Ótalin eru áhrif á þingmenn til þess að eyðileggja lyfjaeftirlitið.

Glæpaferill milljarðamæringanna sem hafa drifið óopíóðafaraldurinn áfram í Bandaríkjunum er enn fjölþættari en lýst er í tengdri frétt á mbl.is. 

Þeim tókst að nýta sér fjárhagslegt tak sitt á þingmönnum til að fá tvo þeirra, sem voru þingmenn ríkis sem átti mikla fjárhagslega og atvinnulega hagsmuni af því að framleiðsla eitursins yrði ekki skert, til að leggja fram frumvarp á Bandaríkjaþingi og fá það samþykkt, sem fól í sér að eyðileggja lyfaeftirlit Bandaríkjanna. 

Þessu var skilmerkilega lýst í sjónvarpsþættinum 60 mínútur í fyrra. 


mbl.is  „Klappstýrur“ hættulegu verkjalyfjanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tákn um nýja tíma.

.Á 100 ára afmælisfundi Norræna félagsins í Norræna húsinu í dag kom fram að um fjórðungur íslenskra lækna, alls 400, starfi í Svíþjóð, eða um fjórðungur. 

Þetta er eitt af tímanna táknum um fyrirbæri, sem kalla má alþjóðavæðingu og hefur bæði kosti og galla. 

Jafnmargir erlendir ríkisborgararar eru nú búsettir hér á landi og nemur þriðjungi allra Reykvíkinga. 

Og 47 þúsund Íslendingar eru búsettir erlendis. 

Margir fyllast skelfingu við að heyra svona tölur og tala um nauðsyn þess að skella landamærum í lás. 

En tölurnar sýna, að það yrði dálítið seint í rassinn gripið. 


mbl.is 47 þúsund Íslendingar búa erlendis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fer eftir því hvað miðað er við.

Uppgangur ferðaþjónustunnar frá 2011 hefur ekki einasta verið slíkur, að við komumst út úr Hruninu, heldur er hann fráleitur grundvöllur fyrir alls konar upphrópunum, sem nú heyrast með notkun á orðunum "samdráttur", svo sem: "Mikill samdráttur hefur orðið í aukningu." 

Á aðeins sex árum hefur farþegafjöldi WOW aukist úr engu upp í 3,5 milljónir og það er fráleitt að miða við fyrirbæri sem hefur blásið upp í himinhæðir eins og eldflaug. 

Vonandi tekst að vinna úr vandræðum WOW og það er til dæmis ekki sanngjarnt þegar birtur er erlendur listi yfir "verstu flugfélög heims" og lággjaldaflugfélögin höfð þar eins og sakborningar. 

Þegar rýnt er í röksemdir fyrir svona dómum kemur í ljós að lágt miðaverð er ekki nefnt á nafn sem ávinningur fyrir flugfarþega. 

En í augum farþega þessara flugfélaga er það einmitt lága fargjaldið sem vegur þyngst á vogaskálunum þegar metið er hvort yfirleitt sé hægt að komast leiðar sinnar. 

Þeir vita að á móti kemur fábreyttari föst þjónusta en sætta sig við það. 

Og þegar sagt er að landsframleiðsla geti dregist saman um 0,9 - 2,7% ef WOW hverfur af markaðnum er verið að miða við langmestu landsframleiðslu allra tíma, tugum prósenta meiri en var fyrir árartug. 


mbl.is Gæti dregist saman um 2,7%
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hreppsstjórinn fann týnda úrið sitt uppi í fjalli 35 árum eftir hvarf þess.

Jónatan Líndal, bóndi og hreppsstjóri á Holtastöðum í Langadal var í smalamennsku uppi í Holtataðafjalli þegar hann týndi forláta úri sínu, án þess að hafa hugmynd um hvar. 

Úrið var stórt, í keðju, og þurfti að opna hulstur utan um það til að sjá á klukkkuna. 

Svo liðu árin en 35 árum síðarm um miðja öldina var hann á ferli um fjallið og rambaði þá fram á úrið fyrir einstækra tilviljun, því að ytra byrði hulstursins var orðið ryðgðað og því erfitt að sjá það. 

Hann opnaði hulstrið, sá að úrið ver stráheilt, dró það upp, og gekk það eftir þetta "eins og klukka." 

Þessi frétt rataði í blöðin og þótti merkileg á sinni tíð. 

Ég vona að ég fari rétt með árin, sem úrið var týnt, en það voru einhverjir áratugir. 


mbl.is Komu í leitirnar nær þrjátíu árum seinna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvers vegna að innleiða pakkann ef hann "hefur ekki þýðingu hér nú"?

Fyrirvarinn, sem ríkisstjórnin ætlar að setja fyrir að samþykkja þriðja orkupakka ESB hér á landi, byggist á því, að vegna þess að pakkinn hafi ekki þýðingu hér á landi nema sæstrengur verði lagður til landsins, sé nóg að slá því föstu að það þurfi nýtt samþykki fyrir honum ef strengur kemur. 

Í þessu er augljós mótsögn. Ef pakkinn hefur enga þýðingu fram að þeim punkti, hvers vegna að vera að innleiða hann? 

Af hverju frekar að innleiða hann en til dæmis járnbrautarpakkann á meginlandinu? 

Málið væri auðveldara við að eiga nú, ef hálfsofandi þingmenn hefðu ekki samþykkt það fyrir tveimur árum að orkupakkarnir skyldu heyra undir EES-samninginn. 

Það hefðu þeir ekki átt að gera, því að með því að snúa við blaðinu nú, finnst Norðmönnum við koma í bakið á þeim ef við vísum pakkanum frá núna. 

Hálfur skaðinn varð þegar pakkinn var settur undir EES, en málið verður enn verra ef við hunskumst ekki til að segja strax: Hingað og ekki lengra.  


mbl.is Leggja til orkupakka með fyrirvara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Flækjustigið komið einu skrefi of langt?

Það er tímanna tákn að í eftirsókn eftir fjárhagslegum ávinningi eins og í Boeing 737 Max-8 málinu, eða eftir aukinni sjálfvirkni út af fyrir sig, skuli þurfa að setja aukalega viðvörunarljós í Boeing 737 Max-8 til þess að vara við bilun í sjálfvirknikerfi, sem aðeins er í þeim vélum en ekki öðrum. 

Það má nefnilega gagnálykta og segja sem svo, að ef þetta MCAS-kerfi væri ekki í Max-þotunum, gæti það ekki bilað, og þar með má líka segja að ný tegund hættulegra bilana hefði bæst við á þessum annars góðu gripum. 

Sífelld þensla í aukinni notkun sjálfstýringa og tölvustýringa einkennir afar margt í farartækjum, svo sem í bílum. 

Það er að vísu þægilegt að geta opnað læsingar á öllum dyrum bíls með einu handtaki á lykli, en þegar gengið er skrefi lengra og lykillaust kerfi komið til skjalanna, bætist við ný hætta á vandræðum, að hið nýja "fullkomna" kerfi bjóði upp á alveg nýja tegund af bilunum. 

Skyldfólk síðuhafa stóð til dæmis uppi bíllaust í margar klukkustundir nýlega austur í sveitum vegna bilunar á þessu líka fína tölvustýrða ræsingar- og læsingarkerfi bíls þeirra og óskuðu þess innilega að gamla, góða lyklakerfið hefði verið í bílnum. 

Max-málið getur hugsanlega orðið stærra og mikilvægara en það er eem vandamál í flugi, ef það mun leiða til endurmats á öryggisráðstöfunum í notkun fullkomnustu samgöngutækja nútímans.  


mbl.is Viðvörunarljós í vélar Boeing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Málið verður verra. Þarf að batna.

Það er hart að það þurfti frumkvæði Kínverja, Breta og loks Evrópu til þess að knýja Boeing og bandarísk flugmálayfirvöld til þess að gera það sem blasti við strax eftir slysið í Eþíópíu, að líkindi til þess að flugvélar af nýrri gerð sem voru innan við 0;05 prósent af flugflota heimsins hröpuðu á svipaðan hátt með stuttu millibili. 

Líkindi til þess að ekkert samband væri þarna á milli voru nánast engin. 

Það er líka hart að aðeins þeir aðilar, sem mestu fjárhagslegu hagsmunina höfðu af því að tregðast við, gerðu það. 

Aðeins tvö ár eru síðan fyrsta árið í flugsögunni var með ekkert stórt banaslys. 

Það tókst aðeins vegna lærdóma, sem menn drógu af áföllum og brugðust við af einbeitni og djörfung. 

Nú verður það vonandi gert að nýju. 


mbl.is Spjót beinast að flugkerfi 737 MAX-8
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ein tegund landlægrar spillingar í sumum löndum: Fölsuð réttindi.

Lengi hefur það verið viðloðandi í sumum löndum Mið- og Suður-Ameríku að réttindi og prófskírteini eru fengin með mútum eða svikum. 

Eitt þekktasta dæmið var þegar upprennandi ungur valdamður í Mexíkó fórst í aðflugi að höfuðborginni, vegna þess að flugmennirnir höfðu afla sér falsaðrar réttinda til að fljúga þotunni, sem var leiguvél, og réðu ekki við hana í aðfluginu. 

Mátti þakka fyrir að margfelt fleiri færust ekki í þessu hörmulega slysi. 


mbl.is Byggði feril sinn á fölsuðum prófskírteinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það tók meira en hálfa öld að afhjúpa skaðsemi reyktóbaks.

Framleiðendur reyktóbaks voru útsmognir við að útbreiða notkun þess á síðustu öld. 

Þekktir leikarar og annað frægt fólk var keypt til að auglýsa það sem tákn hreysti og útiveru. 

Um miðja öldina fóru að myndast glufur í þessa ímynd, en tóbaksframleiðendur sýndu glæpsamlega ósvífni þegar þeir lögðu fram gögn, meira að segja í yfirheyrslu þingnefndar Bandaríkjaþings, sem áttu að sanna hollustu reykinganna. 

Notkunin á frægum persónum fór síðan smám saman að koma þessum glæpamönnum í koll þegar hver stórleikarinn á fætur öðrum fékk krabbamein fyrir allra augum, svo sem Humphrey Bogart og Nat King Cole. 

Þetta fólk varð að lifandi og síðar deyjandi dæmum um skaðvaldinn. 

En áfram var streist við að viðhalda reykingunum og frá því að efasemdirnar um tóbakið byrjuðu og þar til loksins náðist að setja á reykingabann leið meira en hálf öld.  

Rafrettuæðið þrífst á svipuðu og tóbaksreykingarnar fyrstu áratugina svo lengi sem ekki er hægt að sanna skaðsemi þeirra. 

Það er "in" og "töff" að reykja og fyrirbærið er svo nýtilkomið, að ef einhver slæm áhrif fylgja því, mun það taka marga áratugi að finna það út. 

Nikótínfíkn er einhver sú skæðasta sem þekkist, jafnvel erfiðari við að eiga en hjá verstu fíkniefnum. Það er því kaldhæðnislegt að það er talið af hinu góða að framleiðendur rafretta nýt fíknina til að selja sem mest af þeim á þeim forsendum, að þær séu skárri en reyktóbakið. 


mbl.is San Francisco íhugar rafrettubann
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gæti verið öryggisatriði í Kötluhlaupi til vesturs.

Það er orðinn margra ára draumur að brúa Þverá svo að hægt sé að búa til nýja hringleið á hinu vinsæla ferðamannasvæði vestur af Hvolsvelli

Þetta snýst ekki aðeins um hagræði fyrir alla á svæðinu og hagræði fyrir ferðaþjónustu, heldur má ekki afskrifa þann möguleika, að líkt og þegar Drumbabótarskógurinn þurrkaðist út í hlaupi, sem kom úr Kötlu og fór vestur í Landeyjar. 

Þótt slík tilfelli virðist vera miklu fátíðari en hlaup niður á Mýrdalssand eða Sólheimasand, verður að líta til þess að stórhlaup í vestur gæti valdið miklu meira tjóni og usla en nokkurt annað. 

Þá ríður á miklu að undankomuleiðir séu sem flestar. 


mbl.is Oddabrú yfir Þverá í sjónmáli
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband