Að stjórna atburðarásinni - eða ekki.

Að vera - eða vera ekki, það er spurningin. Að hafa ekki stjórn á atburðarásinni eða hafa ekkil stjórn á atburðarásinni, það er svipuð spurning. 

Sagan geymir ótal dæmi um það að þegar menn stóðu í þeirri trú að þeir hefðu stjórn á atburðarásinni, þá reyndist hið þveröfuga vera staðreyndin, - þeir voru leiksoppar atburðarásar, sem þeir réðu ekki við. 

Stundum líður langur tími frá því að atburðarásin fór í gang þangað til menn sjá það allt of seint að þeir hefðu þurft að grípa í taumana fyrir löngu. 

Við athugun eftir á kom í ljós að íslenska bankakerfið stefndi í þrot þegar í lok ársins 2006 en flestir héldu allt til októberbyrjunar tveimur árum síðar að hægt væri að afstýra því að stærsta bankahrun í sögu einnar þjóðar yrði að veruleika, og að það birtist í óhjákvæmilegu bankaáhlaupi. 

Stundum kemur í ljós að þeir, sem mesta þekkingu og yfirsýn áttu að hafa yfir ástandið, vissu minna en aðrir sem skynjuðu það sem í vændum væri, gagnrýndu ástandið, en áttu erfitt með að færa að því rök. 

Hve oft hefur ekki leikur að eldi, sem menn héldu að vald væri haft á, endað með því að allt hefur fuðrað upp? 

Leik stórvelda Evrópu að eldi vopnakapphlaups á árunum upp úr 1910 sem Lloyd George lýsti á nýársdag 1914 sem "skipulagðri vitfirringu" lauk með því að ráðamenn álfunnar misstu stjórn á atburðarásinni í kjölfar morðs á tveimur einstaklingum og í kjölfarið fylgdu stjórnlaus hernaðarátök uns um 20 milljónir manna lágu í valnum.

Ástandið í Grikklandi vekur minningar um svipaða daga hér á landi í októberbyrjun 2008.

Eftir á kom í ljós að svo örlitlu munaði að allt hefði farið á mun verri veg, og fór það þó verr en flesta grunaði aðeins nokkrum vikum fyrr.

Hvað gerist nú í Grikklandi og öðrum löndum Evrópu?  

 


mbl.is Bankaáhlaup í Grikklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tölvulíkön alltaf betri en veruleikinn?

Alls konar tölvulíkön eru hluti af þeim miklu tækniframförum sem nú eru á mörgum sviðum.

Þau geta oft náð mögnuðum árangri við að greina afar flókin viðfangsefni. 

En þau geta aldrei orðið betri og nákvæmari en veruleikinn sjálfur. 

Fyrir 50 árum voru engin tölvulíkön og ekki heldur tölvur sem stóðu undir nafni. 

Þess vegna var eina leiðin til að mæla flugskilyrði að og frá Hvassa/Kapelluhrauni að fljúga að og frá vellinum sem oftast í mismunandi vindáttum og veðurskilyrðum. 

Þetta kostaði peninga en annað var ekki talið gerlegt til að kanna þessi skilyrði og bera saman við skilyrðin við Reykjavíkurflugvöll og raunar heldur ekki boðlegt. 

Nú ber svo við að svo virðist sem menn tími ekki að endurtaka þetta úr því að þeir véfengja niðurstöðurnar gömlu, heldur koma fyrir mælitækjum á jörðu niðri sem safna mýgrút talna og upplýsinga sem síðan fer í tölvuvinnslu sem gerir þetta líka fína tölvulíkan byggðan á gríðarlega viðamiklum "flugkvikureikningum".

Útkoman er sú að flugið fyrir hálfri öld hafi skilað kolröngum niðurstöðum og að besta lýsingarorðið yfir veðrið í Hvassahrauni sé "milt".

En eru tölvulíkön því öruggari og betri aðferð sem viðfangsefnið er flóknara?

Ekki var það 2010 og 2011 þegar íslensku eldfjöllin gusu.

Hin rómaða ofurtölva í London hafði rangt fyrir sér um öskumagn í loftinu við Ísland og á íslenskum flugvöllum svo mörgum dögum skipti.

Hún hafði Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvöll opna þegar mest aska var í lofti, en lokaða þegar miklu minna eða jafnvel ekkert var í loftinu.

Í Grímsvatnagosinu 2011 stefndu tölvukallarnir í London af því að loka Reykjavíkur- og Keflavíkurflugvöllum í tvo sólarhringa því að tölvan spáði mikilli ösku í lofti.

Sem betur fór var Jónas Elíasson prófessor búinn að hanna viðurkenndan mælibúnað, sem hægt var að setja um borð einshreyfilsvélina TF-TAL í eigu Sverris Þóroddssonar og fljúga með þessi mælitæki um flugstjórnarsvið flugvallanna tveggja.

Í London var ekki tekið í mál að taka mark á flugumferðarstjórunum í flugturnunum, sem gátu sýnt á Skype að heiðríkja var yfir öllum Faxaflóa svo að Snæfellsjökull blasti við út um gluggana.

Spurning Nóbelskáldsins "hefðurðu pappír upp á það" var það eina sem dugði. Og í tvo daga runnu strimlarnir með mælingatölunum úr fluginu á TF-TAL út og dugðu til þess að halda flugvöllunum opnum.IMG_0125

Mesta mengunin mældist í þrjár sekúndur þegar flugvélin flaug yfir Hellisheiðarvirkjun í 500 feta hæð yfir jörð!

Nú er talað um það að í vændum sé á annað hundrað milljarða króna fjárfesting á flugvöllunum tveimu næstu 25 árin.

Á maður að trúa því að ekki sé, kostnaðar vegna, tekið í mál að gera svipaðar aðflugs- og fráflugsmælingar í raunverulegum flugskilyrðum og gerðar voru á sínum tíma?IMG_0126

Mælingar á jörðu niðri eru ágætar út af fyrir sig en það er ekki verið að mæla skilyrði fyrir bílaumferð heldur flugumferð allt upp í minnst 2000 feta hæð, upp í sjálfa "flugkvikuna"

Að mæla flugkvikuna án þess að fljúga inn í hana sjálfa hljómar undarlega, rétt eins og það gaf oft kolrangar niðurstöður vorið 2011 að mæla öskumagn í lofti í tölvulíkani í London í stað þess að mæla hana í viðkomandi lofthjúpi sjálfum.

Ég átti leið í flugvélinni TF-BON inn til Reykjavíkur eftir hádegi í dag yfir Vífilsstaði og tók meðfylgjandi þrjár rmyndir með nokkurra mínútna millibili.Reykjav. flugv. Aðflug

Efsta myndin sýnir útsýni úr vélinni til suðvesturs í átt til Hvassahrauns, sem varla grillir í fyrir rokmistrinu sem steypist ofan af 700 metra háum fjöllum austan við hraunið, sem hulin eru í rokmistrinu eða "ókyrrðardrullunni" eins og stundum er sagt á flugmannamáli.

Á næstu mynd er horft frá sama stað til Reykjavíkur til norðvesturs og á neðstu myndinni er þremur mínútum síðar horft in til brautarinnar sem er í notkun.

Bláfjöllin eru fjær, hægra megin á myndinni inni í kófinu og þau og Lönguhlíðar eru tvöfalt fjær Reykjavíkurflugvelli en Hvassahrauni. 

 

Þessar myndir sýna mér meira en tölvugerðar mælingar á jörðu niðri hefðu getað sýnt.

Þessar myndir sýna veruleikann, ekki sýndarveruleika.    


mbl.is Flugvallarumræðu hvergi lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kosturinn við að ferðast hægt.

Í öld hraðans þykja ferðalög á sem mestum hraða oft eftirsóknarverð. En hraðinn gleypir líka og felur margt áhugavert, sem kann að vera að sjá og upplifa á ferðaleiðunum. 

Á þessu byggjast meðal annars töfrar gönguferða og hestaferða. Fuglahreiður og önnur smáatriði verða sýnileg og útivistin kitlar öll skilningarvit, sjón, heyrn, ilman, smekk og tilfinningu. 

Upplifunin verður sterkari og meiri. 

Þetta var mín upplifun á árum reiðhjólsins fram eftir unglingsárum og á hestbaki í sveitinn á sumrin. Helga og TF-GIN

Eftir að hafa ýmsar þjóðleiðir, svo sem þjóðveg eitt allt austur að Kotströnd í Ölfusi og norður í Norðurárdal í Borgarfirði verða þessir vegarkaflar aldrei þeir sömu í mínum augum. 

Ég uppgötvaði aftur gildi lötursins ef svo má að orði komast, þegar ég keypti flugvélina TF-GIN 1968 og fór að fljúga henni. 

Hún var mun hægfleygari en vélarnar sem ég hafði flogið fram að því og allt í einu opnaðist ný sýn á flugleiðirnar. Skaftið við Straumnes

Ég seldi hana en eignaðist hana aftur á árunum 1986-1992 og aftur uppgötvaði ég gildi þess að fljúga hægar, hvað þá þegar ég fór að fljúga "Skaftinu", eins manns opnu flygildi, sem flaug helmingi hægar en TF-GIN. 

Frá árinu 2006 hef ég notið þess að aka í opnum bílum og það er líka upplifun þar sem skilningarvitunum öllum er gert hærra undir höfði en í lokuðum og hljóðeinangruðum bílum. 

Í vor hef ég á ný verið að uppgötva töfra hjólreiðanna, sem ég hef lýst hér fyrr á síðunni. 


mbl.is Sjáum hreiðrin í vegkantinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"United States of America".

Það getur verið ýmislegt að sjá um miðnæturskeið sitjandi við tölvuna. Sólarlag 27.6.15

Út um gluggana blasti áðan við hins vegar fallegt sólarlag, sem tilvalið var að taka meðfylgjandi mynd af.

Á mbl.is á tölvuborðinu mátti hins vegar sjá Obama fremja óvenjulegan gerning af manni í hans stöðu.  

Það virðist ljóst að ræða Bandaríkjaforseta í kvöld við minningarathöfn um þá sem féllu í skotárás fyrir níu dögum hafi verið óvenjuleg og áhrifamikil. 

Að vísu sést aðeins lokakafli hennar með fjöldasöng sem forsetinn laðaði fram af hjá viðstöddum en svona lagað er óvenjulegt að sjá og heyra.

Órói og ósætti ógna bandarísku samfélagi og því er ekki sama hvernig talað er á tilfinningaþrungnum samkomum. Það er enn mikið verk óunnið í að ná sáttum og jafnstöðu á milli einstakra hópa í landinu. 

En það vakti athygli að í lokasetningunni lagði forsetinn sérstaka áherslu á orðið "United..." (sameinuð) í nafninu "United States of America" og bar það vitni um hyggindi og góða ræðumennsku. 

Það verður fróðlegt að sjá og heyra ræðuna í heild ef færi gefst á því. 


mbl.is Obama brast í söng
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og alltaf verðum við jafn hissa.

Svartir sandar, fjörur, urðir og hraun hafa ekki verið í miklum metum hjá okkur Íslendingum. 

"Bleikir akrar og slegin tún", þau fleygu orð Gunnars á Hlíðarenda hafa túlkað það mat okkar að gróðursnauð náttúra sé einskis virði og jafnvel óæskileg. 

Lonly Planet er ekki bara eitthvað erlent nafn á litlu fyrirtæki, heldur nafn eins virtasta fyrirtækis heims sem sérhæft hefur sig í ferðamennsku og áhugaverðum stöðum og svæðum. 

Það þarf talsvert til að íslensk fjara komist í hóp fimm bestu stranda Evrópu, og eitt er víst, að til þess þarf eitthvað sérstakt þegar litið er til þeirra hundruða ef ekki þúsunda fjara í álfunni, sem þarf að meta til að komast að svona niðurstöðu. 

Fyrir tæpum aldarfjórðungi taldi breskur blaðamaður, sem dvaldi hér yfir hátíðirnar, íslenska skafrenninginn eitt það allra merkilegasta sem hann hefði upplifað á áratuga ferðum sínum um allan heim. Við urðum mjög hissa. 

Tunglfararnir fóru inn í hina gróðurvana Öskju 1967. Við urðum mjög hissa. 

Þekkt erlent fólk er að lýsa hrifningu sinni á fyrirbærum úti í íslensku víðáttunni sem gerir okkur jafn hissa í hvert sinn sem einhver segir slíkt. 

Í okkar huga hafa Hallormsstaðaskógur og Vaglaskógur verið efst á blaði í íslenskri náttúru, - ekki eitthvert grjót, urð og sandar uppi á auðnum hálendins.

Erlent ferðafólk hefur dásamað rok og rigningu sem það hefur lent í sem einstæða upplifum, til dæmis saltrok, helliregn og haugabrim við Reykjanetá, og í hvert sinn höfum við orðið mjög hissa.  

Og hafi verið eða séu einhver gróðursæl svæði eins og vinjar á hálendinu í skjólsælum dölum, hefur þótt brýn nauðsyn til að sökkva þeim sem fyrst undir "snyrtileg" miðlunarlón virkjana og segja samt að einungis hafi verið sökkt óæskilegum og ljótum söndum, urðum og melum. 


mbl.is Reynisfjara 5. besta strönd Evrópu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lagni og kímni leysa margt.

Myndskeiðið af viðbrögðum Barack Obama við sífelldum frammíköllum manns á fundi í Hvíta húsinu sýnir hvernig með blöndu af kímni, lagni og festu, er hægt að komast út úr vandræðum á borð við þau sem þarna urðu vegna óvæntrar uppákomu. 

Sallarólegur hafði Obama stjórn á atburðarásinni og tókst að gera hana furðu skemmtilega fyrir alla viðstadda. 

Klókur og klár, ekki vantar það. 

 

Obama hefur oft séð það svart

en settlað málin og haggast vart. 

Lagni og kímni leysa margt

að lempa út mann og samt fara í hart. 


mbl.is Greip fram í fyrir Obama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hefur vindurinn minnkað og hafa fjöllin lækkað og fjarlægst?

Fyrir 55 árum var hugmynd um nýjan flugvöll í Kapelluhrauni, skammt frá Hvassahrauni, slegin af eftir að menn höfðu prófað að fljúga flugvélum til skiptis að og frá Reykjavíkurflugvelli í hvassri aust-suðaustanátt, algengustu rok-vindáttinni, og jafnfram að og frá hugsanlegu flugvallarstæði nálægt Hvassahrauni. 

Í ljós kom, að vegna þess að Hvassahrauns/Kapelluhraunsflugvöllur yrði helmingi nær fjöllunum fyrir austan Reykjavik heldur en völlur í Vatnsmýrinni myndi ókyrrð verða svo miklu meiri þar en í Reykjavík, að óráð væri að leggja flugvöll þarna suður frá. 

Nú er því slegið fram af Rögnunefndinni að vindur og veðurfar séu í grunninn svipaður á báðum stöðum, en þá er ekki tekið með í reikninginn að landfræðilegar aðstæður eins og nálægð fjalla, sem vindurinn fer yfir, geta valdið því að miklu verri ókyrrð verði á þeim stað sem nær er fjöllum en þeim stað sem fjær er. 

Vindmælingar niðri við jörð segja ekki alla söguna, því að hættulegasta ókyrrðin er eðli málsins samkvæmt ofar, í aðfluginu og ekki hvað síst í fráfluginu þegar flogið er í átt að Reykjanesfjallgarðinum. 

Eina raunhæfa leiðin til þess að rannsaka þetta er að gera það sama og gert var fyrir rúmlega hálfri öld, að gera aðflug og fráflug að báðum vallarstæðunum í algengustu hvassviðrisáttinni á sama tíma.

Meðan það hefur ekki verið gert, er aðeins verið að stefna að óþörfum mistökum vegna ónógra upplýsinga og Vaðlaheiðargöngin virðst vera gott dæmi um.

Síðan má benda á hvar helst er ófærð á Reykjanesbrautinni og að það kann að vera kominn tími á nýja eldgosahrinu á Reykjanesskaga.

Lítil hætta er á því að hraun muni renna niður í Fossvog og inn í Vatnsmýrina.

 

P.S. Svo má bæta því við að samanlögð ferðaleið flugfarþega sem færu til og frá Hvassahraunsflugvelli lengist til allra áfangastaða á landinu nema Vestmannaeyja miðað við það að fara frá núverandi flugvelli.

Leiðin Reykjavík-Akureyri-Reykjavík myndi lengjast samtals um tæplega 80 kílómetra fram og til baka, en það samsvarar því í kílómetrum að á landleiðinni um þjóðveg 1 yrði aftur farið að aka fyrir Hvalfjörð fram og til baka.

Lenging austur-vestur brautarinnar í Reykjavík myndi gerbreyta umferð um völlinn og bæta hann, minnka umferð til norðurs og suðurs og gera mögulega notkun hljóðlátra millilandaflugvéla ef menn vildu eiga möguleika á því.

Aðflug og fráflug á þeirri braut eru að austanverðu yfir autt svæði í Fossvogsdal og að vestanverðu yfir sjó úti á Skerjafirði og þessi braut liggur beint upp í algengustu hvassviðrisvindáttina.  


mbl.is Hvassahraun kemur best út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áhugaverð keppni. Svefnleysið áhyggjuefni.

Manni þótti það góður árangur hér í gamla daga í kringum 1955 að ná 20 kílómetra meðalhraða á klukkustund í langhjólreið á gamla krókótta malarveginum sem þá hlykkjaðist hringinn í kringum landið, en vantaði þó í á Skeiðarársandi. 

Það reiðhjól var þó aðeins tveggja eða þriggja gíra (ég man ekki hvort var) en með eina fjaðrandi framgafflinum á landinu. 

Þetta kostaði svo mikla orkueyðslu, að töskurnar á bögglaberanum, sem voru fullar af mat í upphafi ferðar í Reykjavík, voru orðnar tómar í Ferstiklu og aftur tómar við Bifröst.   

35,5 kílómetra meðalhraði er ekkert smáræði, jafnvel þótt hjólað sé á góðum malbikuðum vegi á fullkomnum margra gíra hjólum. 

Líkamleg áreynsla sem liggur að baki slíkri hraðferð er þó ekki það erfiðasta, heldur svefnleysið, sem getur verið varasamt og er áhyggjuefni. 

Til eru frásagnir af því að menn hafi hreinlega sofnað í mikilli líkamlegri áreynslu. 

Þannig varð Ásmundur Bjarnason fyrir svo miklu ónæði nóttina fyrir úrslitahlaupið í 200 metra hlaupi á Evrópumeistaramótinu í Brussel 1950, að hann "sofnaði" í síðari hluta beygjunnar.

Hann hreinlega "datt út", mundi ekkert eftir þessum hluta beygjunnar eftir á, og taldi eftir hlaupið að þetta hefði rænt hann möguleikunum á verða sæti framar í hlaupinu, jafnvel að komast á verðlaunapall.

Fjöldi þátttakenda í hinu stórgóða WOW Cyclothon er það mikill að sennilega er útilokað að gefa keppenndum færi á að sofna og hvíla sig í sérstöku hléi undir eftirliti á miðri leið, án þess að fá refsingu fyrir það.

Fyrir bragðið er tekin ákveðin áhætta með því að keppendur sofi ekkert sólarhringum saman og að það endi með slysi.  


mbl.is Ætlar að leggja sig í hálftíma
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Rímar við það sem hefur sést úr lofti.

Þótt leiðin inn að Kverkfjöllum og Öskjuleið að Dreka séu langt frá Reykjavík er það afar mikils virði fyrir ferðaþjónustuna að þetta svæði opnast í stað þess að allar hálendisleiðir séu lokaðar.Holuhrauns-svæðið 19.6.15

Margir erlendir ferðamenn á jeppum koma í land á Seyðisfirði og fyrir þá liggja þessr leiðir vel við. 

Auk þess er þarna að sjá hið nýja Holuhraun sem er spennandi. 

Það má þakka Vatnajökli fyrir þetta, því að 30 til 40 kílómetra breið landræma norður af honum er jafnvel heldur snjóléttari en venjulega á sama tíma og miklu meiri snjór er en venjulega bæði fyrir austan og þó einkum fyrir vestan þetta snjólétta svæði.

Á efstu myndinni sést Dyngjujökull í forgrunni, Holuhraun fjær og Askja og Herðubreið enn fjær. Jökulsárflæður Holuhraun.

Jökullinn varði svæðið fyrir hinum úrkomusömu suðvestan-sunnan- og suðaustavindum sem voru svo öflugir og algengir í vetur.

Nú er liðið á þriðju viku sem þarna hefur verið þurrt og hlýtt og þess vegna berast þessar góðu fréttir núna til þeirra, sem ætla að njóta öræfanna á næstu vikum.

Jökulsá á Fjöllum rennur meðfram báðum hraunröndum Holuhrauns en hættan á að lón myndist sýnist vera lítil.

Á þremur stöðum hefur safnast fyrir lítils háttar vatn, sem hefur fengið framrás og mun grafa sig meðfram hrauninu.Kverkfjalla-leið 19.6.15

Á miðmyndinni sést, að enda þótt hraunið hafi runnið yfir stóran hluta af svonefndum Jökulsárflæðum, þaðan sem hvimleiðir sandstormar hafa oft komið, hreyfir sunnan hnjúkaþeyrinn þó enn sandinn við suðvesturenda hraunsins.

Á neðstu myndinni er horft yfir hluta svæðisins sem Kverkfjallaleið liggur um og sést vel, hvernig snjóalögin eru austan við ána Kreppu en landið autt vestan við ána.   


mbl.is Opna Dreka og Kverkfjöll á föstudag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættuleg öfugþróun.

Lýðræðið á í vök að verjast víða um lönd, líka hér á landi. Það sést best á því hvernig einn af valdþáttunum þremur, sem það byggist á, framkvæmdavaldið, sækir til sín æ meiri völd á kostnað hinna tveggja, einmitt þegar öll samskiptatækni með tilkomu netsins ætti að geta aukið lýðræðið og skerpt það. 

Sjá má í bloggpistlum farið háðulegum orðum um Alþingi, sem sé orðið ónýtt og nánast óþarft, af því að allt sem skipti máli, sé afgreitt hjá framkvæmdavaldinu og með umræðum á netinu. 

Þetta er ekki framför heldur afturför nema að menn vilji fagna því að valdið þjappist sem mest saman hjá "sterkum" valdhöfum. 

En þá er hollt að hafa í huga að vald spillir og mikið vald gerspillir. 

Sagan sýnir, að aukin samþjöppun valds og veiking lýðræðis eykur ekki öryggi í heiminum og í einstökum löndum, heldur veldur hún hættu á því að alræði komist á og kveiki skæð átök og stríð.

Nú er jafnvel enn meiri þörf á valddreifingu en nokkru sinni fyrr þegar tekið er tillit til þess að tveir valdþættir, auðræði og vald fjölmiðla, hafa bæst við.

Einkum er auðræðið hættulegt, því að þar er á ferð afl lítils minnihluta mannkyns með mikinn meirihluta fjármagnsins, sem safnast oft saman í svo sterk og öflug alþjóðleg stórfyrirtæki, að ekkert stendur í vegi fyrir þeim.

Á slíkum tímum er aukin þörf á lýðræði, bæði beint lýðræði í gegnum netið eða þjóðaratkvæðagreiðslur.

Hér á landi hefur almenningur misjafnlega mikil áhrif á valdþættina.

Forseti Íslands er eini embættismaðurinn sem er kjörinn beint af þjóðinni. Í frumvarpi stjórnlagaráðs er honum ætlað ákveðið og afmarkað vald í krafti þess, en þó með svo skýrum valdtakmörkunum, að það verði undantekning að hann þurfi að beita því nema í neyðartilvikum, enda komi reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur almennt í stað þess sem nú er falið í 26. grein stjórnar. 

Alþingi er nú kjörið beint sem heild en því miður ekki þingmennirnir sjálfir hver og einn. Reglur um útstrikanir eru svo veikar, að þær virka yfirleitt ekki að neinu gagni, enda væri betra ef atbeini kjósenda væri jákvæður en ekki neikvæður. Það er hægt með því að lofa þeim að raða sjálfir á listana beint. Í frumvarpi stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir því að endanlegt vald kjósenda færist úr misvel heppnuðum og bjöguðum prófkjörum inn í kjörklefana sjálfa.

Framkvæmdavaldið er einu þrepi fjær kjósendum en Alþingi. Alþingi ræður að vísu hverjum er falin myndun ríkisstjórnar og hvaða ríkisstjórn það treystir, en ráðherrarnir sækja umboð sitt á afar veikan hátt til kjósenda. Af því leiðir að freisting framkvæmdavaldsins til að hrifsa til sín völd á kostnað annarra valdþátta er svo mikil, að úr hefur orðið það ófremdarástand að þingið er vanmáttug afgreiðslustofnun fyrir ráðherrana og ríkisstjórnina.

Í frumvarpi stjórnlagaráðs er reynt að hamla gegn þessu með því að efla vald þingsins og vald forseta þess og þingnefnda.   

Um dómsvaldið gilda vandmeðfarnar reglur og dómendur eru ekki kjörnir beint.

Því miður virðist sem valdamikil öfl geri allt sem þau geta til að tefja fyrir umbótum í lýðræðisátt.

Þær umbætur verða að felast í skýrari valdmörkum og aukinni valddreifingu svo að lýðræðið verði ekki nafnið tómt og Alþingi rúið trausti, virðingu og þeim völdum sem hæfileg eru fyrir einn af þremur hornsteinum vestræns lýðræðis sem mynda þurfa nauðsynlegt valdajafnvægi.    


mbl.is Samkomulag um þinglok ólíklegt í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband