Hefði þurft að koma fram fyrr.

Sveitarstjórnarmálefni eru að miklu leyti annars eðlis en landsstjórnmál. Það er yfirleitt auðveldara að hafa áhuga og þekkingu á nærumhverfi sínu en málefnum landsins alls, sem tengjast alþjóðamálum yfirleitt miklu meira en málefni heimabyggðar. 

Þess vegna er það hið besta mál að komið sé fram frumvarp um að lækka kosningaaldur til sveitarstjórnarkosninga niðurí 16 ár. 

Jafnvel þótt málið muni frestast vegna þess hve seint það kemur fram, er umæðan farin af stað og þar með meiri líkur en ella á því að hægt verði að afgreiða það á þann yfirvegaða og örugga  hátt sem því sæmir. 

 


mbl.is Umræðu um kosningaaldur frestað fram í apríl
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þörf á enn víðari sýn.

Það er gott og blessað að benda á kosti strætisvagna, borgarlínu og reiðhjóla. 

Hins vegar skortir enn á að fara yfir og gera ráðstafanir til að fleiri kostir séu nýttir sem létta á umferðinni, svo sem rafreiðhjól, sem framleidd eru erlendis í gríðarlegri fjölbreytni, sem enn hefur engan vegin skilað sér hingað, og örsparneytin létt "vespuvélhjól", sem hér sjást varla. 

Ákvæði vantar í lögum og reglugerðum um slíka fararskjóta, sem eru í lögum og reglum annarra þjóða. 

Síðan skortir enn á svipað varðandi lög og reglur um styttri og vistmildari bíla en nú eru notaðir. 

 


mbl.is Vilja breyta ferðavenjum borgarbúa
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna eitthvert lögmál að þátttaka kvenna "verðfelli" starfsgreinar?

Nú les maður lærðar greinar og umræður um að það sé eins konar náttúrulögmál að aukin þátttaka kvenna í einhverri starfsgrein "verðfelli" starfsgreinina. 

Og er þetta þannig?  Ef svo er, er þetta bara ósköp eðlilegt og sjálfsagt? 

Er ekki þörf á að kafa betur ofan í þennan málflutning og hugsunina sem að baki honum býr?


mbl.is Ávinningur háskólamenntunar fer dvínandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Hagráð er skínandi svart."

Gamall draugur er að gægjast inn um gluggann hjá okkur. Fyrir um 50 árum var til fyrirbæri hér á landi sem hét Hagráð. Ekkii Þjóðhagsráð, heldur Hagráð. 

Í kerskniskvæði um þjóðmálin, sem ég flutti á þeim tíma, var notaður bjagaður texti kvæðis Jónasar "Ísland farsælda frón". Þá var kuldatímabil hafið og miklar kalskemmdir í túnum á Norðurlandi og einn partur kvæðisins var: 

 

"Landið er ferlega fúlt 

og fannhvítar kalskemmda sveitir, 

himininn hulinn og grár, 

Hagráð er skínandi svart." 

 

Fyrr í kvæðinu hafði hins vegar verið sagt: 

 

Landið var ferlega flott 

og fannhvítar þingmanna tennur, 

himinninn heiður og blár, 

Hagráð var skínandi bjart..."

 

Þá stefndi í átök á vinnumarkaði eins og nú, - ekki vegna ofboðslegs launaskriðs hæst launaða fólksins - heldur vegna gengisfalls krónunnar, kreppu og vaxandi atvinnuleysis. 

Svonefnt Hagráð hafði verið starfandi árum saman án þess að fólk vissi almennt til hvers.

Ekki rekur mig minni til að það hafi gert neitt bitastætt.  

Man ekki glögglega lengur hverjir voru í því eða hvað það átti að gera, en það dó drottni sínum, fékk hægt andlát í kyrrþey og hefur síðan horfið í gleymskunnar haf. 

Framundan var mesta og lengsta verðbólgutímabil síðustu aldar. 

Vegna slæmra viðskiptakjara út á við og samdráttar í þjóðarframleiðslu af völdum síldarbrests.

Ekki vegna fádæma græðgi hinna best settu í góðæri. 

Hvað gerist nú?


mbl.is ASÍ tekur ekki sæti í Þjóðhagsráði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Miklar framfarir í úrvali hjóla kalla á viðbrögð.

Miklar framfarir í gerð hvers kyns hjóla kalla á viðbrögð, bæði í framkvæmdum og lögum og reglum. Náttfari við Engimýri

Einkum er gríðarleg gerjun í smíði hvers kyns rafknúinna hjóla sem vert er að gefa gaum. 

Þriggja ára reynsla mín af notkun rafreiðhjóls hefur feykt burtu fordómum mínum gegn hjólreiðum, sem höfðu smám saman safnast upp eftir að hálfrar aldar hlé hafði orðið á hjólreiðum hjá mér. 

Nú hef ég reynslu af tvenns konar hjólum í bráðum þrjú ár og dæmið lítur svona út. Náttfari í Elliðaárdal

1. Veðrið hamlar hjólreiðum.

Svar: Allar vikur sem ég á annað borð hef verið ferðafær í bílum,  hefur viðrað til hjólreiða. Aðeins þegar hefur verið mikill snjór eða  vindur farið yfir 20 m/sek í hviðum hefur veður hamlað dag og dag. Það er alltaf hægt að klæða af sér kulda og vætu. 

 

2. Hjólin eru alltof hægfara.

Svar: Nú er leyfður 25 km/klst hámarkshraði. Við eigum að gera eins og nokkrar Evrópuþjóðir og Ameríkuþjóðirnar gera og leyfa 32ja km hraða. Þá tekur innan við tvo tíma að hjóla milli Reykjavíkur og Leifsstöðvar.

Við eigum að leyfa handgjöf eins og Ameríkumenn og nokkrar Evrópuþjóðir þannig að hægt sé að ráða því hve mikinn hluta orkunnar fæturnir gefa og hve stóran hluta geymar hjólsins. Og leyfa 500 watta mótor í stað 250. 

 

3. Það er ekki hægt að hafa farangur með sér á hjólunum,

Svar: Á rafreiðhjólinu mínu er alls 120 lítra farangursrými. Hægt að hjóla líka með bakpoka á bakinu. Ég hef farið með allt að 25 kíló af farangri á hjólinu og hjólað á minna rafhjóli milli Akureyrar og Reykjavíkur. 

 

4. Maður hefur ekki efni á að eiga rafreiðhjól.

Svar: Ódýrustu rafhjólin kosta ný innan við 200 þúsund kall. Maður kemst fjóra kílómetra fyrir eina krónu af rafmagni.

115 krónur kostar frá Akureyri til Reykjavíkur. Hjólið borgar sig upp nokkrum mánuðum, jafnvel nokkrum vikum, miðað við að nota bíl. Léttir við Möðrudal Ág 2017

 

5. Drægni rafreiðhjóla er of litil. 

Svar: Það er hægt að bæta við rafhlöðun á hjólin á fullkomlega löglegan hátt. 2016 fór ég á rafreiðhjóli eingöngu fyrir eigin rafafli 189 kílómetra á einni hleðslu.

Síðan tók 7 klst að hlaða og fara aðra eins vegalengd daginn eftir og klára ferðina milli Akureyrar og Reykjavíkur.

Á hjólinu mínu eru þrjár rafhlöður í stað einnar og drægnin minnst 70 kílómetrar. Og samt líka 120 lítra farangursrými. 

 

6. Það hefur enginn tíma til að fara langar vegalengdir út á land.  

Svar: Þá er bara að fara í aðra fjárfestingu upp á 400 þúsund kall og fá sér létt "vespu"vélhjól, sem nær 90- 100 km hraða og eyðir aðeins 2,5 lítrum á hundraðið, eða ca tvö þúsund kalli frá Reykjavík til Akureyrar. Tekur 70 lítra af farangri plús bakpoka á bakinu. 

Ódýrasta gerð af bíl fellur fyrsta árið jafnmikið í verði og svona hjól. Hjól Skóla-vörðustíg

 

7. Vesen við að leggja hjólunum?  

Svar: Nei,einmitt ekki. Þveröfugt elmoto_te2_tiefeinsteiger-812x580Hægt að hlaða rafhjól inni í herbergi hjá sér, versla og koma með varninginn að ísskápsdyrum á hjólinu og finna alls staðar rými til að leggja því, gagnstætt því sem er um bílana. 

Þetta hjól, hér neðst, Elmoto E-2 Tiefeinsteiger, er eitt af mörg hundruð mismunandi gerðum á erlendum markaði og hefur þann kost að vera með vindhlíf fyrir framan fæturna og möguleika á farangursgrind og kassa. 

Flóran í gerð rafhjóla í 45 km hraða klassanum tekur stórstígum framförum ár frá ári.  

Sum ná 65 eða 80 km hraða. En þau geta ekki verið á hjólastígum og þurfa skráningu, tryggingu og létt táningapróf.  

 


mbl.is Vilja hjólaleið milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Draumur Disneys að verða að martröð okkar tíma?

Það eru ekki nema fá ár síðan að það hefði orðið fátt um svör, ef gerð hefði verið skoðanakönnun á þekkingu almennings á örplasti og plastögnum. 

Sú var tíð að margt áhrifafólk, þeirra helst Walt Disney, ól með sér dýrlegan draum um heim plastsins. 

Disney lét reisa sérstakan skemmtigarð þar sem allt, hús, hlutir og samgöngutæki, var úr plasti. 

Og þessi sýn hans er gengin ansi langt, því að langflestir hundruða milljóna bíla heims eru að stóru leyti úr plasti, einkum innréttingin. 

Og hvers vegna? Vegna þess að hin hrikalega mikla notkun plastsins gerir því efni mögulegt að njóta hagkvæmni stærðarinnar í framleiðslunni. 

Í nýlegri gagnrýni á nýjan bíl á íslenska markaðnum er fundið að því hve mikið plast sé í innréttingu bílsins, ekki vegna þess að það sé orðið að umhverfisslæmu efni, heldur vegna þess að bíllinn, sem er nokkuð dýr, "virkar ódýr". 

Annað dæmi um hraða viðhorfsbreytingu er umsnúningurinn varðandi dísilknúna bíla, sem er svo hraður, að framleiðsla og sala þeirra hrynur. 

Í þeim efnum hefur upplýsingasamfélagið brugðist gersamlega. Ég hef alla tíð fylgst með bílasmíði af nördaskap og þessi nýja óhollusta útblástursins var aldrei nefnd, heldur ævinlega látið í það skína að verið væri að vinna að nýjum kröfum um hann, sem bílaframleiðendur myndu standast og þegar mætti sjá dæmi um, svo sem hjá Mazda Skyactive kerfinu. 

En nú hefur verið flett ofan af þessu og er það verulegt áhyggjuefni fyrir þá, sem trúað hafa á mátt öflunar upplýsinga og dreifingu þeirra. 

Fyrirsögnin "ekki fylgst sérstaklega með örplastinu" er svo sannarlega alvarlegt stórmál. 

 


mbl.is Ekki fylgst sérstaklega með örplastinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki nóg að hafa áfram franskar kartöflur, vöfflur og franskbrauð?

Frakkar hafa löngum verið lunknir við að hálf eigna sér vörur og fyrirbæri með því að þær séu kenndar við þessa göfugu þjóð. 

Allir þekkja franskbrauð, franskar kartöflur, franskar vöfflur og jafnvel franska kossa. 

Og maður getur ekki einu sinni farið í frakka nema að hugsa til Frakka. 

Í þessum efnum má segja að Frakkar séu frakkari en aðrir. 

Þeir þurfa því ekki að örvænta þótt franskt baguette með smjöri og skinku séu lengur ekki efst á vinsældalista í Frakklandi.

Þeir halda öllu hinu áfram. 


mbl.is „Borgara brjálæði“ í Frakklandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á þekktri rekleið.

Enn einu sinni kemur upp, hvert hlutir reka, sem fara í sjóinn við við Suðurnes eða rekur til norðurs fyrir Reykjanes og Garðsskaga. 

Straumur hafsins liggur fyrir Reykjanes og frá Garðskaga norður á suðurströnd Snæfellsness, svipaða leið og lík bræðranna tveggja, sem fórust með Goðafossi, rak. 

Af sömu ástæðu er útilokað að öndvegissúlur Ingólfs Arnarsonar hafi rekið á land í Reykjavík ef hann varpaði þeim fyrir borð úti fyrir suðurströndinni. 

Eini möguleikinn, og jafnframt sá lang sennilegasti, er að Ingólfur hafi varpað þeim fyrir borð alveg uppi við fjöru í Reykjavík. 

Þrálátur orðrómur var um það eftir hvarf Geirfinns Einarssonar að hann hefði drukknað utan við Keflavík.

Allur meginþungi rannsóknarinnar beindist hins vegar að því að þvinga fram framburði valdra ungmenna um að hann hefði verið drepinn uppi á landi og lík hans falið þar. 

1976 var DNA ekki komið til skjalanna. En rannsóknin á hvarfi Birnu Brjánsdóttur sýnir gríðarlegar framfarir í lögreglurannsóknum á síðustu árum. 


mbl.is Lögreglan rannsakar líkamsleifarnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Ég veit ekki´ af hvers konar völdum / sá vegur lagður er."

Happa- og glappa, upp á að lappa aðferðin skín út úr öryggismati EuroRAP á íslenska vegakerfinu. 

Höfundur vinsællar gamavísnasyrpu, sem Lárus Ingólfsson söng fyrir meira en 70 árum var naskur á eðli þeirrar vegagerðar, sem þá var stunduð, og birtist á því ári, sem syrpan var samin, helst í gerð svonefndrar Krýsuvíkurleiðar, sem átti að vera töfralausn í samgöngum milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins. 

Í ljós kom, að á þeim árum, sem hér ríkti alvarlegt bakslag í efnahagsmálum eftir að gjaldeyrisforðanum var eytt á mettíma, náði þessi lausn aldrei flugi á einn eða neinn hátt, og varð hugsanlega til þess að fresta þeirri endanlegu lausn að gera almennilegan malbikaðan og upphleyptan heilsársveg yfir Hellisheiði. 

Sú endanlega lausn tafðist enn frekar fyrir þá sök að svokallaður Þrengslavegur var lagður á undan, og átti hann að verða framtíðarleiðin sem lægi beint yfir mýrlendið Forirnar rétt norðan við Arnarbæli. 

Þegar á hólminn var komið, sáu menn, að það yrði bæði illframkvæmanlegt verkfræðilega og kostnaðarlega séð og hefði í för með sér gríðarleg umhverfisspjöll að eyðileggja hið verðmæta lífríki Foranna. 

Loksins núna, meira en 70 árum eftir syrpuna hans Lassa, liggur svo fyrir mat á íslenska vegakerfinu og þar með að að það fær falleinkunn, jafnvel þótt engar holur væru i malbikinu.

Og 40 prósent vegakerfið fær lægstu mögulegu falleinkun.  


mbl.is Flestir íslenskir vegir einnar stjörnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er ekki hroki í því að tala um nálastungur sem "óhefðbundnar lækningar"?

Nálastungur eru nefndar í frétt um "óhefðbundnar" lækningar á Landsspítalanum. Rétt eins og þær séu bara nokkurra ára gamlar í stað þess að vera nokkur þúsund ára gamlar ef eitthvað er. 

Ég er einn þeirra fjölmörgu, sem hef fengið bót meina minna í gegnum nálastungur hjá lækni, sem hefur að baki margra ára bandarískt háskólanám í nálastungulækningum. 

Í nálastungumeðferð hans er meðferðin blönduð með þekktum sjúkraþjálfaraaðferðum, og þegar ég leitaði á náðir þessa sérfræðings, var ég búinn að fá úr því skorið, en engar "hefðbundnar" aðferðir, svo sem skurðaðgerðir eða "hefðbundna" sjúkraþjálfun, væri hægt að nota við þeirri gerð af svonefndu "samfalli hryggjarliða", sem lagði mig í rúmið tvívegis á níunda áratug síðustu aldar. 

Ég gæti notað orðmarga lýsingu yfir þennan bakveikiferil minn og árangur nálastungumeðferðarinnar við að koma mér á lappir þegar svo var komið að ég varð að lyfta vinstri fætinum upp á kúplinguna á bílnum mínum með því að nota sterkt snæri! 

Gat nánast hvorki staðið, legið né gengið. 

Í heimsókn íslensks landlæknis til Kína fyrir um 15 árum, kom fram við komuna til baka til Íslands að nálastungulækningarnar þar í landi hefðu vakið athygli Íslendinganna, og gæti hugsanlega komið til þess að sendir yrðu nokkir læknar héðan á stutt námskeið í þeim! 

Það er nefnilega það, á sama tíma sem búið var að halda því fram að margra ára háskólanám erlendis í nálastungum væri einskis virði, af því að um "óhefðbundna" lækningaaðferð væri að ræða. 

Sem sagt: Þúsunda ára aðferð talin óhefðbundin, en nokkurra ára vestrænar aðferðir hins vegar hefðbundnar. 


mbl.is Engar óhefðbundnar lækningar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband