Sveigjanleiki er mikilvægur í aðgerðum vegna COVID-19.

Allan tímann sem kórónaveiran hefur geysað um lönd, hefur ástandið verið mjög ólíkt í mismunandi löndum, og þessar sveiflur, sem ná um allan heim, hafa verið og eru enn mjög mismunandi. 

Af þessum sökum hefur orðið þörf á sem bestum rannsóknum og upplýsingum, til þess að hægt sé að grípa til þeirra ráðstafana, sem best eiga við á hverjum stað og gagnvart hverju landi um sig. Þörfin er brýn fyrir vaxandi sveigjanleika eftir þörfum. 

Þannig getur orðið til dæmis orðið hætta á því fyrir Bandaríkjamenn, að ef þeir fari að tilmælum Trumps og dragi stórlega úr skimunum til þess að lækka með því smittölurnar, muni það virka öfugt út í frá, því að með því móti er aðeins verið að veikja rannsóknir og upplýsingar og draga úr trausti á tökum Bandaríkjamanna á veirunni og stöðu mála þar í landi.  


mbl.is Skoða að hætta skimun frá vissum löndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"...Víði´að hlýða - og horfa til betri tíða!"

"...í einhug til sigurs allir nú 

ætla Víði´að hlýða

og horfa til betri tíða.."

 

Þessar línur, sem Bjarni Atlason söngvari söng á facebook um síðustu páska gætu átt vel við hér á landi núna, þegar of mikið virðist hafa slaknað á viðbúnaði almennings í Ísrael vegna COVID-19, og önnur bylgja kórónuveirunnar í uppsiglingu þar. 

Af slíku ættum við að geta lært. 

Sigur í baráttunni vinnst ekki nema verið sé á tánum og ekki sofið á verðinum.  


mbl.is Önnur bylgja veirunnar í Ísrael
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Felumynd? Eldstöðvar í biðröð. Grímsvötn einna fremst í röðinni.

Nú eru liðin rúm fimm ár síðan gosinu í Holuhrauni lauk, en fimm ár eru nokkurn veginn sá tími að meðaltali, sem líður á milli eldgosa hér á landi. Holuhraun. TF-ULF

Myndin hér við hliðina var tekin í Holuhraunsgosinu og er nokkurs konar felumynd, því að ef vel er að gætt, sést flugvélin TF-ULF með Jón Karl Snorrason við stýrið yfir hrauninu. 

Grímsvötn eru virkasta eldstöð landsins, en þar koma goshrinur með löngu millibili, og var býsna rólegt í vötnunum á árunum 1940 til 1983, þótt Skeiðarárhlaup kæmu á þeim tíma án þess að eldsumbrot yrðu. 

Nú eru liðin ellefu ár frá síðasta gosi í vötnunum, en ef gosið í Gjálp 1996 er tekið með gaus þar 1996, 1998, 2004 og 2011. Gosin sem sagt orðin fjögur á síðustu 24 árum. 

En Grímsvötn eru ekki eina aldstöðin sem hægt væri að segja að séu "á seinni hluta í gosundirbúningi."

Nýir kandidatar hafa gægst fram, svo sem Öræfajökull, en sigketill í honum sýndi vaxandi virkni undir honum fyrir nokkrum misserum. Öræfajökull sigk. RAX

20 ár eru liðin frá síðast Heklugosi, en fjallið gaus 1947, 1970, 1980, 1991 og 2000 eftir að hafa fyrir gosið 1947 gosið með miklu lengra millibili um aldir. 

Við hvert gos dróst fjallið saman, en þandist síðan aftur út þar til komið var jafn hátt eða ögn hærra en í síðasta gosi. 

Núna eru nokkur ár síðan Hekla náði sömu hæð og fyrir gosið 2000 og er hún því til alls vís. 

Gallinn er bara sá, að hún er alveg óútreiknanleg og gefur ekki fyrirvara nema einni klukkustund fyrir gos. 

Engin leið er að áætla hvað muni gerast í Öræfajökli, sem sýndi af sér svipaða hegðun fyrir tveimur árum og Eyjafjallajökull byrjaði að gera 1999.  


mbl.is Grímsvötn á seinni hluta í gosundirbúningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stórir skjálftar hafa komið í hrinum. Hvað um Bakka?

Stærstu jarðskjálftarnir hér á landi síðan Suðurlandsskjálftinn mikli reið yfir 1896 hafa oft komið í hrinum, jafnvel stórum.  Þannig var það um aldamótaskjálftann á Suðurlandi fyrir 20 árum, en hins vegar var Kópaskersskjálftinn mikli 1976 sá eini stóri þar um slóðir, en á eftir kom margra vikna og mánaða hrina sem tók mjög á marga íbúana þar. 

Þá myndaðist stærðar stöðuvatn í miðri sveit og er það eina vatnið á Íslandi, sem er beinlínts kennt við jarðskjálfta og nefnist einfaldlega Skjálftavatn. 

Stóri skjálftinn á Dalvík 1934 olli feiknar tjóni og mildi var hve vel fólk slapp frá honum. 

Að sögn vísustu manna í þessum fræðum er ekki spurning um hvort, heldur hvenæar stór skjálfti getur orðið nokkurn veginn þar sem kísilverið á Bakka stendur. 

Vonandi sleppur það til, en ef ekki, þá er lítið við því að segja, það var búið að vara við.  


mbl.is Vara við afleiddum hættum skjálftanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Minnir á skjálftann út af Skagafirði 1963. Sumarsólstöður 2020.

Enn er í minni hinna elstu stór jarðskjálfti, sem varð við mynni Skagafjarðar að mig minnir 1963 og var upp undir sex stig á Richter. DSC08934

Svo ótrúlega sem það hljómar fannst þessi skjálfti greinilega í Reykjavík, einkum í hæstu húsunum, svo sem við Austurbrún 2, þar sem setið var og horft á ljósakrónuna hreyfast. 

Annars staðar í borginni virtist minna verða vert við þennan skjálfta.  

Eftirminnilegur er skjálftinn, sem reið yfir í miðri hnefaleikalýsingu á Sýn fyrir um 20 árum, svo að hægt var að hafa orð á því á meðan á því stóð.  

Hann varð í grennd við Sandskeið, ef rétt er munað. DSC08951

Í kvöld eru sumarsólstöður og ekkert hrun er myndefni hér fyrir sunnan, þótt það sé fest á mynd fyrir norðan.  

Í staðinn eru settar hér inn nýteknar myndir af Akranesi og vesturenda Akrafjalls í kvöld. 


mbl.is „Það nötraði alveg ótrúlega mikið og lengi“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í rétta átt, en betur má ef duga skal.

Síðan um það var upplýst í sjónvarpsþætti um Kröflumálið að farið hefði verið á skjön við varúðarreglur Guðmundar Pálmasonar um orkunýtingu gufuaflsvirkjana hefur þvi miður frekar hallað á ógæfuhliðina en hitt. 

Þó örlaði á umbótaviðleitni þegar ákveðið var að hafa Þeystareykjavirkjun miklu minni en áætlað hafið verið, og nefndi forstjóri Landsvirkjunar þetta sérstaklega við vígslu virkjunarinnar. 

Því miður var langur vegur frá því að þessi varúðarsjónarmið væru viðhöfð við virkjanir á Reykjanesskaga. 

Hvað Hellisheiðarvirkjun árhrærði hefði hún átt að vera minnsta kosti fjórum sinnum minni í upphafi en hún varð. Þar var anað af stað með skammsýnis græðgissjónarmið í fyrirrúmi ´alltof stóra orkusölusamninga og virkjun. 

Niðurstaðan varð "ágeng orkuöflun" með tilheyrandi orkufalli, rányrkju og brennisteinsvetnisloftmengun, sem til dæmis kemur fram í því, að nokkrar klukkustundir í hverri viku fara í að hreinsa óhroðann af tækjakosti Hörpu, svo að hann geti virkað af fullu öryggi. 

Í ofanálag fara 85 prósent orkunnar óbeisluð út í loftið, engum til gagns. 

Í ruman áratug hefur hið vænsta fólk verið í forsvari fyrir gufuaflsvirkjanir Reykvíkinga og lagt sig fram um að vinna úr hinni illleysanlegu stöðu, sem allt of stór virkjun hefur skapað. 

Lofsvert dæmi um þessa viðleitni er CarbFix verkefnið, sem er hluti af þeirri vísindalegu forystu, sem Ísland hefur áunnið sé á sviði nýtingar jarðvarma. 

Þetta er í rétta átt, en betur má ef duga skal. 


mbl.is BBC fjallar um íslensku „gaströllin“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enn einstæðara en fyrr, átakið getur borgað sig.

Í ferðaþjónustunni gilda lögmál samkeppninnar jafnvel enn frekar en á flestum öðrum sviðum. 

Ef "söluvaran" er land með einstæðari og stórbrotnari náttúru en flest önnur lönd, fæst að vísu forskot í keppninni um viðskiptavini, en það verður líka að vera hægt að tryggja öryggi hans. 

Það sem hefur áunnist í þeim málum hefur að vísu koostað okkur fórnir, en ef við getum haldið þeirri sérstöðu sem CNN og fleiri áhrifamiklir fjölmiðlar eru að greina frá, er ekki ónýtt að geta bætt því einstæða atriði ofan á hin.  


mbl.is Áhuginn á landinu ekki dvínað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er langhlaup og það má aldrei slaka of mikið á.

Um allan heim má sjá, að fólk er að gefa eftir í vörnum gegn COVID-19. Það er skiljanlegt og mannlegt, en með slíku er verið að bjóða hættunni heim á ný, og hugsanlega í enn meiri mæli en gert var víða á útmánuðum. 

Kæruleysis eftirgjafir hafa hingað til verið helstu útbreiðsluvaldar veirunnar og verða það áfram, ef ekki er reynt að læra af óförunum. 

Ef framundan er lengsta og dýpsta efnahagskreppa 75 ár verður það augljóslega langhlaup, sem þreyta þarf gegn henni. 

Í slíku hlaupi verður að forðast að setjast bara niður og slaka á og leggja sig. Við það lengist bara langhlaupið og verður miklu erfiðara en það þurfti að verða.  


mbl.is Heimurinn á „nýju og hættulegu stigi“ faraldursins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hraði snigilsins; 22 ár frá umhverfisverðlaunum Ólafs Arnalds.

Hraði snigilsins hefur svifið yfir vötnunum varðandi ástand jarðvegs og gróðurs á Íslandi. 

Þegar fagnað var 1100 ára afmæli landnáms Íslands með sérstökum hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum 1974, virtist vera að rofa eitthvað til í þessum alvarlegu málum. 

Alþingi samþykkti myndarlegt afmælisframlag til landgræðslumála, svonefnda þjóðargjöf og landsgræðslustarfið var stóraukið. 

En Adam var ekki lengi í paradís, ekki einu sinni allt afmælisárið, því að verðbólgan fór í meira en 25 prósent á því sama ári, og níu árum seinna komst hún í yfir 100 prósent!

Þjóðargjöfin var því étin upp á innan við áratug. 

1998 kviknaði vonarljós. Ólafur Arnalds fékk Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs fyrir stórvirki sem var kennt við jarðveg og gróður á Íslandi. Eini íslenski einstaklingurinn, sem hefur fengið þessi verðlaun. 

En ekkert var í raun gert með þetta mikilvæga verk Ólafs og samstarfsfólks hans. Nokkrum árum seinna létu Sameinuðu þjóðirnar gera ítarlega úttekt á ástandi jarðvegs og gróðurs á jörðinni, og hefði framlag Íslands getað orðið gott og virðingarvert á grundvelli tímamótaverks Ólafs. 

En þegar á hólminn var komið skilaði Ísland auðu, og voru á báti með Ukrainu og fleiri fyrrverandi kommúnistaríkjum austantjald með þvi´að skila af sér tveimur bókstöfum: N/A! 

Nú er enn einu sinni lagt af stað með verk, sem gæti markað tímamót í því hörmulega ferli á hraða snigilsins, sem þessi mál hafa í raun verið þrátt fyrir viðleitni og vinnu landgræðslu- og náttúruverndarfólks í áratugi. 

Sem betur fer má skynja batnandi skilning og traust á milli landgræðslunnar og bænda í ljósi þess að ýta sniglinumm nú af stað á grundvelli vísindalegra gagna. 

En það má samt ekki gleymast, hve merkilegt afrek Ólafur Arnalds vann árið 1998.   


mbl.is 39% beitarlands á svæði sem telst vera í lélegu ástandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áratuga risafaraldur "undirliggjandi" aðalorsök dauðsfalla COVID-19.

Í sjónvarpsþáttum hins bandaríska Bill Mahers hafa sérfræðingar í læknavísindum lýst því glögglega hvernig allt framleiðsluferli matvæla í heiminum í 100 ár og þó einkum síðustu áragi hefur verið keyrt í botn við framleiðslu á kjötvörum og kolvetnisríkri fæðu undir því yfirskini að það sé nauðsynslegt til þess að koma í veg fyrir hungur og vannæringu. 

 

Stórfelldur stuðningur vestrænna ríkja við nauðgriparækt og tilsvarandi ofneyslu á kjötvörum og kolvetnismettaðri fæðu hefur hins vegar orðið til að skapa lang stærsta heilsufarsvanda nútímans, sem kostar hundruð milljarða fólks heilsutjón og ótímabæran dauðdaga. 

Þar gnæfa hæst sykursýki og fjölmargir sjúkdómar og heilsutjón af völdum offitu, að ekki sé minnst á margföldun kostnaðar og útgjalda vegna læknisþjónustu, lyfjaframleiðslu og örorku. 

Í þáttunum hefur komið fram að ríkisstjórnir og stjórnmálamenn vestra hafi gersamlega vanrækt þessi mál og bætt olíu á eld með stuðningi við þessa lífshætti í smáu og stóru, meðal annars stuðningi við þær tegundir landbúnaðar, sem helst standi á bak við þennan langstærsta og viðvarandi drepsóttarfaraldur nútímans. 

Stærsta framlagið til að verjast drepsóttum á borð við COVID-19 sé að bæta grundvallar heilsu og þrek fólksins. 

Ríkisstjórn Trumps sé því miður ekki líkleg til að brjóta neitt í blað hvað þetta varðar. 

Þvert á móti sækir forsetinn fylgi sitt af kappi til stórframleiðendanna í landbúnaðinum sem beinlínis framleiði það sem er kallandi "undirliggjandi" orsök dauðsfallanna vegna COVID-19. 

Það sé tímanna tákn ef satt sé, að forsetinn hafi meira að segja leitað hófanna hjá Kínverjum til að lækka tölla á bandarískum landbúnaðarvörum í Kína til að hjálpa til við endurkjör í haust. 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband