif. 

Ef þetta er réttur skilningur, eru reglur um að vanhæfi sé kannað áður en en hinn vanhæfi hefst handa við gerning sinn, alveg óþarfar. 

Sem er vitanlega galið, því að eftir að gerningurinn liggur fyrir er hægt að deila endalaust um þrjá kosti: 

1. Að hinn vanhæfi hafi hitt á hin sanngjörnu málalok. Sem getur verið endalaust          umdeilanlegt. 

2. Að hinn vanhæfi hafi hyglað hinum tengda. 

3. Að hinn vanhæfi hafi gengið á hlut hins tengda. 

Kostir 2 og 3 snúast báðir um mismunun og eru því afleitir. 

Þetta er aðalástæðan fyrir reglum um að hugað sé að vanhæfi fyrirfram en ekki eftir á. 

 


Rímið í fréttum vikunnar.

Ekki fer á milli mála hverjar voru tvær stærstu fréttir vikunnar ef miðað er við umtal og umfjöllun um þær. 

En þær eru svo ólíkar, að með eindæmum er.

Svo mjög, að spurning forsætisráðherra um það hvað snúi upp og hvað snúi niður á vel við. 

Fréttirnar eru það gerólíkar að þær eiga bókstaflega ekkert sameiginlegt og sem betur fer engin leið að tengja þær saman og þar af leiðandi í lagi að hafa þær samliggjandi í fréttatímum. 

Eina samsvörunin finnst að vísu í tveimur rímorðum sem eru jafn ólík að merkingu og fréttirnar en valda því að hægt er að orða þessar tvær fréttir í einni ferskeytlu, þegar komið er heim á klakann á leið frá Brussel til Reykjavíkur:

 

Í Brussel fréttir fjalla um  / 

ferlega notkun morðtóla.  /

Hér heima er fremst í fréttunum  /

forsætisráðherra´og Tortóla.  

 


mbl.is Hvað snýr upp og niður?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fylgifiskur óánægjunnar.

Fylgifiskur nýs umróts og óánægju er uppgangur þeirra flokka, sem gagnrýna ástandið á þeim forsendum að viðbrögð við hinu nýja ástandi séu hvorki fullnægjandi né rétt. 

Og á þeim forsendum hafa jaðarflokkar ævinlega þrifist best í ástandi kreppu og upplausnar. 

Enginn vafi er á því að nýjustu atburðir í Belgíu muni verða vatn á myllu óánægjuaflanna. 

Í Belgíu hefur getulausi og sleifarlag lögreglu og yfirvalda opinberast, og almenn óánægja með það mun að sjálfsögðu bitna á stjórnmálalegum valdhöfum. 


mbl.is Pólitískur landskjálfti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sírenuvælið segir sína sögu.

Væl í sírenumm lögreglubíla hefur verið áberandi hluti af borgarmynd Brussel undanfarna daga.

Auðvitað er slíkt væl hluti af lífi milljónaborgar, en miðað við fyrri heimsóknir til þessarar borgar má greina marktækan mun.

Vælið eitt og sér kann að hafa fælingarmátt fyrir þá óyndismenn sem enn leika lausum hala í borginni. Í henni ríkir enn hátt viðbúnaðarstig sem borgarbúar verða að lifa við um sinn.

Belgísku lögreglunnar bíður það hlutverk að gyrða sig í brók. Það vakti athygli að franska lögreglan átti hlut að handtöku forsprakka hryðjuverkamanna, sem flýtti fyrir því að ódæðismenn létu til skarar skríða.

Frakkar hafa verið hundóánægðir með það hve hryðjuverkamenn hafa átt auðvelt með að vera óhultir í Brussel og athafna sig þar.

Maalbeek brautarstöðin er næsta neðanjarðarbrautarstöðin við höfuðstöðvar Evrópusambandsins, aðein 300 metra frá þeim, og það eitt ætti að nægja til að hringja öllum viðvörunarbjöllum.

Rétt er að hafa í huga hve litlu munaði að tilræðismönnum tækist að fljúga á Hvíta húsið 11. september 2001.   


mbl.is Göngunni verður frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Margir eiga Bjarna Fel mikið að þakka.

Það var ekkert grín að fjalla svo vel væri um íþróttir í íslenska sjónvarpinu fyrstu svart-hvítu árin. Aðeins einn fastráðinn íþróttafréttamaður vann hjá stofnuninni og fannst erlendum íþróttamönnum það fáránlegt að "sportsjeffen" á Íslandi skyldi vera yfirmaður yfir sjálfum sér einum.

Kvikmyndatökumenn og aðra nauðsynlegir starfsmenn var hægt að telja á fingrum sér og framkalla varð filmur og tónbönd sér, "samhraða" þau á eftir í klippitækjum þar sem efnið var bútað sundur og klippt saman í klippisamstæðu.

Síðan varð annað hvort að hljóðsetja lýsingu inn á eða að lýsa útsendingunni beint úr þuluklefa.

Á þessum árum var Bjarni Felixson gjaldkeri hjá vélsmiðjunni Hamri en varð strax ómissandi í sjónvarpinu við það aukastarf að fjalla um knattspyrnu og getraunir af einstakri elju og færni.

Þar áður, meira en áratug fyrr, hafði hann unnið brautryðjendastarf varðandi íslenskar getraunir.

Á þessum árum var ekki hægt að senda út beint yfir hafið, og þess vegna varð að bíða eftir því að efnið bærist til landsins til sýningar.

Þessi ár gekk ég aukavaktir á fréttastofunni og fór í margar erfiðar ferðir út á land vegna frétta eða dagskrárgerðar.

Þá var ómetanlegt að eiga hauk í horni þar sem Bjarni var og hann var sjálfkjörinn eftirmaður eftir að ég fór alfarið úr íþróttunum 1976.

Bjarni ól ekki aðeins upp nýjar kynslóðir Íslendinga hvað varðaði íþróttir, heldur var málfar hans til fyrirmyndar og hafði líka mikil áhrif.

Áhugi hans og elja átti sér fáar hliðstæður.

Margir eiga Bjarna mikið að þakka og ég er einn af þeim. Það verðskuldað að breskt stórblað geri honum góð skil.


mbl.is The Guardian fjallar um Bjarna Fel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snillingur leiftursnöggu stefnu- og hraðabreytinganna.

Efast má um að nokkur knattspyrnumaður hafi búið yfir þeim einstaka hæfileika sem Johan Cruyff hafði til þess að breyta örsnöggt og leifturhratt um stefnu og hraða með boltann.

Á augabragði gat hann snúið sér á punktinum og verið kominn á fulla ferð í gagnstæða átt við það sem hann hafði áður stefnt og skilið varnarmenn eftir ráðþrota.

Þegar hann var í þessum ham gat enginn varnarmaður fylgt honum eftir, ráðið við hraða hans eða náð af honum boltanum.

Í landsleiknum við Ísland, þar sem hann skoraði tvö mörk, gerði hann þetta snilldarlega svo að minningin um það lifir sem ein af eftirminnilegustu augnablikunum frá knattspyrnuvellinum.   


mbl.is Leikurinn stöðvaður á 14. mínútu (myndskeið)
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svona er heimurinn í dag.

"Svona er Ísland í dag" var viðkvæðið hjá Jóni Ársæli Þórðarsyni í þáttum, pistlum og fréttum.

Nú má víkka þetta út og segja ekki aðeins "svona er Brussel í dag", "svona er Jemen í dag" eða "svona er Bagdad í dag", "svona er Leifsstöð í dag," heldur líka "svona er heimurinn í dag" þegar litið er yfir fréttir af sjálfsmórðsárásum á ýmsum stöðum.

Áhrifin af þessum árásum eru afar mikil eins og sjá má af þeirri truflun sem orðið hefur bara hér í Brussel þar sem fólk er enn að melta þau og átta sig á þeim usla sem örfáir ofstækis- og glæpamenn hafa valdið.

Heilum alþjóðaflugvelli tveggja milljón manna borgar hefur verið kippt úr sambandi í viku að minnsta kosti og því meiri áhrif sem blóðbaðið í aðeins 300 metra fjarlægð frá bústað Íslendinga hér hefur á daglegt líf og hugsanir, því meiri árangur hefur árás heilaþveginna ódæðismanna á frið, farsæld og mannréttindi vestræns samfélags.

Þess vegna er þrátt fyrir allt uppörvandi að sjá og heyra viðbrögð fólksins dag eftir dag á blómum skrýddum samkomustöðum utan húss, svo sem við Maalbeek brautarstöðina, þar sem mynd á faceboook síðu minni var tekin í gær.

Og í útvarpi má heyra spilað að nýju rúmlega 40 ára gamlan ástaróð til Brussel, borgarinnar sem skrýððist vorsins blómabreiðum á þegar vorið gengur í garð á jafndægrum.


mbl.is 22 látnir eftir sjálfsmorðsárásir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonbrigðin í bíóinu.

Hér er saga af atviki sem gerðist þegar ég fór að sjá kvikmyndina Aviator, sem fjallaði um ævi hins magnaða Howard Hughes, sem var flugmaður og hönnuður og varð milljarðamæringur í gegnum flugafrek sín og smíði flugvéla, þeirra á meðal "Spruce Goose", sem var langstærsta flugvél veraldar, með meira vænghaf en Airbus 380 er með núna, enda gátu flugvirkjar gengið innan í vængjunum til þess að sinna hreyflunum ef á þurfti að halda.

Hughes hlaut frægð á við helstu kvikmyndastjörnur Hollywood, enda afar glæsilegur maður á yngri árum, svo að ekki dugði minna en að Leonardo DiCaprio lék hann í myndinni sem var drjúglöng.

Við hlið okkar Helgu sátu roskin hjón og konan ljómaði í hvert sinn sem DiCaprio í hlutverki Hughes birtist á hvíta tjaldinu.

Þegar myndinni lauk og ljósin voru kveikt, sagði hún við mann sinn og vonbrigðin leyndu sér ekki í röddunni:  "Hvað, er þetta búið? Og ekkert um Playboy?"

 

Ég brann í skinninu að spyrja manninn, hvort hann hefði lokkað konuna til þess að horfa á langa mynd um flugmann með því að rugla hana á nöfnunum Hughes og Hugh Hefner.

Eða hvor hún hefði ruglast á þessu sjálf eða þau bæði ruglast í ríminu.

En ég áræddi ekki að spyrja, þannig að það verður aldrei upplýst.


mbl.is Playboy til sölu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband