Nauðsynleg viðbrögð við aðför SDG.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur heldur betur rótað upp í hinu pólitíska ástandi undanfarna daga með því að því að taka sér í hönd sprengju sem hann geti varpað inn í stjórnmálin hvenær sem er.

Sigmundur lætur eins og að samkomulagið, sem gert var í vor um kosningar í haust og afkastamikið og markvisst sumarþing, hafi bara verið til málamynda og að best sé að gefa sér strax þá forsendu að allt fari upp í loft, svo að kosningar frestist fram á næsta vor.

Öll lýsing SDG á viðhorfi sínu sem hann birti í grein í Morgunblaðinu er gersamlega sjálfmiðuð og breiðir yfir þau aðalatriði að í Wintrismálinu hagaði hann sér þannig, að alger trúnaðarbrestur varð milli hans og allra nema fámenns hóps jámanna í kringum hann.

Þingflokkur hans og Sjálfstæðismanna misstu á honum trú sem og forseti Íslands.

Þar að auki lætur SDG eins og hann einn og loforð hans fyrir fjórum árum hafi haft auknar þjóðartekjur í för með sér með því að minnast ekki á ferðaþjónustusprenginguna og lágt olíuverð.

Nú hefur Bjarni Benediktsson brugðist snöfurlega við og segir réttilega að það sé ekkert sem bendi til þess að samkomulagið um kosningar í lok október muni ekki halda.

Að vísu hrukku margir í stjórnarandstöðuflokkunum í kút þegar Sigmundur Davíð ruddist fram með yfirlýsingar sínar, en Bjarni og Sigurður Ingi Jóhannsson hafa tekið annan pól í hæðina og vonandi dugar það til að róa málið niður.  


mbl.is Bjarni segir að kosið verði í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hálfkæringur eða alvara?

Engu er líkara en að Donald Trump sé að þróa áfram þá aðferð í fjölmiðlun og áróðri að stela senunni hvenær sem það er mögulegt með ummælum af því tagi sem aldrei hafa áður heyrst hjá frambjóðendum til embættis forseta Bandaríkjanna og þótt víðar væri leitað. 

Hljóð og látbragð eru meðal þeirra tækja, sem dýr nota til þess að hafa áhrif á önnur dýr, svo sem með því að urra ógnandi. 

Hjá mönnum er aðferðin þróaðri og byggist í því að nota orð, sem jafngilda vopnum ef svo ber undir. 

Þess vegna ber að líta á orð sem ígildi verknaðar og gæta að því hvað sagt er. 

Donald Trump lítur væntanlega svo á að ofsafengin ummæli hafi verið lykillinn að velgengni hans hingað til og að þessi hegðun hans muni að lokum skila honum inn í Hvíta húsið. 

Kannski mun hann þróa þessa aðferð frekar og slípa hana með því að láta fyrst falla ögrandi ummæli sem beina allri athygli fjölmiðla og bandarískra kjósenda að honum en draga síðan í land, hafandi náð athyglinni tvisvar út á sömu ummælin. 

Kannski segir hann eða gefur seinna í skyn að hin glannalegu ummæli hafi verið sögð í hálfkæringi. 

Gallinn er sá, að þetta er ekki heiðarleg framkoma og að embætti forseta Bandaríkjanna er þess eðlis að það ekki sama hvað sá maður segir. 

Ótal dæmi eru um það í sögunni hve orð geta vegið þungt. 

Þegar Nikita Krustjoff brá fyrir sig rússnesku orðalagi í deilu um ágæti hins kommúniska kerfis og sagði við bandarískan viðmælanda sinn: "Við eigum eftir að grafa ykkur", vakti það hörð viðbrögð Bandaríkjamanna, svo hörð, að síðan þetta gerðist hefur það alveg drukknað, að meining hins rússneska orðalags var alls ekki sú sem þýðing þýðandans gaf til kynna, heldur miklu vægari, svona eins og að Íslendingur hefði sagt: "Við munum salta ykkur", "við munum baka ykkur", við munum steikja ykkur".

Þegar friðþægingarstefna var iðkuð gagnvart Adolf Hitler í aðdraganda Seinni heimsstyrjaldarinnar lá samt fyrir í bók hans "Mein Kampf" hver væri stefna hans og ætlun.

Það átti eftir að verða dýrkeypt að taka þessi ummæli ekki alvarlega heldur skauta fram hjá þeim, þegar hann lét til skarar skríða.  


mbl.is Sakaður um föðurlandssvik
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert lát á ókeypis auglýsingum.

Ekkert lát virðist vera á ókeypis auglýsingum á íslenskum náttúruauðæfum, sem við innbyggjararnir höfum meira að segja heilmiklar tekjur að við að hjálpa hinum erlendum auglýsendum við myndatökurnar og flutninga á fólki og tækjum. 

Þegar tengt myndband á mbl.is er skoðað, sést, að efni hennar hafa íslendingar hingað til talið gersamlega glatað og ömurlegt, grjót, þoka, súld, sandur og raunar einn foss. 

Grjótið, klettarnir, grjótið, þokan og súldin verið talin svo mikill ljótleiki að helst þurfi að fela það fyrir útlendingum eða sökkva slíku í drullubrún aurug miðlunarlón jökuláa. 

Sem reyndar er margtuggin rangfærsla, því að langflest bestu lónstæðin eru líka gróðursælustu vinjar hálendisins, sem mynda andstæður við auðnirnar og eldfjöllin.

Með lónum aðeins tveggja virkjana, Blönduvirkjunar og Kárahnjúkavirkjunar, var sökkt mörgum tugum ferkílómetra af grónu landi og þrýst er á enn fleiri slíkar virkjanir.  


mbl.is Ísland í aðalhlutverki í nýju myndbandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ný Hólmsheiði í uppsiglingu. Hvað þar næst?

Nú er áratugur síðan Hólmsheiði dúkkaði upp sem þetta líka fína flugvallarstæði fyrir Reykjavík. 

Flest af því sem varð til þess að þessi staður brotlenti níu árum síðar lá ljóst fyrir í upphafi. 

Í stað þess að með lengingu austur-vestur brautarinnar á núverandi flugvelli er hægt að hafa aðflug og fráflug að vestanverðu yfir sjó og að austanverðu yfir autt svæði í Fossvogsdal, yrði það aðflug, sem mest yrði notað á Hólmsheiði yfir Grafarvogs- og Grafarholtshverfi. 

Völlur þarna yrði miklu nær Esju-Skálafelli og Vífilsfelli-Bláfjöllum en núverandi völlur. 

Og síðast en ekki síst yrði nýr völlur á Hólmsheiði í 500 feta hæð yfir sjó með tilheyrandi fleiri snjóa- og hálkudögum á veturna. 

Flugvöllur í Hvassahrauni yrði enn viðkvæmari fyrir sviptivindum, ókyrrð, úrkomu, lélegu skyggni vegna nálægðar Reykjanesfjallgarðsins og nálægðar við Suðurnes en Hólmsheiði og tíu kílómetrum fjær miðju byggðar höfuðborgarsvæðisins en núverandi flugvöllur, auk þess sem ferðaleiðir innanlands nema til Vestmannaeyja myndu lengjast um 50 kílómetra, 25 á landi og 25 í lofti. 

Það er fráleitt að láta aðeins nokkurra mánaða athuganir á veðri og skilyrðum í lofti og á landi nægja fyrir svo afdrifaríka ákvörðun sem hátt í hundrað milljarða króna framkvæmd krefst. 

Því að gerningarnir við gerð nýs flugvallar eru í raun þrír: 1. Að byggja nýjan flugvöll með öllu því sem það krefst, svo sem byggingum fyrir starfsemi sem tengist honum. 

2. Að rífa og eyða Reykjavíkurflugvelli með þeim mannvirkjum, sem honum tengjast

3. Að byggja nýja byggð á því flugvallarstæði.

Hugmyndin um flugvöll nálægt Straumsvík kom fram um 1960 og var slegin af eftir að Flugráð hafði sjálft sest upp í flugvél og gert var eitt aðflug með ráðið að vallarstæðinu í dæmigerðri stífri suðaustanátt, lang algengustu vindáttinni á þessu svæði og síðan lent á skaplegan hátt á þáverandi og núverandi flugvelli.

Nú er verið að leggja til annað Hólmsheiðarævintýri, Hvassahraunsævintýrið.

Og þegar því lýkur, hvað næst? 


mbl.is Óábyrgt að kanna ekki möguleikann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki orð að marka.

Það er ekki marka orð hjá hollenska fjárfestinum, sem er búinn að semja við Mosfellsbæ um lóð fyrir 50 milljarða einkaspítala. Segir að íslenskt heilbrigðisstarfsfólk muni ekki vinna við spítalann en er þegar byrjaður á að bera víurnar í íslenska hjartalækna og aðra, sem gera eigi spítalann að dýrseldu sjúkrahúsi. 

Segist vera í samvinnu um að reisa sólarkísilver á Grundartanga þótt því sé harðlega neitað. 

Ekki er ætlunin, segir hann, að ryðjast inn á íslenska markaðinn og rústa honum, - en svo kemur þessi dásamlega útskýring: "Það er ekki hægt að rústa því sem þegar er búið að rústa."

Þeir ríku Íslendingar sem þegar hafa efni á því að fara framhjá hinu "rústaða íslenska heilbrigðiskerfi" til þess að kaupa sér dýrar lækningar, sem pupullinn á biðlistunum getur ekki veitt sér, munu spara sér ferðakostnað með því að skipta við komandi lúxussjúkrahús og tryggja það endanlega að hér verði tvöfalt heilbrigðiskerfi, - annars vegar rústum líkast kerfi fyrir venjulegt fólk og hins vegar rándýra lúxusþjónustan fyrir þá ríku. 


mbl.is Sverja af sér tengsl við Burbanks
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleikafirringin heldur áfram.

Sigmundur Davíð hélt að hann gæti tekið ráðin af eigin þingflokki og þingflokki Sjálfstæðismanna í vor með því að fara með frágengna pappíra um þingrof á Bessastaði til undirskriftar fyrir forseta Íslands. Hann hélt greinilega, að úr því að Ólafar Jóhannesson gat þetta 1974 og Tryggvi Þórhallsson 1931, yrði þetta létt verk. 

Athugaði ekki, að 1974 var það mat Kristjáns Eldjárns að ekki yrði mögulegt að mynda ríkisstjórn í kjölfarið, en núna var það vilji beggja þingflokka stjórnarflokkanna að halda stjórnarsamstarfinu áfram. 

Athugaði ekki að Ólafur Ragnar Grímsson hafði það veruleikaskyn sem SDG hafði ekki og að grátklökkur þingmaður Framsóknar í fyrsta viðtalinu eftir þennan einstæða viðburð sagði allt sem segja þurfti um þann trúnaðarbrest við þingflokkinn, sem þarna bættist við trúnaðarbrestinn gagnvart þjóðinni í Wintris-málinu. 

Í grein í Morgunblaðinu heldur veruleikafirringin áfram. SDG þakkar sér efnahagsbatann, sem dæmalaus stórfjölgun ferðamanna og lágt olíuverð hafa skapað fyrst og fremst, nokkuð sem hann og flokksmenn hans töldu ómögulegt á fyrsta áratug þessarar aldar þegar "eitthvað annað" en stóriðja var óhugsandi í þeirra augum. 

Nú hamast hann gegn því samkomulagi og loforðum, sem gefin voru eftir brotthvarf hans í vor og heimtar að allt sé sett í uppnám með því að svíkja þau og eyðileggja þann samstarfsanda, sem hefur birst síðustu vikur með sameiginlegri vinnu stjórnar og stjórnarandstöðu við að skapa góða vinnuumgjörð og anda í samræmi við gefin loforð beggja aðila þar um. 

Þegar Höskuldur Þórhallsson bendir á hvílíkt uppnám verði hjá öllum af þessum sökum saka jafn veruleikafirrtir stuðningsmann SDG og hann er sjálfur, Höskuld um að vilja sprengja ríkisstjórnina.

Sigmundur Davíð og viðhlæjendur hans eru í sama gír og þegar farin var endemis sneypuför til Bessastaða í vor, og virðast halda að SDG sé með þingrofsréttinn ennþá ásamt forsetanum. 

En sá réttur er nú í höndum Sigurðar Inga Jóhannssonar og komandi forseta sem betur fer. 

Já, firringin minnkar ekki, heldur virðist hún fara vaxandi. 


mbl.is Myndi sprengja ríkisstjórnina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gróf vanvirðing í hvívetna.

Þeir sem nú vilja nota eitt stærsta "túrbínutrix" Íslandssögunnar með því að vaða inn í Mosfellsbæ með ígildi nýs Landspítala og byggja hann allan fyrst og klára svo allt hitt síðar, væntanlega á þeim forsendum að ekki verði aftur snúið, segjast ekki ætla að ráða neitt íslenskt heilbrigðisstarfsfólk en eru þegar byrjaðir að gera það.

 

Og ekkert hefur verið gert til að kanna nánar afleiðingar þessa alls eða huga að því sem eftir er að gera. 

Þeir segja að vísu napran sannleika þegar þeir lýsa biðlistum og vangetu íslenska heilbrigðiskerfisins en gera það af fullkominni vanvirðingu og ýkjukenndri lítilsvirðinngu, - þykjast ekki getað rústað neinu, af því að við séum sjálf búin að rústa því algerlega!  

Ekki eru vanvirðing þeirra, tillitsleysi og kæruleysi þeirra síðri varðandi kalt vatn frá vatnslindum í landi Hafnarfjarðarbæjar. 

Nú þegar er of mikið tekið af vatni í Kaldárbotnum vegna þess hve mjög vatnsveitan hefur bitnað á rennsli Kaldár, sem er eitthvert einstæðasta og merkasta vatnsfjall landsins. 

Að ætla að taka fimmfalt meira sýnir algert skeytingarleysi og græðgi.

Gott er að þessu tilboði, sem ekki átti að vera hægt að hafna, var hafnað! 


mbl.is Vatnið ekki óþrjótandi auðlind
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Snýr dæminu alltaf í hring og trúir á átakastjórnmál.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sér aðeins eina atburðarás framundan; sumarþing og síðar vetrarþing fram að kosningum vorið 2017. 

Hann gefur sér þær forsendur að það sé sama hvaða leið menn ætli að fara, stjórnarandstaðan muni alltaf beita málþófi til þess að eyðileggja málefnin fyrir ríkisstjórninni.

Hann kemur ekki auga á að í stórmálum hefur ósætti innan stjórnarflokkanna komið í veg fyrir framgang mála éins og húsnæðismálanna og afnáms verðtryggingarinnar.    

SDG hefur gert málþóf á Alþingi að meginatriðinu í sinni pólitík. 

Í merkilegri næturræðu þegar hann var í stjórnarandstöðu, sem kalla mætti Rakosi-ræðuna, af því að hann líkti þáverandi ráðamönnum við Rakosi, hinn illskeytta alræðisherra kommúnista í Ungverjalandi, sagði Sigmundur að ef samþykkt yrði ný stjórnarskrá fyrir þinglok 2013, myndi ríkisstjórnin, sem kæmi þar á eftir, láta gera nýja stjórnarskrá og gerólíka, og að þannig myndi þetta ganga sitt á hvað í framtíðinni kjörtímabil eftir kjörtímabil. 

Hótunin var skýr og stillt upp tveimur kostum: Enga nýja stjórnarskrá eða stjórnleysi og ringulreið. 

Núna gefur hann sér það að ef kosningadagur verði fyrirfram ákveðinn í október-nóvember í haust, muni stjórnarandstaðan, þvert ofan í það sem forseti Alþingis hefur lýst, fara í málþóf til að eyðileggja öll mál stjórnarinnar fyrir haustkosningarnar. 

SDG gefur ekkert fyrir þau orð forseta Alþingis að samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu um afgreiðslu mál á síðsumarþinginu hafi gengið vel og lofi góðu. 

Sigmundir trúir nú, eins og fyrir þremur árum, staðfastlega á málþóf sem lykilatriði í íslenskum stjórnmálum og út á það ætlar hann að gera allt sem í hans valdi stendur til þess að tryggja pólitíska skálmöld fram á næsta vor.

Hann virðist ætla að koma inn í stjórnmálin eins og fíll í glervörubúð.

Nú reynir á innviði Framsóknarflokksins á aldar afmæli sínu að afstýra þeim vandræðum, sem endurkoman svonefnda virðist ætla að hafa í för með sér.  


mbl.is „Ætlar að snúa atburðarásinni við“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Kæra þjófagengi, deilið þið inn öllum íslenskum búvörum sem þið mögulega getið"?

Nú er svo komið að dreifingaraðili, nokkurs konar hugverkamafíósi, hvetur fólk feimnislaust til "að dreifa inn öllu íslensku efni sem þið mögulega getið." 

"Efnið" er fólgið í verðmætum, sem listamenn hafa framleitt með ærnum kostnaði, með vinnu við að semja tal og tónlist, útsetja það og taka flutninginn á því upp á mynd og hljóðspor, kaupa til þess stúdíótíma og upptökufólk, hanna og láta framleiða umbúðir með myndum, sem ljósmyndarar hafa eytt fjármuna og tíma í að taka, oftast með ferðakostnaði og kaupum á myndavélum og tölvum. 

"Efnið" er neysluvara, menningarneysluvara, verðmæti í krónum talið, rétt eins og búvörur eru neysluvara og verðmæti í verslunum.

Þetta er viðurkennt í löggjöf um höfundarrétt og kostaði Jón Leifs og fleiri menn mikla baráttu fyrir 60 árum að fá viðurkennt hér á landi.

En á örfáum árum hefur það viðgengist að sé um hugverk að ræða sé ekki aðeins farið um þau ræningjahöndum, heldur beinlínis hvatt til þess opinberlega. Og komist upp með það.

Að "deila inn" þýðir að sá sem hefur efnið undir höndum, er hvattur til þess að láta siðblindan dreifingaraðila hafa það svo að hann geti gert sem flestum höfundarréttarþjófum kleyft að hjálpa sér við að margfalda illa fengin verðmæti. 

Þetta er ígildi búðaþjófnaðar þar sem mafíósinn gengst upp í því að hafa sem flesta þjófa á sínum snærum í menningarlegu þjófagengi.

Og til að kóróna þetta athæfi er það einkum íslenskt efni, sem er skotmark, eins og vitnað er í hér áðan, og herhvötin í lokin er beinskeytt, - orðrétt: "...allt sem þið finnið, endilega setjið það inn á síðuna. Sýnið að við erum öll Pirates Yarr!!" 

Eftir sitja listamenn með milljóna króna tap af því að hafa verið svo barnalegir að halda, að þeir gætu framleitt kvikmyndir og hljómdiska til þess að þjóna menningu og eftirspurn landsmanna og haft til þess fjárhagslegt bolmagn að sinna köllun sinni, en síðan setið uppi með óselda vöru, af því að í gangi er herferð til "kæru notenda", sem eru beðnir um þetta: "...að deila inn öllu íslensku efni sem þið getið."  


mbl.is Hvattir til að deila íslensku efni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekki brugðist við hækkun og stækkun.

Í frétt um hækkkun meðalhæðar fólks víða um lönd er ekki fjallað um þyngingu og stækkun fólks á þverveginn, enda skortir gögn í sentimetrum þótt vitað sé um þyngdaraukninguna. 

Þegar meðaljóninn og meðalgunnan stækka er það sjaldnast tekið með í reikninginn við hönnun hluta. 

Þannig voru þarþegaþotur okkar tíma og flugvélar flestar hannaðar fyrir 65 árum og það veldur æ fleiri farþegum óþægindum. Flugvélaframleiðendur eru tregir til að breikka flugvélaskrokkanna, því að bæði kostar það mikið fé og eykur þyngd, fyrirferð og loftmótstöðu vélanna sem aftur kostar aukna eldsneytiseyðslu. 

Þegar litlar flugvélar voru hannaðar var reiknað með að meðalþyngd farþega væri 75 kíló. Þetta er löngu orðið úrelt, en fyrir bragðið eru fjögurra sæta flugvélar flestar í raun aðeins þriggja sæta og stundum varla það. 

Mörkin á knattspyrnuvöllunum voru hönnuð með stærð og getu leikmana á 19. öld í huga. 

Með stækkun leikmanna og auknum krafti og snerpu hefur skoruðum mörkumm fækkað og það hefur gert úrslitin dauflegri og oft tilviljunarkenndari. 

Fyrir löngu er tímabært að stækka mörkin til samræmis við stækkun og eflingu leikmanna. 

En það myndi aftur á móti skemma fyrir samanburði á markaskorun fyrr og nú.

Það er helst að bifreiðaframleiðendur hafi brugðist við stækkun mannfólksins og meðalbíllinn nú er um 20 sentimetrum breiðari, 10 sentimetrum hærri og 30-50 sentimetrum lengri en fyrir nokkrum áratugum.

Það veldur því aftur á móti að bílastæðin eru höfð of mjó víðast hvar og það svo mjög sums staðar, að brýnt er að endurskoða það.  


mbl.is Íslenskir karlar þeir 9. hæstu í heimi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband